Á aldrei að byrgja brunninn?
Gísli Sigurðsson
2013-03-19
Komið er á daginn að það var rétt umhverfismat að Kárahnjúkavirkjun myndi hafa neikvæð áhrif á lífríkið í Lagarfljóti. Persónulegt mat umhverfisráðherra, sem skrifaði upp á framkvæmdina, var hins vegar rangt þegar hún fullyrti að ekki yrðu mikil áhrif á lífríkið. Enda var sú skoðun ekki byggð á neinni þekkingu, rannsóknum eða rökum. Hún var pólitísk ákvörðun, byggð á áróðri, blekkingum og valdbeitingu.
Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar vitnar nú hróðugur í hið fyrra umhverfismat um að lífsskilyrði í Fljótinu myndu rýrna þannig að þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. En gleymir þá að yfirvöld völtuðu yfir það mat og höfðu að engu.
Það er ekki hægt að skýla sér á bak við þau varnaðarorð sem Landsvirkjun og ráðherra kusu að hunsa þegar ráðist var í hina óafturkræfu framkvæmd í þágu atvinnulífs sem virðist vera utan og ofan við lífið sjálft.
Sambærilegt umhverfisslys er nú á óskalista sumra í Þjórsá. Í Morgunblaðinu hinn 12. mars hvetur Páll Pálmar Daníelsson til þess að menn drífi nú í að virkja í neðri hluta árinnar til að byggja upp atvinnulífið frekar en seiði laxfiskastofna. Páll hefur það til marks að hann hafi „átt samskipti við nokkur hundruð stangveiðiáhugafólks“ og enginn hafi nokkru sinni „minnst einu einasta orði á laxveiðar í Þjórsá“. Umfjöllun Páls um Þjórsá byggist á því að hann hefur horft á ána í leysingum af brúnni á þjóðvegi 1. Ráðgjöf í þessum drífandi anda hefur sennilega verið leiðarljósið þegar umhverfisráðherra leyfði Kárahnjúkavirkjun. Enginn hafði hitt stangveiðimann sem sagði veiðisögur úr Lagarfljóti og því væri best að leggja það í eyði.
Páli og öðrum lesendum Morgunblaðsins er rétt að benda á að í Þjórsá er stærsti sjálfbæri laxastofn við Norður-Atlantshaf og netaveiði í ánni hefur farið upp í tíu þúsund laxa á ári. Hér eru því umtalsverð hlunnindi landeigenda í húfi í bland við almenn sjónarmið náttúruverndar.
Íslensk stjórnvöld eru skuldbundin af alþjóðasáttmálum um að leyfa engar framkvæmdir sem ógni villtum dýrastofnum svo liggi við útrýmingu.
Forstjóri Landsvirkjunar skrifaði að vísu í Morgunblaðið hinn 13. febrúar sl. og deildi þeirri skoðun með Páli að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af fiskstofnum í Þjórsá sem myndu í mesta lagi skerðast óverulega. Áhyggjuleysi þeirra Páls og Harðar Arnarsonar gengur hins vegar þvert á mat óháðra erlendra sérfræðinga í áhrifum virkjana á fiskstofna. Þeir hafa sagt að virkjanir í neðri hluta Þjórsár muni útrýma 81-90% laxastofnsins í ánni. Þessar fyrirhuguðu virkjanir eru nú til allrar hamingju komnar í tímabundinn biðflokk rammaáætlunar, á meðan aflað er frekari gagna. Vonandi verður leitað eftir þeim gögnum annars staðar en hjá Landsvirkjun og Páli Pálmari Daníelssyni.
Höfundur er íslenskufræðingur
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.