Umsagnir
Búrfellslundur
09/12/2024
Náttúrugrið kærðu virkjunarleyfi OS vegna Búrfellslundar til ÚUA og telja að virkjunarkosturinn hefði aldrei átt að rata í virkjanaflokk sökum gildis svæðisins fyrir útivist innlendra og erlendra ferðamanna sem heimsækja hálendið til að upplifa öræfakyrrð einna verðmætustu óbyggða Evrópu og þótt víðar væri leitað. Vindorkuverið yrði á sjálfu miðhálendi Íslands og mun samkvæmt rannsóknum skerða gildi ferðalaga almennings um hálendið og hafa áhrif á upplifun ferðamanna langt út fyrir sjálft virkjanasvæðið, eða yfir alla Sprengisandsleið, Fjallabak og önnur dýrmæt hálendissvæði þessum leiðum tengdum.
Náttúrugrið kærðu í september 2023 framkvæmdaleyfi vegna bílastæðis og varnargarða við Námskvísl í Landmannalaugum en með framkvæmdinni hefði ásýnd svæðisins breyst varanlega. Leyfið var fellt úr gildi af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í janúar 2024 þar sem það var í ósamræmi við löggjöf á sviði náttúruverndar og umhverfismála. Með því voru áform um mikla uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu slegin af og hefur Umhverfisstofnun lýst því yfir að taka þurfi fyrri hugmyndir um framkvæmdir og umsjón svæðisins til endurskoðunar.
Efnistaka í Hörgá, haust 2023
12/21/2023
Náttúrugrið kærðu í október 2023 nýveitt framkvæmdaleyfi til efnistöku á svæði E-9 í Hörgá. Nokkur leyfi fyrir efnistöku í ánni höfðu fyrr um haustið þegar verið felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en Hörgársveit veitti aftur leyfi til sömu framkvæmdaaðila örfáum vikum síðar. Neikvæð umsögn Umhverfisstofnunar og þáv. Veiðimálastofnunar voru virt að vettugi, en þar var mælt eindregið gegn áætlaðri umfangsmikilli efnistöku vegna álags og óvissu um afdrif lífríkis. Af þeim sökum, annmörkum á málsmeðferð, sem og ósamræmi við lög um stjórn vatnamála var leyfið fellt úr gildi.