Banner image

Búrfellslundur

Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið kærðu þann 12. september 2024 virkjunarleyfi Orkustofnunar vegna Búrfellslundar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Samtökin telja að virkjunarkosturinn hefði aldrei átt að rata í virkjanaflokk sökum gildis svæðisins fyrir útivist innlendra og erlendra ferðamanna sem heimsækja hálendið til að upplifa öræfakyrrð einna verðmætustu óbyggða Evrópu og þótt víðar væri leitað. Vindorkuverið yrði á sjálfu miðhálendi Íslands og mun samkvæmt rannsóknum skerða gildi ferðalaga almennings um hálendið og hafa áhrif á upplifun ferðamanna langt út fyrir sjálft virkjanasvæðið, eða yfir alla Sprengisandsleið, Fjallabak og önnur dýrmæt hálendissvæði þessum leiðum tengdum.

Búrfellslundur var flokkaður í biðflokk verkefnastjórnar rammaáætlunar árið 2016 sem og við framlagningu umhverfisráðherra á rammaáætlun 2022. Rök fyrir því voru m.a. að hann væri sá virkjanakostur sem myndi hafa næstmest neikvæð áhrif allra virkjanakosta á ferðamennsku og útivist. Í umsögn verkefnastjórnar rammaáætlunar árið 2016 sagði:

„Vindmyllurnar sjást langt að og það sem ferðamenn sjá og upplifa á einum stað hefur áhrif á upplifun þeirra af ferðalaginu í heild sinni. Áhrif framkvæmda á einum stað ná því yfir mun stærra svæði en sjálft framkvæmdasvæðið. Allir ferðamenn sem eru á leið um Sprengisandsleið eða Fjallabak munu sjá vindmyllurnar í Búrfellslundi og því hafa þær áhrif á mörg ferðasvæði sem tengjast Sprengisandsleið, svo og á mörg mjög verðmæt ferðasvæði á sunnanverðu hálendinu, svo sem Landmannalaugar, Heklu, Veiðivötn og Eldgjá. Með hliðsjón af [því] telur verkefnisstjórn 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar óhjákvæmilegt, með tilliti til almannahagsmuna, að bíða með ákvörðun um ráðstöfun svæðisins.“

Árið 2022 urðu pólitísk hrossakaup og þrýstingur Landsvirkjunar hins vegar til þess að við lokaafgreiðslu rammaáætlunar á Alþingi var Búrfellslundur færður úr biðflokki yfir í virkjunarflokk. Ríkisstjórnarmeirihlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis gekk þar þvert á vísindaleg rök verkefnisstjórnar rammaáætlunar með vægast sagt vafasömum rökstuðningi.

Fjölmargir efnis- og formannmarkar eru á ákvörðun Orkustofnunar um að veita virkjunarleyfið. Ekki var litið til meginreglna náttúruverndarlaga, laga um stjórn vatnamála, sérstakrar verndar eldhrauna og landsskipulagsstefnu, svo nokkuð sé nefnt. Margvísleg lagaákvæði tengd umhverfismati framkvæmdarinnar voru brotin, enginn valkostur við staðsetningu virkjunarinnar hefur verið metinn þrátt fyrir ítrekuð tilmæli Skipulagsstofnunar, ekki var lagt mat á stöðu óbyggðra víðerna eða áhrifa framkvæmdarinnar á þau. Þá var ekki litið til ósjálfbærni og niðurrifs spaða vindorkuversins.