Banner image

Að auka með því að banna

„… nú hefur Alþingi til umfjöllunar lagafrumvarp sem eykur möguleika á lagningu raflína Landsnets í jörð í framtíðinni. … Eftir einhverja áratugi þurfum við ekki að ræða um sjónmengun vegna loftlína.“

Ofangreindu er haldið fram í grein Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns atvinnuveganefndar Alþingis, sem hann ritaði í Morgunblaðið 26. maí 2015. Hann bætti við:

„En það er mikilvægt að umræðan sé á rökum reist og að ekki sé farið fram með fullyrðingar sem enga skoðun standast.“

Því er nærtækt að spyrja: Stenst sú fullyrðing þingmannsins skoðun, að tillögur þær frá iðnaðarráðherra/ Landsneti, sem liggja fyrir þinginu, auki möguleika á lagningu raflína Landsnets í jörð? Hvaða ákvæði í núgildandi lögum ætli það séu, sem verið er að nema úr gildi og standa því nú í vegi, að Landsnet leggi raflínur í flutningskerfi sínu í jörð? Svarið er: Engin slík ákvæði eru í gildandi lögum.

Það þarf engin ný lagaákvæði til þess að Landsnet geti lagt raflínur í jörð, það þarf einungis að framfylgja gildandi umhverfislöggjöf, raforkulögum og stjórnsýslulögum í stað þess að brjóta þessi lög í sífellu.

Í þeim þingtillögum, sem þingmaðurinn var að skrifa um, segir berum orðum: „Í meginflutningskerfi raforku skal meginreglan vera sú að notast sé við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra …“

Þarna stendur þetta svart á hvítu: Loftlínur eiga að vera meginuppistaðan í raforkukerfi Landsnets, jarðstrengir aðeins notaðir í þröngt afmörkuðum undantekningartilvikum. Jarðstrengir eiginlega bannaðir í flestum tilvikum. Engin slík ákvæði er að finna í núgildandi lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Málefnalegt mat á að ráða samkvæmt gildandi löggjöf.

Hvernig stenzt það að með því að marka þá meginstefnu, að flutningskerfið sé byggt upp með loftlínum, verði auknir möguleikar Landsnets til þess að leggja raflínur í jörð? Möguleikar, sem nú eru ekki háðir neinum lagalegum takmörkunum.

Málatilbúnaður iðnaðarráðherra og meirihluta atvinnuveganefndar í máli þessu er með þeim eindæmum, að það sætir furðu að forseti Alþingis skuli ekki grípa í taumana og vísa málatilbúnaðinum frá. Þingmál eiga að byggjast á réttum forsendum, það á að gera grein fyrir áhrifum þess að hafast ekki að, og það á að segja satt um ástæður lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna, alveg sérstaklega þeirra, sem frá ríkisstjórn koma. Í þessu máli er auðvelt fyrir forseta Alþingis að ganga úr skugga um framangreind atriði.

Ég hefi sagt það einu sinni áður og endurtek það nú: Kannski er bara kominn tími til, að stofnaður verði umhverfisverndar- og auðlindaverndarflokkur á Íslandi.

Höfundur er lögfræðingur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.