Banner image

Állinn og náttúruvernd – harmleikur í sex þáttum

Þessi grein fjallar ekki um lofts­lags­breyt­ingar eða mat­ar­só­un. Nógu margir eru um þá hitu. Hún fjallar um klass­íska nátt­úru­vernd og hvað við Íslend­ingar erum aft­ar­lega á mer­inni þegar kemur að henni og almennri umhyggju fyrir nátt­úr­unni, móður okkar allra. Þó nenni ég ekki hér að tala um hin metn­að­arfullu nátt­úru­vernd­ar­lög sem samin voru fyrir nærri ára­tug, hafa gilt í meira en fimm ár en aðeins að litlu leyti verið inn­leidd. Kannski síð­ar.

Mann­kynið horf­ist nú í augu við fjölda­út­dauða líf­veru­teg­unda, hinn sjötta á síð­ustu 400 millj­ónum ára, ef til vill hlið­stæðan hinum síð­asta í lok Paleó­sen fyrir um 65 millj­ónum ára. Risa­loft­steinn sprakk yfir Yukatanskaga og nán­ast þurrk­aði út hinar karis­mat­ísku risa­eðlur sem þá reik­uðu um fen og gresjur meðal risa­burkna og elft­inga. Guð forði okkur frá því­líkum hörm­ungum en staða flestra líf­veru­teg­unda, fyrir utan mann­inn og fylgi­teg­undir hans, er ugg­væn­leg.

Áll­inn

Inn­blástur þess­arar greinar er þó ekki síst Ála­bókin eftir Pat­rik Svens­son, sem kom út í íslenskri þýð­ingu fyrir jól­in. Bókin spinnur sögu feðga sem hafa yndi af því að veiða og grúska í atferli áls­ins, en er ekki síður afar fróð­leg og skemmti­leg sam­an­tekt um þessa leynd­ar­dóms­fullu skepnu. Eng­inn veit hvar áll­inn heldur sig eða hvað hann er að bralla eftir að hann leggur aftur á djúp Þang­hafs­ins eftir ára­langa dvöl í ferskvatni, sýkjum og grunnum vötn­um, og hverfur sjónum manna fyrir fullt og allt. Mik­ill fjöldi leið­angra og sjálf­stæðra vís­inda­manna hafa reynt að leysa „ála­gát­una“ á umliðnum ára­tugum og öld­um, án árang­ur­s.

Ála­bókin er líka enn ein áminn­ingin um heimsku og græðgi manna sem enn strit­ast við að ofveiða þessa stór­merki­legu skepnu, sem lifað hefur á jörð okkar í tug­millj­ónir ára og ekki látið bug­ast af ísöldum og ámóta ham­för­um.

Nú árið 2020 er álastofn­inn hrun­inn og aðeins um 5% stofns­ins á lífi að bestra manna yfir­sýn. Fækkað hefur um 95% á síð­ustu 40 árum!

Ástæð­ur: ofveiði, ágengar fram­andi teg­undir og sjúk­dómar og skipa­um­ferð og lofts­lags­breyt­ing­ar, svo eitt­hvað sé nefnt. Allt tengt mann­in­um. Því miður er áll­inn langt frá því að vera eins­dæmi hvað þetta varð­ar; teg­undum villtra líf­vera fækkar hvar­vetna með ógn­væn­legum hraða meðan mann­kyni fjölgar sem aldrei fyrr.

En hvað kemur þetta svarta­galls­raus um ála og teg­undir í útrým­ing­ar­hættu okkur við hér uppi á „Ís­land­inu góða“? Er ekki bara allt í nokkuð fínu standi með sprækan umhverf­is­ráð­herra hok­inn af reynslu í nátt­úru­vernd? Því mið­ur, kæri les­andi, verð ég að hryggja þig. Þrátt fyrir frið­lýs­ingar und­an­farið og fleira gott, er nátt­úru­vernd á Íslandi enn í skötu­líki, oln­boga­barn mann­mið­aðs og nátt­úru­fj­and­sam­legs kerf­is; þarna erum við miklir eft­ir­bátar flestra þjóða. Und­ar­legt nokk virð­ast fáir hafa gefið þessu gaum í svæf­andi faðmi kyrr­stöðu­stjórn­ar­inn­ar.

Döpur örlög nátt­úru­vernd­ar

Byrjum á stofna­naum­gjörð nátt­úru­verndar á Íslandi. Hún er í mol­um. Sex eða fleiri stofn­anir fara með þennan mik­il­væga mála­flokk og eru allar veik­burða, með tak­mark­aða yfir­sýn. Mikið skemmd­ar­verk var unn­ið í ráð­herra­tíð Sivjar Frið­leifs­dótt­ur, þáver­andi umhverf­is­ráð­herra, þegar ákveðið var að leggja nýstofn­aða Nátt­úru­vernd rík­is­ins niður og leggja undir Holl­ustu­vernd (nú Umhverf­is­stofn­un) árið 2001, vegna and­stöðu stofn­un­ar­innar við Kára­hnjúka­virkj­un.

Núver­andi ráð­herra umhverf­is­mála reyndi að koma sam­bæri­legri stofn­un, Þjóð­garða­stofn­un, á kopp­inn og var búinn að koma frum­varpi í gegn um rík­is­stjórn í haust þegar þing­flokkar B og D stöðv­uðu mál­ið. Þögn ríkir um þetta.

Þing­menn þeir sem um vél­uðu kæra sig lítt um efl­ingu nátt­úru­vernd­ar, þótt fag­ur­gal­inn leki af þeim á tylli­dög­um.

Enn eru Íslend­ingar því meðal fárra þjóða sem ekki eiga alvöru stofnun sem sinnir þessum mik­il­væga mála­flokki og hefur burði til að efla hann og mynda mót­vægi við „at­hafna­skáld­in“. Umhverf­is­stofnun blæs út en er fyrst og fremst tæknikrat­ísk stofnun sem sinnir brúnu mál­unum svoköll­uðu, svo sem meng­un, holl­ustu­hátt­um, loft­gæðum og tækni­hlið lofts­lags­mála, allt gott um það að segja. Það sem við þurfum aftur á móti er stofnun sem hefur þekk­ingu á fræði­legri hlið nátt­úru­vernd­ar, skilur t.d. mun­inn á nátt­úru­véum og óbyggðum víð­ern­um, áttar sig á mik­il­vægi end­ur­heimtar víð­erna, býr yfir öfl­ugri sér­fræði­þekk­ingu í fjar­könnun og korta­gerð (GIS), og getur unnið og inn­leitt vernd­ar­á­ætl­anir sem hafa vist­fræði­lega og land­fræði­lega skírskot­un. Vatna­jök­uls­þjóð­garður hefur ekki burði til þessa og það mun hálend­is­þjóð­garður ekki heldur hafa, ef af verð­ur, án fag­stofn­unar á sviði nátt­úru­vernd­ar.

Ópus um hálend­is­þjóð­garð

Hálend­is­þjóð­garð­ur­inn sem bundnar voru miklar vonir við er í klóm öfl­ugra hags­muna­að­ila, verk­fræði­stofa og sveit­ar­stjórn­ar­manna sem lítið skyn­bragð bera á raun­veru­legt mik­il­vægi nátt­úru­verndar og það að eiga stór, ósnortin svæði frá­tekin fyrir okkur sjálf og óbornar kyn­slóð­ir. Þrá­hyggju­kennt þjark um akstur í gegn um Von­ar­skarð ber ekki vitni mik­illi nátt­úru­vit­und eða metn­aði fyrir Vatna­jök­uls­þjóð­garð. Aðstand­endur garðs­ins, sem árið 2019 fékk æðstu gæða­vottun UNESCO sem arfur alls mann­kyns, eiga fullt í fangi með að verja þetta nátt­úru­djásn fyrir ágengni öku­kappa! Kom­ist umræddur Mið­há­lend­is­þjóð­garður á kopp­inn, sem alls er óvíst á þess­ari stundu, er hætt við að hann verði fórn­ar­lamb enn frek­ari hrossa­kaupa stjórn­ar­flokk­anna á síð­ustu metr­unum fyrir kosn­ing­ar, tóm skel.

Blessuð sauð­kindin

Eng­inn stjórn­ar­liði, ekki heldur vinstri grænn, hefur haft döngun til að taka af nokk­urri alvöru á þeirri miklu mein­semd sem beit á örfoka landi er og hefur verið um ald­ir.

Enn er sauð­kindin alls­ráð­andi á öræf­un­um. Ég tek fram að mér er síður en svo illa við sauð­fé. En er ekki löngu tíma­bært að taka til í þessu kerfi sem hvorki gagn­ast mönn­um, skepnum né land­inu leng­ur? Bara til að ítreka, er ég að tala um beit á illa grónu eða örfoka landi, ekki á grænum heiðum eða sum­ar­hög­um. Væri ekki skyn­sam­legt að beina beit inni á vel gróið land, með hólfa­beit sem tryggir sjálf­bærni, frekar en að kroppa ofur­við­kvæman gróður mið­há­lend­is­ins? Nægt er land­rýmið og offram­boðið á lamba­kjöt­inu. Sjálf­sagt er að gefa góðan aðlög­un­ar­tíma fyrir þessa óhjá­kvæmi­legu kerf­is­breyt­ingu, t.d. þannig að árið 2030 verði öll beit á virku gos­belt­unum með öllu bönn­uð.

„Gren­i“hríslan og læk­ur­inn (veit, svo­lítið ljótt að snúa út úr fal­legu kvæði)

Skoðum aðeins dekrið og með­virkn­ina með rík­is­styrktri skóg­rækt. Margir tala um hvað hún sé æðis­leg og göf­ug. En er það svo? Það fer alveg eftir því hvar og hvernig skóg­rækt er stund­uð. Á Íslandi sem enn hefur ekki jafnað sig nema að litlu leyti eftir rányrkju síð­ustu alda – úr hófi keyrði á sjötta ára­tug síð­ustu aldar þegar fjöldi fjár náði sögu­legum hæð­um, sam­fara óvenju hörðu árferði.

Við þurfum þess vegna að leggja alla krafta okkar í vist­heimt, end­ur­heimt fyrri land­kosta, með friðun lands og birki- og víð­isán­ing­um.

Ræktun timb­ur­skóga er allt önnur Ella og ber að stunda af virð­ingu fyrir lands­lagi og upp­runa­gróðri, sem hvern annan land­bún­að.

Því miður heykt­ist núver­andi umhverf­is­ráð­herra á að skilja þarna á milli og færa vist­heimt á for­ræði Land­græðsl­unn­ar, þar sem fag­þekk­ing og metn­aður er til stað­ar. Vilji Skóg­ræktin ekki breyta áherslum sínum þannig að skorið verði með afger­andi hætti milli vist­heimt­ar, sem er í grunn­inn nátt­úru­vernd, og skóg­rækt­ar, sem er í eðli sínu land­bún­aður eða við­ar­iðn­að­ur, þarf að taka þennan kaleik frá þeim. Illu heilli var það skref ekki tekið þegar skóg­rækt­ar­lögum var breytt nú nýver­ið, þrátt fyrir mikla hvatn­ingu og sterk rök mætra fag­að­ila. Engin ástæða er til, og bein­línis skað­legt íslenskri nátt­úru, að auð­ugir land­eig­endur séu á mála hjá rík­inu við að planta barr­skógi út um allar þorpa­grundir í boði rík­is­ins, eins og mörg dæmi sanna. Gott og vel, vilji þessir land­eig­endur (ég er einkum að tala um frí­stunda­bænd­ur) gróð­ur­setja barr­skóga, geri þeir það á eigin kostnað og þá sem næst byggð.

Kvóta­kóngar

Enn á ég eftir að fjalla um tabú kvóta­kerf­is­ins sem hefur tekið lifi­brauð frá fjölda Íslend­inga, stór­spillt líf­ríki hafs­ins og valdið hættu­legu mis­rétti og spill­ingu í sam­fé­lag­inu. Enn og aftur snúa stjórn­völd blinda aug­anu og nátt­úru­vernd verður að gjalti fyrir pen­inga­vald­inu sem er orðið svo sterkt og frekt til fjörs­ins að afar fáir stjórn­mála­menn þora að tala um það, hvað þá að reyna að vinda ofan af því. Flokkur sem kennir sig við vinstri­mennsku og grænar áherslur lætur kyrrt liggja - málið er ekki á okkar for­ræði!

Nið­ur­lag

Grein­ar­höf­undur hugð­ist að lokum einnig fjalla hér um Ramma­á­ætlun en þar sem Snæ­björn Guð­munds­son hefur nýlega gert því efni góð skil í Kjarn­an­um, læt ég það bíða betri tíma.

Hér hefur aðeins verið drepið á nokkrum atriðum sem sýna að við Íslend­ingar erum alls ekki allir nátt­úru­vernd­ar­ar, þótt við séum kannski öll almanna­varn­ir.

Mann­hverf hugs­un, vél­hyggja og almennt sinnu­leysi er enn ríkj­andi.

Við þurfum að laga þetta og hverfa til vist­hverfari gilda áður en sjötta útrým­ing­ar­bylgjan ríður yfir okkur af fullum þunga og nátt­úran deyr, líkt og áll­inn.

Höf­undur er áhuga­maður um nátt­úru­vernd.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.