Állinn og náttúruvernd – harmleikur í sex þáttum
Snorri Baldursson
2021-03-22
Þessi grein fjallar ekki um loftslagsbreytingar eða matarsóun. Nógu margir eru um þá hitu. Hún fjallar um klassíska náttúruvernd og hvað við Íslendingar erum aftarlega á merinni þegar kemur að henni og almennri umhyggju fyrir náttúrunni, móður okkar allra. Þó nenni ég ekki hér að tala um hin metnaðarfullu náttúruverndarlög sem samin voru fyrir nærri áratug, hafa gilt í meira en fimm ár en aðeins að litlu leyti verið innleidd. Kannski síðar.
Mannkynið horfist nú í augu við fjöldaútdauða lífverutegunda, hinn sjötta á síðustu 400 milljónum ára, ef til vill hliðstæðan hinum síðasta í lok Paleósen fyrir um 65 milljónum ára. Risaloftsteinn sprakk yfir Yukatanskaga og nánast þurrkaði út hinar karismatísku risaeðlur sem þá reikuðu um fen og gresjur meðal risaburkna og elftinga. Guð forði okkur frá þvílíkum hörmungum en staða flestra lífverutegunda, fyrir utan manninn og fylgitegundir hans, er uggvænleg.
Állinn
Innblástur þessarar greinar er þó ekki síst Álabókin eftir Patrik Svensson, sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir jólin. Bókin spinnur sögu feðga sem hafa yndi af því að veiða og grúska í atferli álsins, en er ekki síður afar fróðleg og skemmtileg samantekt um þessa leyndardómsfullu skepnu. Enginn veit hvar állinn heldur sig eða hvað hann er að bralla eftir að hann leggur aftur á djúp Þanghafsins eftir áralanga dvöl í ferskvatni, sýkjum og grunnum vötnum, og hverfur sjónum manna fyrir fullt og allt. Mikill fjöldi leiðangra og sjálfstæðra vísindamanna hafa reynt að leysa „álagátuna“ á umliðnum áratugum og öldum, án árangurs.
Álabókin er líka enn ein áminningin um heimsku og græðgi manna sem enn stritast við að ofveiða þessa stórmerkilegu skepnu, sem lifað hefur á jörð okkar í tugmilljónir ára og ekki látið bugast af ísöldum og ámóta hamförum.
Nú árið 2020 er álastofninn hruninn og aðeins um 5% stofnsins á lífi að bestra manna yfirsýn. Fækkað hefur um 95% á síðustu 40 árum!
Ástæður: ofveiði, ágengar framandi tegundir og sjúkdómar og skipaumferð og loftslagsbreytingar, svo eitthvað sé nefnt. Allt tengt manninum. Því miður er állinn langt frá því að vera einsdæmi hvað þetta varðar; tegundum villtra lífvera fækkar hvarvetna með ógnvænlegum hraða meðan mannkyni fjölgar sem aldrei fyrr.
En hvað kemur þetta svartagallsraus um ála og tegundir í útrýmingarhættu okkur við hér uppi á „Íslandinu góða“? Er ekki bara allt í nokkuð fínu standi með sprækan umhverfisráðherra hokinn af reynslu í náttúruvernd? Því miður, kæri lesandi, verð ég að hryggja þig. Þrátt fyrir friðlýsingar undanfarið og fleira gott, er náttúruvernd á Íslandi enn í skötulíki, olnbogabarn mannmiðaðs og náttúrufjandsamlegs kerfis; þarna erum við miklir eftirbátar flestra þjóða. Undarlegt nokk virðast fáir hafa gefið þessu gaum í svæfandi faðmi kyrrstöðustjórnarinnar.
Döpur örlög náttúruverndar
Byrjum á stofnanaumgjörð náttúruverndar á Íslandi. Hún er í molum. Sex eða fleiri stofnanir fara með þennan mikilvæga málaflokk og eru allar veikburða, með takmarkaða yfirsýn. Mikið skemmdarverk var unnið í ráðherratíð Sivjar Friðleifsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, þegar ákveðið var að leggja nýstofnaða Náttúruvernd ríkisins niður og leggja undir Hollustuvernd (nú Umhverfisstofnun) árið 2001, vegna andstöðu stofnunarinnar við Kárahnjúkavirkjun.
Núverandi ráðherra umhverfismála reyndi að koma sambærilegri stofnun, Þjóðgarðastofnun, á koppinn og var búinn að koma frumvarpi í gegn um ríkisstjórn í haust þegar þingflokkar B og D stöðvuðu málið. Þögn ríkir um þetta.
Þingmenn þeir sem um véluðu kæra sig lítt um eflingu náttúruverndar, þótt fagurgalinn leki af þeim á tyllidögum.
Enn eru Íslendingar því meðal fárra þjóða sem ekki eiga alvöru stofnun sem sinnir þessum mikilvæga málaflokki og hefur burði til að efla hann og mynda mótvægi við „athafnaskáldin“. Umhverfisstofnun blæs út en er fyrst og fremst tæknikratísk stofnun sem sinnir brúnu málunum svokölluðu, svo sem mengun, hollustuháttum, loftgæðum og tæknihlið loftslagsmála, allt gott um það að segja. Það sem við þurfum aftur á móti er stofnun sem hefur þekkingu á fræðilegri hlið náttúruverndar, skilur t.d. muninn á náttúruvéum og óbyggðum víðernum, áttar sig á mikilvægi endurheimtar víðerna, býr yfir öflugri sérfræðiþekkingu í fjarkönnun og kortagerð (GIS), og getur unnið og innleitt verndaráætlanir sem hafa vistfræðilega og landfræðilega skírskotun. Vatnajökulsþjóðgarður hefur ekki burði til þessa og það mun hálendisþjóðgarður ekki heldur hafa, ef af verður, án fagstofnunar á sviði náttúruverndar.
Ópus um hálendisþjóðgarð
Hálendisþjóðgarðurinn sem bundnar voru miklar vonir við er í klóm öflugra hagsmunaaðila, verkfræðistofa og sveitarstjórnarmanna sem lítið skynbragð bera á raunverulegt mikilvægi náttúruverndar og það að eiga stór, ósnortin svæði frátekin fyrir okkur sjálf og óbornar kynslóðir. Þráhyggjukennt þjark um akstur í gegn um Vonarskarð ber ekki vitni mikilli náttúruvitund eða metnaði fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Aðstandendur garðsins, sem árið 2019 fékk æðstu gæðavottun UNESCO sem arfur alls mannkyns, eiga fullt í fangi með að verja þetta náttúrudjásn fyrir ágengni ökukappa! Komist umræddur Miðhálendisþjóðgarður á koppinn, sem alls er óvíst á þessari stundu, er hætt við að hann verði fórnarlamb enn frekari hrossakaupa stjórnarflokkanna á síðustu metrunum fyrir kosningar, tóm skel.
Blessuð sauðkindin
Enginn stjórnarliði, ekki heldur vinstri grænn, hefur haft döngun til að taka af nokkurri alvöru á þeirri miklu meinsemd sem beit á örfoka landi er og hefur verið um aldir.
Enn er sauðkindin allsráðandi á öræfunum. Ég tek fram að mér er síður en svo illa við sauðfé. En er ekki löngu tímabært að taka til í þessu kerfi sem hvorki gagnast mönnum, skepnum né landinu lengur? Bara til að ítreka, er ég að tala um beit á illa grónu eða örfoka landi, ekki á grænum heiðum eða sumarhögum. Væri ekki skynsamlegt að beina beit inni á vel gróið land, með hólfabeit sem tryggir sjálfbærni, frekar en að kroppa ofurviðkvæman gróður miðhálendisins? Nægt er landrýmið og offramboðið á lambakjötinu. Sjálfsagt er að gefa góðan aðlögunartíma fyrir þessa óhjákvæmilegu kerfisbreytingu, t.d. þannig að árið 2030 verði öll beit á virku gosbeltunum með öllu bönnuð.
„Greni“hríslan og lækurinn (veit, svolítið ljótt að snúa út úr fallegu kvæði)
Skoðum aðeins dekrið og meðvirknina með ríkisstyrktri skógrækt. Margir tala um hvað hún sé æðisleg og göfug. En er það svo? Það fer alveg eftir því hvar og hvernig skógrækt er stunduð. Á Íslandi sem enn hefur ekki jafnað sig nema að litlu leyti eftir rányrkju síðustu alda – úr hófi keyrði á sjötta áratug síðustu aldar þegar fjöldi fjár náði sögulegum hæðum, samfara óvenju hörðu árferði.
Við þurfum þess vegna að leggja alla krafta okkar í vistheimt, endurheimt fyrri landkosta, með friðun lands og birki- og víðisáningum.
Ræktun timburskóga er allt önnur Ella og ber að stunda af virðingu fyrir landslagi og upprunagróðri, sem hvern annan landbúnað.
Því miður heyktist núverandi umhverfisráðherra á að skilja þarna á milli og færa vistheimt á forræði Landgræðslunnar, þar sem fagþekking og metnaður er til staðar. Vilji Skógræktin ekki breyta áherslum sínum þannig að skorið verði með afgerandi hætti milli vistheimtar, sem er í grunninn náttúruvernd, og skógræktar, sem er í eðli sínu landbúnaður eða viðariðnaður, þarf að taka þennan kaleik frá þeim. Illu heilli var það skref ekki tekið þegar skógræktarlögum var breytt nú nýverið, þrátt fyrir mikla hvatningu og sterk rök mætra fagaðila. Engin ástæða er til, og beinlínis skaðlegt íslenskri náttúru, að auðugir landeigendur séu á mála hjá ríkinu við að planta barrskógi út um allar þorpagrundir í boði ríkisins, eins og mörg dæmi sanna. Gott og vel, vilji þessir landeigendur (ég er einkum að tala um frístundabændur) gróðursetja barrskóga, geri þeir það á eigin kostnað og þá sem næst byggð.
Kvótakóngar
Enn á ég eftir að fjalla um tabú kvótakerfisins sem hefur tekið lifibrauð frá fjölda Íslendinga, stórspillt lífríki hafsins og valdið hættulegu misrétti og spillingu í samfélaginu. Enn og aftur snúa stjórnvöld blinda auganu og náttúruvernd verður að gjalti fyrir peningavaldinu sem er orðið svo sterkt og frekt til fjörsins að afar fáir stjórnmálamenn þora að tala um það, hvað þá að reyna að vinda ofan af því. Flokkur sem kennir sig við vinstrimennsku og grænar áherslur lætur kyrrt liggja - málið er ekki á okkar forræði!
Niðurlag
Greinarhöfundur hugðist að lokum einnig fjalla hér um Rammaáætlun en þar sem Snæbjörn Guðmundsson hefur nýlega gert því efni góð skil í Kjarnanum, læt ég það bíða betri tíma.
Hér hefur aðeins verið drepið á nokkrum atriðum sem sýna að við Íslendingar erum alls ekki allir náttúruverndarar, þótt við séum kannski öll almannavarnir.
Mannhverf hugsun, vélhyggja og almennt sinnuleysi er enn ríkjandi.
Við þurfum að laga þetta og hverfa til visthverfari gilda áður en sjötta útrýmingarbylgjan ríður yfir okkur af fullum þunga og náttúran deyr, líkt og állinn.
Höfundur er áhugamaður um náttúruvernd.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.