Banner image

Alveg í ruglinu

Þau eru alveg í ruglinu: Landsvirkjun, Landsnet, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, líka ráðherra umhverfismála og mörg fleiri. Einstaka starfsmenn, jafnvel heilu stofnanirnar hafa klifað á því að framundan sé orkuskortur og að á næstu áratugum þurfi að tvöfalda orkuframleiðslu á Íslandi. Þetta er algert rugl.

Stígum eitt skref til baka og spáum aðeins í hversu mikið er notað af raforku á Íslandi. Byrjum árið 1985, ári áður en Gleðibankinn varð frumraun Íslendinga í Eurovision þar sem sungið var um gerist ef fólk tekur bara út án þess að leggja nokkuð inn. Þá var raforkunotkun, miðað við höfðatölu, 15.884 KWst (kílóvattstundir) á Íslandi en 24.874 KWst í Noregi sem var í fyrsta sæti yfir allan heiminn. Við vorum ríflega hálfdrættingar á við Norðmenn. Árið 2022 var staðan sú að árleg raforkunotkun hafði aukist í Noregi um liðlega 10% á mann, var þá komin í um 28.000 KWst. Á Íslandi hafði raforkunotkunin aukist um 230%, var komin í tæpar 54.000 KWst á hvern íbúa. Núna eru Norðmenn því rétt hálfdrættingar á við Íslendinga. Til samanburðar má nefna tölur fyrir nokkur önnur lönd: Finnland rúmlega 13.000 KWst og Þýskaland tæplega 7.000 kWst.

Yfirgengilegt orkubruðl

Ef það er orkuskortur á Íslandi getur það ekki verið vegna þess að ekki sé framleitt nóg af orku. Eina hugsanlega svarið er að á Íslandi eigi sér stað yfirgengilegt orkubruðl. Til að bregðast við skortinum er því eðlilegt að hætta að bruðla með orkuna, ekki að virkja meira.

Í stað þess að níðast áfram á þrautpíndri jörð til að reyna að uppfylla óseðjandi langanir okkar verðum við að reyna að stilla þessum löngunum í hóf og miða þær við takmarkaða jörð.

Á Íslandi er engin samfélagsleg þörf fyrir að framleiða meiri orku; það er enginn orkuskortur á Íslandi og engin neyð sem knýr okkur til að halda áfram að fórna dýrmætri náttúru. Alls ekki. Þau sem þannig tala eru alveg í ruglinu. Alveg í ruglinu. En samt heldur fólk áfram að klifa á möntrunni um orkuskort, hamra á því að nú þurfi að fórna dýrmætri náttúru til að framleiða meiri orku. Og hvað Hvammsvirkjun varðar þá er ekki einu sinni kominn kaupandi að orkunni. Það er enginn sem bíður. Orkan á bara að fara í þessa hít, þessa botnlausu orkuhít.

Vissulega krefjast orkuskiptin mikillar orku en þá orku framleiðum við nú þegar. Með því að endurnýja ekki raforkusamninginn við álverið í Straumsvík (rennur út 2036) má losa um 3.415 GWst (gígavattstundir) á ári. Og það án þess að valda aukinni þenslu eins og bygging nýrrar virkjana myndi gera. Til samanburðar á Hvammsvirkjun að framleiða 720 GWst á ári sem þýðir að það þyrfti næstum fimm Hvammsvirkjanir til að knýja álverið. Í Straumsvík mætti svo byggja upp græna iðngarða, reisa stóra fiskeldisstöð á landi, byggja gróðurhús og svo vitanlega framleiða rafeldsneyti fyrir flugvélar. Svo mætti líka láta orkusamningana við Járnblendið og fleiri álver renna sitt skeið án þess að endurnýja þá.

Hið hagfræðilega glapræði

En er ekki hagfræðilegt glapræði að loka álveri? Það held ég ekki. Álverin sem kaupa 66% af þeirri raforku sem framleidd er á Íslandi skapa störf fyrir um 2,4% fólks á íslenskum vinnumarkaði. Þótt álverið sé stór vinnustaður þá mætti nota aðstöðuna í Straumsvík, bæði rafmagnið sem þangað hefur verið lagt og höfnina sem þar er, til að skapa miklu fleiri störf og það án þess að vera með mengandi stóriðju í túnfæti Hafnfirðinga.

Hið hagfræðilega glapræði felst einmitt í því að stórauka orkuframleiðslu á Íslandi á næstu áratugum. Það mun valda svo mikilli þenslu í hagkerfinu að vextir munu áfram verða í hæstu hæðum, það mun þurfa að fresta stórum framkvæmdum hvort heldur í samgöngum eða öðrum innviðum, dýrara verður að byggja nýtt íbúðarhúsnæði svo ungt fólk mun ekki hafa efni á að kaupa sér íbúð, og svo verður skorið niður hjá hinu opinbera sem þýðir að grunnþjónusta skerðist. Þau sem höllum fæti standa munu líða fyrir orkubruðlið þótt einhverjir aðrir kunni að maka einn og einn krók.

Fyrir utan hið hagfræðilega glapræði væri hreint vistfræðilegt glapræði að auka orkuframleiðsluna með þessum hætti.

Nei, þau sem tala um að tvöfalda orkuframleiðslu á Íslandi á næstu áratugum eru alveg í ruglinu. Alveg.

En er ekki hnattrænt glapræði að loka álbræðslu sem notar græna orku? Þýðir það ekki bara að álframleiðslan flyst til staða þar sem verið er að brenna kolum og olíu til að bræða súrálið? Svarið er Nei. Í hnattræna samhenginu er staðan þessi: Jörðin þarf ekki á því að halda að framleitt sé meira ál á Íslandi, hún þarf á því að halda að framleitt sé minna af áli og að það ál sem framleitt er sé dýrara. Og jörðin þarf á því að halda að álið sem er framleitt sé endurunnið. Áliðnaðurinn klifar á því að ál sé hægt að endurvinna aftur og aftur, með litlum tilkostnaði. Það er rétt. Samt er staðreyndin sú að árið 2018 fóru um 2,7 milljón tonn af áli á ruslahaugana í Bandaríkjunum einum. Og þetta var ekkert sérsaklega slæmt ár. Svona er þetta á hverju ári. Til samanburðar er heildarframleiðsla íslensku áveranna um 850.000 tonn, um þriðjungur af því sem Bandaríkjamenn urða á hverju ári.

Billeg skiptimynt í ævintýri um orkubruðl

Þangað til í sumar virtist allt stefna í að Landsvirkjun myndi hefja gerð virkjunar í neðri hluta Þjórsár, Hvammsvirkjun. Það hefur reyndar staðið til nokkuð lengi en í sumar virtist allt stefna í að framkvæmdir hæfust innan skamms. Samt var ekki búið að selja raforkuna en fólkið í ruglinu klifaði bara áfram á möntrunni: „Við þurfum meiri raforku.“ En við höfum nóg af orku. Meira en nóg.

Við höfum hins vegar ekki nóg af ósnortinni náttúru, ekki nóg af villtum laxastofnum, ekki nóg af öðrum ferskvatnsfiskum, og ekki nóg af líffræðilegum fjölbreytileika. Allt þetta má ekki verða billeg skiptimynt í ævintýrinu um orkubruðlið.

Árið 2007 gaf ég út bók sem heitir Náttúra, vald og verðmæti. Fyrsti kaflinn heitir „Undir hælum athafnamanna“ og þar fjalla ég m.a. um þessa bruðlmenningu: „Þegar kemur að virkjun fallvatna virðast rök framkvæmdaaðila ekki þurfa að vera önnur en þau, að til sé kaupandi að orkunni sem sé reiðubúinn að borga lágmarks verð fyrir hana. Sé yfirleitt mögulegt að virkja, þá virðist jafnframt sjálfgefið að það sé æskilegt“ (bls. 26). Bókin ætti að vera orðin úreld, svo mikið hefur breyst í umhverfismálum á síðustu 15 árum. Og kannski er hún úreld, því í tilviki Hvammsvirkjunar er ekki einu sinni kominn kaupandi að orkunni. Það er bara treyst á að bruðlið skapi kaupendur í framtíðinni. Nýja slagorðið fyrir íslenskan efnahag er þá væntanlega: Bruðl til bjargar þjóð!

Bruðlið bjargar engu

Við vitum að bruðlið bjargar engu. Við erum komin út í hyldýpisforaðið og það eina sem getur bjargað okkur er nægjusemi. Orkuskiptin verða að eiga sér stað samhliða orkusparnaði. Orkuskiptin mega ekki vera afsökun fyrir því að breyta engu í háttum okkar. 

Það er ekki samfélagsleg þörf fyrir meiri orkuframleiðslu, en það er samfélagsleg þörf fyrir að nota betur orkuna sem við framleiðum. Og það er hnattræn þörf fyrir meiri nægjusemi. Þurrðardagur jarðar er dagurinn þegar ársframleiðsla jarðarinnar gengur til þurrðar. Eftir þann dag byrjum við að aféta börnin okkar. Eitt sinn var þessi dagur mælikvarði á neyslu en er nú mælikvarði á ofneyslu. Á seinasta ári bar þennan dag upp á 28. júlí fyrir jörðina í heild. Þurrðardagur fyrir Ísland var þá í lok febrúar eða byrjun mars. Frá sjónarhóli kolefnissporsins, eru íslensk lífsgæði ein þau sótsvörtustu í heiminum, þrátt fyrir okkar græna rafmagn og frábæru hitaveitu. Því endurtek ég: Í stað þess að níðast áfram á þrautpíndri jörð til að reyna að uppfylla óseðjandi langanir okkar verðum við að reyna að stilla þessum löngunum í hóf og miða þær við takmarkaða jörð.

Höfundur er heimspekingur.

Greinin birtist fyrst í Heimildinni.