Banner image

Andlýðræðislegar lygar

Það eru blygðunarlaus ósannindi, sem hver étur nú upp eftir öðrum, að fagleg sjónarmið hafi legið að baki þeirri „sátt“ í drögum að rammaáætlun að leggja til að virkjað verði í neðri hluta Þjórsár. Sáttin var með fyrirvara um að sýnt yrði fram á að stofnar laxfiska í ánni myndu ekki skaðast eins og grunur lék á. Lögmæt stjórnvöld hlustuðu á gagnrýni sem kom fram eftir að þau fengu drögin í hendur og settu því umræddar virkjanir í biðflokk svo hægt yrði að afla áreiðanlegri upplýsinga en þeirra sem Landsvirkjun lagði sjálf fram. Af gögnum Landsvirkjunar varð ljóst að ekkert hefði verið vitað um áhrif fyrirhugaðra virkjana á villta laxfiskastofna í Þjórsá – eftir að kvartsannleikur og talnablekkingar í útreikningum fyrirtækisins voru afhjúpaðar. Ókunnugum má benda á að í Þjórsá er stærsti villti sjálfbæri laxastofn við NorðurAtlantshaf.

Eftir að almenningur og aðrir hagsmunaaðilar fengu að segja álit sitt á drögum að rammaáætlun komu fram í dagsljósið upplýsingar frá færustu sérfræðingum Bandaríkjanna í áhrifum virkjana á villta fiskstofna.

Mat þessara sérfræðinga er að fyrirhugaðar virkjanir muni eyða 81-90% af laxastofninum í Þjórsá (og að líkindum alveg útrýma sjóbirtingsstofninum).

Íslensk stjórnvöld eru skuldbundin af alþjóðlegum sáttmálum um að heimila engin mannvirki sem geti valdið slíku hruni í villtum dýrastofnum. Það er því algjörlega ábyrgðarlaust þegar stjórnmálamenn og talsmenn hagsmunasamtaka í landinu láta eins og tillaga um að virkja í neðri hluta Þjórsár byggist á faglegum sjónarmiðum sem megi ekki spilla með pólitík.

Það lýsir einnig mjög sérstakri hugmynd um lýðræði að halda að kjörnir fulltrúar á Alþingi séu bundnir af málamiðlunum innan stjórnskipaðra nefnda. Málamiðlunum sem eru að auki gerðar með fyrirvörum. Það er hlutverk okkar kjörnu fulltrúa að gæta réttsýni og almannahagsmuna í ljósi bestu fáanlegu gagna. Óskandi væri að alþingismenn stæðu í stykkinu og létu ekki ginna sig til að samþykkja útrýmingu villtra laxfiskastofna í Þjórsá, blindaðir af þröngum skammtíma- og sérgæsluhagsmunum.

Höfundur er íslenskufræðingur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.