Barist um í lygavefnum
Pétur Húni Björnsson
2018-05-28
Þegar röksemdir þrýtur freistast sumir til að „fara í manninn en ekki boltann“. Sú er raunin með Kristin H. Gunnarsson, ritstjóra fríblaðsins Vestfjarða, í grein sem hann birti í blaði sínu og Morgunblaðinu í byrjun maí. Þar lemur hann á Skipulagsstofnun af miklum móð fyrir að vilja fara varlega gagnvart áformum um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði, og vegagerð um Teigsskóg.
Kristinn ræðst á Skipulagsstofnun fyrir að setja fram „alls konar athugasemdir og mótbárur“ við þessi áform. Þar sem Kristinn starfaði á árum áður við að setja lög á Alþingi, þá ætti hann að vita að engin stofnun ríkisins hefur það hlutverk að gera „alls konar athugasemdir“. Skipulagsstofnun hefur mjög skýrt markað hlutverk í lögum og reglugerðum.
Varfærni ber að fagna, ekki fordæma
Í grein sinni kvartar Kristinn undan því að Skipulagsstofnun hafi ekki greitt fyrir framgangi Hvalárvirkjunar.
Það er ekki hlutverk stofnunarinnar að flýta fyrir framkvæmdum á ósnortnum víðernum.
Þvert á móti er það skylda Skipulagsstofnunar að skoða alla slíka þætti vel og vandlega, ekki síst ef framkvæmdir leiða til verulegra og óafturkræfra umhverfisáhrifa. Varfærnislegri meðferð Skipulagsstofnunar ber því að fagna.
Lygarnar um ávinning Vestfjarða
Rökþrot Kristins eru engu að síður skiljanleg. Til að mynda stendur ekki steinn yfir steini varðandi virkjanaáform í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði. Allar fullyrðingar um ávinning Vestfjarða hafa reynst lygar. Þess vegna fer Kristinn í manninn en ekki boltann.
Hann kvartar undan því að auðmenn vogi sér að vilja vernda umhverfið, en lætur þess ekki getið að erlendir auðmenn standa að baki áformum um að raska ósnortinni náttúru á Ströndum.
Ítalskur auðmaður á svo að fá hundruð milljóna króna fyrir nýtingu vatnsréttinda í Eyvindarfirði. Virkjunin er ekki saklaus heimilisiðnaður sem Skipulagsstofnun er að trufla heldur ósvífið gróðabrall auðmanna á kostnað okkar allra.
Aðeins þarf að minna á nokkur atriði til að sýna hversu vondan málstað Kristinn hefur að verja.
HS Orka, sem er að meirihluta í eigu fjárfesta í Kanada, stendur að áformaðri Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði í gegnum dótturfyrirtæki sitt Vesturverk. Virkjunin stuðlar á engan hátt að bættu afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Það vantar ekki rafmagn, heldur tryggari flutningslínur á Vestfjörðum. Milljarða króna myndi kosta að leggja háspennulínur yfir Ófeigsfjarðarheiði inn á nýjan tengipunkt á Nauteyri við Djúp. Til að skapa hringtengingu um Vestfirði þyrfti sæstreng þaðan til Ísafjarðar. Hinir útlendu eigendur Hvalárvirkjunar myndu ekki greiða þá milljarða, heldur íslenskir skattgreiðendur. En HS Orka leggur ekki áherslu á hringtengingu, heldur pressar á að rafmagnið fari með háspennulínum yfir í Geiradal eða áfram frá Nauteyri í Kollafjörð – að sjálfsögðu á kostnað skattgreiðenda. Þar verður hægt að selja rafmagnið hvert á land sem er. Enda þurfa Vestfirðir aðeins brot af þeirri orku sem til stendur að framleiða með virkjun í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði.
Engin störf skapast á svæðinu við virkjunina. HS Orka mun ekki stuðla að vegabótum eða auknum snjóruðningi norður í Árneshrepp. En að vísu ætlar HS Orka að beita sér fyrir því að þriggja fasa rafmagn og ljósleiðari verði lagt í hreppinn – ef virkjanaleyfið fæst. Einhverjum þætti það lítið endurgjald fyrir að fá að leggja 300 ferkílómetra Ófeigsfjarðarheiðar undir áhrifasvæði Hvalárvirkjunar með stórfelldum náttúruspjöllum.
Höfundur er stjórnarmaður í Rjúkanda, samtökum um verndun umhverfis, náttúru og menningarminja í Árneshreppi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.