Enn sótt að griðlandi göngumanna í Vonarskarði
Kári Kristjánsson og Snorri Baldursson
2020-10-14
Enn sækir fámennur hópur jeppa- og vélhjólafólks það fast að Vonarskarð í Vatnajökulsþjóðgarði verði opnað fyrir vélvæddri umferð, en skarðið hefur verið lokað að því leyti frá vordögum 2011. Og enn er þetta mál að velkjast í stjórn þjóðgarðsins með hugsanlega opnun eða affriðun í huga. Hér verður verndargildi og nauðsyn friðunar svæðisins reifað af fyrrverandi starfsmönnum vestursvæðis þjóðgarðsins. Fyrir marga sem lítið þekkja til kann þetta að virðast smámál en er það alls ekki því um er að ræða enn eina aðför fámennra sérgæslumanna að náttúru landins og almannahag.
Náttúrufar Vonarskarðs
Vonarskarð er dalur eða háslétta í hjarta miðhálendisins, milli Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls. Það liggur lægst í um 900 m hæð yfir sjó, en fjöllin sem afmarka skarðið til vesturs og austurs teygja sig upp undir 400 m yfir skarðsbotninn. Handan þeirra rísa svo jöklarnir enn hærra, í vestri Tungnafellsjökull (1530) og til austurs hvelfist megineldstöðin Bárðarbunga (2000 m), næst hæsta fjall landsins. Þar sem Vonarskarð er þrengst eru ekki nema 12-13 km á milli jökla en milli hæsta punkts á austanverðum Tungnafellsjökli og Bárðarbungu eru um 20 km. Landslagsumgjörð Vonarskarðs er í senn stórbrotin og óvenjuleg með litríkum fjallahring.
Dalbotninn er eilítið bungumyndaður, hæstur í miðjunni en hallar til norðurs og suðurs. Úr hlíðum fjallanna umhverfis skarðið blasa við meginvatnaskil á hálendi Íslands og upptök tveggja stórfljóta þar sem Skjálfandafljót rennur til norðurs en Kaldakvísl til suðurs.
Slík vatnaskil er hvergi hægt að sjá annars staðar á Íslandi og líklega óvíða annars staðar með sambærilegum hætti á norðurhveli jarðar.
Þótt dalurinn sé opinn bæði til norðurs og suðurs er útsýni úr miðju skarðinu byrgt af hnúkum og öldum.
Í vesturfjöllunum eru litauðug háhitasvæði og ber einkum mikið á rauðum og brúnum tónum. Í miðju skarðinu rísa þrír brattir hnúkar upp af háhitasvæðinu, Eggja, Laugakúla og Rauðakúla, en vestan þeirra liggur annað háhitasvæði að austurhlíðum Tungnafellsjökuls. Þetta svæði sést hvergi úr Vonarskarði en háhitasvæðið þar er talsvert frábrugðið hinu, t.d. í litafari.
Sunnarlega í Vonarskarði rís stakt keilulaga fjall, Deilir. Syðst í skarðinu mynda tvö fjöll óvenjulega mynd. Skrauti er litauðugt líparítfjall í ljósum litum, hvítum, gráum, gulum, bleikum og appelsínugulum en upp að honum hallar sér hið blakka Kolufell. Á milli þeirra er Tvílitaskarð. Blettir með samfelldum gróðri eru við jarðhitann, en að auki er á sléttunni vestan Deilis nokkuð víðáttumikið svæði með samfelldum mýrargróðri og kallast það Snapadalur. Líklega er hann hæsta mýri landsins. Yfirborðsummerki jarðhita í Vonarskarði eru afar fjölbreytileg þar sem sjá má gular og bláar brenniseteinsþúfur, bullandi leirhveri og soðpönnur, hvæsandi gufuaugu, marglitt hverahrúður og sortulæki. Í hverum og lækjum vaxa örverur sem lita þá hvíta, græna og bláa heitir einn lækurinn Hærulangur.
Margar örverur sem finna má í Vonarsjarði eru óþekktar annars staðar í heiminum.
Þjóðgarður og svæði á heimsminjaskrá UNESCO
Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður í júní 2008 en undirbúningur að stofnun hans hófst árið 1999. Um þjóðgarðinn gilda sérlög, nr. 60/2007, sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2007. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs varð til stærsti þjóðgarður í Vestur-Evrópu. Þjóðgarðurinn hefur verið stækkaður nokkrum sinnum og er nú rétt tæpir 15.000 ferkílómetrar að unfangi, um þriðjungur af miðhálendi Íslands og tæp 15% af öllu flatarmáli landsins.
Árið 2018 sótti Ísland um að Vatnajökulsþjóðgarður yrði settur á heimsminjaskrá UNESCO. Skráningin krefst þess að viðkomandi svæði sé einstakt á heimsvísu og hafi því sérstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Skráningin gekk eftir í júlí 2019 eftir stranga skoðun.
Meginmarkmið Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt lögunum er einkum tvíþætt, vernd og útivist eða eins og stendur í lögum garðsins:
Að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu.
Auðvelda skal almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist og veita fræðslu um náttúru, sögu og mannlíf svæðisins.
Verndarstig einstakra svæða eða landslagsheilda innan Vatnajökulsþjóðgarðs skal taka mið af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins og annarri landnýtingu á viðkomandi svæði í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir um þjóðgarða og friðlýst svæði.
Þjóðgarðinum er skipt upp í fjögur rekstrarsvæði og eru þau kennd við höfuðáttirnar fjórar. Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs tekur til þess hluta þjóðgarðslandsins sem tilheyrir Skaftárhreppi, Ásahreppi/Rangárþingi ytra, og hluta af svæði Þingeyjarsveitar. Svæðið nær m.a. yfir Lakagíga, austanverða Eldgjá, Langasjó og hálendið milli Tungnaár og Köldukvíslar vestan jökuls, upp með jaðri hans norður yfir Vonarskarð og að Fjórðungsöldu norðan Tungnafellsjökuls.
Hátt verndargildi
Náttúrufar Vonarskarðs er fjölbreytt og sérstakt og hefur mjög hátt verndargildi. Enn eru áhrif mannsins þar lítil og það má ekki síst þakka erfiðu aðgengi. Meðan skarðið var opið fyrir vélknúinni umferð var það aðeins á færi öflugra farartækja að fara þar um, yfir vatnsmikil jökulfljót og snarbrattar grýttar brekkur. Verndargildi Vonarskarðs liggur ekki síst í því hversu lítt snortið umhverfi þess er. Það á við um viðkvæmt gróðurfar og háhitasvæði, landslag og víðerni.
Verðmætustu náttúruminjar svæðisins eru afar viðkvæmar fyrir umferð og öðru raski. Eigi að vernda það sem er sérstakast og verðmætast í náttúru Vonarskarðs verður það tæplega gert til framtíðar nema setja verulegar skorður við umsvif manna á svæðinu.
Samráð hagsmunaaðila um samgöngur í Vatnajökulsþjóðgarði
Fljótlega eftir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs fór að bera á óánægju jeppafólks varðandi ökuslóða sem þau töldu að hefði verið lokað en voru aftur á móti aldrei opnaðir. Gerðir voru út aðilar til þess að „trakka“ allar hugsanlega slóða stutta sem lengri, jafnvel smalaleiðir bænda lentu inn á þessum kortum.
Stjórn þjóðgarðsins brást við með því aðsetja á fót starfshóp um samgöngur í þjóðgarðinum og skilaði hann tillögum sínum 2011. Hluti þeirra tillagna var að láta framkvæma hlutlausa vísindalega rannsókn á þolmörkum, náttúruverndargildi og útivistargildi Vonarskarðs sem tæki mið af markmiðum laga um þjóðgarðinn. Fengnir voru þrír vísindamenn frá Háskóla Íslands til verksins. Niðurstöður þeirra áttu að vera undirstaða endanlegrar ákvörðunar um það hvernig skynsamlegast væri að haga umferð um Vonarskarð til framtíðar, jafnt gagnvart gangandi, akandi, ríðandi og hjólandi umferð.
Í lokaorðum skýrslu sérfræðingateymis segir:
„Náttúrufar Vonarskarðs er fjölbreytt og sérstakt og hefur mjög hátt verndargildi.“ og síðar: „Enn eru áhrif mannsins lítil í Vonarskarði, minni en á flestum öðrum svæðum landsins utan jökla.“
Þá töldu sérfræðingarnir mikilvægt er að færa Vonarskarðssvæðið allt í verndarflokkinn „óbyggð víðerni“ sem krefst enn meiri verndar en gildir um þjóðgarða samkvæmt náttúruverndarlögum. Ástæðurnar voru m.a. ofurviðkvæmni svæðisins fyrir raski og að göngufólk hefði óvíða annars staðar næði frá vélvæddri umferð.
Helstu rök fyrir strangri friðun Vonarskarðs
Vatnajökulsþjóðgarður spannar víðfeðmt svæði sem rúmar mörg stig friðunar og margar gerðir útivistar. Aka má um mikinn meirihluta svæðisins, þ.m.t. Vonarskarð, á frosinni, snæviþakinni jörð, utan vega, að vetri og að sumarlagi eru um eða yfir 800 km ökuleiða opnar vélknúinni umferð. Óvíða er aðgengi ökumanna að þjóðgarði jafn gott eða betra en í Vatnajökulsþjóðgarði.
Fá ef nokkur rök réttlæta opnun Vonarskarðs fyrir vélvæddri umferð að sumar- eða haustlagi. Aftur á móti eru margvísleg rök fyrir því að hafa Vonarskarð áfram griðland göngumanna, m.a.:
Réttur náttúrunnar til að fá að þróast eftir eigin lögmálum án hættu á raski vegna aukinnar umferðar; opnun skarðsins fyrir vélknúinni umferð mun næsta örugglega auka umferð fólks um svæðið.
Fjölbreytni og ofurviðkvæmni jarðminja og lífvera á hverasvæðunum.
Viðkvæmt votlendissvæði í mikilli hæð yfir sjó, og einkum í Snapadal, þar sem yfirborð er deigt allt sumarið og sandbleytur víða þar sem auðveldlega markar fyrir hjólförum; í því sambandi má benda á að opnun Vonarskarðs fyrir vélvæddri umferð mundi líka gilda fyrir stórar erlendar torfærubifreiðar með ökumenn sem átta sig síður á aðstæðum.
Í miðju Vonarskarði eru vatnaskil milli norður- og suðurlands, grunnt nær kyrrstætt vatn á sandbotni – mjög fágætt náttúrufyrirbæri.
Svæðið var samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO árið 2019 með núverandi hömlum og heimildum varðandi umferð fólks um svæðið. Að breyta þeim án nokkurra náttúruverndarraka gæti kallað á kæru frá unnendum svæðisins.
Svæðið er fremur auðvelt yfirferðar fyrir göngufólk. Til að komast á neðra hverasvæðið er aðeins um 5-6 tíma ganga fram og til baka, alls um 12-14 km hvort sem farið er frá Svarthöfða að sunnan eða Gjóstukleif að norðan.
Friðlandi göngufólks ógnað
Hópur akstursáhugamanna hefur harðlega gagnrýnt þá framsýnu ákvörðun stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs að afmarka Vonarskarð sem landsvæði fyrir gangandi ferðanmenn eingöngu. Þessi hópur hefur því miður ekki hlustað á málefnaleg rök fyrir friðuninni en unnið leynt og ljóst að því í hartnær áratug að skarðið verði opnað fyrir vélvæddri umferð. Jafnvel hafa menn í alvöru lagt til að opuð verði akstursleið austar í skarðinu; semsagt að fara í algerlega óþarfa vegagerð á ósnortnu landi.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur rætt málefni Vonarskarðs ítrekað og farið marga „rannsóknarleiðangra“ um svæðið. Svæðisráð vestursvæðis hefur ályktað með áframhaldandi lokun fyrir vélvæddri umferð. Þrátt fyrur það, og áðurnefnda skýrslu sérfræðinga Háskóla Íslands og UNESCO vottun sem heimsminjasvæði, er stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs enn að vandræðast með þetta mál og enn á að endurskoða afstöðu svæðisráðs og stjórnar til umferðar um Vonarskarð.
Er ekki mál að linni og friðun Vonarskarðs verði endanlega klöppuð í stein? Það er óviðunandi að fámennur hópur hagsmunaaðila um vélvædda umferð geti endalaust hrært í þessu máli og komið því í uppnám.
Við sem þetta ritum höfum báðir unnið á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, þekkjum Vonarskarð vel og unnum þessu hjarta landsins. Við erum ekki einir um það og erum sannnfærðir um að ef fólk almennt þekkti málavexti yrðu baráttumenn fyrir akstri í Vonarskarði púaðir niður eins og hverjir aðrir falsspámenn.
Höfundar eru áhugamenn um náttúruvernd.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.