Banner image

Friðlýsing Jökulsárgljúfra og Hvalárvirkjun

Grein skrifuð sem andsvör við grein Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa VesturVerks á Ísafirði sem birtist í Fréttablaðinu 13. ágúst sl.

Upplýsingafulltrúi VesturVerks á Ísafirði skrifar grein í Fréttablaðinu 13. ágúst sl. Í grein þessari er lagt út af því að Jökulsá á Fjöllum hafi verið friðlýst á grundvelli niðurstöðu Rammaáætlunar og því jafnað við að Hvalárvirkjun féll í nýtingarflokk sömu áætlunar. Enn og aftur virðist sem VesturVerk hafi ekki kynnt sér nægjanlega vel lög sem gilda um rammaáætlun. Mér er ljúft og skylt að reyna að bæta úr því.

Nýtingarflokkur er í raun rannsóknarflokkur

Lög um rammaáætlun tilgreina að við flokkun virkjunarkosta skuli tekið tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag.

Þó virkjanatillögur falli í nýtingaflokk Rammaáætlunar felst engin heimild til orkunýtingar í því. Sú flokkun merkir það eitt að viðkomandi virkjanakosti má skoða til nýtingar, en hugsanleg nýting er háð niðurstöðu umhverfismats og í lögum er sjónarmiðum umhverfis- og náttúruverndar gert hátt undir höfði á öllum stigum.

Því er skammt frá að segja að Hvalárvirkjun féll á umhverfismatsprófinu.

Lögbrot að setja Hvalárvirkjun í nýtingarflokk?

Í lögum segir að í biðflokk Rammaáætlunar skuli falla virkjunarkostir, sem talið er að afla þurfi frekari upplýsinga um, svo meta megi hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Þá segir einnig að byggja skuli á faglegu mati á upplýsingum sem fyrir liggja, samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum og að vinna faghópa skuli lögð til grundvallar matinu.

Tveir faghópar Rammaáætlunar (nr. 2 frá 2011) af fjórum töldu Hvalárvirkjun ekki uppfylla skilyrði um gæði gagna og tveir faghópar gáfu henni slæma einkum bæði hvað varðar hagkvæmni og jákvæð áhrif á samfélag. Þrátt fyrir þetta féll virkjunin í nýtingaflokk og var samþykkt sem slík í þingsályktun.

Þingsályktun er ekki hafin yfir lög. Í ljósi þessa telur Landvernd að við flokkun hafi Hvalárvirkjunar ekki farið um nálarhauga heldur öllu frekar farið á fölskum forsendum inn í nýtingarflokk og sú ákvörðun sé í trássi við lög.

Verndarflokkur er verndarflokkur

Eins og að framan segir eru virkjanir sem falla í virkjunarflokk til frekari rannsókna sem kunna að leiða til nýtingar ef slíkar rannsóknir leiða til jákvæðrar niðurstöðu. Öðru máli gegnir um virkjunarhugmyndir sem falla í verndarflokk. Þar segir í framangreindum lögum að í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar falla virkjunarkostir sem ekki er talið rétt að ráðast í og landsvæði sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Það er á grundvelli þessarar greinar laga sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur friðlýst Jökulsárgljúfur, þó enn ekki að fullu. Ánægjulegt er að heyra að bæði Landvernd og VesturVerk skuli gleðjast yfir þessum mikilvæga áfanga í náttúruvernd, að svo ólíkir aðilar geta átt samleið.

Þegar upplýsingafulltrúinn væntir þess að ráðherra hljóti að meðhöndla verkefni í öðrum flokkum áætlunarinnar með sama hætti og leggja sig fram um tefja ekki framgang þeirra, þá hefur hún villst af leið þeirra laga sem gilda um þessi mál.

Eins og áður segir, tilgreina lögin að þó virkjanatillögur falli í nýtingaflokk Rammaáætlunar felist engin heimild til orkunýtingar í því.

Í þessu ljósi telur Landvernd að VesturVerki væri best að fara að tilmælum umhverfis- og auðlindaráðherra, að halda að sér höndum í öllum framkvæmdum sem spillt geta Drangajökulsvíðernum þar til niðurstaða er fengin í þeim fjölmörgu lögfræðilegu álitamálum, sem tengjast Hvalárvirkjunar, sem tekin verða fyrir á vettvangi dómsstóla og úrskurðanefnda á næstu misserum.

Höfundur var formaður Landverndar 2019–2023.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.