Glæpur gegn náttúru Íslands
Tryggvi Felixson
2019-06-20
Við Sogin við Trölladyngju er minnisvarði um þau miklu óþörfu landspjöll sem HS Orka hefur valdið án nokkurs ávinnings fyrir samfélagið. Þar var byggður vegur og borpallur á einstaklega fögru jarðhitasvæði, því var bókstaflega rústað. Í kjölfarið fylgdu árangurslausar boranir eftir jarðvarma. Eftir stendur minnisvarði um afglöp HS Orku.
Fögru jarðhitasvæði var spillt varanlega, ávinningurinn er enginn, þjóðin glataði enn einu af náttúrudjásnum sínum.
Nú stefnir í að fyrirtækið, sem nú er í eigu okkar allra þar sem fjölmargir lífeyrissjóðir hafa tekið höndum saman og eiga um helmingshlut í fyrirtækinu, ætli sér að fremja enn meira umhverfisódæði á Ófeigsfjarðarheiði á Ströndum. Sveitarfélagið hefur samþykkt deiliskipulag og veitt framkvæmdaleyfi þar sem gert er ráð fyrir miklum framkvæmdum við vegagerð á einum stærstu samfelldu víðernum Evrópu.
Hingað til hafa rannsóknir vegna vatnsaflsvirkjana verið framkvæmdar með það í huga að valda sem minnstu raski. Rannsóknir geta jú eðli málsins samkvæmt leitt til þess að hætt verði við framkvæmd þar sem fram koma nýjar og gagnlegar upplýsingar sem hafa áhrif á allar forsendur. Því er mikilvægt að takmarka öll spjöll á rannsóknarstigi. Hjá HS Orku kveður við annan tón. Fyrirtækið hyggst eyðileggja sem mest í nafni rannsókna og ganga í berhögg við sjálft rannsóknarleyfið.
Þann 13. júní 2019 veitti sveitarfélagið framkvæmdaleyfi til að hleypa þessari atlögu gegn landinu af stað.
Höfum við þrátt fyrir allt ekkert lært á langri vegferð um verðmæti óspilltra náttúru? Kunnum við enn ekki að ganga gætilega um landið okkar þrátt fyrir allar yfirlýsingar og lög þar um? Ef þessi vegferð verður ekki stöðvuð er svarið því miður „nei“ við þessum spurningum.
Baráttunni er ekki lokið. Málið er of mikilvægt til þess að unnendur íslenskrar náttúru geti lagt árar í bát. Þeirri baráttu má leggja lið með því að taka undir kröfu Landverndar um að friðlýsa Drangajökulsvíðerni; askorun.landvernd.is
Höfundur var formaður Landverndar 2019–2023.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.