Banner image

Græn orka fyrir umheiminn?

Háværar raddir hafa lengi verið um að Ís­land sé í ein­stakri stöðu þegar kemur að „grænni orku“. Hér sé hægt sé að fram­leiða raf­orku í miklu magni og miklu hreinni en í öðrum lönd­um. Hug­myndir hafa oft snúið að því að best væri að flytja ork­una út til Evr­ópu, og lengi vel var sæstrengur vin­sælasta hug­mynd­in. Fyrir aðeins örfáum dögum spratt reyndar aftur upp ára­tuga gömul hug­mynd þegar for­stöðu­maður við­skipta­þróunar hjá Lands­virkjun mælti fyrir stór­felldri vetn­is­fram­leiðslu til út­flutn­ings. Eins og alltaf fylgdi þeirri hug­mynd orða­flaumur um „ný og græn orku­tæki­færi“, sem rímar vel við það sem haft var eftir Herði Arn­ar­syni, for­stjóra Landsvirkj­un­ar, árið 2013 þegar umræðan um sæstreng stóð sem hæst. Hann sagði að „orku­kerfið á Ís­landi gæti virkað eins og „græn raf­hlaða“ fyrir Evr­ópu“. Margir hafa stokkið á þennan vagn „grænu orkunn­ar“ og til að mynda sagði Jón Gunn­ars­son þetta í umræðu um ramma­áætlun um miðjan jan­ú­ar:

„Tæki­færin liggja hjá okkur í orkunni. Við þurfum núna að stokka upp ís­lenskt sam­félag, verð­mæta­sköpun og atvinnu­líf. Við þurfum að gera það á for­sendum umhverf­is­mála, á for­sendum sem tengj­ast lofts­lags­málum og orkan getur spilað þarna mjög stórt hlut­verk — mat­væla­fram­leiðsla, gagna­ver­a­iðn­að­ur, vetn­is­fram­leiðsla, alvöru­orku­fram­leið­endur til út­flutn­ings eins og Danir ætla sér að vera, ætla að tvöfalda raf­orku­fram­leiðslu sína á næstu 30 ár­um. Tæki­færin liggja þarna.“

Sem sagt, orkan okkar virð­ist vera svo „græn“ að okkur beri ein­fald­lega að virkja enn meira, jafn­vel kannski tvöfalda fram­leiðsl­una eins og Dan­ir?

Nú skal það hins vegar gert á „for­send­um um­hverf­is- og lofts­lags­mála“. Kannski er kom­inn tími til að setja út­flutn­ings­hug­myndir hinnar „grænu orku“ Ís­lend­inga í raun­veru­legt sam­hengi?

Heild­ar­afl allra virkj­un­ar­kosta ramma­áætl­unar

Núver­andi orku­fram­leiðsla allra virkj­ana á Ís­landi er um 20.000 GWst, eða 20 TWst (ter­awatts­stund­ir) á ári. Ár­leg orku­fram­leiðsla allra virkj­ana­kosta í 3. áfanga ramma­áætl­un­ar, hvort sem er í nýt­ing­ar-, bið- eða vernd­ar­flokki er áætluð um 35.000 GWst, eða næstum því tvö­föld orku­fram­leiðsla Ís­lands í dag.

Sem sagt, ef við myndum klára allt heila klabb­ið, virkja allt sem er í 3. áfanga ramma­áætl­un­ar, hvort sem það eru vatns­afls­virkj­anir á miðju há­lend­inu, í Mark­ar­fljóti, Hólmsá og Skaftá, auk jöku­lánna í Skaga­firði, veita í Þjór­sár­verum, jarð­hita­virkj­anir á öllum jarð­hita­svæðum Reykja­nesskaga og Heng­ils­svæð­is­ins, og það ofan á allar núver­andi virkj­an­ir, að þá myndum við enda með raf­orku­fram­leiðslu upp á um 55.000 GWst (55 TWst) á ári. Með því værum við búin að þre­falda raf­orku­fram­leiðslu Ís­lend­inga og þá væri hér um bil búið að virkja allar stærstu ár lands­ins nema Jökulsá á Fjöll­um.

Á sama tíma væri búið að bora og virkja nán­ast öll aðgengi­leg háhita­svæði lands­ins sem eru ekki undir jökli. Í þeim hópi væru öll háhita­svæði Reykja­nesskag­ans, Heng­ils­ins, Sand­fell rétt norður af Geysi, Kerl­ing­ar­fjöll, Hvera­vellir og Bjarn­arflag. Nokkurn veg­inn einu háhita­svæðin sem stæðu ósnortin væru svæði innan Vatna­jökuls­þjóð­garðs, svo sem Öskju­svæðið og Kverk­fjöll, og innan friðlands að Fjalla­baki sem væru Land­manna­laug­ar/­Torfajökuls­svæð­ið, auk Gjá­stykkis sem þegar hefur verið frið­að. Inni í þess­ari tölu væru jafn­vel mjög óhag­stæðir kostir sem ekk­ert vit væri í raun að virkja út frá fjár­hags­legum for­send­um.

En við værum samt að gera umheim­inum gott, að ná í alla þessa „grænu orku“, er það ekki?

Sam­an­burður ís­lenskra orku­auð­linda við vind­orku Evr­ópu

Gott og vel, að loknu þessu ímynd­aða ofur­virkj­ana­skeiði yrði ár­leg raf­orku­fram­leiðsla Ís­lend­inga um 55 TWst. Það væri augljós­lega miklu meira en við myndum nokkurn tí­mann hafa not fyr­ir, eða ná einu sinni að nota yfir höf­uð. Við yrðum af þeim sökum að flytja mik­inn meiri­hluta þess­arar orku til útlanda, t.d. um sæstreng eða mögu­lega í formi elds­neytis eins og vetn­is. En myndi raf­orku­fram­leiðsla Ís­lend­inga hafa mikil áhrif erlend­is?

Hér er sam­an­burð­ur:

Á fimm árum, 2015-2019, voru tekin í notkun í Evr­ópu vind­orku­ver sem fram­leiða ár­lega um 120 TWst (miðað við 25% nýt­ingu upp­setts vinda­fls). Það sam­svarar fjór­faldri orku­getu allra óvirkj­aðra virkj­un­ar­kosta í ramma­áætl­un. Spár næstu ára gera ráð fyrir að vind­orku­notkun Evr­ópu muni aukast enn hraðar með hverju ári. Það þýðir að ár­lega munu Evr­ópu­þjóðir setja upp vind­orku­ver sem fram­leiða miklu meira en allir óvirkj­aðir virkj­ana­kostir í nýt­ing­ar-, bið- og vernd­ar­flokki í ramma­áætlun gætu sam­an­lagt gert á hverju ári um alla framtíð.

Í stuttu máli: Þótt við legðum okkur fram við að virkja nán­ast öll virkj­an­leg vatns­föll og jarð­hita­svæði á Ís­landi, þá væri sú orku­vinnsla aðeins dropi í hafið miðað við raf­orku­fram­leiðslu­aukn­ingu nágranna­þjóða okk­ar. Þetta eru orku­mál Ís­lend­inga í raun­veru­legu sam­hengi.

Hvaða leið viljum við feta?

Spurn­ingin sem við þurfum því að spyrja okkur strax er þessi: Hvert á hlut­verk okkar hér á Ís­landi að vera? Eigum við að halda áfram að rústa víð­ernum okk­ar, ómet­an­legum vatns­föllum og jarð­hita­svæðum fyrir dropa í raf­orku­haf Evr­ópu, sem nágranna­lönd okkar myndu aldrei finna fyr­ir?

Eða ber okkur hrein og bein skylda til að passa upp á og vernda þau óend­an­lega mik­il­vægu verð­mæti sem fel­ast í okkar ósnortnu nátt­úru? Nátt­úru sem finnst hvergi ann­ars staðar á jörð­inni og ætti með réttu að til­heyra öllum jarð­ar­búum sam­eig­in­lega (og gerir það raunar að hluta til í gegnum skrán­ingu t.d. Vatna­jökuls­þjóð­garðs á heimsminja­skrá UNESCO).

Ósnortin land­svæði og nátt­úruminjar verða sí­fellt verð­mæt­ari eftir því sem gengið er á auð­lindir og víð­erni jarðar og okkur ber sið­ferði­leg skylda til að hlúa að og vernda eftir fremsta megni þau svæði sem eru í okkar umsjá hér á Ís­landi.

Sem mesta raf­orku­fram­leiðslu­land heims miðað við mann­fjölda þurfum við augljóslega ekki að virkja meira um langa framtíð. ­Geta þing­menn, sem fjalla nú um ramma- áætlun á Alþingi, með góðri sam­visku stutt áfram­hald­andi eyði­legg­ingu dýr­mætrar nátt­úru Ís­lands­? Hverju ætli íbúar Evr­ópu myndu svara ef við legðum fyrir þá spurn­ing­una hvort þeir kjósi frekar: raf­orku- dropa sam­hliða gjöreyði­legg­ingu nátt­úru okkar eða að við legðum varð­veislu víð­ern­anna, vatns­fall­anna, foss­anna og jarð­hita­svæð­anna inn sem framtíð­ar­fram­lag okkar til umheims­ins og kom­andi kynslóða allrar jarð­ar?

Hvernig munu afkom­endur okkar minn­ast núlif­andi kynslóða sem virð­ast velja að fórna svo miklum nátt­úru­gæðum og nátt­úru­auð­æfum fyrir eigin pen­inga­legu hags­muni?

Er ekki mögu­legt að kom­andi kynslóðir muni meta sína hags­muni einmitt á for­sendum umhverf­is­ins, lítt snort­innar nátt­úru Ís­lands?

Höf­undur er jarð­fræð­ing­ur, rit­höf­undur og stjórn­ar­maður í Hag­þenki.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.