Græn orka fyrir umheiminn?
Snæbjörn Guðmundsson
2021-02-15
Háværar raddir hafa lengi verið um að Ísland sé í einstakri stöðu þegar kemur að „grænni orku“. Hér sé hægt sé að framleiða raforku í miklu magni og miklu hreinni en í öðrum löndum. Hugmyndir hafa oft snúið að því að best væri að flytja orkuna út til Evrópu, og lengi vel var sæstrengur vinsælasta hugmyndin. Fyrir aðeins örfáum dögum spratt reyndar aftur upp áratuga gömul hugmynd þegar forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun mælti fyrir stórfelldri vetnisframleiðslu til útflutnings. Eins og alltaf fylgdi þeirri hugmynd orðaflaumur um „ný og græn orkutækifæri“, sem rímar vel við það sem haft var eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, árið 2013 þegar umræðan um sæstreng stóð sem hæst. Hann sagði að „orkukerfið á Íslandi gæti virkað eins og „græn rafhlaða“ fyrir Evrópu“. Margir hafa stokkið á þennan vagn „grænu orkunnar“ og til að mynda sagði Jón Gunnarsson þetta í umræðu um rammaáætlun um miðjan janúar:
„Tækifærin liggja hjá okkur í orkunni. Við þurfum núna að stokka upp íslenskt samfélag, verðmætasköpun og atvinnulíf. Við þurfum að gera það á forsendum umhverfismála, á forsendum sem tengjast loftslagsmálum og orkan getur spilað þarna mjög stórt hlutverk — matvælaframleiðsla, gagnaveraiðnaður, vetnisframleiðsla, alvöruorkuframleiðendur til útflutnings eins og Danir ætla sér að vera, ætla að tvöfalda raforkuframleiðslu sína á næstu 30 árum. Tækifærin liggja þarna.“
Sem sagt, orkan okkar virðist vera svo „græn“ að okkur beri einfaldlega að virkja enn meira, jafnvel kannski tvöfalda framleiðsluna eins og Danir?
Nú skal það hins vegar gert á „forsendum umhverfis- og loftslagsmála“. Kannski er kominn tími til að setja útflutningshugmyndir hinnar „grænu orku“ Íslendinga í raunverulegt samhengi?
Heildarafl allra virkjunarkosta rammaáætlunar
Núverandi orkuframleiðsla allra virkjana á Íslandi er um 20.000 GWst, eða 20 TWst (terawattsstundir) á ári. Árleg orkuframleiðsla allra virkjanakosta í 3. áfanga rammaáætlunar, hvort sem er í nýtingar-, bið- eða verndarflokki er áætluð um 35.000 GWst, eða næstum því tvöföld orkuframleiðsla Íslands í dag.
Sem sagt, ef við myndum klára allt heila klabbið, virkja allt sem er í 3. áfanga rammaáætlunar, hvort sem það eru vatnsaflsvirkjanir á miðju hálendinu, í Markarfljóti, Hólmsá og Skaftá, auk jökulánna í Skagafirði, veita í Þjórsárverum, jarðhitavirkjanir á öllum jarðhitasvæðum Reykjanesskaga og Hengilssvæðisins, og það ofan á allar núverandi virkjanir, að þá myndum við enda með raforkuframleiðslu upp á um 55.000 GWst (55 TWst) á ári. Með því værum við búin að þrefalda raforkuframleiðslu Íslendinga og þá væri hér um bil búið að virkja allar stærstu ár landsins nema Jökulsá á Fjöllum.
Á sama tíma væri búið að bora og virkja nánast öll aðgengileg háhitasvæði landsins sem eru ekki undir jökli. Í þeim hópi væru öll háhitasvæði Reykjanesskagans, Hengilsins, Sandfell rétt norður af Geysi, Kerlingarfjöll, Hveravellir og Bjarnarflag. Nokkurn veginn einu háhitasvæðin sem stæðu ósnortin væru svæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs, svo sem Öskjusvæðið og Kverkfjöll, og innan friðlands að Fjallabaki sem væru Landmannalaugar/Torfajökulssvæðið, auk Gjástykkis sem þegar hefur verið friðað. Inni í þessari tölu væru jafnvel mjög óhagstæðir kostir sem ekkert vit væri í raun að virkja út frá fjárhagslegum forsendum.
En við værum samt að gera umheiminum gott, að ná í alla þessa „grænu orku“, er það ekki?
Samanburður íslenskra orkuauðlinda við vindorku Evrópu
Gott og vel, að loknu þessu ímyndaða ofurvirkjanaskeiði yrði árleg raforkuframleiðsla Íslendinga um 55 TWst. Það væri augljóslega miklu meira en við myndum nokkurn tímann hafa not fyrir, eða ná einu sinni að nota yfir höfuð. Við yrðum af þeim sökum að flytja mikinn meirihluta þessarar orku til útlanda, t.d. um sæstreng eða mögulega í formi eldsneytis eins og vetnis. En myndi raforkuframleiðsla Íslendinga hafa mikil áhrif erlendis?
Hér er samanburður:
Á fimm árum, 2015-2019, voru tekin í notkun í Evrópu vindorkuver sem framleiða árlega um 120 TWst (miðað við 25% nýtingu uppsetts vindafls). Það samsvarar fjórfaldri orkugetu allra óvirkjaðra virkjunarkosta í rammaáætlun. Spár næstu ára gera ráð fyrir að vindorkunotkun Evrópu muni aukast enn hraðar með hverju ári. Það þýðir að árlega munu Evrópuþjóðir setja upp vindorkuver sem framleiða miklu meira en allir óvirkjaðir virkjanakostir í nýtingar-, bið- og verndarflokki í rammaáætlun gætu samanlagt gert á hverju ári um alla framtíð.
Í stuttu máli: Þótt við legðum okkur fram við að virkja nánast öll virkjanleg vatnsföll og jarðhitasvæði á Íslandi, þá væri sú orkuvinnsla aðeins dropi í hafið miðað við raforkuframleiðsluaukningu nágrannaþjóða okkar. Þetta eru orkumál Íslendinga í raunverulegu samhengi.
Hvaða leið viljum við feta?
Spurningin sem við þurfum því að spyrja okkur strax er þessi: Hvert á hlutverk okkar hér á Íslandi að vera? Eigum við að halda áfram að rústa víðernum okkar, ómetanlegum vatnsföllum og jarðhitasvæðum fyrir dropa í raforkuhaf Evrópu, sem nágrannalönd okkar myndu aldrei finna fyrir?
Eða ber okkur hrein og bein skylda til að passa upp á og vernda þau óendanlega mikilvægu verðmæti sem felast í okkar ósnortnu náttúru? Náttúru sem finnst hvergi annars staðar á jörðinni og ætti með réttu að tilheyra öllum jarðarbúum sameiginlega (og gerir það raunar að hluta til í gegnum skráningu t.d. Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO).
Ósnortin landsvæði og náttúruminjar verða sífellt verðmætari eftir því sem gengið er á auðlindir og víðerni jarðar og okkur ber siðferðileg skylda til að hlúa að og vernda eftir fremsta megni þau svæði sem eru í okkar umsjá hér á Íslandi.
Sem mesta raforkuframleiðsluland heims miðað við mannfjölda þurfum við augljóslega ekki að virkja meira um langa framtíð. Geta þingmenn, sem fjalla nú um ramma- áætlun á Alþingi, með góðri samvisku stutt áframhaldandi eyðileggingu dýrmætrar náttúru Íslands? Hverju ætli íbúar Evrópu myndu svara ef við legðum fyrir þá spurninguna hvort þeir kjósi frekar: raforku- dropa samhliða gjöreyðileggingu náttúru okkar eða að við legðum varðveislu víðernanna, vatnsfallanna, fossanna og jarðhitasvæðanna inn sem framtíðarframlag okkar til umheimsins og komandi kynslóða allrar jarðar?
Hvernig munu afkomendur okkar minnast núlifandi kynslóða sem virðast velja að fórna svo miklum náttúrugæðum og náttúruauðæfum fyrir eigin peningalegu hagsmuni?
Er ekki mögulegt að komandi kynslóðir muni meta sína hagsmuni einmitt á forsendum umhverfisins, lítt snortinnar náttúru Íslands?
Höfundur er jarðfræðingur, rithöfundur og stjórnarmaður í Hagþenki.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.