Banner image

Hálendisþjóðgarður

Mikið gladdi það mig að lesa grein Styrmis Gunnarssonar laugardaginn 21. desember í Morgunblaðinu um hálendisþjóðgarð. Það sem mér finnst sérstakt fagnaðarefni er hvernig hann rökstyður með skynsamlegum og efnahagslegum rökum gildi þess að Íslendingar verndi náttúru landsins. Hann bendir á að náttúran hrein og óspillt sé sú auðlind og söluvara sem Íslendingar komi til með að hagnast mest á í framtíðinni. Og hafi raunar verið undirstaða mikilvægs atvinnuvegar landsmanna fram á þennan dag.

Það er mikill fengur í liðsmanni eins og Styrmi í hóp náttúrverndarsinna og væntingar hans um að Sjálfstæðisflokkurinn verði stuðningsaðili við náttúrverndarsjónarmið og komi til með að styðja stofnun hálendisþjóðgarðsins lofar góðu.

Ég er líka alveg sannfærður um að kjósendur þess flokks eru þverskurður þjóðarinnar og margir sjálfstæðismenn eru miklir náttúruverndarsinnar sem látið hafa til sín taka bæði fyrr og síðar.

Það er eftirtektarvert að greinarhöfundur bendir á að náttúruauðlindir landsins í ósnortnum víðernum eigi eftir að gefa meira af sér í ávinningi fyrir þjóðina en virkjanir. Víðerni Vestfjarða verða Vestfirðingum meiri tekjulind og verðmæti en 50 MV virkjun.

Það er sorglegt þegar skammtímagróðasjónarmið ráða för um virkjanir sem eyðileggja og spilla á óafturkræfan hátt umhverfi og yndislegri náttúru landsins.

Það mundi mörgum bóndanum finnast óskynsamlegt að farga bestu mjólkurkúnni fyrir álitlegt skinn eða kjöt. Eða hefur einhver góður reikningsmaður reiknað út hvað þjóðin hefur hagnast mikið og margir glaðst og undrast yfir stórfengleik Gullfoss gegnum árin. Þjóðin á Sigríði frá Brattholti mikið að þakka.

Það er greinilega vakning í íslensku samfélagi fyrir verðmætum í náttúru landsins. Það fjölgar stöðugt þeim sem vilja fara aðrar leiðir en fórna náttúruvíðernum fyrir raforku. Það er sem betur fer margar aðrar ágætar leiðir til að framleiða raforku og gætu átt eftir að verða enn fleiri möguleikar í framtíðinni.

Það er gott mál að það skuli vera í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að setja á stofn hálendisþjóðgarð. Vonandi verður það gert að veruleika.

Það er vakning meðal þjóðarinnar um að lífsgildin séu ekki bara fólgin í endalausum hagvexti. Látum náttúruna njóta vafans, ekki bara vegna augljóss efnahagslegs ávinnings heldur ekki minnst vegna þess að ósnortin víðerni eru ómetanleg verðmæti fyrir komandi kynslóðir. Látum ekki sérhagsmuni og skammtíma hagnaðarvon ráða för.

Höfundur er tæknifræðingur og eldri borgari.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.