Banner image

Hamfarahlýnun

Sem betur fer er málfrelsi og ritfrelsi á Íslandi og hverjum sem er heimilt að láta í ljós skoðanir sínar í ræðu og riti. Morgunblaðið er vettvangur umræðu og skoðanaskipta og er það heilbrigt og hið besta mál. Ef einhverjir vilja halda fram að svart sé hvítt og hvítt sé svart, að tveir plús tveir séu ekki fjórir er það algerlega frjálst. Ekki er þó skylda að vera sammála öllu sem birtist og öllum skoðunum sem fram koma í umræðunni.

Kveikjan að þessu skrifi mínu er furðugrein sem birtist í Morgunblaðinu 22. okt. sl. eftir Valdimar H. Jóhannesson.

Höfundur greinarinnar heldur því fram að ekki sé um hamfarahlýnun að ræða í heiminum heldur yfirvofandi hamfaragos á Íslandi. Hann afneitar rökum um hamfarahlýnun og styður skoðun sína með skrifum vísindamanna sem sendu aðalritara SÞ bréf 23. sept. sl. Þar sem þeir hafna því alfarið að nokkur loftslagsvá sé í gangi eða í vændum.

Hann gerir lítið úr baráttu Gretu Thunberg og hneykslast á þeirri athygli sem hún hefur fengið, hann kallar baráttu hennar „sefasjúka heimsendaspá sem enginn fótur sé fyrir“.

Hann kemur með fullyrðingar í greininni um að endurheimt votlendis og dæling koltvísýrings niður í berglög til að binda CO2 sé hrein firra og jafnvel til skaða. Með tilvitnun í vísindamennina sem rituðu aðalritara SÞ bréfið.

Hann afneitar að tíðni fellibylja flóða og þurrka sé vegna hlýnunar andrúmsloftsins.

Greinarhöfundur gerir mikið úr vá sem gæti orðið af hamfargosi á Íslandi, „Íslensk stjórnvöld ættu að horfa til íslenskra hagsmuna og þeirrar vár sem er raunveruleg.“ Þarna kemur fullyrðing um að hamfarahlýnun sé ekki raunveruleg vá.

Alveg er möguleiki að spá greinarhöfundar geti gengið eftir um hamfaraeldgos á Íslandi, en að afneita öllum staðreyndum um hamarfarahlýnun í heiminum með áherslu á að vá af hamfaragosi sé yfirvofandi og miklu verri er sérkennilegur málflutningur.

Ekki síst vegna þess að rannsóknir sýna að það er raunhæfur möguleiki að sporna við geigvænlegri þróun um hamafarhlýnun með róttækum aðgerðum.

Erfiðara gæti verið að gera ráðstafanir vegna yfirvofandi hamfaragoss á Íslandi.

Höfundur er eldri borgari.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.