Hnípin þjóð
Ólafur Páll Jónsson
2024-04-23
„Vorum við þá enn fátækari við upphaf tuttugustu og fyrstu aldarinnar en þeirrar tuttugustu.“
Þetta var það fyrsta sem vinur minn sagði frá því viðlögðum af stað frá Egilsstöðum tveim tímum áður. Við vorum komnir austur til að skoða Hálslón og Kárahnjúkavirkjun. Síðan haustið 2006 hafði hann ekki farið austar á Norðurlandi en að Jökulsá á Fjöllum eða norðar á Austfjörðum en á Djúpavog. Hann hafði heldur ekki minnst á þessi mannvirki fyrr en nokkrum vikum áður þegar hann hringdi í mig og spurði hvort við ættum ekki að fara austur og skoða „þetta“.
„Þetta hvað?“ spurði ég því hann hafði ekki haft neinn formála að erindinu.
„Þetta, hvað það nú heitir, herlegheit eða hörmungar. Það fer víst eftir því hver talar.“
Ég var engu nær en loks sagði hann orðið sem ég hafði ekki heyrt hann segja í 17 ár: „Kárahnjúkavirkjun“. Og nú vorum við sumsé komnir austur, höfðum gist á Egilsstöðum um nóttina og lagt af stað snemma dags upp með Leginum og inn á austuröræfin. Það voru fáir á ferli, enn voru skaflar í giljum og lautum og Snæfellið nánast alhvítt þar sem það gnæfði í tign sinni yfir landið í kring.
Vinur minn hafði beðið mig að stoppa bílinn þar sem landið var hæst austan við virkjunina. Veðrið var stillt og bjart, angan af jörð sem er að leysa af sér vetrarfjötrana í loftinu. Við höfðum farið út, gengið spölkorn frá veginum og sáum vel yfir lónið, niður á stífluna og alveg inn að jökli. Vinurinn hafði staðið þögull í góða stund, potað í sandborinn gróðurinn með tánni, en sagði svo þetta:
„Vorum við þá enn fátækari við upphaf tuttugustu og fyrstu aldarinnar en þeirrar tuttugustu.“
Raddblærinn bar með sér að þetta var ekki spurning heldur staðhæfing, athugasemd um það sem fyrir augu bar.
„Hvað áttu við með að við höfum verið fátækari við upphaf tuttugustu og fyrstu aldarinnar en þeirrar tuttugustu?“ spurði ég og skildi ekki hvað hann var að fara. „Fyrir öld síðan voru Íslendingar líklega ein fátækasta þjóð Evrópu en nú lifum við praktuglega í vellystingum.“
Það var eins og vinur minn hefði ekki heyrt það sem ég sagði, hann stóð bara hreyfingarlaus í algerri þögn og horfði beint fram fyrir sig. Eftir góða stund sneri hann sér að mér og sagðist hafa séð nóg. Þegar við vorum komnir aftur inn í bílinn, lagðir af stað til baka og ljóst að hann ætlaði ekki að útskýra nánar hvað hann átti við með orðum sínum um fátæktina, endurtók ég athugasemd mína; mér virtist ljóst að á þessari rúmu öld frá því við fengum fullveldi hefðum við risið úr örbirgð og komist í góð efni.
„Sjáðu til,“ sagði vinur minn þá og gaf mér bendingu um að taka næsta afleggjara svo við gætum farið út úr bílnum. „Sjáðu til,“ endurtók hann þegar við höfðum stoppað og stigið út úr bílnum. „Ég held að auðlegð og gestrisni séu systkini. Það er til gömul vísa sem er einhvern veginn svona:
Auðlegðina ei ég spyr um
að mér minningarnar streyma
þar sem grasið grær að dyrum
gestrisnin á ekki heima.
Auðlegðin birtist ekki í grasinu sem grær að dyrum þínum, eða sjóðunum sem bólgna á einhverjum bankareikningum í Karíbahafinu. Auðlegðin birtist í því sem þú getur gefið af þér, ekki því sem þú megnar að hrifsa til þín.“
„Gott og vel,“ sagði ég en var ekki sannfærður. „Við upphaf tuttugustu aldarinnar höfðu Íslendingar vart til hnífs og skeiðar. Fólk var bláfátækt. Hversu örlátt sem það hefði viljað vera þá hafði fólk einfaldlega ekkert að gefa.“
„Þú ert aldeilis háfleygur í dag“
„Vissulega var fátæktin mikil á Íslandi í upphafi síðustu aldar. Ekki neita ég því. Ég var bara að benda á að það sem við sáum áðan eru ekki ummerki auðlegðar heldur fátæktar. Og þótt fátæktin hafi verið mikil fyrir öld síðan, þá skildi hún ekki eftir sig viðlíka sár í landinu.“
„Þú ert aldeilis háfleygur í dag,“ sagði ég. Svo þögðum við um stund. „Hvað segja hagfræðingarnir um þennan skilning þinn á auðlegð?“ spurði ég þegar mér fannst þögnin orðin óþægilega löng.
„Hagfræðingarnir segja bara það sem þeim sýnist. Þeir myndu örugglega verða sammála mér ef þeir hugsuðu málið í smástund.“ Vinur minn sneri aftur inn í bíl og stakk upp á að við myndum athuga hvort leiðin niður í Hrafnkelsdal væri fær. Ég ók af stað, fór rólega og horfði eftir afleggjara til norðurs.
„Sjáðu til,“ sagði vinur minn með þess konar tón í röddinni að ég vissi að nú ætti ég að taka sérstaklega vel eftir. „Andstæða auðlegðar er örbirgð. Hvað er það sem einkennir örbirgð? Jú, örbirgðin umbreytir sérhverju tækifæri í nauðsyn – tækifæri til að eignast brauð verður að nauðsyn á að eignast brauð. Manneskja sem býr við örbirgð lifir í nauðung.
Í bókinni um lífið í skóginum við Walden-vatnið segir Thoreau eitthvað á þessa leið: Auðlegð manneskju birtist í því sem hún getur látið vera.“
„Ókei,“ sagði ég til marks um að ég væri að hlusta og gaf um leið til kynna að hann gæti haldið áfram.
„Þegar fólk býr við auðlegð er sérhvert tækifæri augnablik frelsis. Ef þú býrð við auðlegð og færð tækifæri til að eignast eitthvað, til dæmis blóm sem verður á vegi þínum, þá getur þú annaðhvort slitið það upp eða látið það vera. Þú getur hlustað á raddirnar í brjósti þér og sleppt því að hrifsa blómið til þín, leyft því að vera blóm og lyfta krónu sinni til móts við sólina. Því ríkari sem þú ert, þeim mun meira getur þú látið í friði. En ef þú býrð við örbirgð er þér kannski nauðugur einn kostur að slíta blómið upp og umbreyta því í eitthvað sem færir þér næringu eða efni.“
Við komum að afleggjara sem liðaðist um gróna mela til norðurs. Ég beygði út af og stöðvaði bílinn eftir að hafa þrætt mjóan og hlykkjóttan veginn um stund.
„Sjáðu til,“ sagði vinur minn um leið og hann steig út úr bílnum. „Af því að við erum ekki í tímahraki, þá getum við beygt út af aðalveginum og inn á einhvern slóða sem kannski er fær og kannski ekki. Við getum þetta af því að við höfum nógan tíma. Gatnamótin færðu okkur augnablik frelsis. Ef við hefðum nú þurft að sperra okkur til baka – mæta í vinnu, fara á fund – þá hefðu þessi gatnamót ekki haft neina þýðingu fyrir okkur. Fátæktin, sem kölluð er tímahrak, hefði rænt okkur þessu frelsi.“
„Ég skil hvað þú ert að fara,“ sagði ég, enda hafði þessi vinur minn lag á því að orða hluti á mjög sannfærandi hátt. Mér fannst hann samt vera að nota hugtökin um fátækt og auð með sérkennilegum hætti. „Þú getur ekki neitað því að Íslendingar búa við miklu meiri velsæld í dag en fyrir hundrað árum: Við lifum lengur, eigum betri hús, fleiri bíla, höfum rennandi vatn – bæði heitt og kalt – og hvaðeina sem gerir lífið gott. Hvernig getur þú haldið því fram að við séum fátækari í dag en fyrir hundrað árum?“
„Í gamla daga var dyggð að vera guðhræddur“
„Ef allt þetta sem þú taldir upp er til marks um auðlegð, hvers vegna gerum við þá svona hluti? Hvers vegna breytum við grónu landi í eyðimörk, hvers vegna tökum við eitthvað sem hefur þróast um þúsundir ára og er algerlega einstakt í öllum heiminum og skiptum því út fyrir eitthvað sem endist kannski í hundrað ár og gæti verið hvar sem er? Og þetta á nú að endurtaka suður í Þjórsá, þar á að fórna einstöku lífríki fyrir, tja, það veit eiginlega enginn fyrir hvað.“
„Þetta skapar atvinnu, skapar arð, þú getur ekki neitað því.“
„Ég neita því ekki. Það sem ég vildi segja er þetta: Einungis þjóð sem upplifir sig fátæka gerir svona lagað. Og ekki bara fátæka, það hlýtur að þurfa hugarfar örbirgðar til að gera annað eins. Sagt er að nútíminn einkennist af hraða, sífelldum tækninýjungum, og lygum og hálfsannleika sem streyma um netið eins og blóð um æðar. Ég skal vera síðastur til að andmæla þessu. Þó er eitt sem er enn þá sterkara einkenni á nútímanum en allt þetta til samans: trúin á skort. Kristni, íslam, búddisma, gyðingdómi, hindúisma og öllum þessum stóru trúarbrögðum hefur verið velt af stalli fyrir nýja trú: Það er trúin á skort.“
Við stóðum á grónum bakka við lítinn læk sem liðaðist rólyndislega um hálsinn ofan við Hrafnkelsdal. Þrælaalda og Þrælaháls voru næstu kennileiti og vinur minn farinn að ræða um trúarbrögð.
„Í gamla daga var dyggð að vera guðhræddur. Þetta skildi ég ekki sem barn, mér hafði verið sagt að Guð væri góður, elskaði alla, og sá því enga ástæðu til að óttast hann.
Í samtímanum er okkur kennt að óttast skortinn, sem eins og Guð er alltaf sagður á næsta leiti. Ófullnægjan er nýja erfðasyndin. Fyrsta boðorð hinna nýju trúarbragða er: Leitið fullnægju.
En sérhver ávinningur er aðeins ávísun á nýjan skort. Og ef við viljum ekki verða skortinum að bráð þá verðum við að birgja okkur upp, kaupa meira, virkja meira, keyra meira, fljúga meira, borða meira, sífellt meira, meira, meira ... Þess vegna erum við fátæk. Við eigum kannski meira en áður fyrr, en okkur skortir líka meira. Þessi nýju trúarbrögð hafa dæmt okkur til eilífrar fátæktar, dæmt okkur til að geta ekki látið neitt í friði. Við slítum upp sérhvert blóm sem verður á vegi okkar í von um að bægja skortinum í burtu um stundar sakir. Afleggjari sem verður á vegi fólks færir því ekki augnablik frelsis vegna þess að skorturinn hefur umbreytt lífinu í nauðung.“
Við stigum aftur inn í bílinn og ókum í rólegheitum niður í Hrafnkelsdal á meðan vinur minn rifjaði upp söguna af goðanum sem drap smala fyrir að fara á bak hesti.
Höfundur er heimspekingur.
Greinin birtist fyrst í Heimildinni.