Banner image

Hugleiðing um náttúruvernd

Hugarfarsbreyting þarf að koma til ef raunveruleg náttúruvernd á Íslandi á að verða að veruleika. Ég held að það sé þörf fyrir sérstakan stjórnmálaflokk sem helgar sig náttúruvernd þar sem enginn núverandi starfandi stjórnmálflokkur virðist vera heill í verndun náttúru Íslands. Þjóðin þarf alvöru græningjaflokk.

Halldór Laxness skáld skrifaði stórmerkilega tímamótagrein í Morgunblaðið árið 1970, „Hernaðurinn gegn landinu“. Þessi grein ætti að vera skyldulesning allra Íslendinga. Halldór hafði mjög næman skilning á nauðsyn náttúruverndar á Íslandi. Grein hans kom í kjölfar þess að þingeyskir bændur tóku lögin í sínar hendur, stöðvuðu framkvæmdir og sprengdu undirstöður stíflu sem byrjað var að byggja í Laxá þar sem sökkva átti heilum dal undir uppistöðulón, að sjálfsögðu í óþökk íbúanna þar.

Í þessari frægu blaðagrein kemur skáldið víða við. Hann minnist þess hvernig Ísland leit út þegar landnámsmenn komu hingað fyrst. Hann ræðir framræslu mýra til að búa til valllendi, hann ræðir tvískinnungsháttinn: og segir: „Meðan þeir eru að fara með kvæði Jónasar og Steingríms um krystalstærar ár eru þeir kanski að keppast við að fylla þessar ár af sorpi. Þeir sem vaða mest uppi á opinberum vettvangi tala oft einsog þeim væri óljóst hvað fólki er heilagt.“

Hann minnist á það hvernig Íslendingar fengu hjálp að utan til bjargar Þjórsárverum.

Náttúra Íslands er mörgum heilagt mál. Það eru svo margir sem skynja heildina, að allt er í samhengi, maður og náttúra. Náttúran er lifandi, það eru alls staðar lífríki; í vötnunum, ánum, mýrunum og fuglum.

Því ætti að vera alveg skilyrðislaus skylda okkar sem nú lifum og fáum að njóta náttúrunnar og landsins gæða og fegurðar að skila henni jafngóðri til næstu kynslóða.

Hvað eru verðmæti? Það eru auðvitað skiptar skoðanir á verðmætum. En er ekki ósnortin náttúra Íslands verðmæti í sjálfu sér? Munu ekki komandi kynslóðir þakka okkur fyrir náttúruverndina eða áfellast okkur fyrir öll náttúruspjöllin? Þarna kemur skáldið að kjarna málsins.

Það er alvarlegt mál þegar gróðahyggja og skammtímahagsmunir taka völdin og ofbeldið gagnvart náttúrunni verður allsráðandi til að búa til orku. Hvað sem það kostar. Þessi hernaður gagnvart landinu og náttúrunni er í raun hernaður gagnvart okkur sjálfum og tilvist okkar mannanna.

Það sem hefur gerst alls staðar er virðingarleysi gagnvart náttúrunni. Mennirnir hafa með taumlausri græðgi gengið freklega á auðlindir náttúrunnar. Víða um heim er hver lófastór blettur fullnýttur. Mennirnir hafa aðskilið sig frá náttúrunni með tvískinnungshætti og skilningsleysi. Það þarf almenna hugarfarsbreytingu, við verðum að virða náttúruna eins og hún er, vinna með náttúrunni en ekki gegn henni.

Við sem nútímamanneskjur verðum að átta okkur á verðmætunum í ósnortinni náttúru. Við þurfum að læra að virða hana og vernda. Ekki seinna en strax.

Höfundur er tæknifræðingur og eldri borgari.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.