Hugleiðing um Paradísarmissi
Snæbjörn Guðmundsson
2015-04-16
Hver er fallegasti staður á Íslandi, sem þú hefur aldrei séð og munt aldrei nokkurn tímann fá að sjá? Ég var svo lánsamur sumarið 2006 að fá tækifæri til að ganga um farveg Jöklu á Vesturöræfum ofan við Kárahnjúka, komast í Kringilsárrana og fylgja Jökulsá á Fljótsdal áður en landinu var sökkt og stórfljótin flutt úr farvegum sínum. Ég hugsa oft til þeirra Íslendinga og annarra jarðarbúa, sem aldrei fengu og munu aldrei fá þetta tækifæri, jafnvel þótt þeir gjarnan vildu.
Fyrir þeim er þetta magnaða land horfið, aðeins til á myndum og í frásögnum annarra, sem hvoru tveggja dofnar með tíma.
Yfirlýstur tilgangur með virkjanaframkvæmdunum við Kárahnjúka var að snúa við byggðaþróun á Austurlandi en auðvelt var að sjá fyrir að framkvæmdirnar myndu aldrei ná þeim árangri, það þurfti allt aðra og meiri hugarfarsbreytingu eins og komið hefur á daginn. Þessu gullfallega landsvæði var því fórnað fyrir skammtímahagsmuni örfárra, sem komust í feitt en skeyttu hvorki um náttúruna né hálendið og möguleika síðari kynslóða á að ganga um landið ósnortið.
Þetta er þó hreint ekki eina landsvæðið hér á landi, sem Íslendingar hafa ónýtt í þágu hinna örfáu núlifandi kynslóða. Margir muna ef til vill eftir Fögruhverum við Hágöngur sunnan Vonarskarðs, sem var sökkt undir Hágöngulón rétt fyrir síðustu aldamót, og nú síðast fóru hinar grænu Þóristungur undir lón Búðarhálsvirkjunar. Hve margir hér kannast hins vegar við staði sem hurfu enn fyrr? Ætli margir þekki Ármótafoss og Þórisós? Ármótafoss í Tungná var við ármót Þjórsár og Tungnár, neðan við Sultartanga. Þar mætti kolgrá Tungnaáin mjólkurlitaðri Þjórsá og var staðurinn af mörgum talinn einn fallegasti á hálendinu. Þangað hef ég komið nokkrum sinnum og litið skraufþurran farveg stórfljótanna augum og reynt að ímynda mér fossinn í allri sinni dýrð en hann hvarf fyrir meira en 30 árum. Að Þórisósi hef ég einnig komið nokkrum sinnum en allt fram yfir 1970 var Þórisós hið náttúrulega útfall Þórisvatns, sem var þá heiðblátt fjallavatn.
Hinn víðkunni vatnamaður, Sigurjón Rist, skrifaði eftirfarandi um Þórisós í bók sinni Vatns er þörf: „Hún var lindá, af ferðamönnum talin fegurst áa á hálendi landsins.“
Upp úr 1970 var Þórisós stíflaður og mjólkurlitaðri Köldukvísl veitt í Þórisvatn, sem breyttist þá í aurugt uppistöðulón fyrir virkjanirnar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Enn fleiri merkir náttúrustaðir á þessu svæði eru horfnir. Hrauneyjafoss og Þjófafoss eru jafnan þurrir sem og hið magnaða Tröllkonuhlaup. Undir Kvíslaveitu hurfu grónir hlutar Þjórsárvera og Kaldakvísl neðan Þórisvatns er yfirleitt þurr en hún féll þar áður um fallegan foss ofan í snoturt gljúfur. Króksver fóru undir Krókslón ofan Sigölduvirkjunar en neðar féll Tungnaá áður í krika sunnan með Sigöldu en þar er nú í farveginum yfirleitt vart meira en máttlaus smálæna. Fleira mætti telja til en allir eiga þessir staðir það sammerkt að hafa áður verið kynngimagnaðir en eru nú margir eða jafnvel flestir nánast algjörlega fallnir í gleymsku.
Ef við sofnum á verðinum munu margir fleiri staðir fara þessa sömu leið, verða fórnað í þágu örfárra gráðugra og frekra kynslóða sem tíma ekki að láta nokkra ákvörðun um nýtingu landsins í hendur afkomenda okkar. Við skulum hafa í huga að ákvörðun um að fórna stað undir virkjanamannvirki er endanleg og algjörlega óafturkræf á meðan ákvörðun um að hlífa stað er í raun aðeins það að viðhalda óbreyttu ástandi og engan veginn óafturkræf ákvörðun.
Enn fremur skulum við aldrei gleyma því að fyrir hvern virkjanakost eru tveir nýtingarkostir: annars vegar að virkja og hins vegar að virkja ekki.
Þótt sumir líti á að fórna megi nánast hverju sem er fyrir stundargróða er verndun án efa miklu betri og verðmætari nýting á ósnortnu landsvæði til skemmri og lengri tíma, sérstaklega ef við horfum meira en örfáa áratugi fram í tímann. Ósnortin landsvæði og náttúruminjar verða sífellt verðmætari eftir því sem gengið er á auðlindir og víðerni jarðar og okkur ber í raun siðferðileg skylda til að hlúa að og vernda eftir fremsta megni þau svæði sem eru í okkar umsjá hér á Íslandi.
Erum við tilbúin til að fórna náttúrugersemum eins og Sprengisandi, Hagavatni, Hólmsá, Mývatni, Skagafjarðarhálendinu, Aldeyjarfossi og Neðri-Þjórsá fyrir mögulega stundarhagsmuni örfárra? Er í lagi að svipta afkomendur okkar fullkomlega ákvörðunarréttinum um verndun landsvæða, sem mörg myndu teljast merkileg eða jafnvel einstök á heimsmælikvarða? Er í lagi að klippa í sundur hálendi Íslands í þágu stóriðju og verktaka? Við sem teljum svo ekki vera verðum þá að takast á við virkjanaöflin, sem eru sífellt að. Í kvöld verður haldin hátíð til verndar hálendi Íslands í Háskólabíó. Þar ættu allir sem vettlingi geta valdið að fjölmenna til að sýna stuðning sinn við náttúruvernd í verki.
Höfundur er jarðfræðingur og rithöfundur.
Greinin birtist fyrst á vefritinu Gruggi.