Banner image

Hvalá fyrir bitcoin?

Hafið þið velt því fyrir ykkur í hvað eigi að nota raf­magnið sem HS Orka hyggst fram­leiða með Hval­ár­virkj­un?

Eflaust svara margir ját­andi án þess þó að hafa fengið nokkurn tím­ann við­un­andi svör. Ýmsu er kastað fram til rétt­læt­ingar á hinum gríð­ar­miklu umhverf­is­fórnum sem fylgja myndu bygg­ingu virkj­un­ar­inn­ar. Því er til dæmis oft haldið fram að Hval­ár­virkjun sé byggð með atvinnu- og orku­ör­yggi Vest­firð­inga í huga, eða til að mæta auk­inni orku­notkun íslensks almenn­ings og orku­skiptum í sam­göng­um. Því miður stenst ekk­ert af því skoð­un.

Þegar allt kemur til alls er samt ekki svo flókið að sjá hverjir vænt­an­legir kaup­endur raf­orkunnar frá Hval­ár­virkjun verða. Lengi hefur nefni­lega verið ljóst að HS Orka ætlar að selja raf­magn frá Hval­ár­virkjun til sívax­andi orku­þarfar gagna­vera og kís­il­iðn­að­ar. Gagna­verin not­uðu hér­lendis yfir 120 MW af afli í byrjun síð­asta árs og krefj­ast sífellt meiri raf­orku. 90% orku­notk­unar gagna­vera á Íslandi fara í feikn­ar­lega orku­krefj­andi bitcoin-raf­mynt­ar­gröft sem skilur lítið eftir sig í atvinnu­líf­inu. Stundum eru aðfarir bitcoin­fyr­ir­tækj­anna jafn­vel vafa­samar líkt og hálf­gert gullæði ríki í grein­inni. Kís­il­iðn­að­ur­inn er ekki hót­inu skárri, ákaf­lega meng­andi eins og allir vita sem fylgst hafa með sorg­ar­sögu United Sil­icon á Suð­ur­nesjum.

Sem sagt, núver­andi virkja­na­upp­bygg­ing er knúin áfram af hækk­andi orku­verði til kís­il­vera en einkum gagna­vera, sem fyrst og fremst grafa eftir raf­myntum á „starfs­svæði“ einka­rekna orku­fyr­ir­tæk­is­ins HS Orku á Suð­ur­nesj­um. Orku­öflun HS Orku með bygg­ingu Hval­ár­virkj­unar kemur því af aug­ljósum ástæðum orku­ör­yggi og atvinnu­lífi Vest­firð­inga lítið við. Fram­lag orku­fyr­ir­tæk­is­ins er ekk­ert til sam­fé­lags­ins á Vest­fjörð­um. Ef lesið er í nýút­gefna skýrslu Lands­nets um raf­orku­af­hend­ingar­ör­yggi á Vest­fjörðum sést að orku­ör­yggið myndi aðeins aukast örlítið á norð­an­verðum Vest­fjörðum við bygg­ingu virkj­un­ar­inn­ar. Aukn­ingin er hverf­andi miðað við fyrri hug­myndir um Hval­ár­virkj­un, sem komust á flug fyrir rétt rúmum ára­tug, en þá átti að tengja virkj­un­ina beint við Ísa­fjörð. Vissu­lega hefði það verið mikil fram­för á þeim tíma í orku­ör­yggi lands­hlut­ans og var bein­línis for­senda þess að þessi kostur kom yfir höfuð til álita í ramma­á­ætl­un. Teng­ing um Djúp yfir á Ísa­fjörð var samt þá og er enn óraun­hæf vegna kostn­aðar og tækni­legra örð­ug­leika. Raf­orku­flutn­ings­kerfið á Vest­fjörðum tók hins vegar stakka­skiptum með vara­afls­stöð í Bol­ung­ar­vík 2015, um sama leyti og HS Orka tók yfir und­ir­bún­ing Hval­ár­virkj­un­ar. Þá var ekki lengur nauð­syn­legt að tengja virkj­un­ina beint við Ísa­fjörð og hug­mynd HS Orku varð ofan á um að tengja virkj­un­ina yfir í Kolla­fjörð á Barða­strönd til að koma orkunni suður eftir til kaup­enda utan Vest­fjarða. Hún mun því sem áður segir bæta litlu sem engu við orku­ör­yggi á norð­an­verðum Vest­fjörð­um.

Á sunn­an­verðum Vest­fjörðum eru aftur á móti raun­veru­leg vanda­mál varð­andi raf­orku­ör­yggi og áformar Lands­net þar fremur ein­falda hring­teng­inu og vara­afls­stöð á Keld­eyri við Tálkna­fjörð. Þar með verður lang­vinnt raf­magns­leysi að mestu úr sög­unni á Suð­ur­fjörð­un­um. Skamm­vinnar en hvim­leiðar raf­magns­trufl­anir myndu svo hverfa end­an­lega á bæði norð­an- og sunn­an­verðum Vest­fjörðum ef settar yrðu upp raf­hlöður sem tryggja hnökra­lausa yfir­færslu yfir á vara­afl ef raf­magnið dettur út. Þessar aðgerðir er hægt að klára fljótt og vel og krefj­ast hvorki línu­lagna yfir hálendi Vest­fjarða né eyði­legg­ingar víð­ern­anna upp af Ófeigs­firði með Hval­ár­virkj­un. Hvað Strandir áhrærir breytir Hval­ár­virkjun engu um orku­ör­yggi enda er þar lítið um straum­leysi þó enn vanti Orku­búið herslumun­inn til að klára löngu tíma­bæra þrí­fösun með jarð­streng í Árnes­hreppi. Á eftir því þyrfti að reka.

Eins og ofan­greindar upp­lýs­ingar leiða í ljós þá yrði raf­orkan frá Hval­ár­virkjun ein­fald­lega seld beint úr lands­fjórð­ungnum án nokk­urra áhrifa á vest­firskt sam­fé­lag. Raf­orka er sölu­vara á frjálsum sam­keppn­is­mark­aði og seld til þeirra sem vilja kaupa. Það er heldur ekk­ert leynd­ar­mál hver hug­mynd eig­enda og stjórn­enda HS Orku er með bygg­ingu Hval­ár­virkj­un­ar, þær koma greini­lega fram í gögnum sem til­tæk eru á net­inu. Fundir erlendra aðal­eig­enda HS Orku, sem haldnir hafa verið á vest­ur­strönd Kanada und­an­farin ár með fjár­festum og fjár­mála­ráð­gjöfum sýna þetta. Þar er vísað til Hval­ár­virkj­unar sem gull­gæsar og for­stjóra HS Orku er hrósað í hástert fyrir að standa sig ein­stak­lega vel. Gagna­ver og kís­il­iðn­aður eru hinir nýju vax­andi mark­aðir og ber þessa vænt­an­legu kaup­endur iðu­lega á góma. Aldrei er vikið að orku­ör­yggi Vest­firð­inga eða umhverf­is­fórnir færðar í tal. Allt snýst um hagn­að.

Þegar öllu er á botn­inn hvolft er samt ljóst að nákvæm­lega engin þörf er á því að virkja meira hér á landi nú enda fram­leiðum við þegar marg­falt meiri raf­orku á íbúa heldur en allar aðrar þjóðir heims. Raf­orku­þörf almenn­ings og atvinnu­lífs (utan orku­freks iðn­að­ar) mun vissu­lega aukast hægt en stöðugt á næstu ára­tugum með auknum íbúa­fjölda og orku­skipti í sam­göngum blasa við í náinni fram­tíð. Því má öllu bregð­ast við með hægri, mildri og skipu­legri upp­bygg­ingu orku­mann­virkja sem ekki gengur á villta nátt­úru eða víð­erni. Raunar hafa skyn­sam­ari raddir orku­geirans meira og minna hafnað þeim áróðri að hér þurfi að virkja stíft áfram á kostnað nátt­úr­unn­ar. For­stjóri Orku­veitu Reykja­víkur hefur til að mynda sagt að ekki þurfi að virkja neitt á næst­unni fyrir orku­skipti í sam­göngum. Ættum við ef til vill öll að hlusta betur á hann og aðra sem vilja fara hægar í sak­irnar og koma fram af nær­gætni gagn­vart nátt­úr­unni?

Fólk sem heldur því fram að reisa þurfi fleiri virkj­anir eins og Hval­ár­virkjun virð­ist því miður vera að hugsa um eitt­hvað allt annað en almanna­hag, hvort sem um er að ræða hag Vest­firð­inga eða íbúa ann­arra lands­hluta. Við ættum hrein­lega að hætta umsvifa­laust að velta okkur upp úr þessum hluta umræð­unnar og fara að ræða af alvöru hin risa­stóru aðal­at­riði, eins og spurn­ing­una um hvort rétt­læt­an­legt sé yfir höfuð að fórna einum allr­am­ik­il­væg­ustu og merki­leg­ustu víð­ernum Evr­ópu fyrir bitcoin-­námu­gröft og örlítið meiri hagnað í bók­haldi erlendra fjár­fest­ing­ar­sjóða.

Það er nefni­lega afar auð­velt er að ganga frek­lega á villta nátt­úru, leggja hana undir mann­anna verk og laska eða jafn­vel eyði­leggja. Á sama hátt er oft­ast nær nán­ast algjör­lega ómögu­legt að end­ur­heimta nátt­úr­una eða koma svæðum í upp­runa­legt horf eftir að þeim hefur verið raskað af orku­fyr­ir­tækjum eða öðrum stór­tækum fram­kvæmd­ar­að­il­um. Í til­felli Hval­ár­virkj­unar væri verið að fórna á end­an­legan og óaft­ur­kræfan hátt til allrar fram­tíðar gríð­ar­dýr­mætu og ósnortnu svæði, sem mun aðeins aukast hratt með tím­anum að verð­mæti í augum okkar og umheims­ins.

Óbyggð víð­erni eins og svæðið sem hér er undir eru orðin mjög fágæt í heim­inum. Það er hrein­lega glóru­laust og óverj­andi að fórna víð­átt­unni fyrir óslökkvandi orku­þorsta and­lits­lausra raf­mynt­argull­graf­ara og eig­endur orku­fyr­ir­tækja. Við skuldum kyn­slóðum fram­tíð­ar­innar að hugsa betur um nátt­úru­ger­semarnar okkar en það.

Eða hvað telja les­end­ur?

Höf­undur er jarð­fræð­ing­ur, höf­undur bók­ar­innar Veg­vísir um jarð­fræði Íslands og í sam­tök­unum ÓFEIGU nátt­úru­vernd sem vinna að verndun víð­ern­anna á Ófeigs­fjarð­ar­heiði.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.