Hvalárvirkjun og landslög
Tryggvi Felixson
2019-07-29
Upplýsingafulltrúi VesturVerks, sem er í meirihluta eign HS Orku, segir í grein um Hvalárvirkjun sem birtist í Kjarnanum þann 19. júlí síðastliðinn, að Rammaáætlun sé málamiðlun þar sem saman eru vegnir heildarhagsmunir. Hún spyr hvort Landvernd vilji fara á byrjunarreit í Rammaáætlun.
Afar sérstakt er að þurfa enn einu sinni að benda upplýsingafulltrúanum á að þó virkjanatillögur séu í nýtingaflokki Rammaáætlunar felst engin heimild til orkunýtingar í því. Sú flokkun merkir það eitt að viðkomandi virkjanakosti má skoða til nýtingar en þeir eru alltaf háðir umhverfismati og í lögunum er sjónarmiðum umhverfis- og náttúruverndar gert hátt undir höfði á öllum stigum.
Það þarf því ekki að fara á byrjunarreit. Landvernd er aðeins að fara eftir settum leikreglum. Leiðrétta þarf mistök.
Hitt er svo annað og mun alvarlegra mál að ekki var farið að lögum þegar Hvalárvirkjun var sett í nýtingarflokk á sínum tíma.
Tveir faghópar Rammaáætlunar (nr. 2 frá 2011) af fjórum töldu virkjunina ekki uppfylla skilyrði um gæði gagna og tveir faghópar gáfu henni slæma einkum bæði hvað varðar hagkvæmni og jákvæð áhrif á samfélag. Þrátt fyrir þetta féll virkjunin í nýtingaflokk og var samþykkt sem slík í þingsályktun. Síðar kolféll virkjunarhugmyndin í umhverfismati.
Lög voru brotin
Í lögum um verndar- og orkunýtingaáætlun, sem gerð Rammaáætlunar byggist á, segir að þau séu sett til að finna virkjunarkosti til frekari rannsókna sem byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag. Þá segir að í biðflokk Rammaáætlunar skuli falla virkjunarkostir, sem talið er að afla þurfi frekari upplýsinga um, svo meta megi hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Þá segir einnig að byggja skuli á faglegu mati á upplýsingum sem fyrir liggja, samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum og að vinna faghópa skuli lögð til grundvallar matinu.
Þessum ákvæðum var ekki fylgt þegar Hvalárvirkjun var sett í nýtingarflokk.
Lög standa ofar þingsályktun og ákvörðunin um að setja Hvalárvirkjun í nýtingarflokk er augljóslega ekki samræmi við framangreind ákvæði laga.
Í þessu ljósi telur Landvernd að flokkun Hvalárvirkjunar sé lögbrot. Í kjölfarið hafa komið fram upplýsingar um villandi seta landamerki og um veg sem lagður hefur verið á eignarlandi og gerður að virkjunarvegi án heimildar landeigenda. Og nú eru áformaðar frekari rannsóknir sem valda meiri landspjöllum en rannsóknarleyfi heimilar, sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur vinsamlega beðið fyrirtækið um að halda sig við.
Allt ber þetta að sama brunni. Ekki virðist hafa verið farið að lögum og reglum við undirbúning Hvalárvirkjunar.
Landvernd hafði fyrst tækifæri til að leggja framangreind álitamál fyrir lögformlega úrskurðaraðila þegar framkvæmdaleyfið var veitt í júní síðastliðnum. Sú vegferð er fyrst að byrja og Landvernd mun fylgja eftir umfjöllun um lögfræðileg álitamál eins lengi og það telst nauðsynlegt í vörn gegn stórtækum náttúruspjöllum á Drangajökulsvíðernum.
Fjárhagur Landverndar
Upplýsingafulltrúinn virðist hafa áhyggjur af fjárhag Landverndar. Það er óþarfi. Helsta uppspretta fjármagns til almenns rekstrar Landverndar eru framlög um sexþúsund félaga sem vilja stuðla að nauðsynlegu aðhaldi í samfélagi þar sem skammtíma gróðasjónarmið geta valdið miklum skaða á náttúruarfi þjóðarinnar, eins og Hvalárvirkjun er dæmi um. Til viðbótar kemur lítilsháttar en mikilvægur styrkur úr ríkissjóði. Þar að auki leysir Landvernd mikilvægt þjónustuverkefni vegna umhverfisstarfsemi í skólum landsins og nýtur til þess stuðnings úr ríkissjóði.
Eitt geta Landvernd og upplýsingafulltrúinn vonandi verið sammála um; með lögum skal land byggja og mistök eru til að læra af og leiðrétta meðan tími er til. Um það snýst málflutningur Landverndar.
Höfundur var formaður Landverndar 2019–2023.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.