Hver á að borga?
Þorgerður María Þorbjarnardóttir
2021-12-15
Nú er tekin við ný ríkisstjórn þar sem orkumál og náttúruvernd eru sett undir sama hatt. Loksins, segja sumir og aðrir eru óttaslegnir. Ég tilheyri báðum þessum hópum. Loksins eru þessir órjúfanlegu málaflokkar settir saman. Það vekur þó óhug að sjá hversu mikið af fréttum undanfarið hefur snúist um raforkuskort.
Orkuskipti er stóra lausnin sem talað er um í sambandi við loftslagsbreytingar en aldrei er talað um hvað við ætlum að gefa upp í staðinn.
Þegar umræðan kemur að því hvaðan orkan á að koma er alltaf talað um að við þurfum einfaldlega að virkja meira eins og það sé win-win lausn fyrir alla. Við framleiðum ótrúlega mikið af raforku. Þegar við framleiðum raforku þá seljum við notkun á henni. Það skiptir ekki máli hversu mikið eða lítið af vatnsafli við virkjum, við seljum notkunina og þess vegna hlýtur alltaf að koma upp sama vandamál þegar ekki rignir nægilega á hálendinu, við eigum minni orku en gert var ráð fyrir og raforka til kaupenda sem hafa samþykkt ótrygga raforku gegn lægra verði fá minni raforku.
Ég vil benda Íslendingum og nýskipuðum ráðherra á að við eigum nóg af orku á Íslandi til þess að rafvæða bílaflotann og lifa lífinu á sjálfbærari hátt. Fleiri virkjanir eru alls ekki win-win af því win-win lausnir eru ekki til. Ef kafað er nógu djúpt í hvaða lausn sem er þá er einhver sem borgar. Í tilviki fleiri virkjana þá eru það náttúran og vistkerfin.
Virði íslenskrar náttúru hefur í gegn um tíðina verið stórlega vanmetið.
Þetta er síendurtekið þema í íslensku skipulagi. Stjórnmálafólk er of hrætt við að taka ákvarðanir sem taka eitthvað frá einhverjum en það er auðveldara að láta náttúruna borga vegna þess að hún á sér fáa málsvara. Misskilningurinn hér liggur í því að loftslagskrísan snýst ekki bara um hlýnun og hækkun sjávarborðs. Hún snýst um lífríkið, vistkerfin og náttúruna. Vegna áhrifa mannsins er að hlýna, land og skógar eyðast og villtum dýrum og plöntum fækkar. Lausnir sem taka ekki mið af þessu eru ekki góðar lausnir og því er það ekki góð lausn að framleiða meiri raforku.
Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann og sjá að við þurfum að breyta lífsvenjum okkar og hætta að brenna kolefnaeldsneyti, hætta að ganga á auðlindir og vistkerfi náttúrunnar á ósjálfbæran hátt og við þurfum að ákveða hver borgar fyrir breytingarnar. Kannski getur álfyrirtæki sem er 90 milljarða dollara virði alveg tekið á sig einhvern kostnað?
Höfundur var formaður Ungra Umhverfissinna 2020–2021 og formaður Landverndar frá 2023.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.