Hver er okkar framtíðarsýn?
Það hljómar svo þægilega að geta haldið áfram með okkar sóunar- og neyslulífsstíl. Við bara rafvæðum samgöngurnar, kaupum „grænar“ vörur og kolefnisjöfnum okkur þegar við fáum samviskubit. Geggjað. Þannig reyna ríkisstjórnir vestrænna ríkja að selja okkur þeirra aðgerðaáætlanir sem lausn á loftslagsvandanum. Loftslagsmálin eru stærsta áskorun aldarinnar og innst inni vitum við vonandi öll að boðaðar aðgerðir eru ekki nóg og taka ekki á rót vandans.
Skýr skilaboð Sameinuðu þjóðanna
Skilaboð Sameinuðu þjóðanna til heimsbyggðarinnar eru að við þurfum að gera róttækar breytingar innan samfélagsins ef við ætlum að sleppa við verstu afleiðingar loftslagshamfara og stuðla að sjálfbærri þróun. Gríðarlegar kerfisbreytingar þurfa að eiga sér stað á skömmum tíma. Heimsmarkmiðin eru heildstæður leiðarvísir á þessari vegferð þar sem réttlæti innan og á milli kynslóða er haft að leiðarljósi.
Við getum ekki nálgast loftslagsmálin með því að minnka eingöngu kolefnisspor eigins lands ef við horfum ekki á allt í samhengi við sjálfbæra þróun og heimsmarkmiðin. Á meðan hagkerfið byggir á hagvexti, arðsemi og gróða, hvort sem hagvöxturinn fær nýja heitið „grænn hagvöxtur“ eður ei, munum við halda áfram að ofnýta náttúrulegar auðlindir og arðræna fátæk lönd og fátækt fólk til að þjóna þessu kerfi og gildum þess. Hagnaður hnattræna kapítalismans verður nefnilega að hluta til í gegnum og vegna arðráns, mannréttindabrota og eyðileggingar náttúrunnar. En náttúrulegar auðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar og vernd og viðhald þeirra ætti að vera grundvallarmarkmið okkar enda byggir tilvera okkar á því.
Hver ber ábyrgðina?
Höfum við misst stjórn á hagkerfinu eða skortir stjórnmálamenn bara viljann til að grípa inn í?
Hvernig stendur á því að ríki eru ennþá að niðurgreiða jarðefnaeldsneyti? Af hverju má menga án þess borga fyrir afleiðingarnar?
Af hverju má stunda þauleldi á dýrum vel vitandi að þetta er dýraníð? Af hverju má stunda ósjálfbæra framleiðsluhætti sem hafa hnignun og mengun vistkerfa og stórfellda skógareyðingu víðs vegar um heiminn í för með sér? Af hverju erum við í vestrænum heimi áfram að arðræna fátæku löndin, auðlindir og íbúa þess, til að byggja upp og viðhalda hagvexti, okkar eigin ríkidæmi og eyðslu-lífsstíl? Af hverju getum við ekki treyst því að það sem við kaupum og neytum hafi ekki skaðað annað fólk, dýr eða náttúruna? Í sífellu er reynt að yfirfæra ábyrgðina á einstaklinga sem eiga með kaupum sínum að reyna að breyta kerfinu í staðinn fyrir að ríkin setji stefnur, lög og reglur og verji með því almannahagsmuni.
Við þurfum að skapa raunverulegan þrýsting
Viðhorfs- og lífsstílsbreytingar einstaklinga í vestrænum heimi eru gífurlega mikilvægar og þær eiga eiginlega að vera sjálfsagðar og að verða að normi. En þær munu ekki koma í staðinn fyrir alvöru kerfisbreytingar sem ríkisstjórnir bera ábyrgð á. Einstaklingsaðgerðir og kerfisbreytingar haldast í hendur og styðja hvort annað. Það eru stjórnvöld sem setja reglurnar sem hagkerfið fer eftir og það er hagkerfið sem þarf að breytast!
Stór hópur fólks um allan heim, ekki síst unga fólkið, skilur nauðsyn þess að fara í róttækar kerfisbreytingar á meðan stjórnmálafólk skýlir sér á bakvið „grænan“ hagvöxt og áætlanir og fyrirheit sem eru á dagskrá „seinna“. Í ljósi þess geta einstaklingsaðgerðir núna jafnvel verið forsenda fyrir kerfisbreytingum. Með því að þrýsta á stjórnvöld og krefja þau um alvöru loftslagsaðgerðir getum við lagt okkar af mörkum í baráttunni fyrir betri heim. Við verðum að byggja upp stærstu fjöldahreyfingu sögunnar!
Hver er okkar framtíðarsýn?
Við þurfum að opna augun okkar fyrir mikilvægi róttækra kerfisbreytinga. Við þurfum að átta okkur á því að þær eru raunhæfar og að máttur okkar er mikill. Hér er gott að horfa til baka á sögu mannkyns. Fall Berlínarmúrsins er fjöldahreyfingu fólksins í landinu að þakka, eins afnám á aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku og kynþáttabaráttan í Bandaríkjunum svo fáein dæmi séu nefnd. Það sem getur hjálpað okkur mikið í því að finna baráttuanda er að búa til eigin framtíðarsýn.
Hvernig viljum við að heimurinn líti út eftir 20-40 ár með heimsmarkmiðin að leiðarljósi? Búðu til framtíðarsýn sem lætur þig hugsa út fyrir rammann og stíga skref út fyrir hamstrahjól hins daglegs lífs.
Framtíðin er það sem við stefnum að og búum til á hverjum degi. Það er kúnst að ímynda sér ákveðna óskastöðu sem er ekki til staðar í nútíðinni og læra hvernig væri hægt að raungera hana. Með slíka framtíðarsýn í huga vitum við hvert við stefnum, getum búið til markmiða- og aðgerðaáætlun sem vörður að markinu og tekið áhrifamikil skref í átt að sjálfbærri þróun og mikilvægum loftslagsmarkmiðum. Slík framtíðarsýn hjálpar okkur einnig í því að normgera það sem nú virðist róttækt og fjarlægt.
Það eru ekki öfgar að krefjast róttækra breytinga svo að afleiðingar loftslagshamfara verði ekki svo geigvænlegar að enginn muni vilja búa í slíkum heimi.
Við erum komin á þann tímapunkt þar sem draumaframtíðarsýn er orðin raunhæfari valkostur en óbreyttir lifnaðarhættir. Látum stjórnvöld vita að við samþykkjum ekki óbreyttar leikreglur! Við þurfum að finna kraftinn innra með okkur og hafa trú á okkur sjálfum og getu okkar til aðgerða. Við þurfum öll að rísa upp og berjast fyrir framtíðinni, draumaframtíðinni okkar. Við getum öll lagt eitthvað af mörkum, núna!
Höfundur er sérfræðingur hjá Landvernd.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.