Hvort er nú betra að græða eða tapa?
Gísli Sigurðsson
2013-08-22
Í nýliðinni viku varð fyrir mér nýtt hefti af tímaritinu Economist. Þar kom fram að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, hefði nýlega sent frá sér upplýsingar um ólíka þróun á heimsmarkaðsverði á villtum fiski og eldisfiski frá árinu 1990. Verð á villtum fiski hefði nær tvöfaldast en fiskur úr eldi aðeins hækkað um fimmtung. Það fylgdi sögunni að veiði á villtum fiski væri stöðug við 90 milljónir tonna á ári en að framleiðsla á eldisfiski hefði aukist töluvert. Það eru góð tíðindi fyrir neytendur að verð á eldisfiski hafi ekki hækkað upp úr öllu valdi – líkt og gerst hefur með villta fiskinn. En fyrir þjóð sem byggir afkomu sína að verulegu leyti á því að veiða og selja villtan og ómengaðan fisk úr sjálfbærum stofnum til manneldis er þetta umhugsunarvert. Hvort er nú betra að halda sig við villta fiskinn og markaðssetja hann áfram sem hreina náttúruafurð sem ætla má að sífellt hærra verð fáist fyrir – eða steypa hinni ómenguðu ímynd í voða með því að hefja umfangsmikið fiskeldi með tilheyrandi úrgangi, lyfjanotkun og útrýmingarhættu fyrir verðmætasta villta fiskinn í sjónum: laxinn?
Fram hefur komið að reikna megi þjóðarbúinu um tvö hundruð þúsund krónur í tekjur fyrir hvern stangveiddan lax í íslenskum ám.
Auk þess að spilla laxastofnum getur sjókvíaeldi eyðilagt skelfiskmið og hrygningarstöðvar villtra fiska í sjó – með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ekki þarf nema hæfilega reynslu af eldhúsbókhaldi til að gera sér grein fyrir því að fyrir þjóðarbúið í heild er meiri hagnaðarvon í að halda sig við villtan fisk úr sjálfbærum stofnum – en að steypa sér út í skuldir á ábyrgð skattborgaranna til að taka þátt í að framleiða mengaðan sjókvíafisk sem spillir hvarvetna umhverfinu og eyðileggur fyrir annarri matvælaframleiðslu sem byggist á hreinleika. Þegar við það bætist að smábátaeigendur geta nú margfaldað verðgildi kvótans á innfjarðamiðum með því að selja hvern fisk fyrir sig til sjóstangveiðimanna með tilheyrandi þjónustu í landi og á sjó ætti öllum efasemdamönnum að vera ljóst að mengandi fiskeldi í sjókvíum við Íslandsstrendur myndi alltaf valda meira tapi en hagnaði fyrir þjóðarbúið – og er þá ótalinn sá óbætanlegi skaði sem náttúran yrði fyrir.
Höfundur er íslenskufræðingur.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.