Banner image

Iðnaðarsvæðið á Ófeigsfjarðarheiði

Hér birt­ist þriðja og síð­asta grein mín í bili um íslensk víð­erni og Hval­ár­virkj­un. Í tveimur fyrri grein­un­um, Dranga­jök­ul­svíð­erni og villtasta pró­sentið og Sögur af sjálf­bærni, var fjallað um íslensk víð­erni í alþjóð­legu sam­hengi og ábyrgð Íslend­inga sem vörslu­manna allra villt­ustu víð­erna Evr­ópu and­spænis við­skipta­mód­eli erlendra fjár­fest­ing­ar­fyr­ir­tækja.

Í þess­ari grein kemur fram í fyrsta sinn kort­lagn­ing áætl­ana um að eyða 55% Dranga­jök­ul­svíð­erna og hug­leið­ing um hvers vegna hund­ruð millj­óna af pen­ingum virkj­un­ar­að­ila hafa ekki megnað að setja þau gögn fram svo almenn­ingur fái raunsanna mynd af þeim.

Ægi­vald fram­kvæmd­ar­að­ila

Ald­ar­fjórð­ungur er síðan fyrst voru sett lög á Íslandi til að tryggja að ekki væri farið í stórar fram­kvæmdir án þess að huga sér­stak­lega að umhverf­inu fyrst. Um síð­ustu alda­mót birt­ist sú lög­gjöf sem við búum við í dag, en hún á að tryggja að almenn­ingur geti haft áhrif á ákvörðun um fram­kvæmdir sem mikil áhrif hafa á umhverf­ið. Margir hafa heyrt talað um mat á umhverf­is­á­hrif­um, en gera sér kannski ekki skýra grein fyrir því hvað það nákvæm­lega merk­ir.

Í stuttu máli eru það reglur um að fram­kvæmd­ar­að­ili verði að gera glögga grein fyrir áætl­unum sínum og lík­legum áhrifum þeirra og setja þær í bún­ing sem almenn­ingur skil­ur. Þetta þarf að kynna fyrir við­eig­andi stofn­un­um, þeim sem málið varðar – og almenn­ingi. Ekki bara almenn­ingi í næsta umhverfi heldur öll­um.

Það er talið varða allan almenn­ing þegar umtals­verð umhverf­is­á­hrif verða af fram­kvæmdum sem í bígerð eru.

Þetta þarf að gera svo fljótt að allir val­kostir séu enn opn­ir, og það þarf að gera sér­staka grein fyrir raun­hæfum val­kostum og hver áhrif yrðu af þeim. Fram­kvæmd­ar­að­il­inn hefur ekki sjálf­dæmi hér.

Að þessu loknu þarf að gefa almenn­ingi hæfi­legan tíma til að skila athuga­semdum sínum við þessar hug­mynd­ir, og loks þarf fram­kvæmd­ar­að­ili að svara athuga­semdum skil­merki­lega og mál­efna­lega, taki hann þær ekki til greina. Allt er þetta á ábyrgð fram­kvæmd­ar­að­il­ans, en það vill stundum gleym­ast. Þegar um mat á áhrifum skipu­lags­á­ætl­ana er að ræða, er það hins vegar við­kom­andi sveit­ar­fé­lag sem ber alla ábyrgð­ina.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að í dag hljóti all­flestir að telja þetta skyn­sam­lega ráð­stöf­un. En það er líka jafn­aug­ljóst að það er ekki nóg að setja lög og reglur um alvöru mat á áhrifum fram­kvæmda, ef lögin virka svo ekki.

Göfug mark­mið um til­lit til umhverf­is­ins eru til­gangs­laus ef ekki er farið að regl­unum og til­gangur þeirra týn­ist.

Aðrir hags­munir en umhverf­is­ins virð­ast því miður oft ráða för þegar kemur að fram­fylgd þess­ara laga. Hér eru störf ráð­gjafa sem vinna umhverf­is­mat fram­kvæmda oftar en ekki ógagnsæ og óljós, sér­stak­lega fyrir almenn­ing, sem þetta á þó allt að snú­ast um. Ráð­gjaf­arnir hafa oft beina fjár­hags­lega hags­muni af því að af fram­kvæmd verði af því þeir eru sjálfir hönn­un­ar­að­ilar þeirra. Er ekki eitt­hvað alvar­lega bogið við það? Stofn­anir okkar eru auk þess iðu­lega und­ir­mann­aðar og leita sjaldan til utan­að­kom­andi sér­fræð­inga, sem óháðir eru fram­kvæmd­ar­að­il­um. Lítil sveit­ar­fé­lög sem taka þurfa afdrifa­ríkar ákvarð­anir um skipu­lags­mál og fram­kvæmdir verða alger­lega að treysta á ráð­gjafa fram­kvæmd­ar­að­il­anna.

Fjöl­mörg Evr­ópu­lönd hafa reynt að tryggja vand­aðar aðferðir við að meta áhrif stór­fram­kvæmda og sett sér­stakar reglur til að sann­reyna hæfni þeirra sem við það fást. Stjórn­völd skipu­lags­mála ákveða gjarnan hvaða sér­fræð­ingar mega vinna umhverf­is­mat. Ástæður svona reglna liggja kannski í augum uppi þegar við veltum þeim aðeins betur fyrir okk­ur, en þær fel­ast auð­vitað í sjálfum til­gangi þess­ara umhverf­is­matsæf­inga allra: Að taka ríkt til­lit til umhverf­is­ins og veita almenn­ingi raun­veru­legt færi á að hafa áhrif á ákvarð­anir sem mikil áhrif hafa á umhverfi og nátt­úru.

Hakað í box

Hvernig kemur þetta allt saman Hval­ár­virkj­un­ar­á­formunum við? Jú, þegar HS Orka tók yfir verk­efnið fyrir nokkrum árum var haf­ist handa við að koma því á kopp­inn eftir höfði nýja eig­and­ans, eins og fram kom í síð­ustu grein minni. Til þess var ráð­gjafa­fyr­ir­tæki á sviði virkj­ana­hönn­unar fengið til að end­ur­hanna virkj­un­ina. Í kjöl­farið tók við ferli til að full­nægja forms­at­riðum við und­ir­bún­ing fram­kvæmd­ar­inn­ar, eða „haka í box“ eins og rétt­ara væri að kalla það. Núna er rétt að biðja les­endur um að losa sig við allar hug­myndir um að sá hluti und­ir­bún­ings­ferl­is­ins sem snýr að almenn­ingi sé nokkuð meiri og merki­legri en nákvæm­lega það, „að haka í box“.

Til að gera langa sögu stutta mok­aði ráð­gjafa­fyr­ir­tæki HS Orku árið 2016 út meira en 400 blað­síðna umhverf­is­mats­skýrslu með við­auk­um, fullri af alls konar fróð­leik en tómri af raun­veru­legu gildi fyrir almenn­ing. Til þess var þó ætl­ast, í orði kveðnu, að almenn­ingur legð­ist yfir þetta hið snarasta, mót­aði sér gagn­rýna afstöðu til alls þess sem þessar 400 blað­síður geyma og kæmi henni svo frá sér í formi „at­huga­semda við frum­mats­skýrslu“. Hér væri áhuga­vert fyrir hinn almenna les­anda að prófa að opna mats­skýrslu að eigin vali, og taka eins og tvo til þrjá klukku­tíma yfir nokkrum kaffi­bollum í að reyna að botna aðeins í henni og móta sér skoðun á inni­hald­inu.

Taki það lengri tíma en lág­marks­frest að kom­ast fram úr upp­lýs­inga­flóð­inu munu fram­kvæmd­ar­að­ilar hafna því snar­lega að les­endur hafi rétt á að koma á fram­færi athuga­semdum síðar eða kvarta yfir því sem ekki skild­ist strax í upp­hafi. Athuga­semd­irnar eiga víst ekki að koma fram „á loka­metr­un­um“ og það er arg­asti dóna­skapur að kæra „seint í ferl­inu“ þegar allt er meira og minna til­bú­ið, séð frá sjón­ar­hóli fram­kvæmd­ar­að­ila og auð­vitað þeim sem bæði hannar og gerir umhverf­is­mat fyrir hann, og útbýr svo skipu­lags­gögn í hendur sveit­ar­stjórn­ar. Það verða jú allir að fara að leik­regl­um.

Hið sér­hæfða stór­flóð upp­lýs­inga sem almenn­ingur á að kom­ast fram úr í umhverf­is­mati Hval­ár­virkj­unar snýst um ótal atriði sem fæstir hafa áður kafað djúpt í eða fengið reynslu eða menntun til að velta fyrir sér. Þar er fjallað um stífl­ur, vatns­magn, rennsl­is­göng, lón, vegi, stöðv­ar­hús, efn­is­nám, vatnaf­ar, veitur og miðl­an­ir, núll­kost, mót­væg­is­að­gerð­ir, nátt­úru­far (reyndar í sorg­legri mýflugu­mynd), sam­fé­lag og margt fleira. Er boðið upp á launað umhverf­is­matsor­lof til að kom­ast yfir hund­ruðir blað­síðna af þessu?

Ofan á þetta hafa svo auð­vitað mjög fáir tíma og þekk­ingu til að sökkva sér ofan í og skilja teikn­ing­ar, skipu­lags­gögn og gróf­ari drætti virkj­ana­hug­mynda á land­inu. Fyrir flesta eru „að­al- og deiliskipu­lag“, „mat á umhverf­is­á­hrif­um“, „ramma­á­ætl­un“ og „aft­ur­kræf áhrif“ ill­skilj­an­leg hug­tök sem kastað er inn í umræð­una án nokk­urrar teng­ingar við dag­legt líf eða þann raun­veru­leika sem við flest lifum og hrærumst í. Þetta er alls ekki vegna getu­leysis almenn­ings til að skilja þessi hug­tök í grunn­inn heldur vegna þess að eng­inn leggur sig fram við að gera þau skilj­an­leg og setja í sam­hengi við raun­veru­leik­ann.

Mann grunar að hér sé ein­fald­lega verið að haka í box án þess að nokkurn tíma sé í raun og veru gert ráð fyrir að almenn­ingur setji sig inn í mál­in, þótt ekki sé nema vegna þess að það er allt of flókið og þvælt fyrir lang­flesta.

Hver er í alvöru til­gang­ur­inn með öllum þessum æfing­um? Felst hið marg­róm­aða „að­gengi almenn­ings að ákvarð­ana­töku“, sem kveðið er á um í Árósa­samn­ingnum frá 1998, í þessu furðu­lega ferli?

Bíddu nú við, eru ekki ein­hverjir fal­legir fossar þarna?

Verra en allt þetta, séð frá sjón­ar­hóli almenn­ings, er þó kannski að það er ýmis­legt sem ekki er fjallað um í svona virkj­ana­papp­ír­um. Hvernig eigum við að vita hverju er sleppt? Tökum eitt slá­andi dæmi úr umhverf­is­mati Hval­ár­virkj­un­ar.

Í umhverf­is­mat­inu öllu er ekki að finna eina ein­ustu ljós­mynd sem sýnir hvernig rennsli Drynj­anda og Rjúkanda, tveggja þeirra fossa sem merk­astir þykja upp af Ófeigs­firði, myndi minnka við virkj­un. Það sem meira er, þar er yfir höfuð ekki ein ein­asta mynd af foss­inum Rjúkanda. Um tugur mynda er hins­vegar af þriðja foss­in­um, Hvalár­fossi, sem er í alfara­leið. Ein ljós­mynd er af tign­ar­lega 70 metra háa Drynj­anda í Hvalá, og er hún birt í tvígang í mats­skýrsl­unni. Þessi foss mun hverfa. Alþjóð hefur nú sem betur fer fengið tæki­færi til að líta hann augum en það er ekki virkj­un­ar­að­ilum að þakka eða ráð­gjöfum þeirra, heldur miklu frekar þakk­ar­verðri þátta­gerð Láru Ómars­dóttur fyrir RÚV og Krist­jáns Más Unn­ars­sonar fyrir Stöð 2. Þar áður höfðu félaga­sam­tökin Rjúk­andi gert mynd­band af foss­inum, svo ekki sé minnst á frá­bærar myndir og kynn­ingar lækn­anna Tómasar Guð­bjarts­sonar og Ólafs Más Björns­sonar. Fleiri hafa fylgt á eftir og eru erlendir fjöl­miðlar farnir að koma á svæðið og veita því og mál­inu í heild athygli.

En hvernig lítur Drynj­andi út á þess­ari einu mynd sem er af honum í umhverf­is­mati HS Orku? Berum hana til gam­ans saman við mynd ljós­mynd­ar­ans Ragn­ars Axels­sonar af sama fossi. Telja les­endur að fag­leg og sann­gjörn mynd sé dregin upp af nátt­úru­feg­urð Drynj­anda í umhverf­is­mat­inu? Er þetta raun­sönn mynd af fossi sem hverf­ur? Er þetta yfir höfuð boð­leg fram­setn­ing í umhverf­is­mati sem á að þjóna þeim til­gangi að veita almenn­ingi inn­sýn í áhrif virkj­un­ar?

article image

Myndir af Drynjanda í Hvalá (Mynd 1: Vesturverk; Mynd 2: RAX)

Myndir af Drynjanda í Hvalá (Mynd 1: Vesturverk; Mynd 2: RAX)

Virkj­un­ar­að­ilar að „fara eftir regl­un­um“

Árið 2017 fram­leiddi ráð­gjafi HS Orku svo gögn fyrir aðal­skipu­lags­breyt­ingu og deiliskipu­lag til að búa í hag­inn fyrir við­skipta­módel HS Orku. Árnes­hreppur með sínar 50 millj­ónir króna í árs­tekjur sam­þykkti að sjálf­sögðu þær hug­mynd­ir, enda vand­séð hvernig fámenn­asti hreppur lands­ins (heims­ins?) ætti svo sem að geta gert ann­að, nema í hrepps­nefnd­inni sætu ofur­menni. Þetta var kynnt sem fyrra skipu­lags­skref af tveimur og til­gangur þess var sá einn, frá sjón­ar­hóli HS Orku, að veita Árnes­hreppi laga­legan stökk­pall til að gefa út fram­kvæmda­leyfi handa þeim fyrir lagn­ingu 25 km af vegum á Ófeigs­fjarð­ar­heiði til rann­sókna og und­ir­bún­ings fyrir virkjun og reisa um leið fyr­ir­ferð­ar­mikið athafna- og iðn­að­ar­svæði skammt fyrir neðan ármót Rjúkanda og Hvalár.

Jú, engan foss á að snerta og engum vötnum að raska „í þessum áfanga“, sem virkj­un­ar­að­ilar vilja hefja helst strax í vor (og hafa svo sem viljað öll síð­ustu vor). Veg­irnir myndu auð­vitað einir og sér samt skerða víð­ernin þótt stífl­urnar kæmu síð­ar. Þegar lagðir hafa verið tugir kíló­metra af veg­um, þótt það sé bara sagt vera í „rann­sókn­ar­skyn­i“, er aug­ljós­lega búið að inn­sigla örlög Ófeigs­fjarð­ar­heiðar og það án þess að eig­in­leg virkj­ana- eða fram­kvæmda­leyfi hafi einu sinni verið gefin út. Með þessu móti má í raun koma fram­kvæmdum af stað undir yfir­skini „und­ir­bún­ings­rann­sókna“ og klippa víð­ernin niður án þess að þurfa að fá sjálft virkj­un­ar­leyf­ið. Er þetta kannski „að fara eftir regl­un­um“ og eru þær þá ekki farnar að þjóna öðru en til stóð?

Það skiptir engu máli þótt ráð­gjafi HS Orku full­yrði að þetta sé allt „aft­ur­kræft“ að því leyti að ef ekki komi til virkj­unar megi ein­fald­lega fjar­lægja þessa 25 km af vega­slóð­um. Les­endur þurfa ekki verk­fræði­gráðu til að sjá að slíkar hug­myndir hafa ekki nokkra teng­ingu við raun­veru­leik­ann.

Tugir kíló­metra af virkj­un­ar­vegum verða aldrei máðir út þótt ekki sé nema vegna óhóf­legs kostn­að­ar. Hvað þá tug­metra háar jarð­vegs­stíflur og önnur mann­virki að virkjun lok­inni, sem ráð­gjaf­inn gengur út frá, ýkju­laust, að hægt verði að fjar­lægja síðar („aft­ur­kræf ef mann­virki yrðu fjar­lægð“, bls. 102). Það er kannski spurn­ing um að ein­hver fari og reyni að jarð­tengja ráð­gjafann?

Fag­leg umfjöllun um víð­erni eða skrípa­leik­ur?

Allar þessar skýrslur og gögn ættu, ef allt væri með felldu, að sýna almenn­ingi á upp­lýsandi og hlut­lausan hátt áhrif fram­kvæmd­anna á mik­il­væga þætti eins og nátt­úru, sam­fé­lag og síð­ast en ekki síst, víð­ern­in, sem eru eitt allr­am­ik­il­væg­asta sér­kenni þessa svæð­is. Grein­ar­höf­undur hefur áður nefnt að umfjöllun um nátt­úru svæð­is­ins í umhverf­is­mat­inu sé dap­ur­leg, svo ekki sé dýpra í árinni tek­ið. Umfjöll­unin um víð­ernin sjálf og skerð­ingu þeirra af völdum fram­kvæmd­anna er þó sýnu verri.

Umfjöll­un­ina er að finna á blað­síðum 98–102 í umhverf­is­mats­skýrslu Hval­ár­virkj­un­ar. Þar hefur ráð­gjafi HS Orku dregið upp útlínur óbyggðra víð­erna eftir tíu ára gömlu korti frá Umhverf­is­stofn­un. Það kort er ekki í sam­ræmi við gild­andi nátt­úru­vernd­ar­lög og er auk þess byggt á ófull­nægj­andi gögnum og þar af leið­andi algjör­lega úrelt og ónot­hæft. Þetta gerir ráð­gjaf­inn þó ætla megi að hann hafi þekk­ingu, skiln­ing og reynslu til að teikna víð­ernin upp í sam­ræmi við gild­andi nátt­úru­vernd­ar­lög, bestu fáan­legu gögn og aðstæður á svæð­inu. Á þessu ætti ráð­gjaf­inn að hafa yfir­burða­þekk­ingu og skiln­ing vegna starfa sinni fyrir HS Orku við hönnun virkj­un­ar, umhverf­is­mat fram­kvæmdar og gerð skipu­lags­til­lagna allt frá árinu 2013.

Í stað þess að draga upp rétt­mætt víð­erna­kort og sýna víð­erna­skerð­ingu í sam­ræmi við nátt­úru­vernd­ar­lög dregur kort ráð­gjafans upp svo skakka mynd að grein­ar­höf­undur sér sig knú­inn til að draga sjálfur upp mörk víð­erna á svæð­inu og skerð­ingu þeirra af völdum Hval­ár­virkj­un­ar, þótt ekki sé nema til að upp­lýsa les­end­ur.

article image

Kort 1a og 1b af víðernum fyrir og eftir virkjun Hvalár

Kort 1a og 1b af víðernum fyrir og eftir virkjun Hvalár

Með því sést skýrt að ráð­gjafar HS Orku geta ekki skýlt sér á bak­við skort á opin­beru korti þegar þeir heykj­ast á því að teikna slíkt upp sjálf­ir. Ef ég get það, geta þeir það. Það skal tekið fram að þetta er ekki opin­bert kort og víð­erna­mörk eru áætluð af var­færni svo allar stærð­ar­tölur eru lík­lega van­á­ætl­aðar frekar en ofá­ætl­aðar (stærð Dranga­jök­ul­svíð­erna yrði senni­lega metin meiri en fram kemur á mínu kort­i).

Skerð­ing víð­erna vegna virkj­un­ar­fram­kvæmda einna og sér er í umhverf­is­mat­inu sögð 13,8% (226 km² af 1.635 km²). Grein­ar­höf­undur kemst hins vegar að þeirri nið­ur­stöðu að skerð­ingin sé 20% vegna Hval­ár­virkj­unar einn­ar, og rétt er að ítreka að hér hefur ekki verið gert ráð fyrir neinum raf­línum (víð­erna­skerð­ing virkj­un­ar, litað rautt á korti 1b, er 290 km² en heild­ar­flat­ar­mál Dranga­jök­ul­svíð­erna fyrir virkj­un, litað app­el­sínugult, er 1.435 km²).

Það er erfitt að segja nákvæm­lega til um af hverju það munar svona miklu á mati grein­ar­höf­undar og ráð­gjafa HS Orku á víð­ern­unum og skerð­ingu þeirra vegna virkj­un­ar, þar sem gagna­vinnsla ráð­gjafans er afar ógagnsæ og óljós og kortin í lélegri upp­lausn. Hluti af skýr­ing­unni er að kort­lagn­ing ráð­gjafans í umhverf­is­mat­inu er sem fyrr segir byggð á ófull­nægj­andi gögnum og lögum sem eru löngu fallin úr gildi. Fleira hlýtur þó að koma til. Athygl­is­vert er til dæmis að í umhverf­is­mati hafa ekki allir vegir sem lagðir yrðu á svæð­inu verið teikn­aðir upp. Þar segir að 25 km af virkj­ana­vegum verði lagðir frá Hvalár­fossi að stífl­unum uppi á heið­inni. Ofan á þá tölu munu þó bæt­ast í það minnsta um 10 km af námu­vegum frá efn­is­námum að stíflu­stæð­um, sam­kvæmt grófu mati grein­ar­höf­und­ar. Þar sem þessir vegir eru ekki teikn­aðir inn á kort má álykta að ekki hafi verið tekið til­lit til þeirra við útreikn­inga á víðerna­skerð­ingu, en dag­ljóst er að stór­lega van­metin lengd virkj­ana­vega er brot á skyldum fram­kvæmd­ar­að­ila. Slíkt á að sjálf­sögðu að sæta við­ur­lög­um.

Allt ofan­greint kalla HS Orka og tals­menn hennar það að „fara eftir regl­u­m“, að virkj­unin hafi farið í „gegnum lög­bundið ferli“, almenn­ingur hafi haft sinn „þátt­töku­rétt“ og athuga­semdir núna séu lagðar fram „allt of seint í ferl­in­u“.

Reyndar er kom­inn heldur falskur tónn í þessi hug­tök og grein­ar­höf­undur við­ur­kennir að aðrar hug­myndir koma frekar upp í hug­ann hjá hon­um. Finnst kannski fleirum orðið „skrípa­leik­ur“ eiga betur við hér?

Þrjár virkj­anir fyrir eina!

Allra­mesti bölvaldur íslensku víð­ern­anna er samt ekki endi­lega stakar virkj­anir eða raf­línu­lagn­ir, jafn­vel í sjálfu sér ekki einu sinni stór­karla­legar fyr­ir­ætl­anir ætt­aðar úr stór­virkj­ana­hug­mynda­fræði síð­ustu ald­ar. Verst er nefni­lega van­geta okkar til að sjá heild­ar­mynd­ina, sjá sam­an­lögð heild­ar­á­hrif margra minni hug­mynda eða takast á við heild­ar­á­hrif ríkj­andi virkj­ana­stefnu. Kannski er ekki óhugs­andi að mann­skepnan hafi ein­fald­lega tak­mark­aða hæfni til að takast á við svona stórar hug­mynd­ir, að sjá svo risa­stóra mynd í heild sinni?

Þetta þekkja hönn­uðir stór­virkj­ana og ann­arra mann­virkja ágæt­lega. Til er vel þekkt fyr­ir­bæri í skipu­lags­fræð­um, sem kallað er „project splitt­ing“ upp á ensku.

Þegar koma á risa­verk­efnum með mikil og óásætt­an­leg heild­ar­á­hrif á nátt­úru og umhverfi í gegnum stjórn­kerfið er stundum gripið til þess ráðs að búta verk­efnin niður í smærri gleyp­an­legri eða melt­an­legri bita sem hægt er að kyngja einum í einu.

Með því að minnka heild­ar­um­fang hvers áfanga er auð­veld­ara að koma verk­efn­inu í gegn heldur en ef það væri strax lagt fram í heild sinni.

Þá komum við aftur að Ófeigs­fjarð­ar­heiði og Dranga­jök­ul­svíð­ern­um. Lík­leg­ast hafa fáir les­endur áttað sig á enda­stöð­inni sem blasir við því svæði. Hver er loka­mynd­in? Jú, uppi á Ófeigs­fjarð­ar­heiði er nefni­lega ekki aðeins áætlað að reisa eina virkj­un, Hval­ár­virkjun sem flestir kann­ast við, heldur eru í heild­ina áætl­anir uppi um þrjár virkj­anir á heið­inni. Hval­ár­virkjun liggur aust­ast á heið­inni ofan við Eyvind­ar- og Ófeigs­firði, Aust­ur­gils­virkjun liggur upp af Skjald­fann­ar­dal í jaðri Dranga­jök­uls og Skúfna­vatna­virkjun er áætluð upp af Hvanna­dal á Langa­dals­strönd. Virkj­an­irnar þrjár eru komnar mis­langt í hönnun en grófir útdrættir þeirra allra liggja fyrir og hafa gert í þó nokkurn tíma. Öllum virkj­un­unum munu fylgja nýir veg­ir, stífl­ur, uppi­stöðu­lón, skurð­ir, námur, þurrir far­veg­ir, stöðv­ar­hús, aðkomu­göng, raf­lín­ur, tengi­virki og aðstöðu­hús. Þær verða jafn­framt allar að mestu leyti innan ósnortinna og villtra víð­erna Dranga­jök­uls.

Og þá kviknar spurn­ingin eðli­lega, hver ber ábyrgð á því að setja saman heild­ar­mynd­ina af þessu svæði svo almenn­ingur geti áttað sig á henni?

Eða er kannski rétt­ara að spyrja, hver ber ábyrgð á því að heild­ar­myndin hefur ekki enn verið lögð fyrir almenn­ing?

Það er að sjálf­sögðu ekki hlut­verk frjálsra félaga­sam­taka eða sjálf­boða­liða í nátt­úru­vernd­ar­sam­tökum að taka saman þessar upp­lýs­ing­ar. Þær ættu að vera til­tækar öllum sem hug hafa á að kynna sér þær og þær hefðu átt að vera komnar fram fyrir löngu. Því miður hefur hvergi verið birt heild­ar­kort yfir áætl­aðar fram­kvæmdir á víð­ern­unum suður af Dranga­jökli og það er borin von að HS Orka eða ráð­gjafar hennar leggi slíkt kort fram að eigin frum­kvæði. Grein­ar­höf­undur sett­ist því aftur niður við kort­lagn­ingu og dró upp kort af heild­ar­fram­kvæmd­unum fyrir les­end­ur.

Hér eru því fjögur kort sem sýna í fyrsta skipti heild­ar­mynd­ina af því hvernig Dranga­jök­ul­svíð­erni munu skerð­ast ef draumar HS Orku og eig­enda Aust­ur­gils­virkj­un­ar­hug­mynd­ar­innar ræt­ast.

article image

Kort 2a og 2b af Drangajökulsvíðernum og áhrifum af virkjun Hvalár

Kort 2a og 2b af Drangajökulsvíðernum og áhrifum af virkjun Hvalár

Fyrsta kortið sýnir hin sam­felldu Dranga­jök­ul­svíð­erni eins og þau eru í dag, um 1.435 km² að stærð, næst­stærstu óbyggðu víð­erni Íslands utan mið­há­lend­is­ins. Annað kortið (kort 2b) sýnir skerð­ingu víð­ern­anna með virkjun Hvalár og loft­línu­lagn­ingu frá virkj­un­inni yfir Ófeigs­fjarð­ar­heiði niður í Ísa­fjarð­ar­djúp. Með þeirri fram­kvæmd verða Dranga­jök­ul­svíð­erni klippt í sundur og munu sam­felld víð­erni norðan virkj­ana­svæð­is­ins minnka um 565 km² (úr 1.435 km² niður í 870 km²) eða um 40%. Ráð­gjafi HS Orku gefur reyndar ekki upp í umhverf­is­mati hver skerð­ing sam­felldra víð­erna norðan virkj­un­ar­svæð­is­ins verði en til­tekur bara heild­ar­skerð­ingu víð­erna upp á 21%, sem er hreint ekki það sama þar sem víð­ernin verða í mörgum minni bútum eftir virkjun og raf­línu­lögn.

article image

Kort 2c og 2d af áhrifum þriggja virkjana á Drangajökulsvíðerni

Kort 2c og 2d af áhrifum þriggja virkjana á Drangajökulsvíðerni

Þriðja kortið sýnir svo heild­ar­skerð­ingu víð­erna með öllum þremur virkj­un­un­um, sem eru áætl­aðar á Ófeigs­fjarð­ar­heiði. Fjórða kortið sýnir loks hin sam­felldu Dranga­jök­ul­svíð­erni sem sitja eftir þegar búið er að breyta Ófeigs­fjarð­ar­heiði í risa­stórt iðn­að­ar­svæði. Þau verða þá aðeins um 650 km² (úr 1.435 km²) og hafa skroppið saman um 55% eða sem nemur 785 km²! Dranga­jök­ul­svíð­erni verða þá ekki svipur hjá sjón, og munu kannski ná að vera meðal fimm til sex stærstu óbyggðu víð­erna utan mið­há­lend­is­ins.

Það má því segja að nán­ast algjör eyði­legg­ing þeirra blasi við ef þessar óverj­andi virkj­ana­hug­myndir ná fram að ganga.

Skýr­ari yfir­lits­mynd yfir iðn­að­ar­svæði fram­tíð­ar­innar uppi á Ófeigs­fjarð­ar­heiði má sjá neðar í grein­inni.

Allt eru þetta eru dæmi um þá ábyrgð sem höf­undar skýrslna og mats á umhverf­is­á­hrifum risa­fram­kvæmda eins og Hval­ár­virkj­unar bera raun­veru­lega fyrir hönd verk­kaupans, fram­kvæmd­ar­að­il­ans. Þeim er treyst fyrir að vinna fag­lega að mat­inu og sýna almenn­ingi, stofn­unum og sveit­ar­stjórn­ar­fólki umhverf­is­á­hrifin í réttu ljósi. Bendir umfjöllun og mat þeirra á víð­erna­skerð­ingu virkj­un­ar­innar og tengdra fram­kvæmda til þess að sú sé raun­in? Hver á að fara yfir vinnu þeirra og sann­reyna? Hefur Skipu­lags­stofnun mann­afla í það eft­ir­lit? Hafa almenn­ingur og frjáls félaga­sam­tök mann­skap, tíma og verk­færi til þess? Hverjum stendur það næst?

Að borða virkj­anafíl

Hvert var fram­lag ráð­gjafa HS Orku til þess að almenn­ingur mætti skilja betur þessa heild­ar­mynd af fram­tíð­ar­iðn­að­ar­svæð­inu uppi á Ófeigs­fjarð­ar­heiði? Svarið er: Nákvæm­lega ekk­ert. Ráð­gjaf­inn gerir í raun enga til­raun til að meta áhrif sem yrðu á víð­ernin af Aust­ur­gils­virkjun og Skúfna­vatna­virkj­un, þótt hann þekki vel til þeirra og eigi lögum sam­kvæmt að sýna áhrif tengdra fram­kvæmda.

Kannski mun ein­hver segja að þessar virkj­anir séu í raun ótengd­ar. Það ætti þó að vera auð­sætt hverjum sem horfir á kortin hér að ofan að þær eru það ekki, þó ekki sé nema vegna þess að þær eru allar á sama land­svæð­inu, innan hinna miklu Dranga­jök­ul­svíð­erna. Þar að auki tengj­ast þær allar í gegnum hönn­un­ar­að­il­ann, því ráð­gjafi HS Orku hefur komið að hönnun eða und­ir­bún­ingi allra þriggja, auk þess sem HS Orka er aðal­eig­andi bæði Hvalár- og Skúfna­vatna­virkj­ana­hug­mynd­anna. Að lokum myndu allar þessar virkj­anir tengj­ast á sama stað við raf­orku­flutn­ings­kerfi Lands­nets, vænt­an­lega í nýjum tengi­punkti á Langa­dals­strönd innst í Ísa­fjarð­ar­djúpi. Ráð­gjaf­inn lagði vissu­lega fram teikn­ingu af hugs­an­legri raf­línu­teng­ingu Hval­ár­virkj­unar einnar og sér og (rangri) skerð­ingu víð­erna af henni.

Um leið er alveg skýrt að Aust­ur­gils­virkjun og Skúfna­vatna­virkjun eru taldar alger for­senda teng­ingar Hval­ár­virkj­un­ar­hug­mynd­ar­innar eins og hún er nú. Nú standa meira að segja vonir virkj­ana­að­ila bein­línis til þess að í næstu viku muni stjórn­völd loks­ins bæn­heyra þá end­an­lega og láta Lands­net gefa sér þennan tengi­punkt. Hvað hefur þurft að smyrja, ef það verður svo?

Virkj­ana­hug­mynd­irnar eru því nátengdar að öllu leyti og jafn­vel þótt þetta væru þrír algjör­lega óskyldir aðilar sem hver hygði á sína virkjun óháð öðrum er engin leið fram hjá því að meta þyrfti virkj­an­irnar saman til að sýna heild­ar­á­hrif­in. Á því virð­ist eng­inn taka ábyrgð.

Það er allt of auð­velt að klippa þetta í sundur og stjórn­kerfið megnar ekki að halda uppi kröfu um heild­ar­mat áhrifa allra virkj­an­anna ásamt teng­ing­um.

Ef allar virkj­ana­hug­myndir á Ófeigs­fjarð­ar­heiði eru teknar saman eru þær farnar að minna óþyrmi­lega á stór­karla­leg­ustu virkj­ana­hug­myndir Lands­virkj­unar á mið­há­lend­inu, eins og til dæmis í Þjórs­ár­verum og á Skaga­fjarð­ar­há­lend­inu. Grein­ar­höf­undur tók saman helstu hönn­un­ar­gögn sem liggja fyrir tengt virkj­un­unum þremur á einu korti, sem sýnir þá svart á hvítu iðn­að­ar­svæði fram­tíð­ar­innar uppi á Ófeigs­fjarð­ar­heiði.

article image

Kort 3 af áhrifasvæðum þriggja virkjana á Ófeigsfjarðarheiði

Kort 3 af áhrifasvæðum þriggja virkjana á Ófeigsfjarðarheiði

Hver er þá besta leiðin til að breyta ósnortnum heiða­víð­ernum í risa­stórt orku­iðn­að­ar­svæði? Jú, þú byrjar á að fá sam­þykki í heima­byggð fyrir „smá­veg­ar­spotta“ upp á heiði til að „klára örlitlar rann­sókn­ir“ fyrir „alls ekki svo stóru virkj­un­ina“ sem mun í raun hafa „ósköp lítil áhrif“. Bút­aðu niður eins og þú getur og komdu litlu bút­unum í gegn án þess að tengja hlut­ina saman eða setja í sam­hengi. Þetta lítur ekki svo illa út í byrj­un. Svo held­urðu ein­fald­lega áfram að potast þar til búið er að reisa þrjár virkj­anir með stífl­um, skurð­um, virkj­ana­veg­um, raf­línum og öllu öðru til­heyr­andi. Útkoman er full­kom­lega end­an­leg eyði­legg­ing meira en helm­ings einna merk­ustu og mik­il­væg­ustu víð­erna Íslands, jafn­vel Evr­ópu. Það virð­ist nefni­lega ekk­ert svo flókið mál að láta almenn­ing, sem hefur lítil sem engin tök á að graf­ast fyrir um end­an­lega útkomu svona verk­efna, borða fíl­inn – einn bita í einu, þar til setið er uppi með risa­stórt orku­iðn­að­ar­svæði á Ófeigs­fjarð­ar­heiði.

En hvað með Vest­firð­inga?

En hvað þá með Vest­firð­inga, gæti ein­hver spurt. Jah, er nokkuð með þá? Bæj­ar­stjóri einn fyrir austan mun eitt sinn hafa sagt við íbúa á fundi að eng­inn neyddi þá til að búa þar og lands­byggðin hefði nóg fram að færa fram yfir höf­uð­borg­ar­svæðið til að það þyrfti ekki að barma sér yfir aðstæðum úti á landi. Og þótt grein­ar­höf­undur hafi ekki reynslu af því að búa á lands­byggð­inni þá hefur hann það ekki á til­finn­ing­unni að Vest­firð­ingar frekar en aðrir utan höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins hafi nokkurn áhuga á að láta „bjarga sér“.

Mætur maður að vestan sem ég þekki sagði eitt sinn við mig að Vest­firð­ingar þyrftu ekk­ert annað frá stjórn­völdum en að fá að sitja við sama borð og flestir aðrir lands­menn hvað varðar raf­orku­ör­yggi, sam­göngur og fjar­skipti. Þetta ættu allir að geta tekið und­ir, enda eðli­legur og sjálf­sagður hluti af nútíma­sam­fé­lagi á land­inu öllu, ekki bara á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Þessir hlutir eiga að vera í lagi alls staðar þar sem stjórn­völd vilja á annað borð halda byggð og það er grafal­var­legt mál að stjórn­völd hafi brugð­ist íbúum Árnes­hrepps í þessum efn­um. Hval­ár­virkjun mun hins vegar ekki laga neitt af þessu þó vonin í brjóstum heima­manna sé björt og hrein.

Engar sam­göngu­bætur til og frá Árnes­hreppi suður í nágranna­sveit­ar­fé­lögin munu fylgja virkj­un, aðeins upp­byggður vegur í óbyggðum sem ekki nýt­ist nema til að kom­ast að virkj­un­inni og iðn­að­ar­svæð­inu uppi á heið­inni. Fram­kvæmdum lýkur 2-3 árum eftir að þær byrja og allir verka­menn fara. Raf­orku­ör­yggi mun ekki heldur aukast í Árnes­hreppi þar sem dreifi­kerf­is­lína Orku­bús­ins um Tré­kyll­is­heiði frá Kald­rana­nes­hreppi er þegar komin í jörð að miklu leyti og lagn­ing þriggja fasa raf­strengja er ráð­gerð, óháð Hval­ár­virkj­un. Virkj­un­ar­að­ilar mættu heldur ekki leggja raf­línur sjálfir innan Árnes­hrepps sam­kvæmt lög­um.

Allt þetta hefur marg­komið fram en tals­menn HS Orku þrá­ast við og halda áfram að selja heima­fólki virkjun sem lausn á vanda­málum sem hún er ekki svar við, og stjórn­völd eiga þess utan að leysa.

En má þá ekki fólk á hverjum stað nýta nátt­úr­una eftir eigin höfði og sér í hag? Jú, auð­vit­að, en samt aðeins að því marki sem sú skylda setur okk­ur, að skila nátt­úr­unni að minnsta kosti jafn­góðri til næstu kyn­slóða, og helst í betra ástandi en því sem við tókum við henni. Það er eðli­legt að nýta nátt­úr­una, en við höfum ekki sið­ferði­legt leyfi til að ganga á hana og ofnýta þannig að geta næstu kyn­slóða til að lifa í henni dvíni. Við megum til að mynda ekki ofnýta fiski­stofna, raska stórum vist­kerfum eða eyði­leggja fágæt víð­erni.

Þegar kemur að virkj­un­unum og eyði­legg­ingu víð­erna verðum við því að sýna fram á óum­deil­an­lega nauð­syn þess að virkja. Þetta á við okkur öll hvar sem er á land­inu, í þétt­býli jafnt sem dreif­býli. Til að mega fórna víð­ernum lands­ins verður að setja fram mjög skýr rök á grunni almanna­hags. Eins og ég fór vel yfir í fyrstu grein minni eru víð­erni mjög þverr­andi auð­lind á jörð­inni, ekk­ert síður en aðrar auð­lind­ir. Eru hags­munir HS Orku og kanadískra, sviss­neskra og breskra eig­enda fyr­ir­tæk­is­ins svo brýnir að það þurfi að fórna einum mik­il­væg­ustu víð­ernum Evr­ópu fyrir þá?

Hval­ár­virkjun og hinar virkj­ana­hug­mynd­irnar á Ófeigs­fjarð­ar­heiði eru að þessu leyti alls ekki sjálf­bær­ar. Þær ganga á óverj­andi hátt á nátt­úr­una og mögu­leika afkom­enda okkar á sjálf­bærri nýt­ingu henn­ar. Ekki er hægt að færa nein mál­efna­leg rök fyrir sjálf­bærni virkj­ana þar og gegn því færði ég ítar­leg rök í síð­ustu grein minni. Virkjun Hvalár gengur á þessi við­kvæmu og fágætu nátt­úru­gæði sem víð­ernin eru, og eyði­leggur end­an­lega og algjör­lega mögu­leika kom­andi kyn­slóða á að njóta Dranga­jök­ul­svíð­erna ósnort­inna.

Með virkj­un­inni tökum við á sið­ferði­lega órétt­læt­an­legan hátt það sem er ekki okkar því við erum aðeins tíma­bundnir vörslu­menn þess­arra nátt­úru­gæða.

Af hverju eru svona mikil óbyggð víð­erni eftir á Íslandi en ekki ann­ars staðar í Evr­ópu? Í flestum löndum eru víð­ernin ein­fald­lega það sem var eftir þegar búið var að taka allt hent­ugt land undir land­bún­að, iðn­að, skóg­ar­högg, námu­vinnslu og önnur mann­anna verk. Af aug­ljósum ástæðum hentar land á Íslandi síður undir þetta og af þeim völdum eigum við enn ein­hver mestu og merki­leg­ustu víð­erni Evr­ópu. Viljum við ganga jafn­langt og aðrar Evr­ópu­þjóðir og klára að leggja víð­ernin okkar undir iðnað og orku­vinnslu sem við þurfum ekki einu sinni á að halda?

Með pen­inga í plast­pok­um?

Stuðn­ings­menn virkj­ana­fram­kvæmd­anna hafa ítrekað sakað okk­ur, sem höfnum fram­kvæmd­unum vegna óverj­andi og var­an­legra áhrifa á nátt­úru og víð­erni, um að aðhaf­ast af ann­ar­legum hvöt­um. Jafn­vel er efna­hags­leg staða nátt­úru­vernd­ar­sinna sem slík gerð tor­tryggi­leg. Ekki veit samt grein­ar­höf­undur hvað hann og aðrir nátt­úru­vernd­ar­sinnar ættu mögu­lega að hafa upp úr sjálf­boða­liða­striti við að vernda nátt­úr­una fyrir kom­andi kyn­slóð­ir, annað en sjálfa vit­neskj­una um að nátt­úru­ger­semum sé hlíft. Sú vit­neskjan er drif­kraftur fólks sem ver frí­tíma sínum í þetta strit, ekki pen­ingar eða önnur ver­ald­leg gæði.

Ein­hverjir sem kall­aðir eru auð­menn hafa ítrekað verið sak­aðir um að troða nátt­úru­vernd upp á aðra í krafti pen­inga. Kannski mætti spyrja það fólk sem heldur slíku fram hvort það hafi hug­mynd um kostnað eig­anda við­skipta­mód­els Hval­ár­virkj­unar við und­ir­bún­ing fram­kvæmd­anna? Eða fjár­hags­stöðu HS Orku og eig­enda henn­ar?

Íslenskir „auð­menn“ blikna nefni­lega í sam­an­burði við þau gríð­ar­sterku fjár­magns­öfl sem standa að baki Hval­ár­virkj­un­ar­á­formunum og næstu virkjun við, Skúfna­vatna­virkj­un. Rýnum aðeins í tölur og við­skipti. Þeim sem ekki hafa áhuga á þeim er bent á að hoppa beint í lokakafla þess­arar grein­ar.

Kanadíska kaup­hall­ar­skráða orku­fyr­ir­tækið Inn­ergex Renewa­ble Energy Inc. hóf í byrjun síð­asta árs að hasla sér völl á Íslandi og á 54% í HS Orku (að verð­mæti um 30 millj­arða íslenskra króna) eftir yfir­töku á öðru kanadísku félagi, Alt­erra. Inn­ergex sam­stæðan er gríð­ar­stór, á eignir í formi 70 virkj­ana að verð­mæti 583 millj­arða íslenskra króna, eigið fé er 57 millj­arðar og tekjur sam­stæð­unnar á síð­asta ári numu jafn­virði 52 millj­arða íslenskra, ef rétt er lesið úr töl­um, en hagn­aður 2,4 millj­örð­um. 16,5% tekn­anna komu frá Íslandi, í gegnum HS Orku, og er það hæsta hlut­fall tekna sem aflað er utan Kanada. Arður til eig­enda hluta­bréfa í Inn­ergex verður greiddur út í næsta mán­uði vegna árs­ins 2018 og fyrir leik­mann sýn­ast hluta­bréfa­kaup í félag­inu ágætis fjár­fest­ing, en arð­greiðslur á hlut hafa auk­ist jafnt og þétt sex ár í röð. Fyrrum hlut­hafar Alt­erra eiga 19% í Inn­ergex.

Til að átta sig betur á stærð­inni, þá er upp­sett raf­orku­afl, sem Inn­ergex ræður yfir, hátt í það sem er til staðar á Íslandi öllu og fyr­ir­tækið er í gríð­ar­legum vexti. Fram­leiðslan var 43% meiri á síð­asta ári en árið áður, tekjur juk­ust um 44% og sam­stæðan býst við 20% aukn­ingu á þessu ári.

Svo virð­ist sem auknum tekjum Inn­ergex sam­stæð­unnar sé m.a. ætlað að koma frá Íslandi, en í árs­skýrslu sem gefin var út í síð­ustu viku segir félagið vatns­afls­virkj­un­ar­mögu­leika sína á Íslandi vera 220 MW í upp­settu afli („prospect­ive project­s“). Hvaðan þau megawött eiga að koma, utan þeirra 65 sem klára munu Ófeigs­fjarð­ar­heiði, veit höf­undur þess­arar greinar ekki. Fram er komið að verð­mið­inn á Alt­erra, jafn­virði 99 millj­arða íslenskra króna, inni­hélt alls­konar fram­tíð­ar­músík („a large port­folio of prospect­ive project­s“). Utan Kanada á Inn­ergex vatns­afls­virkj­anir í rekstri í Chile og svo er ein 9,9 MW vatns­afls­virkjun í smíðum í upp­sveitum Árnes­sýslu.

Inn­ergex hafði í upp­hafi fyr­ir­vara á því hve lengi félagið hygð­ist halda á 54% hlutnum í HS Orku („non-core asset“) eftir yfir­töku á Alt­erra og bauð hlut­inn raunar út í form­legu sölu­ferli síð­asta haust. Þar er hins­vegar breskur auð­kýf­ingur sagður hafa áhuga á að ná yfir­ráðum og það virð­ist ekki vera vegna eign­ar­hluta í Bláa Lón­inu. Hann hefur þegar tryggt sér tæp­lega 13% hlut í HS Orku fyrir níu millj­arða í gegnum sviss­neskt félag og hefur viðrað þá hug­mynd að leggja sæstreng til að flytja orku út úr land­inu. Orkan í streng er sögð eiga að koma úr Hval­ár­virkjun meðal ann­ars.

Hefur þjóðin virki­lega hug á að leyfa erlendum fjár­fest­ing­ar­sjóðum og auð­mönnum að þurrka upp íslensk víð­erni í nafni „grænnar orku“?

Heild­ar­eignir HS Orku sam­stæð­unnar námu í árs­lok 2017 48 millj­örðum króna og eigið fé var 35,5 millj­arð­ar. Rekstr­ar­tekjur voru 7,5 millj­arðar og hagn­aður 4,6 millj­arð­ar. Mark­aðs­verð fyr­ir­tæk­is­ins er sagt vera 72 millj­arðar króna. Kostn­aður fyr­ir­tæk­is­ins við und­ir­bún­ing Hval­ár­virkj­unar hleypur sam­an­lagt á nokkrum hund­ruðum millj­óna íslenskra króna. Tölu­vert af því eru rann­sóknir sem not­aðar eru í umhverf­is­mats­skýrsl­ur. Hvaða nátt­úru­vernd­ar­sinnar eða sam­tök ráða yfir slíkum fjár­munum til að hrekja rang­færslur og reyna að sjá í gegnum orða­vað­al­inn? Jafn­vel þó ekki væri nema örlitlu brota­broti þessa? Svarið er eng­inn. Ekki nokkurn tím­ann. Hvergi í heim­in­um. Aðstöðu­munur nátt­úru­verndar og virkj­un­ar­manna er æpandi og af þeim sökum hvílir þung skylda á herðum stjórn­valda að gæta jafn­ræð­is, svo hinir ríku neyti ekki afls­mun­ar.

Hverjir eru hinu sönnu hags­muna­að­ilar í þessu máli? Hver kemur raun­veru­lega með poka fulla af pen­ingum norður í Árnes­hrepp? Viljum við að auð­æfum okkar í víð­ernum lands­ins verði fórnað fyrir þá?

Loka­orð

Það er auð­velt að fegra áætl­anir og hug­myndir með orð­ræðu og hand­völdum gögn­um, eða jafn­vel gagna­leysi. Hval­ár­virkjun er því miður dæmi um þetta, þar sem almenn­ingi er haldið óupp­lýstum um raun­veru­legar afleið­ingar og loka­út­komu verk­efn­is­ins. Jú, þetta eru allt opin­ber gögn en án hlut­lausrar og fag­legrar sam­an­tektar á þeim hefur hver og einn ein­stak­lingur nán­ast enga raun­veru­lega mögu­leika á að afla sér þeirra upp­lýs­inga sem þarf til að sjá verk­efnið í skýru ljósi. Almenn­ingur verður að treysta á fag­mennsku þeirra sem leggja gögnin fram. Í ljósi ofan­greindra upp­lýs­inga, telja les­endur að hönn­uðir og eig­endur Hval­ár­virkj­un­ar­hug­mynd­ar­innar hafi staðið undir því trausti?

Stóra spurn­ingin sem situr eftir er kannski þessi: Af hverju þurfa aðstand­endur verk­efna eins og Hval­ár­virkj­unar að fegra þau svona? Er ekki hægt að leggja fram öll við­eig­andi gögn og leggja verk­efnið fag­lega og hlut­lægt í dóm íbúa þessa lands, hvort sem þeir búa í Árnes­hreppi, ann­ars staðar á Vest­fjörð­um, fyrir sunnan eða kannski aust­an? Eigum við, og þá kannski sér­stak­lega íbúar Árnes­hrepps og nágrennis, ekki rétt á óbjag­aðri mynd af því sem gera á við nátt­úru­ger­semar okk­ar?

Eru fram­kvæmd­ar­að­ilar ef til vill hræddir við að verk­efn­inu verði þá hafnað án umhugs­unar vegna hinna miklu og óaft­ur­kræfu umhverf­is­á­hrifa, hvort sem litið er til líf­rík­is, vist­kerfa svæð­is­ins eða skerð­ingar hinna ómet­an­legu Dranga­jök­ul­svíð­erna? Af hverju grípa fylgj­endur virkj­un­ar­innar til þess ráðs að upp­nefna þau okkar sem gjalda var­hug við virkj­un­ar­á­formun­um, gefa í skyn að afskipti okkar séu á ein­hvern hátt óeðli­leg og tala um að fólkið á höf­uð­borg­ar­svæð­inu legg­ist gegn byggð á lands­byggð­inni, eða vilji jafn­vel friða heilu lands­hlut­ana?

Hvað er hug­takið „sér­fræð­ingur að sunn­an“ annað en kjark­laus afgreiðsla þegar rök og gögn þrýt­ur?

Er of erfitt að horfast í augu við þau óvé­fengj­an­legu sann­mæli sem komu fram í fyrstu grein minni um Dranga­jök­ul­svíð­erni, að svæðið með bæði Horn­ströndum og sjálfri Ófeigs­fjarð­ar­heiði sé ein allra­merki­leg­ustu og mik­il­væg­ustu víð­erni sem eftir eru í Evr­ópu og að þeim yrði eytt með virkjun Hvalár og ann­arra vatns­falla á svæð­inu?

Víð­ernin vernda sig ekki sjálf.

Höf­undur er jarð­fræð­ing­ur, höf­undur bók­ar­innar Veg­vísir um jarð­fræði Íslands og í sam­tök­unum ÓFEIGU nátt­úru­vernd, sem vinna að verndun víð­ern­anna á Ófeigs­fjarð­ar­heiði.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.