Iðnaðarsvæðið á Ófeigsfjarðarheiði
Snæbjörn Guðmundsson
2019-03-07
Hér birtist þriðja og síðasta grein mín í bili um íslensk víðerni og Hvalárvirkjun. Í tveimur fyrri greinunum, Drangajökulsvíðerni og villtasta prósentið og Sögur af sjálfbærni, var fjallað um íslensk víðerni í alþjóðlegu samhengi og ábyrgð Íslendinga sem vörslumanna allra villtustu víðerna Evrópu andspænis viðskiptamódeli erlendra fjárfestingarfyrirtækja.
Í þessari grein kemur fram í fyrsta sinn kortlagning áætlana um að eyða 55% Drangajökulsvíðerna og hugleiðing um hvers vegna hundruð milljóna af peningum virkjunaraðila hafa ekki megnað að setja þau gögn fram svo almenningur fái raunsanna mynd af þeim.
Ægivald framkvæmdaraðila
Aldarfjórðungur er síðan fyrst voru sett lög á Íslandi til að tryggja að ekki væri farið í stórar framkvæmdir án þess að huga sérstaklega að umhverfinu fyrst. Um síðustu aldamót birtist sú löggjöf sem við búum við í dag, en hún á að tryggja að almenningur geti haft áhrif á ákvörðun um framkvæmdir sem mikil áhrif hafa á umhverfið. Margir hafa heyrt talað um mat á umhverfisáhrifum, en gera sér kannski ekki skýra grein fyrir því hvað það nákvæmlega merkir.
Í stuttu máli eru það reglur um að framkvæmdaraðili verði að gera glögga grein fyrir áætlunum sínum og líklegum áhrifum þeirra og setja þær í búning sem almenningur skilur. Þetta þarf að kynna fyrir viðeigandi stofnunum, þeim sem málið varðar – og almenningi. Ekki bara almenningi í næsta umhverfi heldur öllum.
Það er talið varða allan almenning þegar umtalsverð umhverfisáhrif verða af framkvæmdum sem í bígerð eru.
Þetta þarf að gera svo fljótt að allir valkostir séu enn opnir, og það þarf að gera sérstaka grein fyrir raunhæfum valkostum og hver áhrif yrðu af þeim. Framkvæmdaraðilinn hefur ekki sjálfdæmi hér.
Að þessu loknu þarf að gefa almenningi hæfilegan tíma til að skila athugasemdum sínum við þessar hugmyndir, og loks þarf framkvæmdaraðili að svara athugasemdum skilmerkilega og málefnalega, taki hann þær ekki til greina. Allt er þetta á ábyrgð framkvæmdaraðilans, en það vill stundum gleymast. Þegar um mat á áhrifum skipulagsáætlana er að ræða, er það hins vegar viðkomandi sveitarfélag sem ber alla ábyrgðina.
Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að í dag hljóti allflestir að telja þetta skynsamlega ráðstöfun. En það er líka jafnaugljóst að það er ekki nóg að setja lög og reglur um alvöru mat á áhrifum framkvæmda, ef lögin virka svo ekki.
Göfug markmið um tillit til umhverfisins eru tilgangslaus ef ekki er farið að reglunum og tilgangur þeirra týnist.
Aðrir hagsmunir en umhverfisins virðast því miður oft ráða för þegar kemur að framfylgd þessara laga. Hér eru störf ráðgjafa sem vinna umhverfismat framkvæmda oftar en ekki ógagnsæ og óljós, sérstaklega fyrir almenning, sem þetta á þó allt að snúast um. Ráðgjafarnir hafa oft beina fjárhagslega hagsmuni af því að af framkvæmd verði af því þeir eru sjálfir hönnunaraðilar þeirra. Er ekki eitthvað alvarlega bogið við það? Stofnanir okkar eru auk þess iðulega undirmannaðar og leita sjaldan til utanaðkomandi sérfræðinga, sem óháðir eru framkvæmdaraðilum. Lítil sveitarfélög sem taka þurfa afdrifaríkar ákvarðanir um skipulagsmál og framkvæmdir verða algerlega að treysta á ráðgjafa framkvæmdaraðilanna.
Fjölmörg Evrópulönd hafa reynt að tryggja vandaðar aðferðir við að meta áhrif stórframkvæmda og sett sérstakar reglur til að sannreyna hæfni þeirra sem við það fást. Stjórnvöld skipulagsmála ákveða gjarnan hvaða sérfræðingar mega vinna umhverfismat. Ástæður svona reglna liggja kannski í augum uppi þegar við veltum þeim aðeins betur fyrir okkur, en þær felast auðvitað í sjálfum tilgangi þessara umhverfismatsæfinga allra: Að taka ríkt tillit til umhverfisins og veita almenningi raunverulegt færi á að hafa áhrif á ákvarðanir sem mikil áhrif hafa á umhverfi og náttúru.
Hakað í box
Hvernig kemur þetta allt saman Hvalárvirkjunaráformunum við? Jú, þegar HS Orka tók yfir verkefnið fyrir nokkrum árum var hafist handa við að koma því á koppinn eftir höfði nýja eigandans, eins og fram kom í síðustu grein minni. Til þess var ráðgjafafyrirtæki á sviði virkjanahönnunar fengið til að endurhanna virkjunina. Í kjölfarið tók við ferli til að fullnægja formsatriðum við undirbúning framkvæmdarinnar, eða „haka í box“ eins og réttara væri að kalla það. Núna er rétt að biðja lesendur um að losa sig við allar hugmyndir um að sá hluti undirbúningsferlisins sem snýr að almenningi sé nokkuð meiri og merkilegri en nákvæmlega það, „að haka í box“.
Til að gera langa sögu stutta mokaði ráðgjafafyrirtæki HS Orku árið 2016 út meira en 400 blaðsíðna umhverfismatsskýrslu með viðaukum, fullri af alls konar fróðleik en tómri af raunverulegu gildi fyrir almenning. Til þess var þó ætlast, í orði kveðnu, að almenningur legðist yfir þetta hið snarasta, mótaði sér gagnrýna afstöðu til alls þess sem þessar 400 blaðsíður geyma og kæmi henni svo frá sér í formi „athugasemda við frummatsskýrslu“. Hér væri áhugavert fyrir hinn almenna lesanda að prófa að opna matsskýrslu að eigin vali, og taka eins og tvo til þrjá klukkutíma yfir nokkrum kaffibollum í að reyna að botna aðeins í henni og móta sér skoðun á innihaldinu.
Taki það lengri tíma en lágmarksfrest að komast fram úr upplýsingaflóðinu munu framkvæmdaraðilar hafna því snarlega að lesendur hafi rétt á að koma á framfæri athugasemdum síðar eða kvarta yfir því sem ekki skildist strax í upphafi. Athugasemdirnar eiga víst ekki að koma fram „á lokametrunum“ og það er argasti dónaskapur að kæra „seint í ferlinu“ þegar allt er meira og minna tilbúið, séð frá sjónarhóli framkvæmdaraðila og auðvitað þeim sem bæði hannar og gerir umhverfismat fyrir hann, og útbýr svo skipulagsgögn í hendur sveitarstjórnar. Það verða jú allir að fara að leikreglum.
Hið sérhæfða stórflóð upplýsinga sem almenningur á að komast fram úr í umhverfismati Hvalárvirkjunar snýst um ótal atriði sem fæstir hafa áður kafað djúpt í eða fengið reynslu eða menntun til að velta fyrir sér. Þar er fjallað um stíflur, vatnsmagn, rennslisgöng, lón, vegi, stöðvarhús, efnisnám, vatnafar, veitur og miðlanir, núllkost, mótvægisaðgerðir, náttúrufar (reyndar í sorglegri mýflugumynd), samfélag og margt fleira. Er boðið upp á launað umhverfismatsorlof til að komast yfir hundruðir blaðsíðna af þessu?
Ofan á þetta hafa svo auðvitað mjög fáir tíma og þekkingu til að sökkva sér ofan í og skilja teikningar, skipulagsgögn og grófari drætti virkjanahugmynda á landinu. Fyrir flesta eru „aðal- og deiliskipulag“, „mat á umhverfisáhrifum“, „rammaáætlun“ og „afturkræf áhrif“ illskiljanleg hugtök sem kastað er inn í umræðuna án nokkurrar tengingar við daglegt líf eða þann raunveruleika sem við flest lifum og hrærumst í. Þetta er alls ekki vegna getuleysis almennings til að skilja þessi hugtök í grunninn heldur vegna þess að enginn leggur sig fram við að gera þau skiljanleg og setja í samhengi við raunveruleikann.
Mann grunar að hér sé einfaldlega verið að haka í box án þess að nokkurn tíma sé í raun og veru gert ráð fyrir að almenningur setji sig inn í málin, þótt ekki sé nema vegna þess að það er allt of flókið og þvælt fyrir langflesta.
Hver er í alvöru tilgangurinn með öllum þessum æfingum? Felst hið margrómaða „aðgengi almennings að ákvarðanatöku“, sem kveðið er á um í Árósasamningnum frá 1998, í þessu furðulega ferli?
Bíddu nú við, eru ekki einhverjir fallegir fossar þarna?
Verra en allt þetta, séð frá sjónarhóli almennings, er þó kannski að það er ýmislegt sem ekki er fjallað um í svona virkjanapappírum. Hvernig eigum við að vita hverju er sleppt? Tökum eitt sláandi dæmi úr umhverfismati Hvalárvirkjunar.
Í umhverfismatinu öllu er ekki að finna eina einustu ljósmynd sem sýnir hvernig rennsli Drynjanda og Rjúkanda, tveggja þeirra fossa sem merkastir þykja upp af Ófeigsfirði, myndi minnka við virkjun. Það sem meira er, þar er yfir höfuð ekki ein einasta mynd af fossinum Rjúkanda. Um tugur mynda er hinsvegar af þriðja fossinum, Hvalárfossi, sem er í alfaraleið. Ein ljósmynd er af tignarlega 70 metra háa Drynjanda í Hvalá, og er hún birt í tvígang í matsskýrslunni. Þessi foss mun hverfa. Alþjóð hefur nú sem betur fer fengið tækifæri til að líta hann augum en það er ekki virkjunaraðilum að þakka eða ráðgjöfum þeirra, heldur miklu frekar þakkarverðri þáttagerð Láru Ómarsdóttur fyrir RÚV og Kristjáns Más Unnarssonar fyrir Stöð 2. Þar áður höfðu félagasamtökin Rjúkandi gert myndband af fossinum, svo ekki sé minnst á frábærar myndir og kynningar læknanna Tómasar Guðbjartssonar og Ólafs Más Björnssonar. Fleiri hafa fylgt á eftir og eru erlendir fjölmiðlar farnir að koma á svæðið og veita því og málinu í heild athygli.
En hvernig lítur Drynjandi út á þessari einu mynd sem er af honum í umhverfismati HS Orku? Berum hana til gamans saman við mynd ljósmyndarans Ragnars Axelssonar af sama fossi. Telja lesendur að fagleg og sanngjörn mynd sé dregin upp af náttúrufegurð Drynjanda í umhverfismatinu? Er þetta raunsönn mynd af fossi sem hverfur? Er þetta yfir höfuð boðleg framsetning í umhverfismati sem á að þjóna þeim tilgangi að veita almenningi innsýn í áhrif virkjunar?
Myndir af Drynjanda í Hvalá (Mynd 1: Vesturverk; Mynd 2: RAX)
Myndir af Drynjanda í Hvalá (Mynd 1: Vesturverk; Mynd 2: RAX)
Virkjunaraðilar að „fara eftir reglunum“
Árið 2017 framleiddi ráðgjafi HS Orku svo gögn fyrir aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulag til að búa í haginn fyrir viðskiptamódel HS Orku. Árneshreppur með sínar 50 milljónir króna í árstekjur samþykkti að sjálfsögðu þær hugmyndir, enda vandséð hvernig fámennasti hreppur landsins (heimsins?) ætti svo sem að geta gert annað, nema í hreppsnefndinni sætu ofurmenni. Þetta var kynnt sem fyrra skipulagsskref af tveimur og tilgangur þess var sá einn, frá sjónarhóli HS Orku, að veita Árneshreppi lagalegan stökkpall til að gefa út framkvæmdaleyfi handa þeim fyrir lagningu 25 km af vegum á Ófeigsfjarðarheiði til rannsókna og undirbúnings fyrir virkjun og reisa um leið fyrirferðarmikið athafna- og iðnaðarsvæði skammt fyrir neðan ármót Rjúkanda og Hvalár.
Jú, engan foss á að snerta og engum vötnum að raska „í þessum áfanga“, sem virkjunaraðilar vilja hefja helst strax í vor (og hafa svo sem viljað öll síðustu vor). Vegirnir myndu auðvitað einir og sér samt skerða víðernin þótt stíflurnar kæmu síðar. Þegar lagðir hafa verið tugir kílómetra af vegum, þótt það sé bara sagt vera í „rannsóknarskyni“, er augljóslega búið að innsigla örlög Ófeigsfjarðarheiðar og það án þess að eiginleg virkjana- eða framkvæmdaleyfi hafi einu sinni verið gefin út. Með þessu móti má í raun koma framkvæmdum af stað undir yfirskini „undirbúningsrannsókna“ og klippa víðernin niður án þess að þurfa að fá sjálft virkjunarleyfið. Er þetta kannski „að fara eftir reglunum“ og eru þær þá ekki farnar að þjóna öðru en til stóð?
Það skiptir engu máli þótt ráðgjafi HS Orku fullyrði að þetta sé allt „afturkræft“ að því leyti að ef ekki komi til virkjunar megi einfaldlega fjarlægja þessa 25 km af vegaslóðum. Lesendur þurfa ekki verkfræðigráðu til að sjá að slíkar hugmyndir hafa ekki nokkra tengingu við raunveruleikann.
Tugir kílómetra af virkjunarvegum verða aldrei máðir út þótt ekki sé nema vegna óhóflegs kostnaðar. Hvað þá tugmetra háar jarðvegsstíflur og önnur mannvirki að virkjun lokinni, sem ráðgjafinn gengur út frá, ýkjulaust, að hægt verði að fjarlægja síðar („afturkræf ef mannvirki yrðu fjarlægð“, bls. 102). Það er kannski spurning um að einhver fari og reyni að jarðtengja ráðgjafann?
Fagleg umfjöllun um víðerni eða skrípaleikur?
Allar þessar skýrslur og gögn ættu, ef allt væri með felldu, að sýna almenningi á upplýsandi og hlutlausan hátt áhrif framkvæmdanna á mikilvæga þætti eins og náttúru, samfélag og síðast en ekki síst, víðernin, sem eru eitt allramikilvægasta sérkenni þessa svæðis. Greinarhöfundur hefur áður nefnt að umfjöllun um náttúru svæðisins í umhverfismatinu sé dapurleg, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Umfjöllunin um víðernin sjálf og skerðingu þeirra af völdum framkvæmdanna er þó sýnu verri.
Umfjöllunina er að finna á blaðsíðum 98–102 í umhverfismatsskýrslu Hvalárvirkjunar. Þar hefur ráðgjafi HS Orku dregið upp útlínur óbyggðra víðerna eftir tíu ára gömlu korti frá Umhverfisstofnun. Það kort er ekki í samræmi við gildandi náttúruverndarlög og er auk þess byggt á ófullnægjandi gögnum og þar af leiðandi algjörlega úrelt og ónothæft. Þetta gerir ráðgjafinn þó ætla megi að hann hafi þekkingu, skilning og reynslu til að teikna víðernin upp í samræmi við gildandi náttúruverndarlög, bestu fáanlegu gögn og aðstæður á svæðinu. Á þessu ætti ráðgjafinn að hafa yfirburðaþekkingu og skilning vegna starfa sinni fyrir HS Orku við hönnun virkjunar, umhverfismat framkvæmdar og gerð skipulagstillagna allt frá árinu 2013.
Í stað þess að draga upp réttmætt víðernakort og sýna víðernaskerðingu í samræmi við náttúruverndarlög dregur kort ráðgjafans upp svo skakka mynd að greinarhöfundur sér sig knúinn til að draga sjálfur upp mörk víðerna á svæðinu og skerðingu þeirra af völdum Hvalárvirkjunar, þótt ekki sé nema til að upplýsa lesendur.
Kort 1a og 1b af víðernum fyrir og eftir virkjun Hvalár
Kort 1a og 1b af víðernum fyrir og eftir virkjun Hvalár
Með því sést skýrt að ráðgjafar HS Orku geta ekki skýlt sér á bakvið skort á opinberu korti þegar þeir heykjast á því að teikna slíkt upp sjálfir. Ef ég get það, geta þeir það. Það skal tekið fram að þetta er ekki opinbert kort og víðernamörk eru áætluð af varfærni svo allar stærðartölur eru líklega vanáætlaðar frekar en ofáætlaðar (stærð Drangajökulsvíðerna yrði sennilega metin meiri en fram kemur á mínu korti).
Skerðing víðerna vegna virkjunarframkvæmda einna og sér er í umhverfismatinu sögð 13,8% (226 km² af 1.635 km²). Greinarhöfundur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að skerðingin sé 20% vegna Hvalárvirkjunar einnar, og rétt er að ítreka að hér hefur ekki verið gert ráð fyrir neinum raflínum (víðernaskerðing virkjunar, litað rautt á korti 1b, er 290 km² en heildarflatarmál Drangajökulsvíðerna fyrir virkjun, litað appelsínugult, er 1.435 km²).
Það er erfitt að segja nákvæmlega til um af hverju það munar svona miklu á mati greinarhöfundar og ráðgjafa HS Orku á víðernunum og skerðingu þeirra vegna virkjunar, þar sem gagnavinnsla ráðgjafans er afar ógagnsæ og óljós og kortin í lélegri upplausn. Hluti af skýringunni er að kortlagning ráðgjafans í umhverfismatinu er sem fyrr segir byggð á ófullnægjandi gögnum og lögum sem eru löngu fallin úr gildi. Fleira hlýtur þó að koma til. Athyglisvert er til dæmis að í umhverfismati hafa ekki allir vegir sem lagðir yrðu á svæðinu verið teiknaðir upp. Þar segir að 25 km af virkjanavegum verði lagðir frá Hvalárfossi að stíflunum uppi á heiðinni. Ofan á þá tölu munu þó bætast í það minnsta um 10 km af námuvegum frá efnisnámum að stíflustæðum, samkvæmt grófu mati greinarhöfundar. Þar sem þessir vegir eru ekki teiknaðir inn á kort má álykta að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra við útreikninga á víðernaskerðingu, en dagljóst er að stórlega vanmetin lengd virkjanavega er brot á skyldum framkvæmdaraðila. Slíkt á að sjálfsögðu að sæta viðurlögum.
Allt ofangreint kalla HS Orka og talsmenn hennar það að „fara eftir reglum“, að virkjunin hafi farið í „gegnum lögbundið ferli“, almenningur hafi haft sinn „þátttökurétt“ og athugasemdir núna séu lagðar fram „allt of seint í ferlinu“.
Reyndar er kominn heldur falskur tónn í þessi hugtök og greinarhöfundur viðurkennir að aðrar hugmyndir koma frekar upp í hugann hjá honum. Finnst kannski fleirum orðið „skrípaleikur“ eiga betur við hér?
Þrjár virkjanir fyrir eina!
Allramesti bölvaldur íslensku víðernanna er samt ekki endilega stakar virkjanir eða raflínulagnir, jafnvel í sjálfu sér ekki einu sinni stórkarlalegar fyrirætlanir ættaðar úr stórvirkjanahugmyndafræði síðustu aldar. Verst er nefnilega vangeta okkar til að sjá heildarmyndina, sjá samanlögð heildaráhrif margra minni hugmynda eða takast á við heildaráhrif ríkjandi virkjanastefnu. Kannski er ekki óhugsandi að mannskepnan hafi einfaldlega takmarkaða hæfni til að takast á við svona stórar hugmyndir, að sjá svo risastóra mynd í heild sinni?
Þetta þekkja hönnuðir stórvirkjana og annarra mannvirkja ágætlega. Til er vel þekkt fyrirbæri í skipulagsfræðum, sem kallað er „project splitting“ upp á ensku.
Þegar koma á risaverkefnum með mikil og óásættanleg heildaráhrif á náttúru og umhverfi í gegnum stjórnkerfið er stundum gripið til þess ráðs að búta verkefnin niður í smærri gleypanlegri eða meltanlegri bita sem hægt er að kyngja einum í einu.
Með því að minnka heildarumfang hvers áfanga er auðveldara að koma verkefninu í gegn heldur en ef það væri strax lagt fram í heild sinni.
Þá komum við aftur að Ófeigsfjarðarheiði og Drangajökulsvíðernum. Líklegast hafa fáir lesendur áttað sig á endastöðinni sem blasir við því svæði. Hver er lokamyndin? Jú, uppi á Ófeigsfjarðarheiði er nefnilega ekki aðeins áætlað að reisa eina virkjun, Hvalárvirkjun sem flestir kannast við, heldur eru í heildina áætlanir uppi um þrjár virkjanir á heiðinni. Hvalárvirkjun liggur austast á heiðinni ofan við Eyvindar- og Ófeigsfirði, Austurgilsvirkjun liggur upp af Skjaldfannardal í jaðri Drangajökuls og Skúfnavatnavirkjun er áætluð upp af Hvannadal á Langadalsströnd. Virkjanirnar þrjár eru komnar mislangt í hönnun en grófir útdrættir þeirra allra liggja fyrir og hafa gert í þó nokkurn tíma. Öllum virkjununum munu fylgja nýir vegir, stíflur, uppistöðulón, skurðir, námur, þurrir farvegir, stöðvarhús, aðkomugöng, raflínur, tengivirki og aðstöðuhús. Þær verða jafnframt allar að mestu leyti innan ósnortinna og villtra víðerna Drangajökuls.
Og þá kviknar spurningin eðlilega, hver ber ábyrgð á því að setja saman heildarmyndina af þessu svæði svo almenningur geti áttað sig á henni?
Eða er kannski réttara að spyrja, hver ber ábyrgð á því að heildarmyndin hefur ekki enn verið lögð fyrir almenning?
Það er að sjálfsögðu ekki hlutverk frjálsra félagasamtaka eða sjálfboðaliða í náttúruverndarsamtökum að taka saman þessar upplýsingar. Þær ættu að vera tiltækar öllum sem hug hafa á að kynna sér þær og þær hefðu átt að vera komnar fram fyrir löngu. Því miður hefur hvergi verið birt heildarkort yfir áætlaðar framkvæmdir á víðernunum suður af Drangajökli og það er borin von að HS Orka eða ráðgjafar hennar leggi slíkt kort fram að eigin frumkvæði. Greinarhöfundur settist því aftur niður við kortlagningu og dró upp kort af heildarframkvæmdunum fyrir lesendur.
Hér eru því fjögur kort sem sýna í fyrsta skipti heildarmyndina af því hvernig Drangajökulsvíðerni munu skerðast ef draumar HS Orku og eigenda Austurgilsvirkjunarhugmyndarinnar rætast.
Kort 2a og 2b af Drangajökulsvíðernum og áhrifum af virkjun Hvalár
Kort 2a og 2b af Drangajökulsvíðernum og áhrifum af virkjun Hvalár
Fyrsta kortið sýnir hin samfelldu Drangajökulsvíðerni eins og þau eru í dag, um 1.435 km² að stærð, næststærstu óbyggðu víðerni Íslands utan miðhálendisins. Annað kortið (kort 2b) sýnir skerðingu víðernanna með virkjun Hvalár og loftlínulagningu frá virkjuninni yfir Ófeigsfjarðarheiði niður í Ísafjarðardjúp. Með þeirri framkvæmd verða Drangajökulsvíðerni klippt í sundur og munu samfelld víðerni norðan virkjanasvæðisins minnka um 565 km² (úr 1.435 km² niður í 870 km²) eða um 40%. Ráðgjafi HS Orku gefur reyndar ekki upp í umhverfismati hver skerðing samfelldra víðerna norðan virkjunarsvæðisins verði en tiltekur bara heildarskerðingu víðerna upp á 21%, sem er hreint ekki það sama þar sem víðernin verða í mörgum minni bútum eftir virkjun og raflínulögn.
Kort 2c og 2d af áhrifum þriggja virkjana á Drangajökulsvíðerni
Kort 2c og 2d af áhrifum þriggja virkjana á Drangajökulsvíðerni
Þriðja kortið sýnir svo heildarskerðingu víðerna með öllum þremur virkjununum, sem eru áætlaðar á Ófeigsfjarðarheiði. Fjórða kortið sýnir loks hin samfelldu Drangajökulsvíðerni sem sitja eftir þegar búið er að breyta Ófeigsfjarðarheiði í risastórt iðnaðarsvæði. Þau verða þá aðeins um 650 km² (úr 1.435 km²) og hafa skroppið saman um 55% eða sem nemur 785 km²! Drangajökulsvíðerni verða þá ekki svipur hjá sjón, og munu kannski ná að vera meðal fimm til sex stærstu óbyggðu víðerna utan miðhálendisins.
Það má því segja að nánast algjör eyðilegging þeirra blasi við ef þessar óverjandi virkjanahugmyndir ná fram að ganga.
Skýrari yfirlitsmynd yfir iðnaðarsvæði framtíðarinnar uppi á Ófeigsfjarðarheiði má sjá neðar í greininni.
Allt eru þetta eru dæmi um þá ábyrgð sem höfundar skýrslna og mats á umhverfisáhrifum risaframkvæmda eins og Hvalárvirkjunar bera raunverulega fyrir hönd verkkaupans, framkvæmdaraðilans. Þeim er treyst fyrir að vinna faglega að matinu og sýna almenningi, stofnunum og sveitarstjórnarfólki umhverfisáhrifin í réttu ljósi. Bendir umfjöllun og mat þeirra á víðernaskerðingu virkjunarinnar og tengdra framkvæmda til þess að sú sé raunin? Hver á að fara yfir vinnu þeirra og sannreyna? Hefur Skipulagsstofnun mannafla í það eftirlit? Hafa almenningur og frjáls félagasamtök mannskap, tíma og verkfæri til þess? Hverjum stendur það næst?
Að borða virkjanafíl
Hvert var framlag ráðgjafa HS Orku til þess að almenningur mætti skilja betur þessa heildarmynd af framtíðariðnaðarsvæðinu uppi á Ófeigsfjarðarheiði? Svarið er: Nákvæmlega ekkert. Ráðgjafinn gerir í raun enga tilraun til að meta áhrif sem yrðu á víðernin af Austurgilsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun, þótt hann þekki vel til þeirra og eigi lögum samkvæmt að sýna áhrif tengdra framkvæmda.
Kannski mun einhver segja að þessar virkjanir séu í raun ótengdar. Það ætti þó að vera auðsætt hverjum sem horfir á kortin hér að ofan að þær eru það ekki, þó ekki sé nema vegna þess að þær eru allar á sama landsvæðinu, innan hinna miklu Drangajökulsvíðerna. Þar að auki tengjast þær allar í gegnum hönnunaraðilann, því ráðgjafi HS Orku hefur komið að hönnun eða undirbúningi allra þriggja, auk þess sem HS Orka er aðaleigandi bæði Hvalár- og Skúfnavatnavirkjanahugmyndanna. Að lokum myndu allar þessar virkjanir tengjast á sama stað við raforkuflutningskerfi Landsnets, væntanlega í nýjum tengipunkti á Langadalsströnd innst í Ísafjarðardjúpi. Ráðgjafinn lagði vissulega fram teikningu af hugsanlegri raflínutengingu Hvalárvirkjunar einnar og sér og (rangri) skerðingu víðerna af henni.
Um leið er alveg skýrt að Austurgilsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun eru taldar alger forsenda tengingar Hvalárvirkjunarhugmyndarinnar eins og hún er nú. Nú standa meira að segja vonir virkjanaaðila beinlínis til þess að í næstu viku muni stjórnvöld loksins bænheyra þá endanlega og láta Landsnet gefa sér þennan tengipunkt. Hvað hefur þurft að smyrja, ef það verður svo?
Virkjanahugmyndirnar eru því nátengdar að öllu leyti og jafnvel þótt þetta væru þrír algjörlega óskyldir aðilar sem hver hygði á sína virkjun óháð öðrum er engin leið fram hjá því að meta þyrfti virkjanirnar saman til að sýna heildaráhrifin. Á því virðist enginn taka ábyrgð.
Það er allt of auðvelt að klippa þetta í sundur og stjórnkerfið megnar ekki að halda uppi kröfu um heildarmat áhrifa allra virkjananna ásamt tengingum.
Ef allar virkjanahugmyndir á Ófeigsfjarðarheiði eru teknar saman eru þær farnar að minna óþyrmilega á stórkarlalegustu virkjanahugmyndir Landsvirkjunar á miðhálendinu, eins og til dæmis í Þjórsárverum og á Skagafjarðarhálendinu. Greinarhöfundur tók saman helstu hönnunargögn sem liggja fyrir tengt virkjununum þremur á einu korti, sem sýnir þá svart á hvítu iðnaðarsvæði framtíðarinnar uppi á Ófeigsfjarðarheiði.
Kort 3 af áhrifasvæðum þriggja virkjana á Ófeigsfjarðarheiði
Kort 3 af áhrifasvæðum þriggja virkjana á Ófeigsfjarðarheiði
Hver er þá besta leiðin til að breyta ósnortnum heiðavíðernum í risastórt orkuiðnaðarsvæði? Jú, þú byrjar á að fá samþykki í heimabyggð fyrir „smávegarspotta“ upp á heiði til að „klára örlitlar rannsóknir“ fyrir „alls ekki svo stóru virkjunina“ sem mun í raun hafa „ósköp lítil áhrif“. Bútaðu niður eins og þú getur og komdu litlu bútunum í gegn án þess að tengja hlutina saman eða setja í samhengi. Þetta lítur ekki svo illa út í byrjun. Svo heldurðu einfaldlega áfram að potast þar til búið er að reisa þrjár virkjanir með stíflum, skurðum, virkjanavegum, raflínum og öllu öðru tilheyrandi. Útkoman er fullkomlega endanleg eyðilegging meira en helmings einna merkustu og mikilvægustu víðerna Íslands, jafnvel Evrópu. Það virðist nefnilega ekkert svo flókið mál að láta almenning, sem hefur lítil sem engin tök á að grafast fyrir um endanlega útkomu svona verkefna, borða fílinn – einn bita í einu, þar til setið er uppi með risastórt orkuiðnaðarsvæði á Ófeigsfjarðarheiði.
En hvað með Vestfirðinga?
En hvað þá með Vestfirðinga, gæti einhver spurt. Jah, er nokkuð með þá? Bæjarstjóri einn fyrir austan mun eitt sinn hafa sagt við íbúa á fundi að enginn neyddi þá til að búa þar og landsbyggðin hefði nóg fram að færa fram yfir höfuðborgarsvæðið til að það þyrfti ekki að barma sér yfir aðstæðum úti á landi. Og þótt greinarhöfundur hafi ekki reynslu af því að búa á landsbyggðinni þá hefur hann það ekki á tilfinningunni að Vestfirðingar frekar en aðrir utan höfuðborgarsvæðisins hafi nokkurn áhuga á að láta „bjarga sér“.
Mætur maður að vestan sem ég þekki sagði eitt sinn við mig að Vestfirðingar þyrftu ekkert annað frá stjórnvöldum en að fá að sitja við sama borð og flestir aðrir landsmenn hvað varðar raforkuöryggi, samgöngur og fjarskipti. Þetta ættu allir að geta tekið undir, enda eðlilegur og sjálfsagður hluti af nútímasamfélagi á landinu öllu, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Þessir hlutir eiga að vera í lagi alls staðar þar sem stjórnvöld vilja á annað borð halda byggð og það er grafalvarlegt mál að stjórnvöld hafi brugðist íbúum Árneshrepps í þessum efnum. Hvalárvirkjun mun hins vegar ekki laga neitt af þessu þó vonin í brjóstum heimamanna sé björt og hrein.
Engar samgöngubætur til og frá Árneshreppi suður í nágrannasveitarfélögin munu fylgja virkjun, aðeins uppbyggður vegur í óbyggðum sem ekki nýtist nema til að komast að virkjuninni og iðnaðarsvæðinu uppi á heiðinni. Framkvæmdum lýkur 2-3 árum eftir að þær byrja og allir verkamenn fara. Raforkuöryggi mun ekki heldur aukast í Árneshreppi þar sem dreifikerfislína Orkubúsins um Trékyllisheiði frá Kaldrananeshreppi er þegar komin í jörð að miklu leyti og lagning þriggja fasa rafstrengja er ráðgerð, óháð Hvalárvirkjun. Virkjunaraðilar mættu heldur ekki leggja raflínur sjálfir innan Árneshrepps samkvæmt lögum.
Allt þetta hefur margkomið fram en talsmenn HS Orku þráast við og halda áfram að selja heimafólki virkjun sem lausn á vandamálum sem hún er ekki svar við, og stjórnvöld eiga þess utan að leysa.
En má þá ekki fólk á hverjum stað nýta náttúruna eftir eigin höfði og sér í hag? Jú, auðvitað, en samt aðeins að því marki sem sú skylda setur okkur, að skila náttúrunni að minnsta kosti jafngóðri til næstu kynslóða, og helst í betra ástandi en því sem við tókum við henni. Það er eðlilegt að nýta náttúruna, en við höfum ekki siðferðilegt leyfi til að ganga á hana og ofnýta þannig að geta næstu kynslóða til að lifa í henni dvíni. Við megum til að mynda ekki ofnýta fiskistofna, raska stórum vistkerfum eða eyðileggja fágæt víðerni.
Þegar kemur að virkjununum og eyðileggingu víðerna verðum við því að sýna fram á óumdeilanlega nauðsyn þess að virkja. Þetta á við okkur öll hvar sem er á landinu, í þéttbýli jafnt sem dreifbýli. Til að mega fórna víðernum landsins verður að setja fram mjög skýr rök á grunni almannahags. Eins og ég fór vel yfir í fyrstu grein minni eru víðerni mjög þverrandi auðlind á jörðinni, ekkert síður en aðrar auðlindir. Eru hagsmunir HS Orku og kanadískra, svissneskra og breskra eigenda fyrirtækisins svo brýnir að það þurfi að fórna einum mikilvægustu víðernum Evrópu fyrir þá?
Hvalárvirkjun og hinar virkjanahugmyndirnar á Ófeigsfjarðarheiði eru að þessu leyti alls ekki sjálfbærar. Þær ganga á óverjandi hátt á náttúruna og möguleika afkomenda okkar á sjálfbærri nýtingu hennar. Ekki er hægt að færa nein málefnaleg rök fyrir sjálfbærni virkjana þar og gegn því færði ég ítarleg rök í síðustu grein minni. Virkjun Hvalár gengur á þessi viðkvæmu og fágætu náttúrugæði sem víðernin eru, og eyðileggur endanlega og algjörlega möguleika komandi kynslóða á að njóta Drangajökulsvíðerna ósnortinna.
Með virkjuninni tökum við á siðferðilega óréttlætanlegan hátt það sem er ekki okkar því við erum aðeins tímabundnir vörslumenn þessarra náttúrugæða.
Af hverju eru svona mikil óbyggð víðerni eftir á Íslandi en ekki annars staðar í Evrópu? Í flestum löndum eru víðernin einfaldlega það sem var eftir þegar búið var að taka allt hentugt land undir landbúnað, iðnað, skógarhögg, námuvinnslu og önnur mannanna verk. Af augljósum ástæðum hentar land á Íslandi síður undir þetta og af þeim völdum eigum við enn einhver mestu og merkilegustu víðerni Evrópu. Viljum við ganga jafnlangt og aðrar Evrópuþjóðir og klára að leggja víðernin okkar undir iðnað og orkuvinnslu sem við þurfum ekki einu sinni á að halda?
Með peninga í plastpokum?
Stuðningsmenn virkjanaframkvæmdanna hafa ítrekað sakað okkur, sem höfnum framkvæmdunum vegna óverjandi og varanlegra áhrifa á náttúru og víðerni, um að aðhafast af annarlegum hvötum. Jafnvel er efnahagsleg staða náttúruverndarsinna sem slík gerð tortryggileg. Ekki veit samt greinarhöfundur hvað hann og aðrir náttúruverndarsinnar ættu mögulega að hafa upp úr sjálfboðaliðastriti við að vernda náttúruna fyrir komandi kynslóðir, annað en sjálfa vitneskjuna um að náttúrugersemum sé hlíft. Sú vitneskjan er drifkraftur fólks sem ver frítíma sínum í þetta strit, ekki peningar eða önnur veraldleg gæði.
Einhverjir sem kallaðir eru auðmenn hafa ítrekað verið sakaðir um að troða náttúruvernd upp á aðra í krafti peninga. Kannski mætti spyrja það fólk sem heldur slíku fram hvort það hafi hugmynd um kostnað eiganda viðskiptamódels Hvalárvirkjunar við undirbúning framkvæmdanna? Eða fjárhagsstöðu HS Orku og eigenda hennar?
Íslenskir „auðmenn“ blikna nefnilega í samanburði við þau gríðarsterku fjármagnsöfl sem standa að baki Hvalárvirkjunaráformunum og næstu virkjun við, Skúfnavatnavirkjun. Rýnum aðeins í tölur og viðskipti. Þeim sem ekki hafa áhuga á þeim er bent á að hoppa beint í lokakafla þessarar greinar.
Kanadíska kauphallarskráða orkufyrirtækið Innergex Renewable Energy Inc. hóf í byrjun síðasta árs að hasla sér völl á Íslandi og á 54% í HS Orku (að verðmæti um 30 milljarða íslenskra króna) eftir yfirtöku á öðru kanadísku félagi, Alterra. Innergex samstæðan er gríðarstór, á eignir í formi 70 virkjana að verðmæti 583 milljarða íslenskra króna, eigið fé er 57 milljarðar og tekjur samstæðunnar á síðasta ári numu jafnvirði 52 milljarða íslenskra, ef rétt er lesið úr tölum, en hagnaður 2,4 milljörðum. 16,5% teknanna komu frá Íslandi, í gegnum HS Orku, og er það hæsta hlutfall tekna sem aflað er utan Kanada. Arður til eigenda hlutabréfa í Innergex verður greiddur út í næsta mánuði vegna ársins 2018 og fyrir leikmann sýnast hlutabréfakaup í félaginu ágætis fjárfesting, en arðgreiðslur á hlut hafa aukist jafnt og þétt sex ár í röð. Fyrrum hluthafar Alterra eiga 19% í Innergex.
Til að átta sig betur á stærðinni, þá er uppsett raforkuafl, sem Innergex ræður yfir, hátt í það sem er til staðar á Íslandi öllu og fyrirtækið er í gríðarlegum vexti. Framleiðslan var 43% meiri á síðasta ári en árið áður, tekjur jukust um 44% og samstæðan býst við 20% aukningu á þessu ári.
Svo virðist sem auknum tekjum Innergex samstæðunnar sé m.a. ætlað að koma frá Íslandi, en í ársskýrslu sem gefin var út í síðustu viku segir félagið vatnsaflsvirkjunarmöguleika sína á Íslandi vera 220 MW í uppsettu afli („prospective projects“). Hvaðan þau megawött eiga að koma, utan þeirra 65 sem klára munu Ófeigsfjarðarheiði, veit höfundur þessarar greinar ekki. Fram er komið að verðmiðinn á Alterra, jafnvirði 99 milljarða íslenskra króna, innihélt allskonar framtíðarmúsík („a large portfolio of prospective projects“). Utan Kanada á Innergex vatnsaflsvirkjanir í rekstri í Chile og svo er ein 9,9 MW vatnsaflsvirkjun í smíðum í uppsveitum Árnessýslu.
Innergex hafði í upphafi fyrirvara á því hve lengi félagið hygðist halda á 54% hlutnum í HS Orku („non-core asset“) eftir yfirtöku á Alterra og bauð hlutinn raunar út í formlegu söluferli síðasta haust. Þar er hinsvegar breskur auðkýfingur sagður hafa áhuga á að ná yfirráðum og það virðist ekki vera vegna eignarhluta í Bláa Lóninu. Hann hefur þegar tryggt sér tæplega 13% hlut í HS Orku fyrir níu milljarða í gegnum svissneskt félag og hefur viðrað þá hugmynd að leggja sæstreng til að flytja orku út úr landinu. Orkan í streng er sögð eiga að koma úr Hvalárvirkjun meðal annars.
Hefur þjóðin virkilega hug á að leyfa erlendum fjárfestingarsjóðum og auðmönnum að þurrka upp íslensk víðerni í nafni „grænnar orku“?
Heildareignir HS Orku samstæðunnar námu í árslok 2017 48 milljörðum króna og eigið fé var 35,5 milljarðar. Rekstrartekjur voru 7,5 milljarðar og hagnaður 4,6 milljarðar. Markaðsverð fyrirtækisins er sagt vera 72 milljarðar króna. Kostnaður fyrirtækisins við undirbúning Hvalárvirkjunar hleypur samanlagt á nokkrum hundruðum milljóna íslenskra króna. Töluvert af því eru rannsóknir sem notaðar eru í umhverfismatsskýrslur. Hvaða náttúruverndarsinnar eða samtök ráða yfir slíkum fjármunum til að hrekja rangfærslur og reyna að sjá í gegnum orðavaðalinn? Jafnvel þó ekki væri nema örlitlu brotabroti þessa? Svarið er enginn. Ekki nokkurn tímann. Hvergi í heiminum. Aðstöðumunur náttúruverndar og virkjunarmanna er æpandi og af þeim sökum hvílir þung skylda á herðum stjórnvalda að gæta jafnræðis, svo hinir ríku neyti ekki aflsmunar.
Hverjir eru hinu sönnu hagsmunaaðilar í þessu máli? Hver kemur raunverulega með poka fulla af peningum norður í Árneshrepp? Viljum við að auðæfum okkar í víðernum landsins verði fórnað fyrir þá?
Lokaorð
Það er auðvelt að fegra áætlanir og hugmyndir með orðræðu og handvöldum gögnum, eða jafnvel gagnaleysi. Hvalárvirkjun er því miður dæmi um þetta, þar sem almenningi er haldið óupplýstum um raunverulegar afleiðingar og lokaútkomu verkefnisins. Jú, þetta eru allt opinber gögn en án hlutlausrar og faglegrar samantektar á þeim hefur hver og einn einstaklingur nánast enga raunverulega möguleika á að afla sér þeirra upplýsinga sem þarf til að sjá verkefnið í skýru ljósi. Almenningur verður að treysta á fagmennsku þeirra sem leggja gögnin fram. Í ljósi ofangreindra upplýsinga, telja lesendur að hönnuðir og eigendur Hvalárvirkjunarhugmyndarinnar hafi staðið undir því trausti?
Stóra spurningin sem situr eftir er kannski þessi: Af hverju þurfa aðstandendur verkefna eins og Hvalárvirkjunar að fegra þau svona? Er ekki hægt að leggja fram öll viðeigandi gögn og leggja verkefnið faglega og hlutlægt í dóm íbúa þessa lands, hvort sem þeir búa í Árneshreppi, annars staðar á Vestfjörðum, fyrir sunnan eða kannski austan? Eigum við, og þá kannski sérstaklega íbúar Árneshrepps og nágrennis, ekki rétt á óbjagaðri mynd af því sem gera á við náttúrugersemar okkar?
Eru framkvæmdaraðilar ef til vill hræddir við að verkefninu verði þá hafnað án umhugsunar vegna hinna miklu og óafturkræfu umhverfisáhrifa, hvort sem litið er til lífríkis, vistkerfa svæðisins eða skerðingar hinna ómetanlegu Drangajökulsvíðerna? Af hverju grípa fylgjendur virkjunarinnar til þess ráðs að uppnefna þau okkar sem gjalda varhug við virkjunaráformunum, gefa í skyn að afskipti okkar séu á einhvern hátt óeðlileg og tala um að fólkið á höfuðborgarsvæðinu leggist gegn byggð á landsbyggðinni, eða vilji jafnvel friða heilu landshlutana?
Hvað er hugtakið „sérfræðingur að sunnan“ annað en kjarklaus afgreiðsla þegar rök og gögn þrýtur?
Er of erfitt að horfast í augu við þau óvéfengjanlegu sannmæli sem komu fram í fyrstu grein minni um Drangajökulsvíðerni, að svæðið með bæði Hornströndum og sjálfri Ófeigsfjarðarheiði sé ein allramerkilegustu og mikilvægustu víðerni sem eftir eru í Evrópu og að þeim yrði eytt með virkjun Hvalár og annarra vatnsfalla á svæðinu?
Víðernin vernda sig ekki sjálf.
Höfundur er jarðfræðingur, höfundur bókarinnar Vegvísir um jarðfræði Íslands og í samtökunum ÓFEIGU náttúruvernd, sem vinna að verndun víðernanna á Ófeigsfjarðarheiði.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.