Íslenskur nývangur
Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson
2021-03-18
Hér á landi gnægð fallega gíga, en í þeirra hópi er einn frægasti gjóskugígur heims, Hverfjall í Mývatnssveit. Færri þekkja til bróður hans 40 km austar, Hrossaborgar, en hún er steinsnar frá þjóðveginum við upphaf vegarins í Herðubreiðalindir (F88). Líkt og Hverfjall er talið að Hrossaborg hafi myndast í stuttu þeytigosi fyrir 10.000 árum síðan, sem gerir hana mun eldri en Hverfjall sem talið er 2500 ára gamalt. Úr lofti líkjast þessir bræður óneitanlega gígum á yfirborði tunglsins en hamfarahlaup í Jökulsá á Fjöllum hafa fyrir löngu sorfið skarð í gíg Hrossaborgar. Í gegnum það er komist inn í gíginn en þá er eins og vera mættur á Nývang (Nou Camp), heimavöll knattspyrnuliðsins FC Barcelona. Hann er 10. stærsti íþróttaleikvangur heims og tekur næstum 100 þús. manns í sæti. Ekki er vitað til þess að í Hrossaborg hafi farið fram íþróttakappleikir en þarna beittu Mývetningar hrossum sínum í leitum, enda botninn grösugur og auðvelt að loka þau af í gígnum. Á sléttu gíggólfinu má auðveldlega koma fyrir fótboltavelli í fullri stærð og þriðjungur Íslendinga ætti síðan að geta tyllt sér í hallandi gígbrekkunum.
Það er stutt ganga upp á Hrossaborg en sprækt göngufólk getur þrætt gígbarminn allan hringinn. Mynd/Sigtryggur Ari
Það er stutt ganga upp á Hrossaborg en sprækt göngufólk getur þrætt gígbarminn allan hringinn. Mynd/Sigtryggur Ari
Það er skemmtileg og snörp ganga upp á Hrossaborg. Ef leysingarvatn er lítið má aka bílum inn í gíginn en síðan tekur við 20 mín ganga upp á hæsta hluta gígbarmsins sem nær 441 metra hæð yfir sjávarmáli. Efst er sérlega víðsýnt og sést m.a. yfir stærstan hluta Mývatnsöræfa og Hólssand. Athyglina fangar þó Herðubreið 60 km sunnar, en vestan hennar sést í Dyngjufjöll, Trölladyngju, Eilíf og fjöllin austur af Mývatni. Ljóst hverasvæði Námaskarðs stingur skemmtilega í stúf við umhverfið en einnig sést vel í fjöllin Kröflu (818 m) og Eilíf. Skammt frá Hrossaborg rennur Jökulsá á Fjöllum á leið sinni út í Axarfjörð en á þeirri leið skartar hún einstakri fossaþrennu með Selfossi, Dettifossi og Hafragilsfossi. Í kringum 1975 voru uppi áform um að virkja Jökulsá og Dettifoss en þá hefði hálendi í nágrenni Hrossaborgar verið sökkt undir 120 km2 miðlunarlón. Því stórslysi var sem betur fer afstýrt og allt svæðið er nú friðað innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Öllum er samt hollt að rifja upp þessar gölnu virkjanahugmyndir því græðgi og skammsýni eru enn helstu óvinir ósnortinnar íslenskrar náttúru.
Hallandi brekkur Hrossaborgar eru náttúruleg stúkusæti. Þarna voru atriði með Tom Cruise tekin upp fyrir kvikmyndina Oblivion. Mynd/ÓMB
Hallandi brekkur Hrossaborgar eru náttúruleg stúkusæti. Þarna voru atriði með Tom Cruise tekin upp fyrir kvikmyndina Oblivion. Mynd/ÓMB
Höfundar eru Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir og náttúruunnandi og Ólafur Már Björnsson augnlæknir og ljósmyndari.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.