Banner image

Laumu-landverndari sem vill okra á stóriðju?

Í umræðu um stór­iðju á Alþingi á fimmtu­dag (28. jan­ú­ar) sagði máls­hefj­and­inn, Berg­þór Óla­son, þing­maður Mið­flokks­ins:

„Ég hef verið þeirrar skoð­unar að okkar mesta fram­lag til lofts­lags­mála á heims­vísu hafi verið fram­leiðsla á umhverf­is­væn­asta áli í heimi. Ég full­yrði að ekki er til grænna ál í heim­inum en það sem er fram­leitt hér á landi með end­ur­nýj­an­legri orku.“

Raunar gæti þessi full­yrð­ing alveg eins átt við Nor­eg, en það er önnur saga.

Þegar við berum niður aðeins síðar í ræðu Berg­þórs, þá segir hann: „Ekki ætla ég að standa hér og halda því fram að raf­orka skuli afhent fyr­ir­tækj­unum á útsölu­prís,“ en segir sig skilja stra­tegísk samn­inga­út­spil beggja aðila og dregur þá ályktun „að með heldur ákveðnum hætti sé gengið fram hvað það varðar að ná fram verð­hækk­unum í raf­orku­sölu­samn­ingum eða við­halda ósjálf­bæru verð­i“.

Hér er þungt reitt til höggs og spyrja verður hverjir þessu óprút­tnu aðilar eru sem vilja okra á helstu bjarg­vættum gegn ham­fara­hlýnun hér á landi, stór­iðju­hring­un­um. Berg­þór er ekki í vafa og seg­ir: „Hópar sem margir hverjir hafa lít­inn skiln­ing á verð­mæta­sköpun hafa gengið fram með þeim hætti að aug­ljóst er að þeir vilja fyr­ir­tæk­in, hið minnsta sum þeirra, í burt.“

Senni­lega á Berg­þór ekki við Rótarý í Stykk­is­hólmi heldur nátt­úru­vernd­ar­sam­tökin vondu fyrir sunn­an. Hann bætir við og seg­ir:

„Auð­vitað er hinum ýmsu félaga­sam­tökum og ein­stak­lingum frjálst að hafa allt á hornum sér gagn­vart þessum mik­il­væg­ustu orku­kaup­endum lands­ins. En þegar skila­boð stjórn­valda virð­ast á löngum köflum vera þau að stuðn­ingur við slíka starf­semi sé horf­inn, þá versnar í því.“

Með öðrum orð­um: Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök sem skortir skiln­ing á verð­mæta­sköpun mega hafa mál­frelsi en það má ekki leiða til að stuðn­ingur rík­is­sjóðs við orku­kaup­endur minnki.

Kenn­ingin er þessi: Hand­hafi hluta­bréfs rík­is­ins í Lands­virkj­un, sjálfur fjár­mála­ráð­herra, Bjarni Bene­dikts­son, er orð­inn laumu-land­vernd­ari og hann hefur falið Herði Arn­ars­syni að fylgja slíkri stefnu, enda sé hann nú alræmdur fyrir óhóf­legar arð­sem­is­kröfur með þeim afleið­ing­um, að „mestar fréttir [hafi] borist af því að fyr­ir­tækin kveinki sér undan upp­færðum raf­orku­sölu­samn­ing­um.

Þessi stefna sé óhæfa, enda séu álverin hér á landi „með hvað lægsta kolefn­is­fót­spor álfyr­ir­tækja í heim­in­um“.

Stað­reyndin er sú að öll álver alls staðar í heim­inum verða að hætta allri losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda.

Þetta skilja eig­endur Fjarða­áls og Ísals í Straums­vík, Alcoa og Rio Tinto. Þeir hafa nú ásamt Apple og stjórn­völdum í Kanada hafið bygg­ingu álvers í Montréal sem ekki brennir kol­araf­skautum til að bræða ál. Mark­miðið er að nýta þessa nýju tækni til að byggja ný álver en ekki síður til að end­ur­nýja þá tækni sem hefur verið nýtt í áliðn­aði frá árinu 1886. Fram­tíðin er kolefn­is­hlut­leysi og til þess þurfum við kolefn­is­frí álver, líkt og Líneik Anna Sæv­ars­dóttir benti á í gær. Ekki bara á Íslandi heldur um allan heim.

Ekki skal van­met­inn áhugi Mið­flokks­manna á lofts­lags­málum en það er því miður mis­skiln­ingur hjá Berg­þóri að minna kolefn­is­spor álvera á Íslandi sam­an­borið við álver í Kína geti talist við­un­andi eða „um­hverf­is­vænt“. Svo er ekki.

Í sept­em­ber sl. lýsti for­seti Kína, Xi Jin­p­ing, því yfir að Kína stefndi á kolefn­is­hlut­leysi árið 2060. Þetta er fyrsta lang­tíma­á­ætlun Kína í lofts­lags­mál­um, og þýðir að árið 2060 mun losun koltví­sýr­ings í Kína verða núll eða – sem er lík­legra – drag­ast veru­lega sam­an, og að magn þess kolefnis sem er umfram núll-losun verði fjar­lægt úr and­rúms­loft­inu með ein­hverjum hætti. Gefur auga leið að ný tækni til að bræða ál á eftir að kosta minna en að fjar­lægja allt það kolefni sem núver­andi tækni veld­ur.

Höf­undur er for­maður Nátt­úru­vernd­ar­sam­taka Íslands.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.