Banner image

Laxá rennur ekki eftir flokkalínum

G. Valdimar Valdemarsson, formaður málefnanefndar miðstjórnar Framsóknarflokksins, skrifaði grein um Laxármálið í Morgunblaðið miðvikudaginn 10. mars sl. og notar það til að koma flokkspólitísku höggi á Samfylkinguna. Það er rangt að reyna að gera þetta mikilvæga mál að bitbeini stjórnmálaflokka og þau rök sem G. Valdimar ber fram eru rökleysur einar.

Í fyrsta lagi horfir hann framhjá því að lögin um vernd Laxár og Mývatns frá 1974 ganga lengra en samkomulag landeigenda og virkjunar frá árinu 1973 vegna þess að þetta svæði er miklu mikilvægara en svo að þar þurfi ekki aðrir um að véla en landeigendur og eigendur virkjunar á hverjum tíma.

Það nýtur mestu náttúruverndar sem hægt er á Íslandi, bæði með íslenskum lögum og alþjóðlegum samþykktum sem Ísland er aðili að, og þar með létta lögin alveg þeim þrýstingi af landeigendum sem Landsvirkjun reynir nú að beita með hótunum um atvinnumissi í héraði og tekjutap fyrir Aðaldæli ef ekki verði látið að kröfum Landsvirkjunar um að mynda 2 kílómetra langt lón í Laxárdal.

Það nær því engri átt, eins og G. Valdimar gerir, að reyna að halda því fram að það sé einhvers konar réttlætismál að færa lögin að hinu eldra samkomulagi sem opnaði fyrir möguleika á breytingu á vatnsborði árinnar ef landeigendur féllust á hana. Slík afturför væri ekkert minna en stórfellt umhverfisslys. Lögin eru svo afdráttarlaus að þau banna allar slíkar breytingar nema til verndunar og ræktunar – og er þar ekki átt við þá vélaverndun sem Landsvirkjun hefur nú í huga. Lögin kveða einnig á um að brot varði sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

article image

Laxárdalur fyrir.

Laxárdalur fyrir.

article image

Laxárdalur eftir.

Laxárdalur eftir.

Í öðru lagi er það rangt hjá G. Valdimar að láta í veðri vaka að umhverfismat með gögnum frá Landsvirkjun sé eitthvert sérstakt rannsóknarferli sem geti ekki farið af stað eftir öðrum leiðum. Skv. gildandi lögum um verndun Laxár og Mývatns á einmitt að reka náttúrurannsóknarstöð við Mývatn sem er alveg óháð orkufyrirtækjum. Sú rannsóknarstöð var nýlega í fréttum vegna þess að ráðherra umhverfismála hafði sett formann stjórnarinnar af – en sá hefur verið kunnur af áhuga sínum á umhverfismálum en minni áhuga á virkjunum og mannvirkjum í friðlandi Laxár og Mývatns. Eðlilegast væri að stjórnvöld og fjölmiðlar leituðu sér upplýsinga og þekkingar hjá þeim vísindamönnum sem unnið hafa að rannsóknum á þessu svæði til þess að átta sig á þeim sögusögnum sem eru á sveimi um sandburð í ánni og leiðir Landsvirkjunar til að stöðva hann eins og þar sé um nýtt fyrirbæri í lífríki árinnar að ræða. Eins og flestum ætti að vera kunnugt eru helstu breytingarnar sem hafa orðið á umhverfi Laxár og Mývatns á undanförnum áratugum af manna völdum.

Verði menn varir við óeðlilegar breytingar á lífríki árinnar er því ekki úr vegi að leita skýringa á þeim breytingum í umsvifum mannsins frekar en því náttúrulega ástandi árinnar sem hefur lítið breyst síðustu aldirnar.

G. Valdimar Valdemarsson gerir Framsóknarflokknum og náttúruvernd í landinu mikinn grikk ef hann ætlar að reyna að keyra Laxárdeiluna niður í átök milli stjórnmálaflokka á Alþingi. Að sjálfsögðu verða fulltrúar okkar þar að beita sér til að forða þeim glæp sem nú er í undirbúningi en í þessu máli eiga þeir að hlusta betur á rödd eigin samvisku en á flokkstilskipanir. Eða hver þarf sérstakt umhverfismat til að meta áhrif þess að sökkva Þingvöllum, sprengja Gullfoss, malbika yfir Geysissvæðið og sjóða lím úr Konungsbók eddukvæða?

Höfundur er vísindamaður á Stofnun Árna Magnússonar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.