Loftslagsbreytingar – aðgerðir sem virka eða sjálfsmorð mannkyns?
Tryggvi Felixson
2022-11-16
Magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu vex, hitastig hækkar og raki andrúmsloftinu eykst. Afleiðingin er fleiri og öflugri hitabylgjur og ofsi í veðurfari. Þær eru ógnvekjandi. Við sáum hvað gerðist í Pakistan á árinu; um þriðjungur landsins undir vatni og hátt í 2.000 bein dauðsföll. Við sáum mikla eyðileggingu á Seyðisfirði þar sem fyrir guðs mildi varð ekki manntjón. Við fréttum af mannskæðum flóðum og hitabylgjum í Evrópu; þúsundir íbúa í grannlöndum okkar falla í valinn í hitabylgjum.
Líf og lífsafkoma eru í mikilli hættu vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, mest hjá þeim sem minnst mega sín og hafa ekki skapað vandann.
Orð eru til alls fyrst
Heimsbyggðin hóf sameiginlega vegferð um aðgerðir gegn hættulegum loftslagsbreytingum af mannavöldum með samþykkt í Ríó de Janeiro árið 1992 og með Kyotobókuninni 1997. Orð eru til alls fyrst – en án aðgerða verða orðin einskis virði.
Á þessum 30 árum sem liðið hafa frá því að vandinn var viðurkenndur hefur árleg losun gróðurhúsalofttegunda vaxið um liðlega 40%. Á sama tíma hefur vísindunum tekist betur og betur að lýsa hættunni af þessum breytingum fyrir líf okkar á jörðinni. Viðvaranir vísindamannanna verða sífellt örvæntingarfyllri og framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsir þróuninni sem sameiginlegu sjálfsmorði mannkynsins.
Hlýnun langt umfram markmið
Í dag hefur hiti jarðar hækkað um 1,1 gráðu, aðalega vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og margir eru hættir að trúa að halda megi hlýnun jarðar við 1,5 gráður, markmiðið sem samþykkt var í París 2015. Eins og staðan er í dag stefnir í tæplega 3ja gráðu hlýnun áður en 21. öldin rennur sitt skeið. Gleymum því samt ekki að öll hlýnun sem hægt er að forðast mun spara mikla þjáningu. Að gefast upp kemur því ekki til greina.
Á Íslandi tökum við hlutfallslega ríkan þátt í að skapa vandann. Kolefnisspor Íslendinga er með því hæsta í heimi og ábyrgð Íslands því mikil. Þá ábyrgð höfum við enn ekki axlað.
Orðin tóm gera lítið gagn
Íslensk stjórnvöld hafa sagt að draga eigi úr losun Íslendinga um 1,3 miljón tonn eigi síðar en 2030. Slík markmið eru þó ekkert annað en orðin tóm á meðan ekki koma fram aðgerðir til að fylgja þeim eftir. Þjóðin er komin í milljarða skuld við Kýótósamkomulagið vegna vanefnda í loftslagsmálum. Spurning er hvort Íslendingar eru að verða siðferðilega gjaldþrota í velmegun sinni og skeytingarleysi.
Barnalega léttvægar aðgerðir boðaðar
Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa boðað eru afar léttvægar miðað við mikilvægi verkefsins. Ríkisstjórnina virðist skorta þor til að taka á vandanum með þeim verkfærum sem duga. Sífellt er talað um samstarf og samræður við atvinnulífið sem hefur það meginmarkmið að græða peninga. Lítið er gert til að innleiða virka hvata fyrir nauðsynlegar breytingar á framleiðsluháttum og neyslu.
Ekki er heldur boðuð refsing fyrir þá sem stunda lífshættulega framleiðsluhætti og landnotkun. Mengunarbótareglan gleymist. Vandinn vex svo bara á meðan við bíðum og vonum hið besta en gerum lítið sem dugar. Vandinn kann að verða óyfirstíganlegur innan fárra ára, jafnvel þó þekking og tæknileg geta sé fyrir hendi að leysa hann. Hin áður hugrakka þjóð virðist hnípin í loftslagsvandanum.
Út með gamla og úrelta hugmyndafræði
Sú hugmyndafræði sem skapaði vandann mun ekki leysa hann. Orkugeirinn og atvinnulífið gera lítið úr því að bæta megi nýtni og framleiðsluhætti til að taka á orku- og loftslagskreppunni. Nægjusemi, lykillinn að sjálfri lífshamingjunni, er dyggð sem virðist algjörlega hafa gleymst. Í stað þess er athyglinni beint að frekari sókn í íslenska náttúru og víðerni svo tvöfalda megi raforkuframleiðslu landsins á tveimur áratugum.
Ísland er nú þegar með lífskjör á heimsmælikvarða og er margfaldur heimsmeistari í raforkunotkun – og á líklega næga raforku til að sinna skynsamlegum og nauðsynlegum orkuskiptum.
Að ganga sífellt meira á móður náttúru leysir engan vanda heldur eykur hann. Einstakri náttúru landsins á að fórna, að sögn til að bjarga mannkyninu frá loftslagsvánni.
Aðstæður kalla á nýja hugsun og hugmyndafræði þar sem náttúruvernd og loftslagsvernd haldast í hendur. Þjóðin þarf frelsi frá ánauð loftslags- og náttúruspillandi hagvaxtar!
Höfundur var formaður Landverndar 2019–2023.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.