Loftslagskrísan dýpkar – viðbrögð íslenskra stjórnvalda einkennast af doða
Tryggvi Felixson
2023-03-31
Sjötta og nýjasta skýrsla Milliríkjaráðs Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) kom út nýlega. Fyrsta skýrslan kom út árið 1990 og var lögð til grundvallar þegar þjóðir heims náðu samkomulagi um rammasamning um loftslagsbreytingar (UNFCCC). Með hverri skýrslu sem hefur komið út síðan verður ljósara að loftslagsbreytingar af mannvöldum eru raunverulegar og eru ógn við velferð manna og lífríki jarðarinnar. Mestur er skaðinn fyrir viðkvæm samfélög sem bera minnsta ábyrgð á uppruna vandans.
Þeir ríkustu menga mest og valda því mestu tjóni: Þeir ríku bera mesta ábyrgð en axla hana ekki.
Skammtímahagsmunir ráða enn för
Meðalhækkun á hitastigi jarðar hefur færst mjög nálægt 1,5 gráðu mörkum Parísarsamkomulagsins frá 2015. Hækkun um 1,5 gráðu kemur engan veginn í veg fyrir alvarleg áhrif á samfélögin og lífríkið, en takmarka þó skaðann. Fari fram sem horfir fara veðuröfgar og hnignun vistkerfa vaxandi sem mun valda umtalsverðum skaða á lífi og lífsviðurværi. Það er þróun sem engin vill sjá. Raunverulegur vilji til aðgerða svo stöðva megi uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu af mannavöldum er takmarkaður. Skammtímahagsmunir og ótti um óvinsældir ráða enn för þó ávinningurinn af því að takmarka loftslagsbreytingar sé augljós. Ávinningurinn í peningum talinn yrði mun meiri en sem nemur fyrirsjáanlegu tjóni sem yrði ef hitastig hækkar svo mikið sem stefnir í að óbreyttu.
Við megum ekki gefast upp
Það eru líkur á því að 1,5 gráðu hækkun á meðalhita jarðar verði raunveruleiki laust eftir 2030. En sú staðreynd má ekki letja okkur til aðgerða. Enn skiptir öllu máli að draga úr losun. Ef við sitjum með hendur í skauti mun losunin haldi áfram að aukast, fara yfir 2 gráður eða jafnvel mun hærra. En ef við göngum vasklega til verka er von til þess hitastigið lækki aftur síðar á öldinni og nálgist eðlilegt ástand.
Loftslagsbreytingar eru ekki vandamál annarra eins og oft heyrist í umræðu hér á landi. Við berum öll ábyrgð, en mest er ábyrgð ríkisstjórna og þjóðþinga.
Þar liggur lykillinn að aðgerðum sem verða aflvaki nauðsynlegra breytinga; að gera einstaklingum og fyrirtækjum kleift að taka þátt í lausn vandans með skilvirkum hætti. Valdefling er lykillinn að lausn. Fjármagn og tæknilegar lausnir eru fyrir hendi sem ekki hafa verið nýttar til að leysa aðkallandi vanda. Að fjármagna breytingar að mestu með framlögum úr ríkissjóði eins og virðist lenska hér á landi, er ekki haldbært. Það verður að beita mengunarbótareglunni með mun víðtækari hætti en nú er gert – reglunni sem kveður á um að sá borgi sem mengar.
Við erum rík og okkur er engin vorkunn
Ísland sem ein ríkasta þjóð í heimi ber mikla ábyrgð. Þau orð sem höfð hafa verið um loftslagsaðgerðir eru mörg en innihaldslítil. Hvorki stjórnvöld né atvinnulífið hafa axlað ábyrgð í verki enn sem komið er. Í beinni og óbeinni losun á mann er Ísland því sem næst heimsmeistari. Losun hér á landi hefur farið vaxandi og stjórnvöld hafa ekki uppfært áætlun um aðgerðir í samræmi við losunarmarkmið. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda einkennast af áhugaleysi sem er í engu samræmi við vandann sem við blasir. Helst ber á hugmyndum um að sækja enn meira í náttúru landsins til að auka orkuframleiðslu til orkuskipta. Skortur á raforku er ekki vandinn. Íslendingar eru margfaldir heimsmeistarar i raforkuframleiðslu á mann. Vandinn liggur í því hvernig við nýtum orkuna sem við höfum til verðmætasköpunar. Samanburður sem OECD hefur gert sýnir laka stöðu Íslands í þessum efnum. Sífelld sókn í meiri raforku er ekki lausn heldur hluti af kjarna vandans; ósjálfbær neysla og framleiðsla og eyðilegging náttúru og víðerna landsins okkar.
Lýst er eftir hugrekki og hugviti
Vandinn sem við er að glíma verður ekki leystur með sömu meðulum og skópu hann. Íslendingar verða umfram allt að sýna hugrekki og virkja hugvitið í stað þess að sækja sífellt meira í stórbrotna og verðmæta náttúru landsins. Líta verður á aðgerðir í loftslagsmálum, orkuskiptum og náttúruvernd í samhengi. Þetta er í samræmi við boðskap Sameinuðu þjóðanna.
Ísland er margfaldur heimsmeistari í framleiðslu á rafmagni á hvern íbúa og verðmætasköpun á hverja orkueiningu er afar lítil í alþjóðlegum samanburði.
Það er tækifæri sem verður að nýta vel í orkuskiptunum í stað þess að sækjast eftir sífellt meiri orku.
Höfundur var formaður Landverndar 2019–2023.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.