Loftslagsráðherra og raunveruleikinn
Tryggvi Felixson
2023-03-23
Í frétt frá stjórnaráðinu sem birtist 17. mars 2023 segir að samtal sé hafið við atvinnugreinar um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar segir einnig að skilgreindar hafi verið 13 atvinnugreinar og þær séu þegar komnar vel af stað í vinnunni sem sé unnin á forsendum atvinnugreinanna. Í sömu frétt lýsir loftslagsráðherra því yfir að til að ná markmiðum í loftslagsmálum þurfum við að vinna saman.
Þeir græða sem losa
Í Fréttablaðinu birtist nýlega yfirlit Sigurpáls Ingibergssonar yfir losun, kolefnisbindingu og hagnað fyrirtækja sem hann hefur unnið úr sjálfbærniskýrslum þeirra. Samantektin sýnir að tveir tugir íslenskra fyrirtækja bera ábyrgð á um 2/3 af heildarlosun Íslands og að samanlagður hagnaður þessar fyrirtækja fyrir skatt á árinu 2021 hafi verið 136 milljarðar króna. Þó segir yfirlitið um losun þessara fyrirtækja aðeins hálfa söguna þar sem fyrirtækin láta almennt hjá líða að greina frá óbeinni losun (svokallað umfang 2 og 3) vegna starfsemi sinnar.
Upplýsingar um hagnað sýna að ekki skortir þau fyrirtæki sem mest losa fjármagn til að gera betur í umhverfismálum.
Ein meginniðurstaða þessa yfirlits er að í mörgum tilvikum séu tengsl milli gróða fyrirtækja og mikillar losunar af þeirra völdum. Mikilli mengun fylgir gróði! Fyrirtæki græða á því að menga! Því verður að breyta.
Góður vilji nægir ekki í umhverfismálum
Mengunarbótareglan er ein meginregla umhverfisréttar. Þessi regla var innleidd í lög á Íslandi fyrir nokkrum árum og segir að sá sem veldur mengun skuli bæta umhverfistjón sem af henni hlýst og beri kostnað af því. Gildir reglan óháð því hvort um gáleysi eða ásetning er að ræða.
Það er raunveruleiki að fyrirtæki eru fyrst og fremst rekin með fjárhagslega hvata að leiðarljósi. Þess vegna er það flótti frá raunveruleikanum að halda því fram að vilji fyrirtækja að gera vel í umhverfisvernd leysi vandann sem við blasir.
Ég tek undir þau orð loftslagsráðherra að samtalið sé mikilvægt. Það skýtur því skökku við að fulltrúum almennings er ekki boðið að borðinu þegar ræða á samdrátt í losun atvinnulífsins. Þeim er bara boðið sem losuninni valda. Gleymum því heldur ekki að meginmarkmið fyrirtækja er að sýna hagnað, því mun meiri hagnaður því betra fyrir eigendur fyrirtækisins. Aðgerðir til að draga úr losun eða binda kolefni kosta vinnu, útsjónarsemi og fjárfestingu. Til skemmri tíma litið getur það haft neikvæð áhrif á hagnað. Almennt eru fyrirtæki fyrst og fremst upptekin af skammtíma hagnaði.
Þess vegna er ekki skynsamlegt af loftslagsráðherra, sem hefur fengið það verkefni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að binda vonir við að samtalið við atvinnulífið leysi þann vanda sem blasir við í loftslagsmálum. Það er í versta falli tímasóun að þetta samtal hefur nú staðið í marga mánuði án sýnilegs árangurs. Meðan á samtalinu hefur staðið hefur lítið sem ekkert nýtt komið fram sem bendir til þess að stjórnvöld séu nálægt því að ná markmiðum í loftslagsmálum.
Lausn vandans: Sá borgi sem mengar
Til að leysa loftslagsvandann er nauðsynlegt að beita mengunarbótareglunni á alla geira atvinnulífsins. Bæði OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa ítrekað bent á að skattar og gjöld á mengun eru skilvirkasta leiðin til að ná markmiðum í umhverfismálum. Það er löngu tímabært að ríkisstjórnin og loftslagsráðherra viðurkenni hið augljósa í þessum málum.
Höfundur var formaður Landverndar 2019–2023.
Greinin birtist fyrst í Heimildinni.