Meintur orkuskortur og áhrif alþjóðamarkaða
Guðmundur Hörður Guðmundsson
2022-03-10
Umræða um meintan raforkuskort hjá raforkuríkustu þjóð heims hefur verið hávær frá því á haustmánuðum. Hún hefur verið rekin áfram af forstjóra Landsvirkjunar sem byrjaði að lýsa því yfir 30. september að fyrirtækið þyrfti að reisa fleiri virkjanir þar sem raforkukerfið „væri nálægt því að vera fullnýtt og að mestu bundið í langtímasamningum við núverandi viðskiptavini“.
Í tilkynningu Landsvirkjunar 19. nóvember var því síðan lýst að viðskiptavinir fyrirtækisins hefðu jafnt og þétt aukið raforkunotkun sína og keyrðu flestir „á fullum afköstum“. Raforkukerfið væri því þá þegar orðið nær „fullnýtt“. Þegar við þetta bættist svo lélegt vatnsár þá átti ekki að koma neinum á óvart að Landsvirkjun ætti ekki til umframorku á afsláttarkjörum þegar útgerðarmenn vildu fara að bræða loðnu í byrjun desember. Enda eru loðnubræðslur líka mjög lélegur viðskiptavinur raforkuframleiðanda eins og Landsvirkjunar, þar sem þær kaupa raforku á miklum afslætti og einungis til mjög skamms tíma í senn.
Það er því glórulaus fjárfesting að virkja vatnsfall sérstaklega fyrir loðnubræðslu og það gerir enginn án ríkulegs stuðnings úr almannasjóðum eða þá að loftslagsrökin réttlæti það að Landsvirkjun verði beinlínis skylduð af stjórnvöldum til að selja útgerðinni umbeðna raforku á veglegum afslætti.
Næsta upphlaup í raforkuumræðunni leiddi síðan forstjóri Landsnets, sem vandar nú ekki alltaf til verka. Til marks um það má nefna að þetta opinbera fyrirtæki hefur verið gert afturreka með hækkanir á verðskrám, orðið uppvíst að mikilvægum staðreyndavillum í áætlunum, reynt að leyna gögnum fyrir almenningi og „týnt“ 28 milljarða króna kostnaðaráætlun.
Núna flutti forstjórinn þjóðinni hræðsluáróður um að raforkuskortur á Íslandi gæti orðið viðvarandi og hvatti almenning til að spara rafmagn! Ummælin tengdust fréttum af því að stefnt hefði í lokun lítillar sundlaugar á Vestfjörðum, allt þar til að viðkomandi bæjarráð ákvað að stóla ekki lengur á umframorku á afsláttarkjörum og kaupa forgangsorku fullu verði. Vandinn var því ekki orkuskortur, heldur ákvæði í orkukaupasamningum. Sú spurning stendur því nú upp á stjórnmálamenn hvort skylda eigi Landsvirkjun til að skaffa orku til hitaveitu á köldum svæðum á kjörum sem standast samanburð við önnur landsvæði. Þeir hafa hins vegar verið á annarri vegferð á undanförnum árum með markaðsvæðingu raforkukerfisins sem færist sífellt fjær hugmyndum um samfélagslega þjónustu og ábyrgð.
Um miðjan febrúar kynnti Landsvirkjun glæsilegan ársreikning síðasta árs og þar kemur m.a. fram að rekstrartekjur jukust um rúm 23% frá fyrra ári og hafa aldrei verið meiri í sögu fyrirtækisins. Enda er Landsvirkjun nú í draumastöðu orkusalans, þar sem heimsmarkaðsverð á áli er í hæstu hæðum á sama tíma og stóriðjuver víða um heim neyðist til að draga úr framleiðslu vegna gríðarlegrar verðhækkunar raforku. Alþjóðlega orkukreppan bitnar ekki eins á íslenskri stóriðju og hún getur því nýtt hátt álverð til að auka framleiðslu sína og kaupir þar af leiðandi alla þá orku sem Landsvirkjun hefur á boðstólnum. Íslensku álfyrirtækin eru í svo góðri stöðu um þessar mundir að þau stefna að stækkunum, eins og fullyrt er í nýrri skýrslu umhverfisráðuneytisins um orkumarkaðinn.
Forstjóri Landsvirkjunar virðist svo áfram um að verða við óskum stóriðjunnar um aukna raforku að fyrirtækið hefur opinberlega lýst því yfir að það sækist eftir að gjörnýta Þjórsá niður í Urriðafoss, auk þess sem það sækist nú eftir að færa Skjálfandafljót og Jökulárnar í Skagafirði úr verndarflokki Rammaáætlunar. Forstjórinn klæðir kröfuna vissulega í grænan búning óraunhæfra orkuskipta, m.a. millilandaflugs og útflutning rafeldsneytis, en það er öllum augljóst að áróðurstrommur Landsvirkjunar eru nú barðar svo hátt og ört vegna stöðunnar á hrávörumörkuðum og orkukreppu sem nú skekur erlenda stóriðju.
Það eru vissulega margar mikilvægar spurningar tengdar orkumálum sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir um þessar mundir, en hvort hér stefni í orkuskort er ekki ein þeirra.
Það er ótti sem Landsvirkjun og virkjanaiðnaðurinn breiðir nú út í áróðursskyni en á ekkert erindi í umræðu sem þarf að vera bæði upplýst og yfirveguð og fjalla um samfélagslegar skyldur Landsvirkjunar og kosti og galla samkeppnisvæðingar raforkumarkaðarins. Náttúruverndarhreyfingin leggur sitt af mörkum í þeirri umræðu, þ.á.m. með Náttúruverndarþingi 19. mars næstkomandi. Áhugasamir eru hvattir til að mæta þangað og leggja sitt lóð á vogarskálina.
Höfundur er áhugamaður um náttúruvernd.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.