Náttúra Íslands á undir högg að sækja
Tryggvi Felixson
2020-09-16
Hugleiðing formanns Landverndar
á Degi íslenskrar náttúru
Stundum er sagt að maðurinn sé hluti af náttúrunni. Til eru þeir sem hallast að því að maðurinn sé herra náttúrunnar, já eða hirðir. En eitt er víst, maðurinn lifir af náttúrunni. Hann sækir fæði og klæði í náttúruna, og einnig andlega næringu og styrk. Náttúran getur lifað án mannsins, en maðurinn kemst ekki af án náttúrunnar.
Grundvöllur mannkyns í húfi
Ætla mætti að maðurinn, svo háður sem hann er gangverki náttúrunnar, myndi ganga vel um hana og virða þá staðreynd að hún þarf að fá færi á að viðhalda sér og endurnýjast. Dæmin sanna hins vegar að það gleymist afar oft. Ef við höldum áfram á sömu braut mun maðurinn spilla svo miklu í hringrás náttúrunnar að hann gæti eytt sjálfum grundvelli mannlegs samfélags. Svo slæmt þarf það þó ekki að verða – við vitum betur og búum yfir tæknilegri getu til að leiðrétta villur fortíðarinnar. Og enn gefst tími til útbóta. En sá tími er ekki ótakmarkaður!
Fremrinámar, sunnan Mývatns. Ein af fjölmörgum einstökum náttúruperlum í hættu. Landsvirkjun áformar þar 100 MW jarðhitavirkjun. Mynd: Jens Bachmann.
Fremrinámar, sunnan Mývatns. Ein af fjölmörgum einstökum náttúruperlum í hættu. Landsvirkjun áformar þar 100 MW jarðhitavirkjun. Mynd: Jens Bachmann.
Óvinir náttúrunnar
Helstu óvinir náttúruverndar eru fátækt, fégræðgi og fáfræði. Fátæk samfélög leita lífsbjargar í náttúrunni frá degi til dags, ekki gefst svigrúm til að sýna fyrirhyggju. Fáfræðin veldur því að samfélög sjá ekki fyrir afleiðingar gjörða sinn og valda því óvart miklum náttúruspjöllum. Fégræðgin veldur því að samfélög sem jafnvel hafa úr nægu að spila og þekkja þolmörk náttúrunnar, sækjast sífellt eftir meiru. Í þeirri sókn er ekki tekið tillit til eyðileggingar á náttúrunni eða framtíð komandi kynslóða.
Í dag getum við tæplega sagt að Ísland sé fátækt land, efnisleg velmegun er almennt mikil. Ekki viljum við heldur kenna okkar samfélag við fáfræði. Við ættum því að hafa nokkuð góðar forsendur til að ganga vel um landið okkar. Fyrir okkur er mikilvægast að ná tökum á óhófi og græðgi þar sem verndun náttúru og langtímasjónarmiðum er vikið til hliðar.
3000 m² borplan stingur í augun í einstakri náttúru Trölladyngju á Reykjanesi. HS Orka hefur haft áform um að reisa þar orkuver og hefur með rannsóknum sínum valdið skemmdum.
3000 m² borplan stingur í augun í einstakri náttúru Trölladyngju á Reykjanesi. HS Orka hefur haft áform um að reisa þar orkuver og hefur með rannsóknum sínum valdið skemmdum.
Misvísandi skilaboð frá stjórnvöldum
Hver er svo staða náttúruverndar á Íslandi? Friðlýsingar vaxa að umfangi og innihaldi, löggjöfin batnar og vitund sem þekking eykst. Þetta er gott svo langt sem það nær. En reglulega birtast hugmyndir um stórkarlalegar framkvæmdir; virkjanir, vegi og verksmiður. Flestar ná þær fram að ganga þó úttektir sýni að þeim fylgi mikil spjöll og að þær auki lítil hagsæld landsmanna. Ríkisvaldið segist stefna að því að innleiða mengunarbótaregluna en leggur á sama tíma mengandi iðnaði sérstakt lið með fjárhagslegri fyrirgreiðslu. Vistspor Íslendinga sem fámennrar þjóðar í stóru landi er afar stórt í alþjóðlegu samhengi, hvort sem litið er til úrgangs og losunar gróðurhúsalofttegunda – eða jarðvegs- og gróðureyðingar. Þrátt fyrir áratuga viðleitni er búfé enn beitt á viðkvæm svæði sem ekki ætti að beita. Og svo mætti lengi telja.
Grænihryggur í Friðlandi að Fjallabaki. Ljósmynd: Tryggvi Felixson.
Grænihryggur í Friðlandi að Fjallabaki. Ljósmynd: Tryggvi Felixson.
Enn er verk að vinna
Náttúra Íslands er fögur, stórbrotin og gjöful, en á undir högg að sækja. Látum Dag íslenskrar náttúru minna okkur á að enn er verk að vinna og íslenska þjóðin þarf að taka sig á í umhverfisvernd. Fögnum því sem vel er gert en tökum svo rækilega til hendinni og látum verkin tala. Landvernd hefur talað fyrir umhverfisvernd í liðlega 50 ár – og enn hafa samtökin verk að vinna.
Höfundur var formaður Landverndar 2019–2023.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.