Banner image

Orðspor Silicor

Á síðasta sumri skrifaði Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur grein á bloggsíðu sína (vulkan.blog.is) um fyrirtækið Silicor Materials, sem hyggst framleiða sólarkísil á Grundartanga. Í grein sinni varaði Haraldur bæði við fyrirtækinu sjálfu og fyrirhugaðri framleiðslu þess, sem hann taldi mengandi.

Haraldur Sigurðsson starfaði um áratugi við vísindastörf í Bandaríkjunum, er mikilsvirtur fræðimaður á alþjóðavettvangi, og af skrifum hans að dæma þekkir hann vel til bandarískra málefna.

Um fyrirtækið Silicor skrifaði hann meðal annars í umræddri grein sinni 18.7.2014:

„Silicor hét áður Calisolar og breytti um nafn til að fela sinn fyrri feril í viðskiptaheiminum vestra. Calisolar rak um tíma verksmiðju í Toronto, Kanada.

Það fóru ljótar sögur af þeim rekstri, eins og sagt er frá í dagblaðinu Columbus Dispatch.

Fyrirtækið var í Kaliforníu en reyndi svo fyrir sér fyrst í Ohio-fylki og síðar í Mississippi og leitaði þar fyrir sér með lán til að reisa verksmiðju. Þeir urðu að hverfa frá Mississippi vegna þess að fyrirtækið gat ekki einu sinni lagt fram $150.000 sem stofnfé.“

Eftir að Haraldur birti grein sína brást fulltrúi fyrirtækisins hart við í fjölmiðlum til varnar væntanlegri framleiðslu, sem hann kvað verða næstum mengunarlausa. Ef fyrirtækið hefur brugðizt við til varnar orðspori sínu, hefur það farið fram hjá mér.

Íslenzk yfirvöld, sem greiða götu fyrirtækisins hér á landi, meðal annars með fjárhagslegum ívilnunum, hafa sjálfsagt rannsakað ítarlega feril viðsemjanda síns. Hafi þau ekki þegar verið búin að því, hafa þau örugglega gert það í tilefni af skrifum Haralds, sem ekki verður séð, að séu af öðrum hvötum runnin en þeim, að honum er annt um íslenzka hagsmuni, hagsmuni ættlands síns, sem hann hefur snúið aftur til.

Í tilefni af því, að Haraldur hefur á nýjan leik séð ástæðu til að rifja upp orðspor Silicor – og meira að segja heldur bætt í frá fyrri skrifum (pistill 27.4. 2015 á síðu hans) tel ég óhjákvæmilegt að óska eftir upplýsingum frá íslenzkum yfirvöldum, sem bera ábyrgð á samningum við fyrirtækið, einkum atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Þess er óskað:

Að ráðuneytið/önnur yfirvöld birti mér og öðrum almenningi þær upplýsingar, sem íslenzk yfirvöld hafa aflað um feril, orðspor og stöðu umrædds fyrirtækis í tilefni af upplýsingum Haralds Sigurðssonar um það og gagnrýni hans á fyrirtækið sem slíkt, sem og þau gögn, sem ráðuneytið/yfirvöld áttu fyrir um feril, orðspor og stöðu fyrirtækisins.

Höfundur er lögfræðingur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.