Ráðherra losar fjötra Fenrisúlfs
Gísli Sigurðsson
2004-02-20
Ráðherra umhverfismála hefur lagt fram frumvarp sem rýfur þá eiða sem svarnir voru með þjóðarsátt í lögum frá 1974 um verndun Laxár og Mývatns.
Rök ráðherra eru þau að með frumvarpinu verði lögin samræmd eldra samkomulagi landeigenda og Laxárvirkjunar. Munurinn felst í því að lögin banna röskun á svæðinu nema til verndunar og ræktunar en samkomulagið gerði ráð fyrir möguleika á framkvæmdum ef landeigendur féllust á þær. Augljóst er að með lögunum vildi alþingi leysa heimamenn undan hugsanlegum þrýstingi sem fulltrúar virkjunar gætu beitt þá vegna atvinnustarfsemi í héraði – eins og nú er komið á daginn.
Önnur rök ráðherra eru þau að ekki megi hafna hugmyndum Landsvirkjunar um hækkun stíflu í Laxá um 12 metra með 2 km löngu uppistöðulóni nema að undangengnu umhverfismati. Lögunum sé ætlað að opna möguleika á slíku mati. Þessi röksemdafærsla flokkast undir „ekki-rök“ því að þjóðarsátt ríkir um að vernda svæðið. Það þarf því ekki að leggja í neinn kostnað til að meta áhrif þess að sökkva Laxárdal.
„Ég er hún mamma ykkar“
Á sama tíma fegrar Landsvirkjun áform sín eins og úlfurinn í ævintýrinu um kiðlingana sjö sem sýndi á sér hvítkrítaða loppuna til að láta kiðlingana hleypa sér inn.
Þegar farið var fram með málið í sumar var reynt að smeygja því í gegn með þeim rökum að það uppfyllti skilyrði laganna um verndun og ræktun. Sagt var að ástæðan fyrir minnkandi laxveiði í Aðaldal væri aukinn sandburður í Laxá. Með stíflu væri hægt að stöðva sandburðinn og um leið auka viðkomu laxins. Seinna var staðfest að þessar kenningar studdust ekki við neinar rannsóknir. Nokkrum mánuðum síðar þegir Landsvirkjun um að samanburður á ástandinu núna og 1978 hefur sýnt að engar breytingar hafa orðið á sandburði Laxár sem geti skýrt minnkandi laxveiði. Þar með lak loftið úr þessari blöðru Landsvirkjunar.
Í staðinn hefur Landsvirkjun hafið söng um slit á vélum vegna sandburðar úr Kráká og nauðsyn á hækkun stíflu þannig að sandurinn muni stöðvast í lóninu sem þá myndast. Að öðrum kosti verði starfseminni hætt og virkjuninni lokað með tilheyrandi atvinnuvandræðum í héraði. Má þar með öllum vera ljóst af hverju löggjafinn leysti landeigendur undan þeirri kvöð að semja við Landsvirkjun við slíkar nauðungaraðstæður. Atvinna fólks í heimabyggð hefur verið lögð að veði og Landsvirkjun hótar að fórna henni nema losað verði um fjöturinn sem hún var hneppt í með lögunum frá 1974.
Fyrir liggur að Landsvirkjun hætti vinnu við að hefta upptök sandsins í Kráká þegar í ljós kom að landeigendur ætluðu sér ekki að gefa eftir um hækkun stíflunnar. Vilji Landsvirkjun losna við sandinn væri því gott að halda áfram þeirri vinnu sem þar fór af stað og ganga síðan frá inntaksmannvirkjum þannig að þau séu sem hagkvæmust til raforkuframleiðslu miðað við núverandi aðstæður. Viðurkennt er að frágangur á inntaki var aðeins til bráðabirgða í upphafi en síðan eru liðin rúm 30 ár án þess að nokkuð hafi verið aðhafst til úrbóta.
Lón yrði varanlegt vandamál
Einnig liggur fyrir að það lón sem nú er í ráði að mynda yrði orðið fullt af sandi eftir 20-30 ár. Sýnt hefur verið fram á að ekki er raunhæft að tæma það með þeim hætti sem Landsvirkjun hefur gefið í skyn að standi til að gera. Staðan er því sú, nú 30 árum eftir að deilunni um Laxárvirkjun lauk, að Landsvirkjun kvartar sáran og talar um framtíðarlausn vegna slits af sandi á síðustu 30 árum. En sú framtíðarlausn er ekki nema til næstu 30 ára og þá verður allt komið í mikið og varanlegt óefni fyrir dalinn, náttúruna og virkjunina með sína 12 metra stíflu og stútfullt lón af sandi sem enginn mun vita hvað á að gera við. Nema þá eigi kannski að halda áfram að hækka og hækka uns framtíðardraumurinn rætist um fullan Laxárdal af vatni og sandi? Væri ekki nær að þrauka frekar önnur 30 ár í viðbót með lágmarks tilkostnaði, endurnýjun véla og varanlegum frágangi á inntakinu?
Hjáróma söngur Landsvirkjunar um að stækkun sé nauðsynleg til að tryggja framtíðaröryggi í orkumálum á svæðinu getur varla talist alvarlegt innlegg í umræðuna á sama tíma og verið er að reisa margfalt stærri virkjun við Kárahnjúka og Húsvíkingar horfa til gufuaflsvirkjunar á Þeistareykjum til að standa undir framtíðaráformum sínum í atvinnuuppbyggingu.
Eina skýringin á því af hverju Landsvirkjun er enn að hugsa um þetta mál sem aðrir landsmenn töldu að myndi liggja óhreyft til ragnaraka er að þar á bæ hefur sú hugmynd komist inn í langtímaáætlanir að stóreflis miðlunarlón í Laxárdal væri hagkvæmasti kostur sem hægt væri að hugsa sér í virkjunarmálum. Það hefur nú verið afhjúpað að Landsvirkjun ætlaði sér aldrei að halda sáttina og hlíta lögunum frá 1974. „Vituð ér enn, eða hvað?“ dettur manni helst í hug. Því má tala um einbeittan brotavilja Landsvirkjunar sem einsetti sér að rjúfa um síðir eiða sína og losa sig þannig undan þeim böndum sem góðgjarnir menn komu á hana með lagabókstafinn að vopni og atvinnu heimamanna að veði – vitandi fullvel að afl fyrirtækisins er slíkt að venjulegir járnfjötrar dygðu skammt.
Við þessar aðstæður hljótum við að kalla á að ráðherra umhverfismála herði fremur en losi þá fjötra sem Landsvirkjun er nú hneppt í varðandi þá ógurlegu framtíðarsýn hennar að drekkja fallegasta árstæði landsins í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu.
Höfundur er vísindamaður á Stofnun Árna Magnússonar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.