Banner image

Raf­orku­öryggi á Suður­nesjum – Lands­net þarf að gera betur

Ný­verið varð bilun í búnaði í raf­orku­kerfinu og raf­magns­laust varð á Reykja­nesinu. Raf­orku­öryggi á svæðinu er á­bóta­vant og því gott að segja frá því að Lands­net á­formar að byggja 220 kV raf línu, Suður­ne­sja­línu 2, milli höfuð­borgar­svæðisins og Suður­nesja sem verður hluti af megin­flutnings­kerfinu. Línan mun liggja milli tengi­virkis í Hamra­nesi í Hafnar­firði og tengi­virkis á Rauða­mel í Grinda­víkur­bæ. Málið hefur farið eðli­legan far­veg þar sem mis­munandi val­kostir eru metnir. Þann 20. janúar 2020 lagði Lands­net fram mats­skýrslu um Suður­ne­sja­línu 2 og óskaði eftir á­liti Skipu­lags­stofnunar um mat á um­hverfis­á­hrifum fram­kvæmdarinnar.

Val­kostirnir eru fimm talsins auk núll­val­kosts:

A: Jarð­strengur í línu­götu
B: Jarð­strengur við Reykja­nes­braut
C: Loft­lína sam­hliða Suður­ne­sja­línu 1
D og E: blandaðar leiðir

22. apríl 2020 skilar Skipu­lags­stofnun á­liti sínu og tekur þar fram að æski­legasti val­kosturinn til að draga eins og kostur er úr nei­kvæðum á­hrifum fram­kvæmdarinnar sé val­kostur B, jarð­strengur með fram Reykja­nes­braut. Lands­net telur hins vegar ekki á­stæðu til þess að víkja frá megin­reglu stjórn­valda um að notast sé við loft­línu og hefur valið kost C sem aðal­val­kost, loft­línu með fram Suður­ne­sja­línu 1.

Lands­net hefur því lagt fram aðal­val­kost sem hefur ekki minnst um­hverfis­á­hrif.

Hversu mikið dýrari má um­hverfis­vænni kosturinn vera?

Sam­kvæmt þings­á­lyktun um stefnu stjórn­valda um lagningu raf­lína (nr. 11/144) stendur að í megin­flutnings­kerfi raf­orku skuli notast við loft­línur nema annað sé talið hag­kvæmara eða æski­legra út frá tækni­legum at­riðum, um­hverfis- eða öryggis­sjónar­miðum. Til dæmis ef línu­leið er innan frið­lands sem verndað er sökum sér­staks lands­lags, sbr. 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúru­vernd. Þetta á við um hraunið á Reykja­nesi og því mikil­vægt að lág­marka rask á því. Síðar í sömu þings­á­lyktun kemur fram að ef kostnaður við að leggja jarð­streng er ekki meira en tvisvar sinnum kostnaður við loft­línu skal miða við að leggja jarð­streng.

Kostnaður við val­kost B, jarð­streng með fram Reykja­nes­braut, er á­ætlaður sem 4.358 m.kr. og kostnaður við val­kost C, loft­línu um Hraun­tungur, er á­ætlaður sem 2.329 m.kr. Kostur B er því 1,87x dýrari en val­kostur C og upp­fyllir þar af leiðandi skil­yrði þings­á­lyktunar um stefnu stjórn­valda um lagningu raf­lína.

Á­byrgð fram­kvæmda­aðilans

Lands­net og sveitar­fé­lögin sem um ræðir bera á­byrgð á því að fara að settum lögum, reglum og stefnu stjórn­valda við lagningu raf lína.

Við höfum, sem sam­fé­lag, sett okkur þessar reglur til þess að standa vörð um náttúruna.

Það þýðir ekkert að segjast bera hag náttúrunnar fyrir brjósti þegar ekki er farið að slíkum grund­vallar­reglum.

Höfundur var formaður Ungra Umhverfissinna 2020–2021 og formaður Landverndar frá 2023.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.