Raforkuöryggi á Suðurnesjum – Landsnet þarf að gera betur
Þorgerður María Þorbjarnardóttir
2021-03-18
Nýverið varð bilun í búnaði í raforkukerfinu og rafmagnslaust varð á Reykjanesinu. Raforkuöryggi á svæðinu er ábótavant og því gott að segja frá því að Landsnet áformar að byggja 220 kV raf línu, Suðurnesjalínu 2, milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja sem verður hluti af meginflutningskerfinu. Línan mun liggja milli tengivirkis í Hamranesi í Hafnarfirði og tengivirkis á Rauðamel í Grindavíkurbæ. Málið hefur farið eðlilegan farveg þar sem mismunandi valkostir eru metnir. Þann 20. janúar 2020 lagði Landsnet fram matsskýrslu um Suðurnesjalínu 2 og óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.
Valkostirnir eru fimm talsins auk núllvalkosts:
A: Jarðstrengur í línugötu
B: Jarðstrengur við Reykjanesbraut
C: Loftlína samhliða Suðurnesjalínu 1
D og E: blandaðar leiðir
22. apríl 2020 skilar Skipulagsstofnun áliti sínu og tekur þar fram að æskilegasti valkosturinn til að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar sé valkostur B, jarðstrengur með fram Reykjanesbraut. Landsnet telur hins vegar ekki ástæðu til þess að víkja frá meginreglu stjórnvalda um að notast sé við loftlínu og hefur valið kost C sem aðalvalkost, loftlínu með fram Suðurnesjalínu 1.
Landsnet hefur því lagt fram aðalvalkost sem hefur ekki minnst umhverfisáhrif.
Hversu mikið dýrari má umhverfisvænni kosturinn vera?
Samkvæmt þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína (nr. 11/144) stendur að í meginflutningskerfi raforku skuli notast við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra út frá tæknilegum atriðum, umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Til dæmis ef línuleið er innan friðlands sem verndað er sökum sérstaks landslags, sbr. 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Þetta á við um hraunið á Reykjanesi og því mikilvægt að lágmarka rask á því. Síðar í sömu þingsályktun kemur fram að ef kostnaður við að leggja jarðstreng er ekki meira en tvisvar sinnum kostnaður við loftlínu skal miða við að leggja jarðstreng.
Kostnaður við valkost B, jarðstreng með fram Reykjanesbraut, er áætlaður sem 4.358 m.kr. og kostnaður við valkost C, loftlínu um Hrauntungur, er áætlaður sem 2.329 m.kr. Kostur B er því 1,87x dýrari en valkostur C og uppfyllir þar af leiðandi skilyrði þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.
Ábyrgð framkvæmdaaðilans
Landsnet og sveitarfélögin sem um ræðir bera ábyrgð á því að fara að settum lögum, reglum og stefnu stjórnvalda við lagningu raf lína.
Við höfum, sem samfélag, sett okkur þessar reglur til þess að standa vörð um náttúruna.
Það þýðir ekkert að segjast bera hag náttúrunnar fyrir brjósti þegar ekki er farið að slíkum grundvallarreglum.
Höfundur var formaður Ungra Umhverfissinna 2020–2021 og formaður Landverndar frá 2023.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.