Rammaáætlun – í þágu virkjunar eða verndar?
Snæbjörn Guðmundsson
2021-03-14
Rammaáætlun hefur verið hampað sem nauðsynlegum samningi andstæðra póla – náttúruverndar og virkjunar; sem stjórntækis til að finna málamiðlanir í einhverjum stærstu og erfiðustu álitaefnum náttúruverndar og auðlindanýtingar á Íslandi. Vinnan við rammaáætlun er afar yfirgripsmikil og flókin. Gögn sem liggja til grundvallar ákvörðun um röðun virkjanakosts í nýtingar-, bið- eða verndarflokk eru óþægilega oft mjög takmörkuð. Það er ekki efamál að verkefnisstjórn og faghópar hafi unnið sína vinnu af heilindum, vandvirkni og fagmennsku.
Úrelt hugsun
Stærsta vandamálið við rammaáætlun er hins vegar að hún er byggð á röngum forsendum. Áætlun um raforkuvinnslu þjóðar, sem er þegar mesta raforkuframleiðsluþjóð heims, er í rammaáætlun lögð að jöfnu við vernd á einhverjum mestu, sérstökustu og ósnortnustu náttúruminjum jarðar.
Sem sagt, það þarf á einhvern óskiljanlegan hátt að tryggja jafnvægi á milli nýtingar, sem er þegar gríðarlega mikil, og verndar náttúru sem þegar hefur tekið á sig mjög þung högg.
Því er haldið fram að þessi aðferðarfræði gefi af sér metnaðarfulla verndaráætlun. En er það virkilega svo?
Lítum aðeins til þeirra virkjanakosta sem flokkaðir hafa verið í vernd í rammaáætlun. Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum hefur sem betur fer þegar verið friðað fyrir nýtingu í samræmi við fyrri áfanga rammaáætlunar, og mun greinarhöfundur því ekki fjalla um það hér. Þó verður að telja ósennilegt að Jökulsá á Fjöllum hefði í raun verið í hættu í þeim kringumstæðum sem nú ríkja í náttúruvernd á Íslandi, þó svo hún hafi verið hluti af virkjanaórum síðustu áratuga. Með þeirri staðhæfingu er ekki verið að draga úr mikilvægi friðunar heldur beina sjónum að því hvað verið sé að leggja í verndarflokk með 3. áfanga rammaáætlunar.
Skjálfandafljót og Hengilssvæðið skiptimynt fyrir neðri Þjórsá
Margar hugmyndanna sem nú er verið að flokka í verndarflokk eru nefnilega afgamlar ofurvirkjanahugmyndir frá því um og upp úr miðri síðustu öld og eiga sem slíkar ekkert erindi í núverandi umræðu. Dæmi um það eru stórvirkjanir í Skjálfandafljóti, Fljóthnjúksvirkjun sem hefði náð langleiðina upp á miðju hálendisins, og Hrafnabjargarvirkjun, í allranæsta nágrenni við einhverja stórkostlegustu fossa landsins, Aldeyjarfoss, Ingvararfoss og Hrafnabjargafoss, og hefði hún raunar þurrkað að mestu leyti upp tvo þá síðarnefndu. Einhverra hluta vegna er flokkun þessara virkjunarkosta hampað sem miklum sigri náttúruverndar á Íslandi, en andi samfélagsins er einfaldlega ekki sá sami og árið 1999 þegar Kárahnjúkavirkjun var sett af stað og verið var að berjast fyrir verndun Þjórsárvera.
Ef við horfum t.d. á virkjanir í efri hluta Skjálfandafljóts þá fékk Landsvirkjun rannsóknarleyfi fyrir þeim árið 2013 til fjögurra ára. Leyfið rann út árið 2017 og hefur ekki verið endurnýjað. Þessir virkjanakostir voru heldur ekki teknir inn í gildandi aðalskipulag Þingeyjarsveitar árið 2011, enda yfirlýst stefna sveitarfélagsins að virkja ekki Skjálfandafljót. Sem sagt, 3. áfangi rammaáætlunar sem kom út úr verkefnastjórn árið 2016 setur úr sér gengna virkjanakosti í verndarflokk. Nú árið 2021, nærri 5 árum síðar, á loksins að samþykkja þennan áfanga og þá á náttúruverndarhreyfingin að vera þakklát því að þessir tveir úreltu virkjanakostir í Skjálfandafljóti séu komnir í vernd. Afsakið, en við erum bersýnilega stödd á kolröngum stað í dagatalinu.
Virkjanahugmyndir á Hengilssvæðinu eru af svipuðum meiði, gamlir draumar frá útþenslustefnu Orkuveitu Reykjavíkur sem fóru afar illa með fyrirtækið. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, hefur raunar lýst því yfir að engin ástæða sé til að halda virkjanastefnu fortíðar áfram.
Það þarf ekki að lesa stíft á milli lína til að átta sig á því að þessir kostir, sem nú hafa, að því er virðist, verið lagðir af mikilli rausn í verndarflokk, eru vart meira en verðlitlar tálbeitur fyrir stóru orkufyrirtækin.
Landsvirkjun var t.a.m. í upphafi með Skjálfandafljótsvirkjanirnar en hefur losað sig við þær nú þegar, þótt það sé ekki látið líta þannig út. En þannig má kannski nota fljótið sem skiptimynt fyrir aðra miklu vænlegri og verðmætari kosti, eins og t.d. þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár.
Hvar er jafnvægið á milli nýtingar- og verndarflokks?
Eins og fyrr segir, virtist markmiðið með rammaáætlun vera að búa til jafnvægi á milli nýtingar, sem er þegar gríðarlega mikil, og verndar náttúru sem þegar hefur tekið á sig mjög þung högg. Það er einfaldlega ekki rétt gefið í upphafi, þar sem virkjanir sem þegar hafa verið gangsettar eru ekki teknar með í reikninginn þegar horft er til jafnvægis á milli virkjunar og verndar. Á meðan fjölmargir virkjanakostir hafa verið nýttir nú þegar eru aðeins örfá virkjanasvæði sem sett hafa verið til hliðar fyrir raunverulega vernd.
Margar þeirra fórna sem náttúran hefur tekið á sig voru vissulega færðar á tíma fyrstu stórvirkjananna upp úr miðri síðustu öld, sem voru eðlilegar og ekkert er við þeim að segja. Það voru dýrmætar fórnir engu að síður.Síðar hafa margir fallegir og merkir staðir verið lagðir á altari virkjana sem jafnvel hafa skilað litlu eða verið algjörlega til óþurftar. Hér er stutt yfirlit yfir þau náttúruverðmæti sem horfið hafa í virkjanastefnu síðustu áratuga:
Fyrst ber að nefna stærstu fórnina af þeim öllum, Kárahnjúkavirkjun. Þar var eitt mikilvægasta hálendissvæði Íslands lagt undir gríðarstórt virkjanalón, Hálslón. Vesturöræfin voru samfelldasta gróðursvæði landsins sem náði alla leið frá sjó upp að jöklum hálendisins, og mikilvægi þeirra fyrir lífríkið í samræmi við það; búsvæði plantna, smádýra, fugla og hreindýra eyðilögð. Ein mestu gljúfur hálendisins voru sprengd og farvegi Jöklu breytt til frambúðar, lífríki Lagarfljóts að miklu leyti eyðilagt og framburður Jöklu til sjávar stöðvaður með hörmulegum afleiðingum fyrir sjávarlífríki Héraðsflóa.
Þetta var stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, með langmestu umhverfisáhrifin, en hvergi er tekið tillit til hennar í rammaáætlun. Líkt og hún sé ekki til í virkjanabókhaldinu.
Þjórsár-Tungnaársvæðið hefur einnig tekið þung högg, enda víðfeðmasta virkjunarsvæði landsins. Þar hófst stórvirkjanasaga Íslendinga og leiddi hún til þess að fjölmargir fallegustu og vatnsmestu fossar landsins eru horfnir, hálfþurrkaðir upp eða með vatn aðeins örlítinn hluta ársins. Þar má nefna Þjófafoss, Tröllkonuhlaup, Ármótafoss við Sultartanga, Sigöldufoss, Hrauneyjafoss og ýmsa fossa og flúðir í Köldukvísl. Með Kvíslaveitum var vatnsmagn Þjórsár neðan Þjórsárvera skert um 40% og eru fossar í efri hluta Þjórsár um helmingi vatnsminni en áður, auk þess sem töluverðu gróðurlendi Þjórsárvera var sökkt við veitugerðina. Aðrar vinjar hafa einnig horfið, svo sem Þóristungur ofan Búðarhálsvirkjunar. Þórisvatn var gert að miðlunarlóni snemma á áttunda áratugnum og var þá breytt úr heiðbláu og fallegu fjallavatni í gruggugt miðlunarlón. Um leið var stíflað fyrir útfall þess og lindáin Þórisós þurrkuð upp. Um hana sagði hinn víðkunni vatnamaður, Sigurjón Rist, í bók sinni Vatns er þörf:
„Hún var lindá, af ferðamönnum talin fegurst áa á hálendi landsins.“
Jarðhitasvæði Suðvesturlands hafa verið nýtt til rafmagns- og heitavatnsframleiðslu og sjá íbúum svæðisins fyrir miklu magni af heitu vatni. Að því leyti eru virkjanirnar réttlætanlegar en svæðið er þó gríðarmikilvægt sem jarðfræði- og útivistarsvæði og vistkerfi þess mörg æði sérstök. Sumar virkjanir svæðisins, eins og Reykjanesvirkjun, eru lítið sem ekkert nýttar til heitavatnsframleiðslu og margar ganga hratt á orkuforða jarðhitageymanna og eru því alls ekki sjálfbærar til langs tíma.
Nýjasta jarðvarmavirkjun landsins, Þeistareykjavirkjun, er eitt sorglegasta dæmið um tilgangslausar fórnir virkjanastefnunnar. Þar var eitt sérstakasta og fallegasta jarðhitasvæði landsins eyðilagt fyrir brokkgengt kísilver.
Eitt allraversta dæmið um virkjunarkost þar sem orkunni var „komið í lóg“ og náttúran látin lönd og leið.
Inni í þessari upptalningu eru ekki svæði eins og Sogið og önnur minni sem hafa þó haft sín áhrif. Það sem þessi eiga þó sameiginlegt er að þau eru ekki „með“ í rammaáætlun. Ef nýtingarflokkur innihéldi alla virkjanakostina sem þegar hafa verið settir í nýtingu þá væri jafnvægið á milli virkjana og verndunar mjög ójafnt. Og verndarflokkurinn myndi aðallega taka til svæða sem væru hvort eð er mjög óaðgengileg og óhentug til virkjunar. Þannig má segja að verndarflokkur sé í raun bara „ruslflokkur“, þar sem óhentugum og vonlausum virkjanakostum er hent inn, kannski til að friðþægja náttúruverndina?
Og með rammaáætlun er þessu mynstri viðhaldið. Í verndarflokk eru einkum sett svæði eins og Torfajökulssvæðið (sem er reyndar hvort eð er friðað), Markarfljót, Hvítá ofan við Gullfoss og Kerlingarfjöll. Meira að segja ómetanlegar náttúruperlur eins og Hveravellir, Stóra-Laxá, hluti Torfajökulssvæðisins, Hrúthálsar og Fremrinámar í Ódáðahrauni, Hagavatn, Hólmsá og neðri hluti Skaftár eru ennþá í spilinu í biðflokki, eins og það sé alveg sjálfsagt að skoða innan örfárra ára hvort það megi ekki einnig koma þessum svæðum í lóg.
Þetta er auðvitað galin afstaða, en svona virkar einfaldlega rammaáætlun. Þetta kom reyndar fram í almennum athugasemdum með frumvarpinu um rammaáætlun, þegar það var lagt fram, af iðnaðarráðherra, 2010. Þar stendur að „frumvarpinu [sé] ætlað að stuðla að meiri sátt um orkuvinnslu og minnka óvissu orkufyrirtækja við val á virkjunarkostum“. Einmitt, „minnka óvissu orkufyrirtækja“. Á sama stað stendur einnig þetta: „Þá er mikilvægt að skapa betri sátt um nýtingu þessara mikilvægu náttúruauðlinda en á undanförnum árum hefur andstaða við uppbyggingu virkjana aukist.“ Ómögulegt er að lesa úr þessum orðum annað en að rammaáætlun snúist fyrst og fremst um virkjanir.
Virkjanir séu mikilvægar og þannig beri að nýta náttúruna. Andstaðan sé hins vegar óþægileg og til ama og sé mótsnúin „uppbyggingu”.
Birtist kannski í þessum athugasemdum undirliggjandi tilgangur með rammaáætlun? Það er vart hægt að sjá annað en að henni sé fyrst og fremst ætlað að gefa orkufyrirtækjum skýrt og skipulagt veiðileyfi á orkuauðlindir landsins.
Andi rammaáætlunar snýst í grunninn um að virkja áfram og reyna þá kannski með skipulögðum hætti að velja þá kosti sem valda orkufyrirtækjunum minnstum vandræðum. Rammaáætlun er leyfi að ofan til handa virkjanaöflunum til að virkja, pakkað inn í þannig umbúðir að náttúruverndin verður að kyngja þeim. Náttúruvernd er nefnilega afgangsstærð í rammaáætlun.
Höfundur er jarðfræðingur, rithöfundur og stjórnarmaður í Hagþenki.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.