Banner image

Síðustu dagar Köldukvíslar?

Á Alþingi er nú verið að ræða næstu skref í virkjanabrjálæðinu. Úr atvinnumálanefnd kom tillaga um fjölgun virkjanakosta í nýtingarflokki og eru í þeim pakka fimm virkjanakostir, hver öðrum ófélegri. Tveir þessara kosta eru uppi á hálendinu. Annars vegar er það Hagavatnsvirkjun, sem yrði lítil, óhagkvæm og á afar fallegu, vinsælu og ósnortnu heilsárs-útivistarsvæði. Hins vegar er það Skrokkölduvirkjun, sem er tiltölulega lítil og langt uppi á hálendinu, nánast eða alveg utan seilingar virkjanainnviða Þjórsár-Tungnaársvæðisins. Vegna smæðar og annarra umfangsmikilla annmarka tel ég í raun afar litlar líkur á því að þessar tvær virkjanir verði nokkurn tímann að veruleika þótt ýmsir stjórnmálamenn haldi kannski annað og telji sig vera að halda raunhæfum virkjanakostum til streitu.

Annar þessara virkjanakosta, Skrokkölduvirkjun, er á könnu Landsvirkjunar og finnst manni eiginlega líklegast að áhugi Landsvirkjunar á virkjunarkostinum felist aðallega í því að hann verði hægt að nota sem skiptimynt þegar kemur að ákvörðunum um virkjanaframkvæmdir á næstu árum. Með öðrum orðum: Landsvirkjun mun vera tilbúin til að „gefa eftir“ Skrokkölduvirkjun og aðra álíka gæfulega virkjanakosti (t.d. hina frámunalega heimskulegu jarðvarmavirkjun ofan Hágöngulóns) í staðinn fyrir að fá að reisa tvær efri virkjanirnar í Neðri-Þjórsá, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun (Urriðafossvirkjun verður æ ólíklegri með tímanum), því þær eru hvort eð er margfalt hentugri og stærri en hálendisvirkjanirnar. Það verður því seint áréttað nægilega mikilvægi þess að verja Neðri-Þjórsá á komandi misserum, því um það svæði mun slagurinn í raun standa. Við skulum ekki láta afvegaleiða okkur í umræðunni og beina of mikið sjónum að smáum virkjanakostum, sem skipta Landsvirkjun þegar allt kemur til alls frekar litlu máli. Neðri-Þjórsá er og verður aðal-átakasvæðið í virkjanaumræðu næstu ára!

Að því sögðu er auðvitað engu að síður nauðsynlegt að verja hálendið og náttúruna þar með kjafti og klóm. Þótt Skrokkölduvirkjun sé kannski ekki stærsti virkjanakosturinn þá skiptir hún um margt miklu máli í umræðunni. Þarna láta Landsvirkjun og meirihlutinn á Alþingi í veðri vaka að virkjunin hafi lítil sem engin umhverfisáhrif, aðallega vegna þess að stöðvarhúsið sjálft verður neðanjarðar og lítið um skurði og önnur mannvirki á yfirborði. Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis sagði t.a.m. eftirfarandi um virkjunarkostinn: „[V]erður virkjunin að mestu ósýnileg þeim sem fara um svæðið. Eina sýnilega mannvirkið að vegum undanskildum verður tæplega kílómetra langur frárennslisskurður frá frárennslisgöngum niður að viki í Kvíslavatni.“ (tekið af http://althingi.is/altext/144/s/1180.html) Þetta er þó aldeilis ekki rétt og má segja að þarna séu virkjanasinnar að fínpússa þá list að segja aðeins hálfsannleikann og geta í engu atriða sem koma illa við málstaðinn.

Í fyrsta lagi er virkjun meira en eitt stöðvarhús, og jafnvel þótt virkjunin sjálf verði neðanjarðar og jarðstrengur lagður suður að Vatnsfelli (um 40-60 km leið, sem virðist allt í einu vera ekkert mál þegar hægt er að nota jarðstrenginn til að réttlæta heila virkjun á meðan lítið gengur að fá raflínur niður í jörð annars staðar) þá fylgja virkjun ýmis önnur mannvirki. Vegir munu vissulega liggja þvers og kruss yfir svæðið, vafalítið meira áberandi en þeir slóðar sem nú má þræða þarna. Þrír gangamunnar verða tengdir virkjuninni, auk sveifluþrór í toppi Skrokköldu (op niður að aðrennslisgöngunum til n.k. þrýstingsjöfnunar) og inntaks sem Hágöngulón mun að mestu hylja. Vegslóðar munu liggja að öllum þessum göngum og þar verða einhvers konar mannvirki eða lokar til að hylja opin. Ofan við hið ósýnilega stöðvarhús verður svokallað hlaðhús, með tengivirki og spennum, auk aðstöðu fyrir starfsmenn tengdum viðhaldi virkjunarinnar. Þetta yrði ágætlega reisulegt mannvirki og allt annað en ósýnilegt, þótt meirihluti atvinnuveganefndar haldi það kannski. Að lokum má svo leiða sterkar líkur að því að sjálf Sprengisandsleið sunnan virkjunar, sem er núna hlykkjóttur hálendisslóði, verði styrkt og upphækkuð eða breikkuð til muna vegna framkvæmdanna og viðhalds síðar meir.

Sem sagt, Skrokkölduvirkjun verður langt frá því að verða „ósýnileg“ þeim sem fara munu um svæðið. Þess utan verður hún í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs, langt ofan hálendisbrúnarinnar og það er í raun óverjandi að reisa svo umfangsmikið mannvirki uppi á viðkvæmum og mikilvægum hálendisvíðernum miðhálendisins, algjörlega óháð því hvort svæðinu hafi að einhverju leyti þegar verið raskað. Þó tel ég samt að enn séu ónefndar þungbærustu afleiðingar virkjunarinnar. Með Skrokkölduvirkjun mun nefnilega eitt af þekktari hálendisfljótum landsins hverfa nánast endanlega úr sínum náttúrulega farvegi. Hér er tilvalið að vitna í hina magnþrungnu Áfanga Jóns Helgasonar:

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hlýjum garði;
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði;
mér var þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði,
runninn upp þar sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði.

Já, ef svo ólíklega vill til að stjórnmálamenn og Landsvirkjunarfólk fái sínu framgengt og virkjað verður við Skrokköldu, þá eru dagar hins nafntogaða hálendisfljóts Köldukvíslar taldir. Ég hef enn hvergi séð þetta sagt berum orðum í gögnum um Skrokkölduvirkjun, enda telja forsvarsmenn virkjunarinnar líklegast enga ástæðu til að draga þetta sérstaklega fram í kastljósið. En af hverju skiptir þetta máli? Jú, Kaldakvísl er merkilegt og sérstætt vatnsfall. Hún á upptök sín í Vonarskarði og Köldukvíslarbotnum neðan við Vonarskarð, þar sem úttak Köldukvíslarjökuls liggur, en hann er einn af stærri skriðjöklum Vatnajökuls. Vatnasviðið liggur að hluta til í öskju sjálfrar Bárðarbungu og markar Kaldakvísl því einn af mögulegum flóðfarvegum ef kæmi til eldgoss í Bárðarbungu undir jökli. Náttúrulegur farvegur Köldukvíslar er langur, um 100 km frá Vonarskarði og Köldukvíslarjökli um Hágönguhraun og aðrar auðnir niður að Sauðafelli þar sem farvegurinn beygir vestur fyrir hið mikla Þórisvatn niður í iðagrænar Þóristungurnar við Búðarháls. Þar mætir Kaldakvísl Tungnaá, sem kemur úr austri og saman renna þær, eða runnu áður fyrr, um 15 km leið niður að Sultartanga þar sem Þjórsá tekur á móti þeim.

Núna er Kaldakvísl þó ekki svipur hjá sjón. Örfáa kílómetra neðan við jökulröndina rennur hún út í Hágöngulón, manngert miðlunarlón sem tekið var í notkun í lok síðustu aldar. Þaðan rennur Kaldakvísl 30 kílómetra leið um náttúrulegan farveg sinn þar til hún mætir hinum manngerða Stóraversskurði sem veitir vatni frá Kvíslaveitu yfir í Þórisvatn og áfram þaðan um röð virkjana niður í Sultartangalón. Ármótin við Tungnaá, sem áður fyrr var lokahnykkurinn á langri för Köldukvíslar, eru nú farin undir Sporðöldulón Búðarhálsvirkjunar, en þar var stórum hluta Þóristungna drekkt. Eini náttúrulegi farvegur Köldukvíslar sem heita má að hún nýti enn er því á milli Hágöngulóns og Þórisvatns. Með tilkomu Skrokköldu verður Köldukvísl hins vegar veitt úr Hágöngulóni yfir í Kvíslaveitu um Skrokkölduvirkjun og verður þá allur náttúrulegur farvegur fljótsins meira og minna þurr. Reyndar er núverandi rennsli um farveginn neðan Hágöngulóns þegar stýrt eftir árstíðum því lónið er fyllt á sumrin og er rennslið þá lítið sem ekkert neðan við það. Með tilkomu Skrokkölduvirkjunar má hins vegar segja að Köldukvísl verði endanlega breytt í einn langan manngerðan virkjanafarveg án nokkurs almennilegs rennslis í náttúrulegum farvegi. Kannski finnst sumum þetta litlu máli skipta en þarna tel ég illa vegið að hálendinu og þeim stalli sem það hvílir á í hugum landsmanna, þegar eitt magnaðasta örnefni óbyggðanna verður endanlega svæft.

Með Skrokkölduvirkjun mun Kaldakvísl einfaldlega hætta að vera til og örnefnið verður fljótt vart meira en gamalt nafn í kvæði manns sem nú er löngu látinn. Ef þetta eiga að heita lítil umhverfisáhrif, hvernig ætli aðrir virkjanakostir líti út?

Höfundur er jarðfræðingur og rithöfundur.

Greinin birtist fyrst á vefritinu Gruggi.