Sögur af sjálfbærni
Snæbjörn Guðmundsson
2019-03-04
Hér birtist önnur grein mín um íslensk víðerni og Hvalárvirkjun. Greinarnar verða þrjár í heildina, svo mikið reyndist efnið. Í fyrstu grein minni var fjallað um íslensk víðerni í alþjóðlegu samhengi og ábyrgð Íslendinga sem vörslumanna allravilltustu landsvæða Evrópu. Í þessari grein er hugmyndinni um að Íslendingar eigi heiðarnar teflt fram andspænis viðskiptamódeli erlendra eigenda Hvalárvirkjunarhugmyndarinnar. Frekari kortlagning víðernaskerðingar og hugleiðing um stefnu stjórnvalda bíður þriðju greinarinnar, sem mun einnig birtast hér á Kjarnanum.
Íslensku heiðarnar
Hvernig metur þú auðlegð heiðanna? Hér er ein tilraun til að nálgast náttúrugæði þeirra:
Heiðar eru fæðingarstaðir. Uppi á heiðum landsins kvikna lækjarsprænur í dýgrænum mýradrögum og heiðbláum fjallavötnum. Þessu vatni eiga tilveru sína að þakka fuglar og smádýr, jafnvel stofnar smáfiska sem lifa einangraðir í vötnum eða efstu lækjardrögum. Vistkerfi heiðarlendisins fléttast saman í flóknu samspili sem lætur kannski ekki mikið yfir sér nema rétt á meðan við mannfólkið gefum því örlítinn gaum. Gaumur okkar skiptir þó ekki máli, vistkerfin eru þarna óháð honum. Heiðar sem virðast líflausar og eyðilegar eru ekki einungis heimkynni fjölmargra plöntu- og dýrategunda heldur fæða þær einnig lífríki láglendisins í gegnum smálæki og ár sem seytla ýmist niður á láglendið um lágstemmdar flúðir eða falla saman í stórkostlegum fossum um gljúfur og gil. Stór hluti vatnsins sem heiðarnar draga í sig fellur líka neðanjarðar um vatnsmikla og tæra grunnvatnsstrauma, sem koma upp sem lindir á láglendinu eða flæða jafnvel beint niður í sjó.
Heiðar eru ein mikilvægustu vistkerfi landsins og órjúfanlegur grundvöllur allra okkar náttúrugæða á láglendinu. Mikilvægi þeirra verður ekki mælt í megavöttum eða gígavattstundum.
Hér er löngu búið að virkja margfalt meira en Íslendingar í raun þurfa og heiðarnar og fallvötn þeirra eru okkur miklu mikilvægari óvirkjuð. Þegar við fórnum þeim undir mannanna verk erum við í raun að saga undan okkur sjálfum eina allramikilvægustu grein lífríkisins.
Eða eigum við kannski að meta heiðarnar svona?
Heiðar eru uppspretta mikils auðs. Þær eru í raun stór hluti af auðæfum Íslendinga og þeim lífsgæðum sem við höfum byggt hér upp í okkar harðbýla landi. Heiðar landsins fæða af sér fallvötnin, undirstöðu lífshátta okkar síðan snemma á síðustu öld þegar stórvirkjanaframkvæmdir hófust og það sem talið er mesta framfaraskeið þjóðarinnar.
Heiðarnar eru safnsvæði regnvatns og snjóalaga sem gefa af sér afl og orku. Aflið virðist lítið í upphafi, smálækir og sytrur sem safnast saman í sífellt stærri og vatnsmeiri ár, en þær eru uppistaða hins virkjanlega vatnsafls. Á fögrum sumardögum eru árnar fagrar á að líta og gaman að fara um heiðalöndin, en mesta fegurðin býr í aflinu sjálfu, hinni virkjanlegu frumorku vatnsins sem streymir án afláts allt árið um kring, óháð duttlungum veðurfarsins.
Er hægt að tala um raunverulega nýtingu þegar slíkar gullnámur eru friðaðar fáum til gagns? Eru heiðblá uppistöðulón með smástíflum og snotrum skurðum ekki eðlileg nýting á þeim náttúruauðlindum sem heiðarnar eru? Hefur ferkílómetratalning heiðarlendis sem einhvers konar jaðarvíðerna í raun eitthvert gildi, sérstaklega þegar fáir fara um heiðarnar og flestir myndu hvort eð er upplifa virkjanasvæðin nánast eins og þau væru ósnortin? Raunverulegt gildi heiðaflæmanna liggja í vatnsaflinu, með því getum við nýtt landið og byggt upp samfélag með sæmandi lífskjörum. Ef ekki væri fyrir þessi miklu landflæmi værum við fátækari á allan hátt.
Persónuleg afstaða
Hvor afstaðan höfðar frekar til þín, kæri lesandi? Hljóma kannski báðar jafnvel, eða hvorug? Fer það ef til vill eftir því hvernig skapi þú ert í, hver er að tala, hvar þú býrð eða við hvað þú starfar? Skiptir máli hvort þú hafir komið upp á heiði eða ekki? Er önnur hvor afstaðan yfir höfuð réttmætari? Byggist niðurstaða hvers og eins kannski fyrst og fremst á lífsviðhorfum og pólitískri afstöðu?
Er ekki augljóst að hægt er að snúa öllu á haus og mála þá mynd sem mann langar til að koma á framfæri með því að velja hverju sagt er frá og hvernig? Snýst andstæðan á milli náttúruverndar og auðlindanýtingar í þágu virkjanafyrirtækja bara um mismunandi orðræðu þar sem ýmist er höfðað til náttúrutilfinninga eða lífsbaráttunnar við náttúruöflin, sem eru hvort tveggja svo sterkir frumþættir í okkur Íslendingum vegna nálægðarinnar við náttúruna?
Er víst að hægt sé að komast að skynsamlegri niðurstöðu í svona flóknum málum? Ef mismunandi orðræða ræður svona miklu í þeirri mynd sem við sjáum, væri ef til vill ráð að gera tilraun til að skilja sannreynanleg gögn frá orðaflaumnum og greina rökin? Myndu skýr og skiljanleg gögn í svona málum breyta einhverju um afstöðu þína? Og ef svo er, hver ætti að hafa það hlutverk að koma á framfæri réttum upplýsingum um gildi mismunandi náttúrugæða og auðlinda sem fólk er augljóslega ekki sammála um hvernig skuli nýta?
Þróun umræðunnar
Umræða um náttúruna og nýtingu hennar þróast hratt. Viðhorf til náttúrugæða breytast eðlilega með ógnarhraða á tímum loftslagsbreytinga og sífellt ágengari nýtingar mannsins um alla veröld. Umræðan er gjörbreytt í dag frá því fyrir jafnvel örfáum árum, sama til hvaða þáttar umhverfismeðvitundar litið er, auðlindanýtingar, neyslu, umgengni við náttúruna eða stöðu mannsins í henni.
Ef við förum lengra aftur í tímann, áratugi eða jafnvel aldir, þá hefur það verið almennt viðhorf að náttúruna bæri að nýta í þágu mannsins. Fyrst á síðari hluta 19. aldar tók að bera á öðrum viðhorfum fyrir alvöru en þau einskorðuðust við afmarkaðan hóp fólks og varla er hægt að tala um almenna náttúruverndarhreyfingu fyrr en um miðja síðustu öld, í það minnsta hér á Íslandi. Á þeim tíma fjölluðu enn margir íslenskir náttúrufræðingar jöfnum höndum um náttúrugæði út frá sjónarhóli auðlindanýtingar og um náttúruna hennar sjálfrar vegna. Þannig má segja að þeim mismunandi viðhorfum sem birtust í upphafi greinarinnar hafi í mörgum tilvikum verið haldið fram af sama fólkinu, sem þekkti náttúru landsins vel og skildi af miklu innsæi hvað í henni bjó.
Hugmyndir almennings um náttúrugæði og ágenga auðlindanýtingu fyrri tíma eiga hins vegar mun síður upp á pallborðið í dag þótt enn eimi eftir af stórvirkjanaviðhorfi síðustu aldar. Það er ekkert óeðlilegt, því að í manninum býr nýjungagirni og löngun til að umbylta umhverfi sínu með því að snúa á náttúruöflin. Sú sýn hefur vissulega fært okkur ótal tækifæri en um leið einnig hremmingar loftslagsbreytinga og ört þverrandi náttúrugæða.
Með hinni breyttu heimsmynd er gamla rómantíska hugmyndin um hugdjarfa beislun fallvatnanna í þágu fátækrar þjóðar í eðli sínu úrelt.
Þeir sem mæltu fyrir slíkum viðhorfum um miðja síðustu öld litu í því til hags miklu fátækari þjóðar en þeirrar sem lifir á Íslandi í dag, þjóðar sem hafði í fallvötnunum ef til vill tækifæri til að nýta áður ónýttar auðlindir og skapa úr þeim verðmæti sem ekki voru til staðar fyrir. Í dag framleiða Íslendingar hins vegar langmesta raforku í heimi miðað við höfðatölu. Munurinn á þeirri þjóð sem horfði til fallvatnanna upp úr miðri síðustu öld og þeirrar sem lifir hér í dag er eins og svart og hvítt. Þótt ekki sé nema litið til annarra þjóða heims er augljóslega ekki hægt að færa rök fyrir því að við þurfum að auka raforkuframleiðslu. Við framleiðum nú þegar margfalt meira en flestar aðrar þjóðir virðast þurfa. Vissulega væri hægt að framleiða meiri raforku, því við eigum enn mikla orku ónýtta í fallvötnum og jarðvarma. Möguleikar á orkuframleiðslu fela þó síður en svo í sér að nýting sé nauðsynleg.
„Græna orkan“ og loftslagsmálin
En þetta snýst nú ekki bara um Ísland, eða hvað? Raforkuframleiðsla á Íslandi kemur í veg fyrir að kolum eða olíu sé brennt fyrir stóriðju annars staðar í heiminum, er það ekki? Því er sífellt haldið að okkur að „græna orkan“ í fallvötnunum og háhitasvæðunum sé mikilvæg í baráttunni gegn loftslagsvánni. Ekkert raunverulegt styður þó slíkar hugmyndir annað en ofureinföldun á mjög flóknu kerfi framboðs og eftirspurnar raforku, hráefna og framleiðslu. Raforkuframleiðsla á Íslandi hefur aukist gríðarlega á þessari öld, og mest af þeirri aukningu hefur farið til stóriðju eins og álframleiðslu, en auðvitað er engin leið að sýna fram á að sú framleiðsla hafi komið í stað álframleiðslu annars staðar með brennslu kolefniseldsneytis.
Ofureinföldunin felst í því að fjalla um álframleiðslu og aðra orkufreka stóriðju eins og um lokaðan markað sé að ræða, þar sem aðeins sé pláss fyrir ákveðið magn fyrirtækja á heimsmarkaðnum og að framleiðsla á einum stað komi í veg fyrir framleiðslu annars staðar, líkt og um kvótakerfi væri að ræða. Ekkert er fjær sanni.
Raunin er sú að meira að segja eigendur álveranna á Íslandi hafa verið að opna ný álver knúin með brennslu kolefnaeldsneytis. Þannig á Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, stóran hlut í álveri sem opnað var árið 2004 í Oman á Arabíuskaganum, en það álver er knúið áfram af raforku frá risastóru gasorkuveri í nágrenninu. Ekki kom hin gríðarmikla fórn Kárahnjúkasvæðisins í nafni grænnar orku í veg fyrir að það álver væri opnað.
Aukin stóriðja hér á landi er nefnilega ekkert meira en bara akkúrat það, aukin stóriðja.
Álver reist hér með „grænni orku“ kemur ekki í veg fyrir að álver séu reist annars staðar á sama tíma, jafnvel af sama aðila, knúin með jarðefnaeldsneyti. Þessi ofureinfalda mynd sem sem teiknuð er af „grænu orkunni“ byggist á þeirri forsendu að hin fágætu og mikilvægu íslensku víðerni séu afgangsstærð sem skipti engu máli í stóra samhenginu.
Víðerni og óspillt náttúra eru hins vegar gersemar Íslands, auðæfi sem við höfum erft frá forfeðrum okkar og við höfum ekki rétt til að spilla þeim á æviskeiði einnar kynslóðar, sérstaklega ekki í þágu einfeldningslegrar orðræðu sem horfir á hagkerfi út frá þröngu sjónarhorni. Við aðstoðum umheiminn og afkomendur okkar ekki með því að týna og glata því dýrmætasta sem landið geymir. Við gætum auðveldlega eytt öllum víðernunum okkar í þágu stóriðjunnar og virkjanaiðnaðarins á mjög skömmum tíma en það væri bara dropi í hafið miðað við orkuþörf mannkyns, og myndi ekki koma í veg fyrir opnun nýrra kola- eða gasorkuvera annars staðar.
Þegar talsmenn áframhaldandi virkjunarstefnu í þágu stóriðju segja að fórna þurfi víðernum landsins í þágu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum þá er einfaldlega verið að afvegaleiða almenning. Það er verið að búa til orðræðu sem hentar áframhaldandi virkjanastefnu, sem er fyrst og fremst í þágu orku- og stóriðjufyrirtækja. Eyðilegging íslensku víðernanna er þegar upp er staðið ekki í þágu mannkyns. Hún gengur einmitt þvert á móti gegn hagsmunum mannkyns sem horfir upp á sífellt þverrandi víðerni um alla jörð. „Fórnirnar“ svokölluðu eru sjálfsblekking, réttlæting fyrir virkjunarstefnunni, og haldlaus sem slík.
Aðrar leiðir til að takast á við loftslagsbreytingarnar eru okkur Íslendingum miklu greiðari heldur en að auka stóriðju á kostnað víðerna og ósnortinnar náttúru. Nærtækast væri að auka sjálfbærni annarra þátta atvinnulífsins og stórminnka neyslu. Við þurfum miklu frekar að fækka bílum í stað þess að friða samviskuna með því að smíða þá úr áli.
Það er mikilvægt að hafa ofangreint í huga þegar rætt er um Hvalárvirkjun, því talsmenn hennar nýta sér óspart orðræðu og tískuorð samtímans þegar virkjunaráformin og eyðilegging víðernanna suður af Drangajökli eru réttlætt.
„Sjálfbærni“, „raforkuöryggi“, „baráttan við loftslagsbreytingar“, „græn orka“ – þessu er öllu saman fleygt fram án nokkurs rökstuðnings eða vitrænnar umræðu. Á almenningur ekki betra skilið í samfélagsumræðunni heldur en slíkt orðasalat án raunverulegs innihalds?
„Sjálfbærni” Vestfjarða eða HS Orka Group?
Veist þú, lesandi góður, að frá því að þrír Vestfirðingar fengu hugmyndina rétt fyrir hrun að laga raforkuöryggi í landsfjórðungnum með virkjun Hvalár, hefur allt breyst? Virkjanahugmyndin sjálf er áratuga gömul en komst fyrst almennilega á skrið fyrir um áratug þegar fyrirtækið Vesturverk tók hana upp á sína arma. Til að sanngirni sé gætt þá var hugmyndin með virkjuninni upphaflega að efla orkuöryggi Vestfjarða, einkum norðurfjarðanna. Árið 2013 var virkjunin samþykkt inn í rammaáætlun með 35 MW uppsett afl. Virkjunin þótti afar óhagkvæm en hún átti hins vegar að tengjast inn á Ísafjörð, eins og kemur skýrt fram í gögnum í rammaáætlun, og byggðist mat Hvalárvirkjunar á þeirri forsendu. Mikilvægt er að hafa í huga að það mat fór fram fyrir gildistöku laga um rammaáætlun árið 2013 en æði margt hefur breyst í því umhverfi öllu saman, eins og til dæmis aðferðir við svona mat sem hafa þróast mikið.
Hvalárvirkjun hefur í allri samfélagsumræðu verið rekin áfram af hinu vestfirska Vesturverki, sem hefur skrifstofu á Ísafirði. Vesturverk er þannig aðili að samningum við landeigendur tveggja jarða á virkjanasvæðinu og handhafi rannsóknarleyfis frá Orkustofnun sem tengt er Hvalárvirkjun. Ef kafað er dýpra kemur þó ýmislegt annað í ljós, sem ekki er endilega haldið að almenningi. Það er kannski ekki skemmtilegt eða þægilegt að horfast í augu við það en litla félagið Vesturverk er einungis að nafninu til hluti af þessum virkjanaáformum, raunveruleikinn er einfaldlega allt annar.
Frá því að útgáfa Vestfirðinganna af Hvalárvirkjun fór í nýtingarflokk árið 2013 hefur eignarhald Vesturverks og Hvalárvirkjunarhugmyndarinnar gjörbreyst. Vesturverk er nú dótturfélag HS Orku á Suðurnesjum, eins og margir vita og fram kemur á heimasíðu þess síðarnefnda. Yfirtakan fór fram árið 2015. Almenningur gerir sér auðvitað grein fyrir því að það kostar gríðarmikla fjármuni að vinna að virkjunarhugmynd. Vesturverk hafði árið 2013 ekkert bolmagn til að fjármagna Hvalárvirkjunarverkefnið og leitaði loks á náðir HS Orku, sem hefur síðan nánast gleypt vestfirska fyrirtækið, fyrst með því að eignast hlut í félaginu 2014, sem jókst árið eftir upp í rúmlega helmingshlut þegar yfirtakan á Vesturverki fór fram. HS Orka greiddi samtals 120 milljónir fyrir að ná þessum yfirráðum. HS Orka jók eignarhlut sinn svo ár frá ári og í árslok 2017 átti fyrirtækið 71% í Vesturverki.
Á árinu 2018 hefur hlutafé í litla félaginu enn verið aukið en enginn rekstur hefur raunverulega farið fram í því frá 2015 og allt sem fram fer að nafninu til hjá Vesturverki er gert upp með samstæðureikningi HS Orku. Allt eru þetta opinber gögn. HS Orka segist á heimasíðunni eiga 70% hlut í sjálfu virkjunarverkefninu Hvalárvirkjun á móti Vesturverki. Sé það rétt, á eignarhaldsfélag Vestfirðinganna, Gláma fjárfestingar, enn minna í þessu verkefni en framangreint gefur til kynna. HS Orka á tvo af þremur stjórnarmönnum í Vesturverki og stjórnarformaðurinn er Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku. Vesturverk hefur beinlínis runnið inní samstæðuna HS Orku.
Vestfirsk víðerni í þágu erlendra fjárfestingarsjóða
Svo má halda áfram á þessum nótum og skoða eignarhald HS Orku, sem var upphaflega selt úr opinberri eigu á árunum 2007-2010. HS Orka er nú dótturfélag Magma Energy Sweden AB og er ársreikningur HS Orku 2017 hluti af samstæðureikningi móðurfélagsins Alterra Power Corportation sem er með höfuðstöðvar í Kanada. Alterra er frá 2018 aftur í eigu annars félags, Innergex Renewable Energy Inc. sem er fyrirtæki skráð í kauphöllinni í Toronto í Kanada. Eins og margir vita er stjórnarformaður HS Orku Ross Beaty, sem heldur á meirihluta í fyrirtækinu í gegnum áðurgreint skúffufyrirtæki Magma Energy. Alls eiga erlend fyrirtæki 66,6% í HS Orku og fara því með yfirráð í fyrirtækinu og um leið dótturfélagi þess, Vesturverki.
Hljómar þetta eins og sú vestfirska framtakssemi sem lagt var upp með í upphafi Hvalárvirkjunarverkefnisins? Virkjanahugmyndir og viðskiptamódel eigenda HS Orku í kringum Hvalá eru einfaldlega ekki Vestfirðinga lengur. Það má raunar efast um að þær séu yfir höfuð íslenskar, því yfirráðin eru það ekki – fyrirtæki sem er sagt vestfirskt, er bara skel og hefur fyrir löngu verið yfirtekið af fyrirtæki á Suðurnesjum sem aftur er í meirihlutaeigu erlendra fyrirtækja.
Eign HS Orku í því sem gert er í nafni Vesturverks samanstendur af „eignfærðum þróunarkostnaði“, sem eigendur og framkvæmdastjórn HS Orku telja líklegt að muni breytast í eign í hendi með framtíðarhagnaði af Hvalárvirkjun en að öðrum kosti verði þróunarkostnaðurinn einfaldlega færður í bókhaldi fyrirtækisins sem virðisrýrnun. Upphaflegur þróunarkostnaður Vesturverks af Hvalárvirkjunaráformunum og tilfallinn kostnaður við verkefnið eftir yfirtöku HS Orku á Vesturverki er með öðrum orðum hluti af „eign” í samstæðureikningi kanadísks félags á hlutabréfamarkaði og dótturfélags þess. Fái þessi samstæða ekki tekjur af nýtingu fallorku Hvalár, Rjúkandi og Eyvindarfjaðarár á Ströndum með tilheyrandi rýrnum víðerna Íslands, mun virði samstæðunnar einfaldlega rýrna sem nemur þróunarkostnaðinum.
Hér er því einföld spurning, sem í raun rammar inn baráttuna um Hvalá og Drangajökulsvíðernin: Hvort viljum við frekar leyfa þessum aðilum að virkja og horfa upp á grafalvarlega og endanlega rýrnun víðernanna og einstakrar náttúru Íslands, eða sleppa virkjun og láta rýrnunina einfaldlega koma fram í bókhaldi erlendra fjárfestingarfyrirtækja sem snertir okkur á Íslandi í raun ekki neitt?
Til hvers er þá Hvalárvirkjun?
Lokapúslið í þessari fléttu er svo auðvitað spurningin um ástæðu þess að eigendur HS Orku höfðu svona mikinn áhuga á að taka Vesturverk yfir og ná yfirráðum yfir stórum hluta Drangajökulsvíðerna. Jú, svarið felst að miklu leyti í hinni stórskaðlegu stóriðjuvirkjanastefnu síðustu áratuga, sem sumir vilja enn ríghalda í. HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesskaga, í Svartsengi og úti á Reykjanesi, og hefur á síðustu árum stundað í þeim ósjálfbæra og ágenga nýtingu jarðvarma. Orkan er að mestu seld til Norðuráls á Grundartanga, helsta viðskiptavinar HS Orku, en einnig hefur HS Orka raforkusölusamning við óbyggða kísilverksmiðju Thorsil og jafnvel aðra mögulega stórnotendur raforku.
Vegna aukinnar raforkusmásölu þarf HS Orka hins vegar meira afl á álagstímum en fyrirtækið getur aflað sjálft með sínum virkjunum og kaupir það því dýrt aukaafl, svokallað toppafl, af öðrum raforkufyrirtækjum eins og Landsvirkjun. Þar kemur til kasta Hvalárvirkjunar. Eftir að HS Orka tók yfir Vesturverk með ýmsum virkjanakostum á Vestfjörðum, hefur útfærsla Hvalárvirkjunar stökkbreyst að því leyti að aflgeta virkjunarinnar hefur verið aukin úr 35 MW upp í 55 MW til að mæta þörfum HS Orku fyrir mikið toppafl í stuttan tíma, sem fyrirtækið þarf þá ekki að kaupa af öðrum.
Þessi nýja útfærsla hefur legið fyrir frá árinu 2014 og er algjörlega löguð að aðstæðum HS Orku. Viðskiptamódel Hvalárvirkjunar tengist Ísafirði eða öðrum á Vestfjörðum ekki á nokkurn hátt lengur, heldur þjónar hluthöfum og viðskiptavinum HS Orku, sem eru að langmestu leyti suðvestanlands. Eða varla heldur nokkur því fram að álverið á Grundartanga sé mikilvægur hluti af raforkuöryggi og „sjálfbærni“ Vestfirðinga í raforkumálum?
Afstöðuleysi er ekki í boði
Hvora afstöðuna sem þú hefur til náttúrunnar og nýtingar hennar, sem lögð var fram fremst í greininni, taktu hana á upplýstan hátt. Ekki láta segja þér að þú þurfir að taka afstöðu byggða á því hvort þú búir fyrir vestan, norður á Ströndum eða fyrir sunnan, eða jafnvel í útlöndum, eða hvort þú hafir yfirleitt komið á svæðið. Verndun náttúrunnar er hvort eð er ekki einvörðungu fyrir okkur sjálf heldur ekki síður afkomendur okkar og umheiminn. Náttúran er ekki einkamál landeigenda eða orkufyrirtækja, við eigum hana og berum ábyrgð á henni öll sameiginlega hvar í heiminum sem við erum stödd.
Víðernin á Vestfjörðum eru mikilvægur hluti af náttúrugersemum heimsins og við skulum hafa það á hreinu að ef hin miklu Drangajökulsvíðerni með bæði Hornströndum og Ófeigsfjarðarheiði verða enn jafnósnortin og þau eru nú eftir hundrað ár, þá verður það einungis vegna þess að við tókum meðvitaða ákvörðun um að vernda þau einmitt núna! Ef við gætum okkar ekki verður vaðið áfram. Vilji hinna erlendu eigenda HS Orku er skýr og nú er róið að því öllum árum að skipulagsbreytingar verði samþykktar og afgreiddar sem fyrst, jafnvel svo hægt sé að hefja vegagerð upp á Ófeigsfjarðarheiði í vor. Þá verður að öllum líkindum ekki aftur snúið, og sorgleg örlög meiriparts Drangajökulsvíðerna innsigluð með eyðileggingu heiðarinnar.
Víðernin vernda sig ekki sjálf. Þau hafa hvergi gert það í heiminum og alveg sérstaklega ekki á Íslandi þar sem hugsunarlaus og tómlátur raforkuþorsti sunnlenskra orkufyrirtækja, sem nú eru komin í erlendar hendur, fær að ráða för. Ef skammtímasjónarmið um ósjálfbæra og óafturkræfa auðlindanýtingu fá öllu ráðið, frekar en heildstæð sýn á framtíð náttúrunnar, víðernanna og okkar sess meðal þeirra, þá munu víðernin halda áfram að hverfa hvert á fætur öðru þar til þau hætta að verða til. Við þurfum að taka upplýsta ákvörðun um að hætta að hugsa um þau sem afgangspláss sem situr eftir þegar búið er að virkja og nýta allt sem orðræða stórvirkjunarhugsunar segir okkur að sé einhvers virði í aurum talið.
Víðernin eru miklu mikilvægari í sjálfum sér en svo að nokkur ætti að leyfa sér að tala um þau sem óþarfar líflausar auðnir sem engu máli skipta.
Í þriðju og síðustu grein minni í bili um Hvalárvirkjun og Drangajökulsvíðerni mun ég fjalla um hvernig það gat gerst að meirihluti víðernanna við Drangajökul eru komin á teikniborð virkjunaraðila án þess að nokkur hafi náð að spyrna fótum við. Þar mun loks birtast heildarmynd víðernaeyðileggingarinnar á Ófeigsfjarðarheiði, sem hingað til hefur markvisst verið haldið frá almenningi.
Höfundur er jarðfræðingur og í samtökunum ÓFEIGU náttúruvernd sem vinna að verndun víðernanna á Ófeigsfjarðarheiði.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.