Banner image

Sópað undir pilsfaldinn

Lög um „Vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga“ voru nýverið samþykkt á Alþingi. Í þeim er ákveðið að reisa garða til að verjast hraunflóði sem grandað gæti mannvirkjum við Svartsengi. Ekki skal réttmæti slíkra varna dregið í efa en það að gera almenning í landinu fjárhagslega ábyrgan fyrir eignum og rekstri einkafyrirtækja með því að ríkissjóður greiði allan kostnað við þessar varnir hlýtur að vera illa grunduð ákvörðun.

Í færslu á Facebook, 14. nóv. sl., kallaði blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson þá ákvörðun pilsfaldakapítalisma. Í grein sem birtist á vef Kjarnans í maí 2020, um aðgerðir vegna Covid-19, benti ég á að með ríkisstyrk til fyrirtækja sé verið að færa fé frá almenningi til eigenda þess. Ítrekaði ég það í athugasemd við færslu Jakobs. Viðbrögð við þessu, flest jákvæð, en önnur með rökstuðningi eru tilefni til frekari skýringa.

Annars vegar var því haldið fram að þessi tilvik væru ekki sambærileg. Í Covid hefðu tekjur tapast vegna ákvarðana stjórnvalda en í eldgosi væri við náttúruöflin að eiga. Því er til að svara að stjórnvöldum ber að stöðva atvinnustarfsemi sem skaðað getur almannaheill. Var það gert og eru engin rök fyrir bótum vegna „tapaðra tekna“ af starfsemi sem getur verið skaðleg almannaheill og er óheimil. Að auki má benda á að viðskiptaþurrð í Covid var að stórum hluta vegna erlendra ferðatakmarkana og ákvarðana einstaklinga og því ekki við stjórnvöld hér á landi að sakast.

Hins vegar var sagt að almannahagsmunir séu undir því komnir að starfsemi orkuversins í Svartsengi stöðvist ekki og að fall Bláa lónsins hefði í för með sér atvinnumissi hjá fjölda manna og því beri að verja almannafé til að tryggja starfsemina. Taka má undir það að þessar ástæður geta verið tilefni til að ríkið grípi inn í og tryggi áframhaldandi starfsemi en það svarar ekki því álitamáli hver eigi að bera kostnað af slíkum aðgerðum.

Áður en litið er til slíkra inngripa ríkisins er rétt að fara yfir nokkur atriði og reglur um fjárhagslegar afleiðingar náttúruhamfara.

Launabætur

Náttúruhamfarir sem og skæðar farsóttir geta valdið atvinnumissi. Þótt launagreiðendum beri jafnan að halda launagreiðslum áfram um tíma eftir stöðvun starfsemi fellur sú skylda niður séu ástæðurnar óviðráðanlegar og eins getur verið að fyrirtækið hafi ekki bolmagn til að standa við skuldbindingar sínar. Við þessu er brugðist með almannatryggingum. Þeir sem missa launatekjur eiga rétt á atvinnuleysisbótum og félagslegri aðstoð ríkis og sveitarfélaga.

Ríkisvaldið getur einnig gengið lengra en tryggingarlögin mæla fyrir um. Í Covid-19 var það gert með ýmsum hætti til að halda fyrirtækjum starfhæfum þar til upp stytti. Að því leyti sem þau framlög fóru til að greiða laun starfsfólks umfram skuldbindingar launagreiðenda eru þau af sama toga og atvinnuleysisbætur og eru ekki álitamál í þessu samhengi.

Styrkir til rekstraraðila

Í Covid-19 voru greiddir beinir styrkir til rekstraraðila, tekjufallsstyrkir, viðspyrnustyrkir, styrkir vegna launa á uppsagnartíma o.fl. til að koma í veg fyrir að tímabundnir erfiðleikar hefðu langvarandi áhrif á atvinnulífið. Greiðsluheimildir voru settar með lögum en réttmæti þessara styrkja má draga í efa. Að nota skattfé til að styrkja einkafyrirtæki orkar ætíð tvímælis.

Þótt fjárhæðir í hverjum styrkjaflokki hafi verið takmarkaðar var heildarfjárhæð styrkjanna hátt í 40 mrd. kr. Meðal styrkþega voru stöndug stórfyrirtæki sem starfrækt voru með góðum hagnaði fyrir og eftir Covid-19 og hefðu getað staðið af sér þrengingarnar með eigin fé og aðstoð banka sem einnig sýndu góða afkomu á Covid-tímanum. Styrkir þessir voru ekki endurkræfir en háðir því skilyrði að fyrirtæki greiddu ekki arð í einhvern tíma. Slíkt ákvæði er til málamynda. Arður er ekki mælikvarði á afkomu eða greiðslugetu heldur ákvörðun eigenda um í hvaða vasa eignin er geymd.

Opinber aðstoð til að hjálpa fyrirtækjum yfir tímabundna erfiðleika getur verið réttmæt en á ekki að vera í formi beinna styrkja. Ríkissjóður er ekki bótasjóður og framlög úr honum í þessu skyni hefðu átt að vera endurkræf og trygging tekin í eignum viðkomandi fyrirtækis.

Bætur vegna eignatjóns og varnaraðgerðir

Auk þess sem á reyndi í Covid koma í náttúruhamförum tvö önnur atriði til skoðunar, eignatjón og kostnaður við varnir. Bætur fyrir eignatjón falla undir lögbundnar eða frjálsar vátryggingar fasteigna og Náttúruhamfaratryggingar eftir því sem þær eiga við. Ríkissjóður bætir ekki eignatjón nema sérstök lagasetning komi til. Varnir gegn ofanflóðum o.fl. eru greiddar af Ofanflóðasjóði eftir sérstökum reglum sem um hann gilda. Kostnaði við gerð varnargarða er skipt á milli sjóðsins, sem fjármagnaður er af eigendum tryggingarskyldra fasteigna í landinu, sem greiða 90% af kostnaðinum og viðkomandi sveitarfélags sem greiðir 10% hans.

Varnir við Svartsengi þjóna fyrirtækjum í einkaeign og eru fyrst og fremst til að tryggja eignir þeirra og rekstur. Ekki er líklegt til að hraunflóð ógni fólki sem starfar á svæðinu. Þrátt fyrir það var ákveðið að kostnaður við varnirnar verði að fullu greiddur af almannafé. Hefur það m.a. verið rökstutt með tilvísun til ofanflóðavarnargarða sem á þó ekki við þar sem varnir fyrir atvinnurekstur eru ekki greiddar af Ofanflóðasjóði enda ólíku saman að jafna. Markmið ofanflóðavarna er fyrst og fremst verndum mannslífa og heimila fólks. Að sjálfsögðu geta þær líka verndað fyrirtæki á þeim svæðum sem þær ná til enda eru þau jafnan vinnustaður fjölda fólks.

Kostnaður við varnarmannvirki sem nauðsynleg eru til að fyrirtæki geti starfað er hluti af fjárfestingum vegna starfseminnar. Hafi sú þörf ekki verið ljós í upphafi verða eigendurnir að horfast í augu við hana þegar á reynir og kosta úrbætur.

Aðkoma ríkisins við Svartsengi

Sé hætta yfirvofandi eins og nú er á hjá HS Orku og geti fyrirtækið ekki brugðist við getur ríkið vegna almannahagsmuna gripið inn í og staðið fyrir nauðsynlegum framkvæmdum. En það breytir því ekki að kostnaðurinn á að falla á fyrirtækið. Ríkið ber ekki ábyrgð á rekstri og eignum einkafyrirtækja. Í þessu tilviki hafa þeir sem keyptu orkuver og veitur á Reykjanesi tekið á sig ábyrgð gagnvart íbúum þar á þeirri þjónustu sem þessi fyrirtæki veita og eru, ef ekki lagalega þá siðferðilega, skuldbundnir til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda henni uppi þ.m.t. að byggja varnargarða sé talið að þeir komi að gagni. Þá fjárfestingu eiga fyrirtækin að greiða, þau hafa notið hagnaðar af starfseminni og munu gera það framvegis.

Um Bláa lónið gegnir sama máli. Það hefur ekki með höndum starfsemi í þágu almennings en er rekið í hagnaðarskyni fyrir eigendur þess. Þau rök að svo margir starfi við Bláa lónið að það réttlæti aðkomu ríkisins halda ekki vatni og hafa t.d. ekki verið höfð uppi í þeim tilvikum þegar fiskiðjuverum er lokað í hagræðingarskyni og heilu byggðarlögin skilin eftir á köldum klaka. Sé fyrirtækinu ekki kleift að gera ráðstafanir til að tryggja áframhaldandi rekstur en hann talinn nauðsynlegur kann inngrip ríkisins að vera réttlætanlegt.

Framlög ríkisins í þessum tilvikum eiga ekki að vera styrkir eða gjafir til eigenda orkuversins og Bláa lónsins heldur annaðhvort lán með veði í eignum fyrirtækjanna eða stofnframlag, þ.e. að ríkið eignist hlut í þeim í samræmi við fjárframlag sitt og njóti þá tekna af rekstrinum eða selji hlut sinn síðar.

Áhugavert er að skoða þær fjárhæðir sem um er að ræða í þessu efni. Áætlaður kostnaður við varnargarðana er áætlaður um 2.500 m.kr. Samkvæmt frumvarpinu er endurstofnverð mannvirkja orkuversins talið um 70.000 m.kr. og má áætla að heildarverðmætið á mannvirkjum á svæðinu sé nálægt 100.000 m.kr. Kostnaður við varnargarðana er því aðeins um 2,5% af verðmæti mannvirkjananna. Það er langt undir árlegum hagnaði þessara fyrirtækja og vaxtatekjum lánardrottna af þeim. Í stað að láta fyrirtækin greiða 2.500 m.kr. til að varðveita eignir sínar og tryggja áframhaldandi rekstur og hagnað munu eigendurnir skv. nýsettum lögum aðeins greiða um 24 m.kr. í forvarnargjald en almenningur í landinu mun greiða þær 2.476 m.kr. sem á vantar.

Samandregið

Niðurstaða þess sem rakið er hér að framan er í stuttu máli:

  • Aðkomu ríkisins að fjárhagslegum afleiðingum náttúruhamfara á að miða við skyldur samfélagsins gagnvart einstaklingum, afkomu þeirra og framfærslu.

  • Eignatjón á ekki að bæta úr ríkissjóði. Það er verkefni trygginga lögbundinna eða frjálsra sem fjármagnaðar eru með iðgjöldum með hliðsjón af áhættu og hagsmunum eigendanna.

  • Nauðsynlegur stuðningur við rekstraraðila vegna tímabundinna áfalla á að vera endurkræfur.

  • Kostnaður við varnir gegn vá greiðist af þeim sem þeirra njóta þ.e. af almenningi vegna aðgerða til að vernda líf, heilsu og bústaði manna en af fyrirtækjum vegna rekstrareigna.

En helsti lærdómurinn, sem draga má af þessu, er þó sá að orkuver sem nýta náttúruauðlindir landsins eiga að vera í almannaeign en ekki í eigu einkaaðila sem hlaupið geta frá skyldum sínum við almenning og undir pilsfald ríkisins þegar á bjátar.

Höfundur er fyrrverandi ríkisskattstjóri.

Greinin birtist fyrst í Heimildinni.