Þjórsárver – hagkvæm fjárfesting
Ólafur Páll Jónsson
2006-01-13
Í sjónvarpsþættinum Kastljósi 5. janúar sagði Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, að það myndi kosta Landsvirkjun 6 milljarða að virkja ekki við Þjórsárver, þ.e. það myndi vera 6 milljörðum dýrara fyrir Landsvirkjun að fara ekki í Norðlingaölduveitu og virkja heldur annars staðar. Þetta virðist vera nokkuð há upphæð, að minnsta kosti fyrir venjulegan launamann. Og þess vegna vill Landsvirkjun endilega fara í þessar framkvæmdir.
En hvers virði eru Þjórsárver? Eru 6 milljarðar sanngjarnt verð?
Hugsum okkur að Íslendingum byðist að kaupa Þjórsárver (ekki bara friðlandið, heldur þá náttúruheild sem nær langt út fyrir mörk friðlandsins) til að stofna þar þjóðgarð. Verin stæðu alveg undir því: gróðurinn er fjölbreyttur og gróskumikill, vistgerðirnar sérstakar, fuglalífið ríkulegt og öll umgjörðin er stórbrotin. Og segjum að verðið sé 6 milljarðar. Það eru þá 20.000 krónur á mann. Það er engin óskapleg upphæð, en þó munar margan venjulegan launamanninn um 20.000 krónur. Kannski mætti fá lán? Hvað væri þá eðlilegt að lána til langs tíma fyrir svona fjárfestingu? Ef lánstími tekur mið af endingartíma þess sem kaupa á, væri kannski eðlilegt að lánið yrði greitt upp á nokkur hundruð árum. Það er þumalfingursregla að verðfella vélar og tæki um 10% á ári en húsnæði eitthvað minna. Það kallast afskriftir. Þess vegna eru bílalán veitt til nokkurra ára og húsnæðislán til allt að 40 ára. En hvað með óspillta náttúru? Hún er reyndar þess eðlis að hún gengur ekki úr sér eins og bílar og hús. Þjórsárver hafa verið til í mörg hundruð eða þúsund ár og ef við spillum þeim ekki með því að veita Þjórsá í burtu og þurrka upp stóran hluta þeirra, má gera ráð fyrir að þau verði til í nokkur hundruð eða þúsund ár í viðbót.
Og miðað við aukna ásókn í óspillta náttúru, m.a. vegna þess að hún verður sífellt fágætari, rýrna verin ekki að verðgildi með tímanum. Þvert á móti eykst verðmæti þeirra.
En gott og vel, segjum þá að fyrir svona fjárfestingu væri eðlilegt að lána til 100 ára á 4% vöxtum. Þá yrðu árlegar afborganir af 20.000 króna láni 816 krónur. Og hver er svo afraksturinn þegar lánið hefur verið greitt upp? Stórkostleg náttúra. Og ekki bara stórkostlega náttúra heldur miklu meira. Þeir sem búa á Íslandi við upphaf 22. aldar geta sagt: „Íslensk náttúra er sérstök“, í fullvissu þess að það sem þeir segja er satt. Og ekki nóg með það, heldur geta þeir sagt: „Ísland er sérstakt.“ Svo mun kannski einhver bæta við: „Og þess vegna er ég stolt(ur) af því að vera Íslendingur.“
En hvað ef við stíflum Þjórsá og veitum henni framhjá verunum? Jú, þá má framleiða töluvert af rafmagni, nóg til að knýja 1/6 af nútímaálveri eins og því sem verið er að reisa við Reyðarfjörð. Og það má gera Ísland að örlítið álitlegri fjárfestingarkosti fyrir erlend stórfyrirtæki á borð við Alcoa og Alcan. Er það sú tilvera sem við óskum okkur? Segjum við: „Á Íslandi er ódýrt rafmagn“ og fyllumst stolti yfir því að vera Íslendingar. Og er þetta það veganesti sem við viljum gefa börnunum okkar? Því miður verður þetta veganesti e.t.v. uppurið þegar kemur að barnabörnunum því líftími setlónanna við upptök Þjórsár er takmarkaður.
Ef við lítum á málið frá þessum sjónarhóli, eru 6 milljarðar ekki há upphæð. Hver vildi ekki borga 816 krónur á ári til þess að Þjórsárver geti orðið sameign þjóðarinnar og sú stórbrotna náttúra sem þar er að finna geti fengið að dafna í friði, og til að geta arfleitt börnin sín að þessum verðmætum, og barnabörnin. En þessi möguleiki stendur okkur ekki til boða. Það er ekki hægt að selja Þjórsárver og við, fólkið í landinu, getum ekki keypt þau. Það getur enginn keypt þau. En þó má spilla þeim endurgjaldslaust. Og það er búið að gera uppkast að leyfi fyrir slíkum spjöllum, það var gert með sérlögum um raforkuver sem voru samþykkt á Alþingi á síðasta ári. Þess vegna hefur Valgerður Sverrisdóttir sagt að ekki sé hægt að meina Landsvirkjun að virkja við Þjórsárver öðruvísi en að greiða fyrirtækinu einhverjar bætur. Ég er ekki viss um að þetta sé rétt hjá Valgerði, en jafnvel þótt svo væri, þá legg ég til að hætt verði við að virkja við Þjórsárver. Þjórsárver eru einfaldlega þess virði.
Höfundur er lektor í heimspeki og stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Íslands.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.