Banner image

Þögnin

Hinn 30. apríl síðastliðinn birtist hér í blaðinu stutt grein eftir mig, Orðspor Silicor, sem rituð var í tilefni af varnaðarorðum Haralds Sigurðssonar eldfjallafræðings um fyrirtækið Silicor Materials. Það fyrirtæki hyggst nú, með blessun íslenzkra ráðamanna, hasla sér völl hér á landi og leggja sitt af mörkum til frekari eyðileggingar á Hvalfirðinum.

Í grein minni sagði meðal annars:

„Íslenzk yfirvöld, sem greiða götu fyrirtækisins hér á landi, meðal annars með fjárhagslegum ívilnunum, hafa sjálfsagt rannsakað ítarlega feril viðsemjanda síns. Hafi þau ekki þegar verið búin að því, hafa þau örugglega gert það í tilefni af skrifum Haralds (18.7. 2014), sem ekki verður séð, að séu af öðrum hvötum runnin en þeim, að honum er annt um íslenzka hagsmuni, hagsmuni ættlands síns, sem hann hefur snúið aftur til.

Í tilefni af því, að Haraldur hefur á nýjan leik séð ástæðu til að rifja upp orðspor Silicor – og meira að segja heldur bætt í frá fyrri skrifum (pistill 27.4. 2015 á síðu hans), tel ég óhjákvæmilegt að óska eftir upplýsingum frá íslenzkum yfirvöldum, sem bera ábyrgð á samningum við fyrirtækið, einkum atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Þess er óskað:

– Að ráðuneytið/önnur yfirvöld birti mér og öðrum almenningi þær upplýsingar, sem íslenzk yfirvöld hafa aflað um feril, orðspor og stöðu umrædds fyrirtækis í tilefni af upplýsingum Haralds Sigurðssonar um það og gagnrýni hans á fyrirtækið sem slíkt, sem og þau gögn, sem ráðuneytið/yfirvöld áttu fyrir um feril, orðspor og stöðu fyrirtækisins.“

Mér til stórrar undrunar barst ekkert svar á opinberum vettvangi við þessari upplýsingabeiðni.

Ég greip því til þess ráðs að skrifa iðnaðar- og viðskiptaráðherra bréf hinn 19. maí 2015 með sams konar upplýsingabeiðni. Mér til enn meiri undrunar urðu viðbrögðin þau sömu: Þögn.

Ekki kann ég skýringar á þögninni. Ef ég ætti að geta mér til um skýringu ráðherrans gæti ég bezt trúað, að þögnin sé hugsuð í þágu aukins gegnsæis í þjóðfélaginu. Svona með svipuðum rökstuðningi og sami ráðherra sá það helzt til ráða til þess að auka hlut jarðstrengja í flutningskerfi raforku að banna þá nema í einhverjum undantekningartilvikum. Og samkvæmt svipaðri hugsun og sjávarútvegsráðherrann vildi treysta þjóðareignina á auðlindum hafsins með því að færa aukinn makrílrétt til framtíðar til fáeinna útgerða.

Hvað sem líður vangaveltum um djúphugsun í ráðuneytum, hefi ég nú látið það eftir mér að skrifa iðnaðar- og viðskiptaráðherranum nýtt bréf 17. júní 2015. Þar er ekki lengur látið við það sitja að óska eftir aðgangi að þeim gögnum, sem áður hefur verið óskað eftir. Nú er krafizt allra gagna varðandi ívilnunarsamninga ráðuneytisins við Silicor Materials. Við hverju má nú búast? Lengri þögn? Kannski í þágu frekari upplýsingar?

Höfundur er lögfræðingur, sem lætur sig nokkru skipta náttúru- og umhverfisvernd og samninga íslenzkra stjórnvalda við fyrirtæki, sem gera út á að ganga á náttúru Íslands, auðlindir og umhverfi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.