Banner image

Trú og náttúra

Fyrsta bók Móse: „… verið frjósöm, fjölgið ykkur og upp­fyllið jörð­ina, gerið ykkur hana und­ir­gefna og ríkið yfir fiskum sjáv­ar­ins og fuglum him­ins­ins og öllum dýrum sem hrær­ast á jörð­inn­i.“

Í til­efni jól­anna langar mig að setja umræðu­efni mín í fyrri greinum hér hjá Kjarn­anum í sér­stakt sam­hengi og birta ykkur hug­leið­ingar frá föstu­deg­inum langa árið 2020 sem urðu að kafla í bók minni Heim­ur­inn eins og hann er: „Frans páfa sá ég í Úganda fyrir nokkrum árum. Hann var á yfir­reið um Afr­íku, lenti í Naíróbí til að fara í fátækra­hverfin alræmdu (á miklu minni bíl en full­trúar rík­is­stjórn­ar­innar sem voru með hon­um). Í milli­lend­ingu í Úganda ávarp­aði hann okk­ur, sér­lega sendi­menn á flug­vell­inum og svo almenn­ing á íþrótta­vell­in­um, til að ræða um flótta­menn sem nóg var af í land­inu – marg­falt fleiri en Evr­ópu sam­einaðri hafði nokkurn tím­ann látið sér detta í hug að taka á móti. Flaug svo til Mið-Afr­íku­lýð­velds­ins og fór rak­leiðis inn í mosku í höf­uð­borg­inni að hitta múslima til að segja kristna meiri­hlut­anum að hætta að ofsækja þá. Rauður þráður í öllu sem hann sagði var sköp­un­ar­verk­ið. Ég heyrði hann aldrei minn­ast á guð í ræðum sínum en lík­lega vegna þess að ég sótti ekki mess­urn­ar.

Þessi páfi reynir nú að sveigja af bók­staf­legum trún­aði á sköp­un­ar­sög­una í fyrstu Móse­bók:

„… verið frjósöm, fjölgið ykkur og upp­fyllið jörð­ina, gerið ykkur hana und­ir­gefna og ríkið yfir fiskum sjáv­ar­ins og fuglum him­ins­ins og öllum dýrum sem hrær­ast á jörð­inn­i.“

(Þetta er það sem við lærðum í Bibl­íu­sögum í barna­skóla. Þær voru sér­stök náms­grein. Guð­fræð­ingar vinir mínir segja mér reyndar núna að Móse­bók sé ekki svona ein­dregin og önnur klausa sé mun meira í „takt við tím­ann“, hafi bara ekki verið hampað eins og þess­ari.)

Þessa gömlu guð­fræði hefur páfi nú upp­fært í anda tím­ans eins og menn fá sér nýtt stýri­kerfi í snjall­tæki. Í frægu umburð­ar­bréfi frá 2015 er hann á hrað­ferð frá mið­lægu hlut­verki manns­ins á jörð­inni með sér­stöku umboði frá guði til að deila og drottna. Mað­ur­inn verður nú ráðs­maður í ald­in­garð­inum til að þjóna líf­inu og er stutt í það hjá bæði lút­erskum og kaþ­ólskum að mað­ur­inn og vist­kerfið séu eitt. Ekk­ert smá­ferða­lag frá sköp­un­ar­sög­unni og vand­séð hvort allar kirkju­deildir hafi vinnslu­minni fyrir nýja kerf­ið.

Ekki nóg með það, páfi bætir um betur í bréfi sínu og tengir græðgi og ágang við fátækt og kvöl og heldur því blákalt fram að þeir fátæku eigi jafnan rétt til lífs og hinir ríku. Hvert er ráð­ið? Flýti­hnapp­arnir í nýja for­rit­inu eru þeir sömu og fyrr: Að iðrast, biðja, taka sinna­skipt­um. En svo kemur fram­andi snið­mát: Taka upp nýtt líf í og með sköp­un­ar­verk­inu.

Þetta síð­asta frá Pét­urs­kirkj­unni er mjög í anda stóru ráð­stefn­anna sem við fylgj­umst með þessi miss­erin og í sam­ræmi við skýrsl­urnar ógn­ar­legu um ástand og horf­ur: Sam­sekt manns­ins sem teg­und­ar. „Við“ höfum framið glæp gegn nátt­úr­unni.

Hver erum ,,við”?

„Við“ erum alls ekki öll á sama báti. Að segja öllum að iðr­ast er valda­tæki þeirra sem drottna því að auð­vitað er barna­legt að halda að þeir sem njóta yfir­gengi­legra for­rétt­inda og aðstöðumunar taki upp á því að iðr­ast út af slæmu ástandi og horf­um.

Hvenær gerð­ist það síð­ast að for­rétt­inda­stéttir í miðju bílíf­inu fengu bak­þanka og afsöl­uðu sér löndum og lausum aurum í þágu fátækra?

Allar þessar grein­ar­góðu skýrslur og áköll um nýjar leiðir kom­ast sjaldan að þeim kjarna máls­ins að í heim­inum geisar grimmi­leg valda­bar­átta, hern­að­ar­leg, póli­tísk, efna­hags­leg og jafn­vel trú­ar­leg og sið­ferð­is­leg. Þessi bar­átta er ekki milli ríkra landa og fátækra, hún er stétta­bar­átta milli þeirra fátæku hvar­vetna og hinna ríku alls stað­ar.

Það eina sem er sam­eig­in­legt er til­vistarógn­in. Hana eigum „við“ öll. Ráð­stefnur í hásölum og ítar­legar úttektir sem sýna mann­kyn sem skað­vald hafa oft­ast rétt fyrir sér, en líka rangt, með því að forð­ast kjarna máls­ins og búa til sam­sekt sem er valda­tæki á sama hátt og iðr­un­ar­krafa trú­ar­stofn­ana.

Langstærsti hluti af útblæstri gróð­ur­húsa­loft­teg­unda kemur frá mjög litlum hluta mann­kyns og lang­minnst frá þeim eru á von­ar­völ.

„Sjötta útrým­ing­in“ sem árás manna á líf­ríkið hefur verið kölluð er svo sann­ar­lega ekki „á ábyrgð okkar allra“ þótt eyð­ingaröflin herji á okkur öll.

Hvernig fórum við að þessu?

Alltaf lendum við á sömu spurn­ing­unni sem er svo ömur­lega ill­skeytt:

Hvern­ig?

Þetta eina spurn­ar­for­nafn er nið­ur­staða árs­ins 2022.

Hvern­ig?

Hvernig förum við eig­in­lega að þessu?

Ég skrif­aði hjá mér þennan föstu­dag­inn langa sem páfi mess­aði í ein­rúmi vegna sam­komu­banns og eng­inn fór með honum í krossa­göngu um Róm að eitt væri alveg klárt:

„Það er ekki satt, þetta sem eitt sinn á að hafa verið sagt: „Fað­ir, fyr­ir­gef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“

Þeir vita nefni­lega full­kom­lega hvað þeir gjöra.“

Þessi grein er unnin upp úr kafla í bók höf­und­ar, Heim­ur­inn eins og hann er. Í heim­ilda­skrá er sér­stak­lega getið um: Sól­veig Anna Bóas­dótt­ir. „Trú og lofts­lags­breyt­ing­ar.“ Ritið 1. 2016. Myndir eru úr Heim­ur­inn eins og hann er.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.