Banner image

Túnrækt á Almenningum norðan Þórsmerkur

Beit á Almenningum norðan Þórsmerkur hefur verið nokkuð í umræðunni enda afar umdeild. Bændur beita í samræmi við vafasama úrskurði ítölunefnda, en sérfræðingar um ástand lands og Landgræðsla ríkisins eru mótfallnir þessari beit, sem setur náttúrulega endurheimt landgæða á svæðinu í uppnám. Nýlega birtist frétt á RÚV um smölun svæðisins, þar sem rætt var við bændur og aðra sem voru að smala afréttinn, en ekki þótti ástæða til að ræða við þá aðila sem eru mótfallnir beitinni. Á haustdögum gekk ég um afréttinn og kannaði þróun gróðurs á svæðinu eftir að bændur hófu beitina fyrir fjórum árum.

Það fyrsta sem mætir augum eru glögg skil í gróðurfari sem eru á milli Þórsmerkur og Almenninga. Þórsmörk er eitt merkilegasta vistheimtarsvæði Evrópu og þótt víðar væri leitað, þar sem skógurinn vex upp á tugum ferkílómetra þar sem áður voru moldir og rofsvæði. Almenningar eru berangur í samanburði. Þar höfðu þó 20 ára friðun og landgræðsluaðgerðir skilað umtalsverðum árangri, áður en beit var hafin á ný. Ferð um svæðið leiddi í ljós að nýliðun birkis hefur hrunið á svæðinu, eins og Skógrækt ríkisins hefur bent á (skogur.is).

Segja má að Almenningar hafi verið á viðkvæmasta tímapunkti náttúrulegrar framvindu þegar beit var hafin á ný. Miklu kann að verða fórnað fyrir beit sem er að öðru leyti fullkomlega óarðbær og ónauðsynleg.

article image

Skilti við Þröngá norðan Þórsmerkur. Innfellda myndin sýnir hve skiltið er áberandi mannvirki í landslaginu.

Skilti við Þröngá norðan Þórsmerkur. Innfellda myndin sýnir hve skiltið er áberandi mannvirki í landslaginu.

Mikið skilti mætir ferðamanninum sem veður Þröngá á leiðinni inn á Almenninga eins og meðfylgjandi mynd sýnir, en sú leið liggur áfram allt norður í Landmannalaugar. Almenningar eru þjóðlenda, landsvæði í eigu þjóðarinnar, en bændur hafa beitarrétt á svæðinu. Með öðrum orðum: einhverjir hafa tekið sér það fyrir hendur að setja upp skilti á svæðinu fyrir hönd eigenda svæðisins, þ.e. þjóðarinnar. Skiltið er raunar töluvert áberandi mannvirki á þessum stað og ekki er ljóst að það hafi neinn tilgang, því umgengni ferðamanna (göngufólks) er til mikillar fyrirmyndar. Það er áleitin spurning hvort ekki hafi þurft leyfi eigenda svæðisins (sveitarfélagið og/eða stjórnarráðsins fyrir hönd þjóðarinnar) fyrir mannvirki sem þessu, eins og skýrt er tekið fram í lögum um þjóðlendur, „Enginn má?… þar með talið að reisa þar mannvirki?… nema að fengnu leyfi?…, En kannski var slíkt leyfi einfaldlega veitt, hver veit?

Gríðarlegt inngrip í náttúrufar

Annað sem vekur athygli þegar komið er á Almenninga eru gríðarlegar uppgræðslur, einkum á svæðinu á milli Þröngár og Ljósár. Raunar væri allt eins rétt að tala um túnrækt til fóðurframleiðslu og uppgræðslu. Eitt er að stunda endurheimt landgæða þar sem framkvæmdir fylgja faglegri forskrift til þess að stuðla að náttúrulegri framvindu (oftast á friðuðu landi við þessar aðstæður). Annað er að viðhalda túngrösum á einu fallegasta og fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins. Vissulega minnkar áburðargjöfin álag á annað land, en í raun er verið að rækta fóður fyrir sauðfé á svæðinu. Þetta er gríðarlega mikið inngrip í náttúrufar Almenninga.

Þá er orðið fyllilega tímabært að velta fyrir sér rétti þessara aðila til slíkra stórfelldra aðgerða og hvort þær brjóti einfaldlega í bága við lög um þjóðlendur.

Sem fyrr sagði töldu sérfræðingar brýnt að Almenningar nytu beitarfriðunar enn um sinn þar til vistkerfi svæðisins væru orðin beitarhæf. Þessi sjónarmið lutu lægra haldi fyrir nýtingarsjónarmiðum og á afréttinn eru settar um 60 ær með um 120 lömbum, samtals um 180 fjár. Uppgræðslukostnaður (túnrækt) nemur milljónum (á fjórðu milljón í ár samkvæmt viðtölum í fjölmiðlum við bændur) að ótöldum kostnaði við að koma fénu á fjall og smala því aftur saman og koma því til byggða. Afurðirnar gefa því af sér að hámarki 810 þúsund krónur (15 kg fallþungi, 450 kr/kg). Ljóst er að beinn halli á þessari beitarnýtingu getur numið milljónum króna hvert ár og er þá umhverfiskostnaður ekki reiknaður með. Út frá hagrænu sjónarmiði er nýtingin því gersamlega galin. Og algerlega að nauðsynjalausu. Til hvers?

Höfundur er jarðvegsfræðingur og emeritus við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.