Banner image

Um Gretu, græðgi, PISA, risaeðlur, Ötzi og Orra

Málshátturinn „Hvað ungur nemur gamall temur“ gefur í skyn að þeim ungu sé best að læra af hinum eldri og taka þá sér til fyrirmyndar. Brestir í þessa hlutverkaskipan hafa komið í ljós á síðustu árum. Ung stúlka í fararbroddi milljóna ungmenna um allan heim hefur opnað augu okkar fyrir því að lífsmáti okkar og meðferð okkar á náttúrunni er ekki til fyrirmyndar og það muni leiða börn okkar og barnabörn í glötun ef þau temja sér okkar háttalag. Það er ekki að tilefnislausu að þessi stúlka var valin maður ársins af einu virtasta tímariti heims.

Boðskapur Gretu hinnar sænsku og unga fólksins er í raun ný róttæk hugsun, ný skilgreining á ofneyslu, ekki óhóf einstaklings sem eyðileggur sjálfan sig heldur óhóf nútímasamfélagsins sem ógnar framtíð sinni með því að sóa náttúrugæðum ekki af þörf heldur græðgi.

Það er slík græðgi sem var afhjúpuð í Samherjamálinu. Stórfyrirtæki í landi allsnægta, sem gefið hefur eigendum þess meiri eignir en þeir þurfa til ríkulegs lífsviðurværis í fleiri mannsaldra, taldi þann auð ekki nægan og ákvað að auka við hann með því að taka brauð frá íbúum í fátæku landi. Arði af auðlind þess skyldi ekki varið til að fæða og klæða íbúana og búa börnum þeirra betri framtíð, heldur skyldi honum bætt á auð þar sem gnægð fjár var fyrir. Hver var tilgangurinn? Ekki vil ég ætla þeim mannvonsku sem stóðu í stafni en kompásinn var vissulega rangt stilltur.

„Græðgi er góð“ – þekkt setning úr kvikmynd frá níunda áratug síðustu aldar – varð að leiðarstefi í atvinnurekstri á fyrsta tugi þessarar aldar. Sú vegferð endaði úti í skurði en ekki er að sjá að kompásinn hafi verið leiðréttur. Fljóttekinn gróði er enn æðst gilda í rekstri stórfyrirtækja og hagvöxtur er efstur á blaði stjórnvalda. Á sama tíma er ljóst að ofneysla er helsta vá mannkynsins. „Andrúmsloftið í samfélaginu einkennist í ríkum mæli af græðgi sem við höfum ekki áður upplifað jafnsterkt og um þessar mundir. Það hefur fjarað undan samfélagslegum gildum, samkennd og samhjálp,“ sagði Grétar Þorsteinsson, þáverandi forseti ASÍ, í ræðu á árinu 2005. Hefur það eitthvað breyst síðan?

Það á að njóta æskunnar

Atvinnulífið telur PISA-könnunina, reglubundinn áfellisdóm um skóla landsins, vera ógnun við hagvöxt og framleiðsluaukningu. Talsmenn þess vilja drífa börn og unglinga hratt í gegnum menntavélina og út á vinnumarkaðinn, meðal annars með því að einkavæða skólana. Engum tíma skal sóað í að njóta æskunnar og þroskast. „Ég elska skólann minn,“ segir Unnsteinn Orri, vinur minn. Hann kærir sig kollóttan um PISA-könnunina og vill helst ekki fara heim þegar ég kem að sækja hann. Á leiðinni sér hann nafn á rauðum húsvegg. Vo-da-fo-ne, hvað er það eiginlega? spyr hann. Ég segi, þetta er símafélag sem heitir Vódafón. Afi, það er hneykslun í röddinni, þetta er vitlaust hjá þér, afi. Það stendur ekki vódafón heldur vo-da-fo-ne segir hann og ber fram atkvæði fyrir atkvæði með há-íslenskri hljóðfræði. Eftir smáþögn bætir hann við – en afi, það er allt í lagi að tala vitlaust á ensku. Var það umburðarlyndi eða var hann minnugur þess að skammt var í sex ára afmælið og jólin og því betra að hafa afa ekki móðgaðan?

Á heimleiðinni ræddum við risaeðlur. Hann hafði séð mynd af nýrri risaeðlu. „Við verðum að teikna hana þegar við komum heim, hún er mjög sérkennileg,“ segir hann. Hann segir mér líka að þær hafi dáið út fyrir mörg hundruð milljón árum þegar stór loftsteinn rakst á jörðina en stundum finni maður samt risaeðlusteingervinga. Hann vill líka sjá aftur myndina í stóru jöklabókinni af manninum sem fannst undir ísnum. Eftir að hafa drukkið heitt kakó hjá ömmu segir hann, „afi, komum okkur að verki,“ og dregur mig inn á „verkstofuna“ sína þar sem við bætum nokkrum risaeðlumyndum í safnið hans. Eftir nokkur ár ætlum við svo að fara á safnið í Bolzano á Ítalíu og sjá Ötzi-manninn sem fannst þegar jökullinn bráðnaði ofan af honum í Ölpunum.

Höfundur er fyrrverandi ríkisskattstjóri.

Greinin birtist fyrst í Stundinni.

https://heimildin.is/grein/10192/um-gretu-graedgi-pisa-risaedlur-otzi-og-orra/