Banner image

Um hálendisþjóðgarðinn

Mikið gladdi það mig að lesa grein Styrmis í Morgunblaðinu 22. maí. Ég tek heilshugar undir orð hans þar sem hann segir: „Hálendið er orðið ígildi fiskimiðanna. Hin ósnortnu víðerni þessa lands eru orðin bein tekjulind fyrir okkur. Það væri fáránleg ráðstöfun að eyðileggja þá tekjulind og ræna ófæddar kynslóðir þeirri náttúrufegurð.“ Þetta er mikill sannleikur og vel orðað hjá Styrmi. Mér líkaði líka vel að hann skyldi minnast á Birgi Kjaran og hans frumkvöðulsstarf fyrir náttúruvernd. Það á ekki að vera einkamál vinstrimanna að aðhyllast náttúruvernd.

Það er mjög alvarlegt mál ef ríkisstjórnin ætlar að heykjast á friðun hálendisins og ekki standa við ákvæði stjórnarsáttmálans um hálendisþjóðgarðinn.

Það virðist gæta mikils misskilnings meðal ýmissa sem tjáð hafa sig um málið um að verið sé að búa til óþarfa skrifræðisbákn. Málið snýst um náttúruvernd og sameinaða yfirstjórn. Það er enginn að missa spón úr aski sínum við stofnun hálendisþjóðgarðsins heldur þvert á móti. Málið snýst um framtíðarvernd hálendis Íslands.

Styrmir telur að verndun hálendisins sé eitt af stærstu málum þjóðarinnar um þessar mundir og njóti fylgis í öllum flokkum og ekki síst hjá ungu fólki. Stöndum vörð um hálendið og verndum eina helstu auðlind þjóðarinnar.

Höfundur er tæknifræðingur og eldri borgari.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.