Umhverfisvá í Ófeigsfirði
Oft þegar rætt er um virkjanakostinn sem kallast Hvalárvirkjun er látið að því liggja að virkjunin verði lítil eða af meðalstærð, og þannig gefið í skyn að þar með sé virkjunin umhverfisvæn eða að henni fylgi minna rask en raunin er. Þá er oftast verið að miða hana við stærstu virkjanir landsins, og þó hún verði sannarlega smá í samanburði við Kárahnjúkavirkjun þá er það í raun falskur samanburður því mun eðlilegra er að miða við afleiðingar framkvæmdanna á náttúruna og umhverfið sem virkjunin á að rísa í, og þá kemur strax í ljós að það er ekkert smátt við framkvæmdirnar.
Hvalárvirkjun er reyndar rangnefni á virkjanakostinum því fyrirhugaðar framkvæmdirnar snúast um að stífla þrjár ár, árnar Rjúkanda, Hvalá og Eyvindarfjarðará í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði á Ströndum, og eiga að beisla meginhluta alls vatnasviðs Ófeigsfjarðarheiðar.
Raunverulegt umfang framvæmdanna
Eftirfarandi eru upplýsingar um verkefnið sem sóttar eru í skýrslu verkfræðistofunnar Verkís sem unnin var fyrir Vesturverk, og úr áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Hægt er að nálgast hvorttveggja hér.
Reisa á samtals um 5 kílómetra langa stíflugarða á svæðinu og verða stíflurnar á bilinu 19–33 metra háar. Það er álíka hátt og 10 hæða hús og verða líkleg hæstu mannvirki á Vestfjörðum, og örugglega þau lengstu, að vegum frátöldum.
Grafa á um 6 kílómetra af göngum til að leiða vatn að aflstöðinni. Til samanburðar eru Bolungarvíkurgöng 5,4 kílómetrar og Hvalfjarðargöng 5,77 kílómetrar. Þá eru ótaldir skurðir og rennur sem grafa þarf til vatnsmiðlunar á svæðinu.
Við stíflanir myndast lón sem munu verða um tæplega 13 ferkílómetrar að flatarmáli. Það samsvarar öllu landrými vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík, eða svæði sem þekur póstnúmer 101, 105, 107 og 170, að Öskjuhlíð og Reykjavíkurflugvelli meðtöldu.
Flytja þarf til 1,8 milljón rúmmetra af efni á framkvæmdatímanum. Bæði er það efni sem tekið verður úr námum á svæðinu en einnig úr námum annarstaðar. Rúmmeter samsvarar teningi sem er 1 meter á kant og 1,8 milljón rúmmetrar samsvarar þannig teningi sem er rúmlega 120 metrar á alla kanta. Ég veit ekki hvað það kæmust margar Hallgrímskirkjur inn í slíkan kassa, en þær væru allnokkrar.
Reiknað er með því að haugsetja þurfi 300.000 rúmmetra af efni sem ekki verður notað. Þeir haugar samsvara teningi sem er um 67 metrar á alla kanta, en til samanburðar er Hallgrímskirkja 67 metra löng og turn hennar er 74 metra hár.
Samtals á að leggja um 25 kílómetra af vegum fyrir stórvirkar vinnuvélar í Ófeigsfirði, Ófeigsfjarðarheiði og í Eyvindarfirði. Vegurinn mun hlykkjast upp hlíðina sunnanvert í Ófeigsfirði og þar verða stórar efnistökunámur á láglendi. Útlit fjarðarins mun spillast verulega og varanlega.
Brenna þarf 10 milljón lítrum af olíu á framkvæmdatímanum til að knýja stórvirkar vinnuvélar og til að keyra ljósavélar sem nota þarf þar til hægt er að virkja smátt til að leysa þær af hólmi. Það olíumagn myndi nægja til að keyra varaaflsstöðvar á Vestfjörðum í nokkra áratugi, miðað við meðalkeyrslu þeirra undanfarin ár.
Áhrifasvæði framkvæmdanna er metið um 265 ferkílómetrar að flatarmáli. Til samanburðar er flatarmál Reykjavíkur 272 ferkílómetrar. Áhrifasvæði virkjunarinnar verður um 37% alls landrýmis Árneshrepps.
Af þessum 265 ferkílómetrum eru 200 ferkílómetrar á svæði sem flokkast sem óbyggt víðerni, og þegar fyrirhuguð línulögn yfir Ófeigsfjarðarheiði bætist við verður skerðing óbyggðra víðerna um 300 ferkílómetrar að flatarmáli.
Framkvæmdirnar skera í sundur samfelld víðerni sem ná nú frá Steingrímsfjarðarheiði og alveg norðurúr. Skipulagsstofnun metur það svo að raunskerðing alls þessa víðernisins sé um 40% með línulögninni.
Hvað með náttúruna?
Eins og sjá má eru þetta stórfelldar framkvæmdir og munu þær valda miklu og varanlegu tjóni á náttúru svæðisins.
Skipulagsstofnun metur umhverfisáhrifin veruleg og óafturkræf og allir þættir umhverfismatsins eru neikvæðir eða í óvissu vegna ónógra rannsókna.
Samkvæmt Náttúruverndarlögum er röskun þeirra náttúruminja sem á svæðinu eru og falla ótvírætt undir lögin – árfarvegir, fossaraðir og stöðuvötn – óheimil nema til komi brýnir almannahagsmunir sem krefjast þess og það þarf að rökstyðja ítarlega. Engin þau rök hafa komið fram sem sýna fram á að almannahag sé betur borgið með virkjanaframkvæmdunum eða að brýn samfélagsleg nauðsyn sé að ráðast í þær.
Vötnin verða undir lónunum og mynda þau að litlum hluta, en verða sundurgrafin og spillt og ekki á neinn hátt sambærileg við þau vötn sem þar eru í dag. Vötnin eru núna samtals um 3,6 ferkílómetrar að flatarmáli en lónin sem á að mynda þar sem vötnin eru eiga að verða tæplega 13 ferkílómetrar að flatarmáli, eða um 9 ferkílómetrum umfangsmeiri.
Eins og sjá mátti í myndaröðinni #fossadagatal sem birt var á Facebook í september sl. er aragrúi fallegra fossa í ánum á svæðinu. Við framkvæmdirnar mun fjöldi þeirra fara undir stíflugarða og lón en þeir sem verða neðan stíflugarðanna verða varla svipur hjá sjón því vatnsmagn í þeim mun rýrna verulega og jafnvel hverfa alveg.
Ekki er ljóst hvernig umhverfisvottun Vestfjarða mun standast gagnvart því gríðarlega og varanlega umhverfisraski sem fyrirhugað er í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði, auk allrar olíubrennslunnar sem á að fylgja framkvæmdunum.
Þetta vilja sumir kalla ásættanleg umhverfisáhrif, en við – og Skipulagsstofnun – teljum þetta varanleg skemmdarverk.
Höfundur er stjórnarmaður í Rjúkanda, samtökum um verndun umhverfis, náttúru og menningarminja í Árneshreppi.
Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Rjúkanda.