Umhverfisvernd í öndvegi á nýju kjörtímabili
Tryggvi Felixson og Ágústa Þóra Jónsdóttir
2021-11-11
Loftslags-, umhverfis- og náttúruverndarmál hafa verið áberandi í umræðunni í nýliðinni kosningabaráttu. Gera verður ráð fyrir að þau verði ríkur þátt í starfi Alþings og ríkisstjórnarinnar á komandi kjörtímabili. Landvernd hefur staðið vaktina í umhverfisvernd í liðlega hálfa öld. Við upphaf nýs kjörtímabils viljum við því tilgreina brýn mál sem samtökin telja að eigi að hafa forgang.
1. Lýsa strax yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.
2. Gera framsækna og raunhæfa ætlun um að losa Ísland við jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa, sem lögð yrði fyrir Alþingi.
3. Lögfesta markmið í loftslagsmálum og koma stighækkandi gjaldi á alla losun gróðurhúsalofttegunda. Um leið þarf að tryggja að gjaldið auki ekki á misskiptingu í samfélaginu.
4. Lögbinda ákvæði Árósasamningsins um réttindi umhverfissamtaka, samræma lög um mat á umhverfisáhrifum og alþjóðlegum skuldbindingum og innleiða ákvæði um umhverfis- og náttúrvernd í stjórnarskrá.
5. Stofna þjóðgarð til að styrkja vernd hálendisins, auka öryggi og bæta aðgengi gesta, endurskipuleggja stjórnsýslu náttúruverndar til efla hana og hagræða, fylgja eftir vinnu við rammaáætlun, og setja á ótímabundið bann við frekari virkjunum á hálendinu.
6. Gera átak í endurheimt vistkerfa svo sem votlendis og stöðva beit á illa förnu landi. Bæta og fylgja eftir lögum og reglum um framandi ágengar tegundir og lögum er varðalausagöngu búfjár.
7. Innleiða frekari aðgerðir og umbætur á styrkjakerfi til að tryggja sjálfbæra landnýtingu og matvælaframleiðslu.
8. Framfylgja af krafti stefnu í úrgangsmálum „Í átt að hringrásarhagkerfi“ og opna aðgengi almannahagsmunasamtaka að stjórn Úrvinnslusjóðs.
9. Koma böndum á og stöðva neikvæð umhverfisáhrif fiskeldis í sjókvíum með nauðsynlegum umbótum á lögum og reglum sem um það gilda.
10. Heimila sveitarfélögum að leggja gjöld á nagladekk í þeim tilgangi að draga úr notkun þeirra og bæta þannig loftgæði og heilsufar íbúa.
Stjórn Landverndar hvetur alla þingmenn til að kynna sér framangreind mál og halda þeim til haga þegar Alþingi tekur til starfa. Stjórnsýslan og stofnanir ríkisins búa yfir þekkingu til að útfæra framangreind atriði þannig að vel fari. Stjórn og starfsmenn Landverndar eru að sjálfsögðu einnig reiðubúin að veita frekari upplýsingar og stuðning við nánari útfærslu. Hafa ber í huga að liðsveitir sérhagsmuna munu að vanda reyna að koma í veg fyrir framgöngu þjóðþrifamála.
Höfundar eru formaður og varaformaður Landverndar.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.