Banner image

Vaknið, Þingeyingar, vaknið!

Það er vá fyrir dyrum, í Bárðardal á að vinna hervirki! Spilla á Svartá varanlega með virkjun SSB Orku. Ég undrast, af hverju er svo lítil umræða í samfélaginu um þessar hugmyndir virkjanamanna? Hvað ræður þessu sinnuleysi? Eru menn sammála, skiptir Svartá og lífríki hennar engu máli í huga folks, þekkja menn ekki náttúruverndargildi þessa svæðis, eða er um að ræða þöggun eða meðvirkni?

article image

Krúnudjásn Bárðardals, Hólmasvæði Svartár og þrengslin Glæfra þar upp af. Stífla Svartárvirkjunar á að vera neðan túna efst í hægra horni myndarinnar og ánni þaðan og niður fyrir hólmana verður rústað.

Krúnudjásn Bárðardals, Hólmasvæði Svartár og þrengslin Glæfra þar upp af. Stífla Svartárvirkjunar á að vera neðan túna efst í hægra horni myndarinnar og ánni þaðan og niður fyrir hólmana verður rústað.

Um verndargildi Svartár

Vatnasvæði Svartár og Suðurár hefur alþjóðlegt náttúruverndargildi, um það er ekki deilt. Árnar eru vatnsmiklar, vatnið sprettur fram undan jaðri Ódáðahrauns þrútið næringarefnum fyrir þörunga og annan gróður og sú gróska er undirstaða auðugs dýralífs. Einkennisdýr Svartár eru bitmý, urriði, straumönd og húsönd. Lirfur bitmýs lifa á botni árinnar og eru aðalfæða fugla og fiska. Liðlega 6% af stofni húsandar á íslandi dvelur á Svartá og Suðurá yfir vor og sumar og það eitt og sér gefur svæðinu alþjóðlegt verndargildi.

Áætlanir SSB-manna gera ráð fyrir stíflu í Svartá um 0,5 km ofan við þar sem Grjótá sameinast Svartá. Frá stíflunni á að taka mestan hluta vatnsins um 3 km leiða að stöðvarhúsi neðan Bjarnastaða og Rauðafells. SSB-menn hafa samið við landeigendur og fengið VERKÍS til að skipuleggja verkið og selja samfélaginu þessa hugmynd. Óumdeilt er að áhrif virkjunar Svartár verða veruleg á lífríki árinnar.

Þá riðu hetjur um héruð!

Hvar eru þeir kappar sem harðast börðust og höfðu sigur á þeim öflum sem vildu tortíma lífríki Laxár og Mývatns forðum? Hvar eru nú Hermóður í Nesi, Eysteinn á Arnarvatni og Guðmundur á Hofsstöðum og allt það góða folk sem spyrnti við fótum og sagði hingað og ekki lengra? Dáið, allt dáið og hvílir í fold.

Er þá enginn eftir í ranni Þingeyinga sem döngun er í, einhver sem getur staðið upp og varið Svartá „litlu systur“ Laxár? Jú, Halldórsstaðamenn í Laxárdal hafa mótmælt og sagt hátt og skýrt „nei takk, ekki um okkar land með þennan rafstreng!" Ég spyr aðra eigendur lands þar sem strengnum frá Svartá til Laxárvirkjunar er hugsuð lega: „Ætlið þið virkilega að taka þátt í þeim gráa leik þar sem Svartá verður dregin fram á blóðvöllinn líkt og lamb á haustdegi og skorin, ætlið þið að greiða þessum öflum götur? Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á!“

Leyfist kettinum að líta á kónginn?

Það hefur lengi vafist fyrir mér hvað fái menn til að taka þátt í þeirri Bjarmalandsferð sem virkjun Svartár er og verður. Þann 25. september sl. var stund sannleikans upprunnin en þá var kynningarfundur um framkvæmdina haldinn í Kiðagili í Bárðardal. Í fyrirspurnum á eftir kynningu lagði ég þrjár spurningar fyrir fundinn. Í fyrsta lagi, hvers vegna er engin umræða um þessa framkvæmd hér í nærsamfélagi Svartár? Í öðru lagi, hvernig réttlæta landeigendur það fyrir sjálfum sér og öðrum að framselja SSB-mönnum lífríki Svartár? Í þriðja lagi, eru engin mörk hjá VERKÍS um eðli þeirra verkefna sem þeir taka að sér, er þetta bara spurn­ing um greiðslugetu verkkaupa?

Svörin við spurningunum voru skýr: Það er þöggun í nærsamfélaginu um Svartárvirkjun, og gagnvart landeigendum og VERKÍS snýst þetta um peninga og ekkert nema peninga. Ég þurfti ekki að spyrja SSB-mennina hvað vakir fyrir þeim með framkvæmdinni, þetta eru „gróðapungar" og lífsfylling þeirra er að græða meira í dag en í gær, Mammon er þeirra guð. Þannig blása vindar á dalnum þessi misserin!

Marklausar mótvægisaðgerðir

Hlutskipti VERKÍS í þessu ferli er m.a. að klæða Svartárvirkjun í „söluvænan“ búning gagnvart almenningi og stofnunum samfélagsins. Hluti þeirrar „sölumennsku" er boðun mótvægisaðgerða sem eiga að milda neikvæð áhrif fyrirhugaðra framkvæmda. Okkur er m.a. ætlað að gína við þeirri flugu að 4 m³/sek af vatni munu fá að renna áfram í virkjuðum farvegi Svartár. Hluti af þessu vatni (um 3 m³/sek) eru sagðir eiga að koma úr Svartá og hluti á að vera rennsli Grjótár í Svartá neðan stíflu (um 1 m³/ sek samkvæmt ágiskun SSB-manna og trúi því hver sem vill!). Virkjunin er hönnuð fyrir 20 m³/sek. Ljóst er að stærstan hluta árs er rennsli Svartár ofan stíflu undir 23 m³/sek og því verður óhjákvæmilega togstreita hjá SSB-mönnum um annars vegar að framleiða rafmagn og GRÆÐA og hins vegar að skila framhjá hverflum virkjunar því vatni sem halda á uppi vatnsstreymi í virkjuðum farvegi Svartár.

Í frummatsskýrslu um Svartárvirkjun rekst hvað á annars horn hvað þessi mál varðar og misvísandi tölur varðandi rennsli og hvernig á að standa að hjáveitunni. Ljóst er að gangi þessar hugmyndir um virkjun Svartár eftir þá má í besta falli búast við mjög breytilegu streymi vatns um hinn virkjaða farveg, stundum verður hann nær þurr en stund­um mun streyma um hann meira vatn en sem nemur 4 m³/sek.

Jafnframt því að skerða vatnsstreymi í hinum virkjaða farvegi Svartár þá er ætlunin að veita öllum ís og öllu krapi sem safnast fyrir ofan stíflu á vetrum niður í þann sama farveg. Við vitum öll hversu kalt getur orðið syðst í Bárðardal á veturna og hversu miklar og langæjar þessar kuldastillur geta orðið. Því er augljóst að ís- og krapastíflur verða viðvarandi í þeirri „sytru“ sem renna mun um virkjaðan farveg Svartár á vetr­um og það er vel þekkt hvernig slíkt fer með botndýralíf straumvatna, allt deyr!

Ég hafna alfarið þeim fullyrðingum VERKÍS að bitmý, fugl og fiskur muni blómstra í farveginum á milli stíflu og stöðvarhúss og að þar muni að jafnaði renna 4 m³/sek. Þetta er falssýn! Varfærin ályktun er að verulegar sveiflur verði í rennsli vatns um hinn virkjaða farveg, þar verði engin skilyrði fyrir vöxt bitmýs og því ekkert æti sem skiptir máli fyrir fisk og fugl og að öllum líkindum verður skorið varanlega á gönguleiðir urriðans milli Svartár og Fljóts.

Er þessum „reyfurum“ treystandi?

Ég spyr ykkur Þingeyingar, treystið þið „athafnaskáldunum“ sem standa að SSB Orku til góðra verka við Svartá? Ekki geri ég það og þar er reynslan ólygnust. Ég hef séð skítuga slóðina eftir þessa „höfðingja“ við Köldukvísl á Tjörnesi. Köldukvíslarvirkjun er í eigu Péturs Bjarnasonar eins helsta talsmanns og stórs hluthafa í SSB Orku.

article image

Fögur er foldin! Kaldakvísl og Köldukvíslarfoss fyrir virkjun.

Fögur er foldin! Kaldakvísl og Köldukvíslarfoss fyrir virkjun.

Í virkjanaleyfi frá febrúar 2014 vegna Köldukvíslavirkjunar segir að tryggt skuli lágmarksrennsli neðan stíflu þannig að lífsskilyrði bleikju og straumandar viðhaldist. Þetta hljómar fallega, líkt og loforð um 4 m³/sek í virkjuðum farvegi Svartár og blómlegt lífríki með fugli, flugu og fiski. Hverjar hafa efndirnar verið við Köldukvísl? Augu mín hafa séð hvernig farvegur Köldukvíslar neðan stíflu hefur ítrekað á umliðnum árum verið vatnslaus og fossbúinn, bleikjan og straumöndin heyra sögunni til! Það er skömm að þessu!

article image

Köldukvíslarfoss á góðum degi eftir virkjun. Í virkjanaleyfinu segir að tryggt skuli lágmarksrennsli í ánni til að varðveita lífsskilyrði straumanda og bleikju! Já, drengilegar eru efndirnar hjá honum Pétri Bjarnasyni.

Köldukvíslarfoss á góðum degi eftir virkjun. Í virkjanaleyfinu segir að tryggt skuli lágmarksrennsli í ánni til að varðveita lífsskilyrði straumanda og bleikju! Já, drengilegar eru efndirnar hjá honum Pétri Bjarnasyni.

Þingeyingar, ég hvet ykkur til að standa upp og mótmæla Svartárvirkjun. Tækifærið er núna! Almenningur og félagasamtök hafa frest til 23. október til að skila inn skriflegum athugasemdum til Skipulagsstofnunar eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is. Virkjun Svartár er níðingsverk og enginn mun hafa sóma af þeirri framkvæmd!

Greinarhöfundur er náttúrufræðingur og hefur fengist við rannsóknir á fuglalífi í Þingeyjarsýslum frá árinu 1981 og er gagnkunnugur lífríki Svartár og þekkti Köldukvísl eins og hún var fyrir virkjun og saknar vinar í stað.

Greinin birtist fyrst í Skarpi.