Banner image

Valdið býr í orðunum

Fyrir skömmu héldu náttúruverndarsamtök í landinu opinn fund á Þjóðminjasafninu til að kynna athugasemdir sínar við rammaáætlun sem liggur fyrir alþingi „um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði“. Skemmst er frá því að segja, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, að samtökin segja „ekki meir, ekki meir“ við fleiri virkjunum. Þau benda á að jarðhitaorkan nýtist mjög illa, þannig að betra sé að tala um sóun en virkjun, og margar áætlaðar virkjanir skili lítilli orku en spilli gríðarlega verðmætum ósnortnum víðáttum – auk þess sem það sé vafasöm hagfræði að eyðileggja náttúrugersemar fyrir ómældan hagnað erlendra verktaka og stóriðjufyrirtækja en lítinn ef nokkurn hagnað íslenskra skattgreiðenda og virkjunarfyrirtækja. Á endanum verði litlar tekjur eftir í landinu nema af þeim starfsmönnum sem eyði launum og borgi gjöld á Íslandi.

Þessi málflutningur kemur engum á óvart sem fylgst hefur með þjóðmálaumræðu síðustu áratugi, frá því að Hjörleifur Guttormsson afhjúpaði hina eftirminnilegu hækkun í hafi á aðföngum álversins í Straumsvík. Fundargestir voru ekki heldur af því tagi að framsögumenn þyrftu að sannfæra þá um ágæti málflutnings síns. Í umræðum á eftir benti Ómar Ragnarsson á þetta atriði; að á fundinum væru öll sammála um þessar tillögur en þau yrðu nú að snúa bökum saman um að taka upp ný vopn í baráttunni. Með vopnum átti Ómar ekki við rökin heldur við orðin. Stóriðjusinnum hefði hingað til haldist uppi að velja umræðunni orð og á undraverðan hátt gert hugmyndina um orkufrekan iðnað að jákvæðu fyrirbæri í eyrum Íslendinga.

Frekjan, sem ætti með réttu að vera neikvæð, væri orðin svo eftirsóknarverð að hér þætti ekki maður með mönnum nema hann styddi orkufrekan iðnað.

Eins væri með orð eins og orkunýtingu sem væri með réttu orkueyðing, sérstaklega þegar orkan væri sótt í háhitasvæði.

Talað væri um orkuöryggi vinnandi alþýðu á landsbyggðinni með skynsemisrök að vopni, og þeir sem settu sig á móti því öryggi væru lattelepjandi mennta- og listaspírur í Hundraðogeinum með tilfinningarök á vörum og í engum tengslum við verðmætasköpunina í landinu eða nýtingu náttúruauðlinda. Ekki væri talað um að nú þegar væri virkjuð nóg orka fyrir alla landsmenn (sem greiða fyrir hana líkt og kjarnorku, að ógleymdri jafndýrri þjónustu vegna „fráveitu“) og að viðbótarvirkjanir væru fyrst og fremst ætlaðar stóriðju. Þannig væri búin til víglína milli höfuðborgar og landsbyggðar. Sú víglína nýttist helst alþjóðlegum fyrirtækjum sem vildu ginna kjördæmastjórnmálamenn til orkufrekrar atvinnuuppbyggingar í dreifðum byggðum. Þagað væri um að uppbyggingin rifi niður því hún græfi undan núverandi atvinnustarfsemi í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu – sem byggði á ómenguðum afurðum og óspilltri náttúru. Hugmyndin um nýtingu náttúruauðlinda væri einnig talin jákvæð þar til það rynni upp fyrir fólki að um eyðingu væri að ræða. Auk þess sem ekki væri hægt að tala um auðlindir því þetta væru takmörkuð gæði sem gengið væri á.

Okkar kynslóð hefði nú þegar hrifsað bróðurpartinn af þeim gæðum til sín og vildi nú helst ekki skilja neitt eftir handa þeim sem tækju við landinu af okkur.

Þessi umræðuhefð hefur komið því til leiðar að þjóðin skipast í fylkingar á bakvið orðin, og framtakssömum athafnamönnum er ómögulegt að styðja náttúruvernd eða setja sig upp á móti virkjunum. Orðin í umræðunni beina slíkum mönnum beint að stuðningi við virkjanir og stóriðju. Ekkert annað er í boði – nema fjallagrasatínsla sem hefur verið notuð í háðungarskyni sem hluti fyrir heild um hið svokallaða eitthvað annað sem latteliðið spjallar um á kaffihúsunum í Reykjavík.

Það er hárrétt hjá Ómari að þau ráða miklu sem vopnunum ráða. Þau sem eru í aðstöðu til að ákveða hvaða orð eru notuð í opinberri umræðu geta með orðin að vopni ráðið því hvað er talað um, hvernig umræðan þróast og þar með hvernig málum vegnar. Tungutakið er því ekkert hégómamál skálda, málfræðinga og íslenskukennara heldur það sem mestu ræður í stjórnmálum og þar með um framtíð mannlífs á jörðunni.

Höfundur er íslenskufræðingur.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins.