Banner image

Vettlingatök Umhverfisstofnunar

Það er áhugaverð lesning ákvörðun Umhverfisstofnunar á dögunum um „stöðvun rekstrar“ á kísilveri United Silicon í Helguvík. Ýmsar alkunnar staðreyndir voru þar rifjaðar upp um hörmunarsögu þessa mengunarvers, sem nú virðist vera komið að mestu leyti í eigu Arion banka (vogunarsjóðanna) með nokkrum lífeyrissjóðum, sem þeir hafa í haldi. Til að bæta um betur er Arion banki (vogunarsjóðirnir) svo aðallánveitandi sjálfs sín í þessu göfuga verkefni.

Arion banki og vogunarsjóðirnir virðast nú um stundir ekki mega fá að vita af neinum almennilegum mengunarbisness nema fá glýju í augun og vilja komast með puttana í hann.

Það er ekki ofsögum sagt af því, hversu þörf fyrirtæki þessir fjárfestingarbankar eru (eins og Arion vogunarsjóðanna), ekki von, að nokkur ábyrgur stjórnmálamaður vilji hrófla við þessum gersemum. Samkvæmt því, sem fram kemur í ákvörðun Umhverfisstofnunar eru miskunnsemi Arion vogunarsjóðanna lítil takmörk sett, því að þeir ætla að halda áfram að lána sjálfum sér peninga til þess að lappa upp á mengunarverið áður en því verður komið í hendurnar á næstu lukkuriddurum.

Heimildarlaus mengun

Í ákvörðun Umhverfisstofnunar kemur ýmislegt fleira fram. Til dæmis, að Umhverfisstofnun hafa borizt „ríflega eitt þúsund kvartanir frá íbúum Reykjanesbæjar vegna mengunar“. Það kemur svo sem einnig fram, að mengunin sé án heimildar, ekki sé gert ráð fyrir henni í starfsleyfi verksmiðjunnar og ekki hafi verið gert ráð fyrir henni í umhverfismati framkvæmdarinnar og umsókn um starfsleyfi o.fl. o.fl. Hver urðu svo viðbrögð Umhverfisstofnunar við öllum þessum alvarlegu brotum á lögum og starfsleyfi? Hér er ég víst kominn á hálan ís, því að ekki virðist lengur mega kalla hlutina sínu rétta nafni, ekki tala um brot, nú eru það „frávik“ frá starfsleyfi, aldrei notað ljótara hugtak en frávik. Tal um brot getur sett hlutina í verra ljós en peningunum, pólitíkusum og kerfisherrum hentar, þegar ætlunin er að gera gott úr öllu saman, eyða málinu. Hver ætli viðbrögð Umhverfisstofnunar við öllum „frávikunum“ hafi þá orðið? Efnislega á þessa leið: Jæja, strákar mínir, nú stoppum við ykkur, svo að þið fáið næði til að koma þessu í lag, og þið leyfið okkur að fylgjast vel með.

Þagað um lögin og skyldan vanrækt

Eru þetta hin eðlilegu og lögmæltu viðbrögð Umhverfisstofnunar, sem daglega hefur verið með þjáningar íbúanna inni á borði hjá sér og sjálf viðurkennir, að sú mengun sé ekki leyfileg, sem miskunnarlaust hefur verið dembt yfir íbúana mánuðum saman? Ég fæ ekki séð, að lagaleg vernd íbúanna sé svo léleg sem viðbrögð Umhverfisstofnunar benda til. Í mínum huga hafa viðbrögðin frekar yfirbragð vinargreiða, a.m.k. vettlingataka. Ákvörðun Umhverfisstofnunar er athyglisverðust fyrir það, sem þar er þagað um, sjálft lagaúrræðið, sem hér hlýtur að eiga við. Í reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sem getur haft í för með sér mengun, er skýrt fyrirmæli um það, hvernig við skuli brugðizt, „ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búast mátti við þegar leyfið var gefið út“. Þegar svona tilvik kemur upp, forsendur leyfisins eru brostnar, er útgefanda starfsleyfis beinlínis skylt endurskoða það, en í því felst að sjálfsögðu, að leyfisveitendum ber sérstaklega að rannsaka, hvort tilefni sé til þess að afturkalla starfsleyfið.

Þetta lét Umhverfisstofnun algerlega undir höfuð leggjast við ákvörðun sína, vanrækti lagaskyldu sína, orðaði ekki einu sinni þann möguleika að endurskoða starfsleyfi verksmiðjunnar, lét eins og þessi möguleiki væri ekki til.

Fór beint í reddingarnar. Annað komst ekki að hjá stofnuninni. Og auðvitað dettur Umhverfisstofnun ekki í hug, að umhverfismat fyrir verksmiðjuna þurfi að fara fram að nýju, þó að allar fyrirætlanir, sem lýst var í matsskýrslu fyrirtækisins hafi reynzt vera á sandi byggðar, bezta fáanlega tækni víðs fjarri og annað eftir því.

Íbúarnir hafa lögin og dómstólana

Fórnarlömb mengunarinnar í Reykjanesbæ á að skilja eftir berskjölduð. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ vilja ekkert gera, sem getur truflað áform Arion (og vogunarsjóðanna), skítt með íbúana. Og Umhverfisstofnun makkar með mengurunum. Ráðherrar og þingmenn geta bara leyft mengun og ívilnað mengurunum með góðum styrkjum, en þegar mengunin hvolfist yfir fólk, verða þeir bara hissa og geta ekkert gert.

Auðvitað eru margir íbúanna örmagna og illa undir átök búnir eftir margra mánaða erfiða baráttu við mengunina, peningana og pólitíkusa. En þeir eiga vopnabúr. Lögin og dómstólarnir reynast að jafnaði bezt, þegar að borgurunum er sótt með yfirgangi. Ákvörðun Umhverfisstofnunar er veikburða plagg, eins og hér hefur verið vikið að. Starfsleyfi United Silicon á að vera hrunið. Starfsleyfi Thorsil er svo alvarlegum annmörkum háð, að þeir annmarkar hljóta að duga til ógildingar á því líka.

Höfundur er lögfræðingur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.