Banner image

Við og hinir

Á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar hafa nokkrir aðilar í opinberum stöðum stokkið til og efast um störf og hæfi nýs umhverfisráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Honum er legið á hálsi fyrir að vera of umhugað um náttúru þessa lands og það dregið í efa að umhverfisráðherra eigi að vera ráðherra náttúrunnar. Þetta verða að teljast í hæsta máta óeðlileg og ófagleg viðbrögð.

Í fyrsta lagi er það hlutverk umhverfisráðherra að vera ráðherra náttúrunnar, það er einfaldlega í starfslýsingunni.

Í öðru lagi er undarlegt að ætla ráðherra stefnumörkun í starfi áður en hann kemur fram með hana sjálfur.

Í viðtali morgunútvarps Rásar 2 við Evu Sigurbjörnsdóttur oddvita Árneshrepps 4. desember sl. kom ýmislegt fram sem vakti upp spurningar. Oddvitinn tekur þar eindregna afstöðu í málefnum tengdum Hvalárvirkjun, þjóðgarði og ný settum umhverfisráðherra. Það gerir hún út frá sínum persónulegu skoðunum en notar þó ítrekað orðalagið „við“. Það er óljóst fyrir hönd hverra hún talar. Það er öllum ljóst sem að málefnum fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar hafa komið að um þau er ekki samstaða. Hvorki innan sveitafélagsins eða sveitastjórnar. Í máli oddvita kom fram að hún setji spurningamerki við það hvort þjóðgarður breyti nokkru. Umhverfisráðherra hefur bent á að mikilvægt sé að bera þessa tvo kosti, virkjun og þjóðgarð, rækilega saman. Á borði sveitastjórnar liggur nú boð um fjármögnun á kostagreiningu vegna þjóðgarðs. Það hlýtur að vera kjörið tækifæri til að fá svör við þeim spurningum sem oddviti og fleiri setja við þann kost.

Í umræðu um þjóðgarð sagði oddviti að stofnun þjóðgarðs væri ekki framkvæmanleg nema ríkið keypti upp allar jarðir á svæðinu. Daginn áður voru þó kynntir fyrir sveitastjórn Árneshrepps þeir þjóðgarðar sem helst er horft til, þeir eru í Skotlandi og þar er nánast allt land í eigu einstaklinga sem halda áfram að búa á svæðinu og sinna sínum störfum. Slíkir þjóðgarðar finnast orðið víðar í heiminum og er þróun svæða á borð við þetta stöðug og framsækin.

Aðspurð segir hún álit Skipulagsstofnunnar ekki breyta neinu í afstöðu þess hóps sem hún talar fyrir þar sem það taki ekki nógu mikið til samfélagslegra þátta og gerir þar með að engu alla aðra þætti matsins sem, eins og hún tekur fram, telur ófáar blaðsíður og metur virkjunakostinn að flestu leyti neikvæðan. Þrátt fyrir beina spurningu svarar oddviti því þó ekki hver hún telur að verði samfélagsleg áhrif af virkjuninni. Enda er ekkert fast í hendi með slíkt annað en að hún skapar engin störf.

Virkjun Hvalár hefur vissulega verið lengi til athugunar þó ekki hafi verið talað um hana af fullri alvöru fyrr en á síðustu árum. Útfærsla framkvæmdarinnar og umfang hefur svo tekið á sig skýrari mynd á síðastliðnum mánuðum og samfara því hefur borið á vaxandi andstöðu. Þessu furðar framkvæmdaaðilinn Vesturverk sig á ásamt fleirum. Að auknar upplýsingar og þekking fái fólk til að velta fyrir sér kostum og göllum og taka afstöðu til mála geta varla verið ný sannindi fyrir neinn.

Þrátt fyrir að vissulega sé ýmislegt sem liggur ljóst fyrir hvað varðar fyrirhugaða virkjun eru enn fjölmargir lausir endar sem hlýtur að þurfa að hnýta áður en endanleg ákvörðun er tekin. Einn af þeim er einmitt línulögn í jörð frá virkjunarsvæðinu sem oddviti kemur inná í máli sínu. Um það eru ekki til neinir samningar og orð forsvarsmanna Vesturverks mega sín lítils þar sem sú ákvörðun er einfaldlega ekki í þeirra höndum.

Þó að stórum og mikilvægum spurningum sé enn ósvarað varðandi fyrirhugaða Hvalárvirkjun er gríðarleg áhersla lögð á að hraða því ferli sem mest og kveða niður allar óvissuraddir.

Hvers vegna má ekki ganga frá öllum þáttum málsins fyrst? Hverjum liggur lífið á?

Höfundur er stjórnarmaður í Rjúkanda, samtökum um verndun umhverfis, náttúru og menningarminja í Árneshreppi.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Rjúkanda.